Add parallel Print Page Options

Þegar Ehúð var dáinn, gjörðu Ísraelsmenn enn að nýju það, sem illt var í augum Drottins.

Og Drottinn seldi þá í hendur Jabín, Kanaans konungi, sem hafði aðsetur í Hasór. Hershöfðingi hans hét Sísera og bjó hann í Haróset Hagojím.

Og Ísraelsmenn hrópuðu til Drottins, því að hann átti níu hundruð járnvagna og hafði kúgað Ísraelsmenn harðlega í tuttugu ár.

Kona hét Debóra. Hún var spákona og eiginkona manns þess, er Lapídót hét. Hún var dómari í Ísrael um þessar mundir.

Hún sat undir Debórupálma milli Rama og Betel á Efraímfjöllum, og Ísraelsmenn fóru þangað upp til hennar, að hún legði dóm á mál þeirra.

Hún sendi boð og lét kalla til sín Barak Abínóamsson frá Kedes í Naftalí og sagði við hann: "Sannlega hefir Drottinn, Ísraels Guð, boðið svo: ,Far þú og hald til Taborfjalls og haf með þér tíu þúsundir manna af Naftalí sonum og Sebúlons sonum.

Og ég mun leiða Sísera, hershöfðingja Jabíns, með vögnum hans og liði til þín að Kísonlæk, og ég mun gefa hann í hendur þínar."`

Barak sagði við hana: "Fara mun ég, ef þú fer með mér, en viljir þú eigi fara með mér, mun ég hvergi fara."

Hún svaraði: "Víst mun ég með þér fara. En enga frægð munt þú hafa af för þessari, sem þú fer, því að Drottinn mun selja Sísera í konu hendur." Síðan tók Debóra sig upp og fór með Barak til Kedes.

10 Þá kallaði Barak saman Sebúlon og Naftalí í Kedes, og tíu þúsundir manna fóru með honum, og Debóra var í för með honum.

11 Heber Keníti hafði skilist við Kain, við niðja Hóbabs, tengdaföður Móse, og sló hann tjöldum sínum allt að eikinni hjá Saanaím, sem er hjá Kedes.

12 Nú var Sísera sagt frá því, að Barak Abínóamsson væri farinn upp á Taborfjall.

13 Dró Sísera þá saman alla vagna sína, níu hundruð járnvagna, og allt það lið, er með honum var, frá Haróset Hagojím til Kísonlækjar.

14 Þá sagði Debóra við Barak: "Rís þú nú upp, því að nú er sá dagur kominn, er Drottinn mun selja Sísera í þínar hendur. Sannlega er Drottinn farinn á undan þér." Fór Barak þá ofan af Taborfjalli, og tíu þúsundir manna fylgdu honum.

15 Og Drottinn gjörði Sísera felmtsfullan og alla vagna hans og allan hans her með sverðseggjum frammi fyrir Barak, svo að Sísera hljóp af vagni sínum og flýði undan á fæti.

16 En Barak elti vagnana og herinn allt til Haróset Hagojím, og allur her Sísera féll fyrir sverðseggjum. Enginn komst undan.

17 Sísera flýði á fæti til tjalds Jaelar, konu Hebers Keníta, því að friður var milli Jabíns, konungs í Hasór, og húss Hebers Keníta.

18 Þá gekk Jael út í móti Sísera og sagði við hann: "Gakk inn, herra minn, gakk inn til mín, vertu óhræddur." Og hann gekk inn til hennar í tjaldið, og hún lagði ábreiðu yfir hann.

19 Þá sagði hann við hana: "Gef mér vatnssopa að drekka, því að ég er þyrstur." Hún leysti þá frá mjólkurbelg og gaf honum að drekka, og breiddi síðan ofan á hann aftur.

20 Þá sagði hann við hana: "Stattu í tjalddyrunum, og ef einhver kemur og spyr þig og segir: ,Er nokkur hér?` þá seg þú: ,Nei."`

21 Jael, kona Hebers, þreif tjaldhæl og tók hamar í hönd sér og gekk hljóðlega inn til hans og rak hælinn gegnum þunnvangann, svo að hann gekk í jörð niður, en Sísera var sofnaður fastasvefni, því að hann var þreyttur. Varð þetta hans bani.

