Add parallel Print Page Options

19 Um þær mundir bar svo til _ en þá var enginn konungur í Ísrael _ að levíti nokkur bjó innst inni í Efraímfjöllum, og tók hann sér að hjákonu kvenmann nokkurn frá Betlehem í Júda.

En þessi hjákona hans var honum ótrú og fór frá honum til húss föður síns í Betlehem í Júda og var þar fjögra mánaða tíma.

En maður hennar tók sig upp og fór eftir henni til þess að tala um fyrir henni og til þess að sækja hana, og hafði hann með sér svein sinn og tvo asna. Hún leiddi hann þá inn í hús föður síns, og er faðir stúlkunnar sá hann, gladdist hann yfir komu hans.

En tengdafaðir hans, faðir stúlkunnar, hélt honum, svo að hann dvaldist hjá honum í þrjá daga. Átu þeir og drukku og voru þar um nóttina.

En fjórða daginn risu þeir árla um morguninn og bjóst hinn nú til ferðar. Þá sagði faðir stúlkunnar við tengdason sinn: "Hresstu þig fyrst á matarbita og síðan megið þið fara."

Þá settust þeir niður og átu báðir saman og drukku. En faðir stúlkunnar sagði við manninn: "Lát þér það lynda að vera í nótt, og lát liggja vel á þér."

En maðurinn bjóst til að fara. Þá lagði tengdafaðir hans svo að honum, að hann settist aftur og var þar um nóttina.

Fimmta daginn reis hann árla um morguninn og ætlaði að halda af stað. Þá sagði faðir stúlkunnar: "Hresstu þig þó fyrst, og bíðið þið uns degi hallar." Og þeir átu báðir saman.

En er maðurinn bjóst til að fara, ásamt hjákonu sinni og sveini sínum, þá sagði tengdafaðir hans, faðir stúlkunnar, við hann: "Það er orðið áliðið og dagur að kveldi kominn; verið í nótt. Sjá, degi hallar. Ver þú í nótt og láttu liggja vel á þér, en á morgun getið þið lagt upp snemma, svo að þú getir náð heim til þín."

10 En maðurinn vildi ekki vera um nóttina, heldur bjóst til ferðar og hélt af stað og komst norður á móts við Jebús, það er Jerúsalem, og hann hafði með sér tvo söðlaða asna og hjákonu sína.

11 Þegar þau voru hjá Jebús og mjög var liðið á dag, þá sagði sveinninn við húsbónda sinn: "Kom þú, við skulum fara inn í þessa Jebúsíta borg og gista þar."

12 En húsbóndi hans sagði við hann: "Ekki skulum við fara inn í borg ókunnugra manna, þar sem engir Ísraelsmenn búa, höldum heldur áfram til Gíbeu."

13 Og hann sagði við svein sinn: "Kom þú, við skulum fara í einhvern af stöðunum og gista í Gíbeu eða Rama."

14 Síðan héldu þeir áfram leið sína, en sól gekk undir, er þeir voru hjá Gíbeu, sem heyrir Benjamín.

15 Viku þeir þar af leið til þess að fara inn í Gíbeu til gistingar. Og er hann kom þangað, staðnæmdist hann á bæjartorginu, en enginn tók þau inn í hús sitt til gistingar.

16 Maður nokkur gamall kom frá vinnu sinni utan af akri um kveldið. Hann var frá Efraímfjöllum og bjó sem útlendingur í Gíbeu, en mennirnir, sem þarna bjuggu, voru Benjamínítar.

17 Og er honum varð litið upp, sá hann ferðamanninn á bæjartorginu. Þá sagði gamli maðurinn: "Hvert ætlar þú að fara og hvaðan kemur þú?"

18 Hinn svaraði honum: "Við komum frá Betlehem í Júda og ætlum innst inn í Efraímfjöll. Þaðan er ég. Ég fór suður til Betlehem og er nú á heimleið, en enginn hefir boðið mér hér inn til sín.