22 Í sama bili kom Barak og var að elta Sísera. Jael gekk þá út í móti honum og sagði við hann: "Kom þú hingað, og mun ég sýna þér þann mann, sem þú leitar að." Og hann gekk inn til hennar, og lá þá Sísera þar dauður með hælinn gegnum þunnvangann.

23 Þannig lægði Guð á þeim degi Jabín, Kanaans konung, fyrir Ísraelsmönnum.

24 Og hönd Ísraelsmanna lagðist æ þyngra og þyngra á Jabín, Kanaans konung, uns þeir að lokum gjörðu út af við hann.

Þá sungu þau Debóra og Barak Abínóamsson á þessa leið:

Foringjar veittu forystu í Ísrael, og fólkið kom sjálfviljuglega, lofið því Drottin!

Heyrið, þér konungar, hlustið á, þér höfðingjar! Drottin vil ég vegsama, ég vil lofa hann, lofsyngja Drottni, Ísraels Guði.

Drottinn, þegar þú braust út frá Seír, þegar þú brunaðir fram frá Edómvöllum, þá nötraði jörðin og himnarnir drupu, já, skýin létu vatn niður streyma.

Fjöllin skulfu fyrir Drottni, sjálft Sínaí fyrir Drottni, Ísraels Guði.

Á dögum Samgars Anatssonar, á dögum Jaelar, voru þjóðbrautir mannlausar, og vegfarendur fóru krókóttar leiðir.

Fyrirliða vantaði í Ísrael, uns þú komst fram, Debóra, uns þú komst fram, móðir í Ísrael!

Menn kusu sér nýja guði. Þá var barist við borgarhliðin. Skjöldur sást ei né spjót meðal fjörutíu þúsunda í Ísrael.

Hjarta mitt heyrir leiðtogum Ísraels, þeim er komu sjálfviljuglega fram meðal fólksins. Lofið Drottin!

10 Þér, sem ríðið bleikrauðum ösnum, þér, sem hvílið á ábreiðum, og þér, sem farið um veginn, hugsið um það.

11 Fjarri hávaða bogmannanna, meðal vatnsþrónna, þar víðfrægja menn réttlætisverk Drottins, réttlætisverk fyrirliða hans í Ísrael. Þá fór lýður Drottins niður að borgarhliðunum.

12 Vakna þú, vakna þú, Debóra, vakna þú, vakna þú, syng kvæði! Rís þú upp, Barak, og leið burt bandingja þína, Abínóams sonur!

13 Þá fóru ofan leifar göfugmennanna, lýður Drottins steig ofan mér til hjálpar meðal hetjanna.

14 Frá Efraím fóru þeir ofan í dalinn, á eftir þér, Benjamín, meðal liðsflokka þinna. Frá Makír fóru ofan leiðtogar og frá Sebúlon þeir, er báru liðstjórastafinn,

15 og fyrirliðarnir í Íssakar með Debóru, og eins og Íssakar, svo og Barak. Hann steypti sér á hæla honum ofan í dalinn. Við Rúbens læki voru miklar ráðagerðir.

16 Hví sast þú milli fjárgirðinganna og hlustaðir á pípublástur hjarðmannanna? Við Rúbens læki voru miklar ráðagerðir.

17 Gíleað hélt kyrru fyrir hinumegin Jórdanar og Dan, _ hvers vegna dvaldi hann við skipin? Asser sat kyrr við sjávarströndina og hélt kyrru fyrir við víkur sínar.

18 Sebúlon er lýður, sem hætti lífi sínu í dauðann, og Naftalí, á hæðum landsins.

19 Konungar komu og börðust, þá börðust konungar Kanaans við Taanak hjá Megiddóvötnum. Silfur fengu þeir ekkert að herfangi.

20 Af himni börðust stjörnurnar, af brautum sínum börðust þær við Sísera,

21 Kísonlækur skolaði þeim burt, orustulækurinn, lækurinn Kíson. Gakk fram, sál mín, öfluglega!

22 Þá hlumdu hófar hestanna, af reiðinni, reið kappanna.

23 "Bölvið Merós!" sagði engill Drottins, já, bölvið íbúum hennar, af því að þeir komu ekki Drottni til hjálpar, Drottni til hjálpar meðal hetjanna.

24 Blessuð framar öllum konum veri Jael, kona Hebers Keníta, framar öllum konum í tjaldi veri hún blessuð!

25 Vatn bað hann um, mjólk gaf hún, í skrautlegri skál rétti hún honum rjóma.

26 Hún rétti út hönd sína eftir hælnum, hægri hönd sína eftir smíðahamrinum og sló Sísera, mölvaði haus hans, laust sundur þunnvanga hans og klauf inn úr.

27 Hann hné fyrir fætur henni, féll út af og lá þar. Hann hné fyrir fætur henni, féll út af, þar sem hann hné niður, þar lá hann dauður.

28 Út um gluggann skimar og kallar móðir Sísera, út um grindurnar: "Hví seinkar vagni hans? Hvað tefur ferð hervagna hans?"

29 Hinar vitrustu af hefðarfrúm hennar svara henni, já, sjálf hefir hún upp fyrir sér orð þeirra:

30 "Efalaust hafa þeir fengið herfang og verið að skipta því, eina ambátt, tvær ambáttir á mann, litklæði handa Sísera að herfangi, litklæði, glitofin, að herfangi, litklæði, tvo glitofna dúka um háls mér!"

31 Svo farist allir óvinir þínir, Drottinn! En þeir, sem hann elska, eru sem sólaruppkoman í ljóma sínum. Var nú friður í landi í fjörutíu ár.

Ísraelsmenn gjörðu það, sem illt var í augum Drottins. Þá gaf Drottinn þá í hendur Midíans í sjö ár.

Og Midían varð Ísrael yfirsterkari. Gjörðu Ísraelsmenn sér þá fylgsni á fjöllum uppi, hella og vígi fyrir Midían.

Og þegar Ísrael sáði, komu Midíanítar, Amalekítar og austurbyggjar og fóru í móti honum.

Og þeir settu herbúðir sínar gegn Ísraelsmönnum og eyddu gróðri landsins alla leið til Gasa og skildu enga lífsbjörg eftir í Ísrael, ekki heldur sauði, naut eða asna.

Þeir fóru norður þangað með kvikfénað sinn og tjöld sín. Kom slíkur aragrúi af þeim, sem engisprettur væru. Varð engri tölu komið á þá né úlfalda þeirra, og brutust þeir inn í landið til að eyða það.

Var Ísrael þá mjög þjakaður af völdum Midíans, og Ísraelsmenn hrópuðu til Drottins.

Og er Ísraelsmenn hrópuðu til Drottins undan Midían,

þá sendi Drottinn spámann til Ísraelsmanna, og hann sagði við þá: "Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Ég leiddi yður út af Egyptalandi og færði yður út úr þrælahúsinu,

og ég frelsaði yður úr höndum Egypta og úr höndum allra þeirra, er yður kúguðu, og ég stökkti þeim burt undan yður og gaf yður land þeirra.

10 Og ég sagði við yður: ,Ég er Drottinn, Guð yðar. Þér skuluð ekki óttast guði Amorítanna, í hverra landi þér búið.` En þér hlýdduð ekki minni röddu."

11 Þá kom engill Drottins og settist undir eikina í Ofra, er átti Jóas Abíesríti, en Gídeon sonur hans var að þreskja hveiti í vínþröng til þess að forða því undan Midían.

12 Og engill Drottins birtist honum og sagði við hann: "Drottinn er með þér, hrausta hetja!"

13 Þá sagði Gídeon við hann: "Æ, herra minn, ef Drottinn er með oss, hví hefir þá allt þetta oss að hendi borið? Og hvar eru öll dásemdarverk hans, þau er feður vorir hafa skýrt oss frá, segjandi: ,Já, Drottinn leiddi oss út af Egyptalandi!` En nú hefir Drottinn hafnað oss og gefið oss í hendur Midíans."