19 Við höfum bæði hálm og fóður handa ösnum okkar, svo og brauð og vín handa mér og ambátt þinni og sveininum, sem er með þjónum þínum. Hér er einskis vant."

20 Þá sagði gamli maðurinn: "Vertu velkominn! Lofaðu mér nú að annast allt, sem þig kann að bresta, en úti máttu ekki liggja í nótt hér á torginu."

21 Og hann leiddi hann inn í hús sitt og gaf ösnunum, og þau þvoðu fætur sína og átu og drukku.

22 Nú sem þau gæddu sér, sjá, þá umkringdu borgarmenn _ hrakmenni nokkur _ húsið, lömdu utan hurðina og kölluðu til gamla mannsins, húsbóndans: "Leið út manninn, sem til þín er kominn, að vér megum kenna hans."

23 Þá gekk maðurinn, húsbóndinn, út til þeirra og sagði við þá: "Nei, bræður mínir, fyrir hvern mun fremjið ekki óhæfu. Fyrst þessi maður er kominn inn í mitt hús, þá fremjið ekki slíka svívirðingu.

24 Hér er dóttir mín, sem er mey, og hjákona hans, ég ætla að leiða þær út, og þær megið þér taka nauðugar og gjöra við þær sem yður vel líkar, en á manni þessum skuluð þér ekki fremja slíka svívirðingu."

25 En mennirnir vildu ekki hlýða á hann. Þá þreif maðurinn í hjákonu sína og leiddi hana út á strætið til þeirra, og þeir kenndu hennar og misþyrmdu henni alla nóttina, allt til morguns, og slepptu henni ekki fyrr en dagur rann.

26 Þegar birta tók af degi, kom konan og féll niður fyrir húsdyrum mannsins, þar sem bóndi hennar var inni, og lá þar, uns bjart var orðið.

27 En er bóndi hennar reis um morguninn og lauk upp húsdyrunum og gekk út og ætlaði að halda af stað, sjá, þá lá konan, hjákona hans, úti fyrir dyrunum með hendurnar á þröskuldinum.

28 Hann mælti þá til hennar: "Stattu upp, við skulum halda af stað!" _ en fékk ekkert svar. Þá lét hann hana upp á asnann, og maðurinn tók sig upp og hélt heim til sín.

29 En er hann kom heim, tók hann hníf, þreif hjákonu sína og hlutaði hana alla sundur í tólf hluti og sendi þá út um alla Ísraels byggð.

30 En hverjum þeim, er sá það, varð að orði: "Eigi hefir slíkt við borið og eigi hefir slíkt sést síðan er Ísraelsmenn fóru af Egyptalandi allt fram á þennan dag! Hugleiðið þetta, leggið á ráð og segið til!"

20 Þá lögðu allir Ísraelsmenn af stað, og safnaðist lýðurinn saman sem einn maður frá Dan til Beerseba, svo og Gíleaðland, fram fyrir Drottin í Mispa.

Og höfðingjar alls lýðsins, allar ættkvíslir Ísraels, gengu fram í söfnuði Guðs fólks _ fjögur hundruð þúsund fótgangandi menn, vopnum búnir.

Benjamíns synir fréttu, að Ísraelsmenn væru farnir upp til Mispa. Ísraelsmenn sögðu: "Segið frá, hvernig atvikaðist óhæfuverk þetta."

Þá svaraði levítinn, maður konunnar, er myrt hafði verið, og sagði: "Ég kom til Gíbeu, sem heyrir Benjamín, ásamt hjákonu minni og ætlaði að vera þar nætursakir.

Þá risu Gíbeubúar upp á móti mér og umkringdu húsið um nóttina og létu ófriðlega. Mig hugðust þeir að drepa og hjákonu minni nauðguðu þeir svo, að hún beið bana af.

Þá tók ég hjákonu mína og hlutaði hana sundur og sendi hana út um allt arfleifðarland Ísraels, því að þeir höfðu framið níðingsverk og óhæfu í Ísrael.