14 Þá sneri Drottinn sér til hans og mælti: "Far af stað í þessum styrkleika þínum, og þú munt frelsa Ísrael úr höndum Midíans. Það er ég, sem sendi þig."

15 Gídeon svaraði honum: "Æ, herra, hvernig á ég að frelsa Ísrael? Sjá, minn ættleggur er aumasti ættleggurinn í Manasse, og ég er lítilmótlegastur í minni ætt."

16 Þá sagði Drottinn við hann: "Ég mun vera með þér, og þú munt sigra Midíaníta sem einn maður væri."

17 Gídeon svaraði honum: "Hafi ég fundið náð í augum þínum, þá gjör mér tákn þess, að það sért þú, er við mig talar.

18 Far ekki héðan burt, fyrr en ég kem aftur til þín og færi hingað út fórnargjöf mína og set hana fram fyrir þig." Og Drottinn sagði: "Ég mun bíða hér, þar til er þú kemur aftur."

19 Þá fór Gídeon og tilreiddi hafurkið og ósýrðar kökur úr einni efu mjöls. Lagði hann kjötið í körfu, en lét súpuna í krukku og kom með þetta út til hans undir eikina og bar það fram.

20 En engill Guðs sagði við hann: "Tak þú kjötið og ósýrðu kökurnar og legg það á klett þennan og hell súpunni yfir." Hann gjörði svo.

21 Engill Drottins rétti þá út staf þann, sem hann hafði í hendi, og snart kjötið og ósýrðu kökurnar með stafsendanum. Kom þá eldur upp úr klettinum og eyddi kjötinu og ósýrðu kökunum, en engill Drottins hvarf sjónum hans.

22 Þá sá Gídeon, að það hafði verið engill Drottins. Og Gídeon sagði: "Vei, Drottinn Guð, því að ég hefi séð engil Drottins augliti til auglitis!"

23 Og Drottinn sagði við hann: "Friður sé með þér. Óttast ekki, þú munt ekki deyja!"

24 Gídeon reisti Drottni þar altari og nefndi það: Drottinn er friður. Stendur það enn í dag í Ofra Abíesrítanna.

25 Þessa sömu nótt sagði Drottinn við hann: "Tak uxa föður þíns og annan uxa, sjö vetra gamlan, og brjót Baalsaltari föður þíns og högg þú upp aséruna, sem hjá því er.

26 Reis því næst Drottni, Guði þínum, vandað altari efst uppi á borg þessari, tak síðan annan uxann og ber fram brennifórn ásamt viðinum úr asérunni, er þú heggur upp."

27 Þá tók Gídeon tíu menn af sveinum sínum og gjörði svo sem Drottinn hafði sagt honum. En með því að hann óttaðist, að hann mundi eigi geta gjört þetta að degi til fyrir ættmennum sínum og borgarmönnum, þá gjörði hann það um nótt.

28 En er borgarmenn risu árla morguninn eftir, þá var Baalsaltarið brotið og höggin upp aséran, sem hjá því var, og öðrum uxanum hafði verið fórnað á nýreista altarinu.

29 Þá sögðu þeir hver við annan: "Hver hefir gjört þetta?" Og þeir rannsökuðu og leituðu, og sögðu: "Gídeon Jóasson hefir gjört þetta."

30 Þá sögðu borgarmenn við Jóas: "Sel fram son þinn, og skal hann deyja, því að hann hefir brotið Baalsaltarið og höggvið upp aséruna, sem hjá því var."

31 En Jóas sagði við alla þá, sem hjá honum stóðu: "Ætlið þér að taka upp mál fyrir Baal, eða ætlið þér að fara að hjálpa honum? Hver sá, sem tekur upp mál fyrir hann, skal lífi týna áður næsti dagur rennur upp. Ef hann er Guð, þá sæki hann sjálfur mál sitt, úr því að altari hans hefir verið brotið."