Þér eruð hér allir, Ísraelsmenn! Kveðið nú upp tillögur yðar og ráð!"

Þá reis upp allur lýður, sem einn maður væri, og sagði: "Enginn af oss skal fara heim til sín og enginn snúa heim til húss síns.

Og nú skulum vér fara þannig að við Gíbeu: Vér skulum ráðast gegn henni eftir hlutkesti.

10 Vér skulum taka tíu menn af hundraði af öllum ættkvíslum Ísraels og hundrað af þúsundi og þúsund af tíu þúsundum til þess að sækja vistir handa liðinu. Þegar þeir koma aftur, verður farið með Gíbeu í Benjamín með öllu svo sem maklegt er fyrir óhæfuverk það, er þeir hafa framið í Ísrael."

11 Þá söfnuðust allir Ísraelsmenn saman í móti borginni, allir samhuga sem einn maður væri.

12 Ættkvíslir Ísraels sendu menn um alla ættkvísl Benjamíns og létu þá segja: "Hvílík óhæfa er þetta, sem framin hefir verið yðar á meðal.

13 Framseljið því hrakmennin í Gíbeu, svo að vér fáum drepið þá og upprætt hið illa úr Ísrael." En Benjamíns synir vildu ekki gefa gaum orðum bræðra sinna, Ísraelsmanna.

14 Söfnuðust Benjamíns synir þá saman úr borgunum til Gíbeu til þess að fara í hernað móti Ísraelsmönnum.

15 En Benjamíns synir, þeir er úr borgunum komu, voru á þeim degi tuttugu og sex þúsundir vopnaðra manna að tölu, auk Gíbeu-búa, en þeir voru sjö hundruð að tölu, einvala lið.

16 Af öllu þessu liði voru sjö hundruð úrvals menn örvhentir. Hæfðu þeir allir hárrétt með slöngusteini og misstu ekki.

17 En Ísraelsmenn voru að tölu, fyrir utan Benjamín, fjögur hundruð þúsund vopnaðra manna, og voru þeir allir hermenn.

18 Ísraelsmenn tóku sig upp og fóru upp til Betel og gengu til frétta við Guð og sögðu: "Hver af oss skal fyrstur fara í hernaðinn móti Benjamíns sonum?" Drottinn svaraði: "Júda skal fyrstur fara".

19 Ísraelsmenn tóku sig upp um morguninn og settu herbúðir sínar hjá Gíbeu.

20 Og Ísraelsmenn fóru til bardaga í móti Benjamín, og Ísraelsmenn fylktu sér til orustu gegn þeim nálægt Gíbeu.

21 Þá fóru Benjamíns synir út úr Gíbeu og lögðu að velli tuttugu og tvær þúsundir manna af Ísrael á þeim degi.

22 En lið Ísraelsmanna herti upp hugann, og fylktu þeir sér af nýju til orustu á þeim stað, sem þeir höfðu fylkt sér hinn fyrri daginn.

23 Og Ísraelsmenn fóru upp eftir og grétu frammi fyrir Drottni allt til kvelds, og þeir gengu til frétta við Drottin og sögðu: "Eigum vér enn að leggja til orustu við sonu Benjamíns, bróður vors?" Drottinn svaraði: "Farið á móti þeim."

24 Fóru Ísraelsmenn nú í móti Benjamíns sonum á öðrum degi.

25 Og Benjamín fór út í móti þeim úr Gíbeu á öðrum degi, og lögðu þeir enn að velli átján þúsund manns af Ísraelsmönnum, og voru þeir allir vopnum búnir.

26 Þá fóru allir Ísraelsmenn og allur lýðurinn upp eftir og komu til Betel og höfðust þar við grátandi fyrir augliti Drottins og föstuðu þann dag til kvelds. Og þeir fórnuðu brennifórnum og heillafórnum fyrir augliti Drottins.