32 Upp frá þeirri stundu var Gídeon nefndur Jerúbbaal, af því að menn sögðu: "Baal sæki mál á hendur honum," fyrir því að hann braut altari hans.

33 Nú höfðu allir Midíanítar, Amalekítar og austurbyggjar safnast saman. Fóru þeir yfir um Jórdan og settu herbúðir sínar á Jesreel-sléttu.

34 En andi Drottins kom yfir Gídeon, og þeytti hann lúðurinn, og Abíesrítar söfnuðust saman til fylgdar við hann.

35 Hann sendi og sendiboða út um allan Manasse; safnaðist hann og til fylgdar við hann. Hann sendi og sendiboða til Assers, Sebúlons og Naftalí; fóru þeir og til fylgdar við hann.

36 Þá sagði Gídeon við Guð: "Ef þú ætlar að frelsa Ísrael fyrir mínar hendur, eins og þú hefir sagt,

37 sjá, þá legg ég ullarreyfi út á láfann. Ef dögg er þá á reyfinu einu, en jörð öll er þurr, þá veit ég að þú munt frelsa Ísrael fyrir mínar hendur, eins og þú hefir sagt."

38 Og það varð svo. Morguninn eftir reis hann árla og kreisti reyfið, og vatt hann þá dögg úr reyfinu, fulla skál af vatni.

39 En Gídeon sagði við Guð: "Lát eigi reiði þína upptendrast gegn mér, þó að ég tali enn aðeins í þetta sinn. Ég ætla aðeins einu sinni enn að gjöra tilraun með reyfið. Skal nú reyfið eitt þurrt vera, en jörð öll vot af dögg."

40 Og Guð gjörði svo á þeirri nóttu. Var reyfið eitt þurrt, en jörð var öll vot af dögg.

31 Hann kom nú ofan til Kapernaum, borgar í Galíleu, og kenndi þeim á hvíldardegi.

32 Undruðust menn mjög kenningu hans, því að vald fylgdi orðum hans.

33 Í samkunduhúsinu var maður nokkur, er haldinn var óhreinum, illum anda. Hann æpti hárri röddu:

34 "Æ, hvað vilt þú oss, Jesús frá Nasaret? Ert þú kominn að tortíma oss? Ég veit, hver þú ert, hinn heilagi Guðs."

35 Jesús hastaði þá á hann og mælti: "Þegi þú, og far út af honum." En illi andinn slengdi honum fram fyrir þá og fór út af honum, en varð honum ekki að meini.

36 Felmtri sló á alla, og sögðu þeir hver við annan: "Hvaða orð er þetta? Með valdi og krafti skipar hann óhreinum öndum, og þeir fara."

37 Og orðstír hans barst út til allra staða þar í grennd.

38 Úr samkundunni fór hann í hús Símonar. En tengdamóðir Símonar var altekin sótthita, og báðu þeir hann að hjálpa henni.

39 Hann gekk að, laut yfir hana og hastaði á sótthitann, og fór hann úr henni. En hún reis jafnskjótt á fætur og gekk þeim fyrir beina.

40 Um sólsetur komu allir þeir, er höfðu á sínum vegum sjúklinga haldna ýmsum sjúkdómum, og færðu þá til hans. En hann lagði hendur yfir hvern þeirra og læknaði þá.

41 Þá fóru og illir andar út af mörgum og æptu: "Þú ert sonur Guðs." En hann hastaði á þá og bannaði þeim að tala, því að þeir vissu, að hann var Kristur.

42 Þegar dagur rann, gekk hann burt á óbyggðan stað, en mannfjöldinn leitaði hans. Þeir fundu hann og vildu aftra því, að hann færi frá þeim.

43 En hann sagði við þá: "Mér ber og að flytja hinum borgunum fagnaðarerindið um Guðs ríki, því að til þess var ég sendur."

44 Og hann prédikaði í samkundunum í Júdeu.

Read full chapter