27 Síðan gengu Ísraelsmenn til frétta við Drottin, en þar var sáttmálsörk Guðs í þá daga,

28 og Pínehas, sonur Eleasars Aronssonar, gegndi þjónustu fyrir augliti hans í þá daga. Þeir sögðu: "Eigum vér enn að leggja til orustu við sonu Benjamíns, bróður vors, eða eigum vér að hætta?" Drottinn svaraði: "Farið, því að á morgun mun ég gefa þá í yðar hendur."

29 Nú setti Ísrael menn í launsát hringinn í kringum Gíbeu.

30 Og Ísraelsmenn fóru í móti Benjamíns sonum á þriðja degi og fylktu þeir sér gegnt Gíbeu, eins og hin fyrri skiptin.

31 Þá fóru Benjamíns synir út á móti liðinu og létu teygjast burt frá borginni og tóku að fella nokkra af liðinu, eins og hin fyrri skiptin, úti á þjóðvegunum (annar þeirra liggur upp til Betel, en hinn til Gíbeu yfir haglendið), um þrjátíu manns af Ísrael.

32 Þá hugsuðu Benjamíns synir: "Þeir bíða ósigur fyrir oss eins og í fyrsta sinnið." En Ísraelsmenn höfðu sagt: "Vér skulum flýja, svo að vér fáum teygt þá frá borginni út á þjóðvegina."

33 Og allir Ísraelsmenn tóku sig upp úr sínum stað og fylktu sér í Baal Tamar, og þeir Ísraelsmanna, er í launsát voru, þustu fram úr sínum stað fyrir vestan Geba.

34 Því næst sóttu tíu þúsundir einvala liðs úr öllum Ísrael fram móti Gíbeu og tókst þar hörð orusta, en hinir vissu ekki að ógæfan vofði yfir þeim.

35 Þannig lét Drottinn Benjamín bíða ósigur fyrir Ísrael, og Ísraelsmenn drápu tuttugu og fimm þúsund og eitt hundrað manns af Benjamín á þeim degi, og voru þeir allir vopnum búnir.

36 Þá sáu Benjamíns synir, að þeir höfðu beðið ósigur. Ísraelsmenn gáfu Benjamín rúm, því að þeir treystu launsátinni, er þeir höfðu sett hjá Gíbeu.

37 En þeir, sem í launsátinni voru, spruttu upp og geystust fram mót Gíbeu og fóru til og felldu alla borgarbúa með sverðseggjum.

38 Það var samkomulag milli Ísraelsmanna og þeirra, er í launsátinni voru, að þeir skyldu láta reyk leggja upp af borginni til merkis.

39 Þegar nú Ísraelsmenn snerust á flótta í bardaganum og Benjamínítar tóku að fella nokkra af Ísraelsmönnum, um þrjátíu manns, með því að þeir hugsuðu: "Þeir hafa þegar beðið ósigur fyrir oss, eins og í fyrstu orustunni!"

40 þá tók merkið að stíga upp af borginni, reykjarmökkurinn, og er Benjamínítar sneru sér við, sjá, þá stóð öll borgin í björtu báli.

41 Þá sneru Ísraelsmenn við, og sló felmti á Benjamíníta, því að þeir sáu, að ógæfan var yfir þá komin.

42 Sneru þeir nú undan Ísraelsmönnum á leið til eyðimerkurinnar, og hélst þó orustan á hælum þeim, og þeir, sem komu úr borgunum, drápu þá mitt á meðal þeirra.

43 Þeir umkringdu Benjamíníta, eltu þá og tróðu þá undir fótum sér, þar sem þeir höfðu leitað sér hvíldar, alla leið austur fyrir Gíbeu.

44 Og þar féllu af Benjamín átján þúsundir manna, og voru það allt hraustir menn.

45 Þá sneru þeir á flótta til eyðimerkurinnar að Rimmónkletti, og í eftirleitinni um þjóðvegina drápu þeir fimm þúsund manns, og þeir eltu þá allt til Gídeóm og drápu enn af þeim tvö þúsund manns.

46 Þannig féllu alls af Benjamín á þeim degi tuttugu og fimm þúsundir vopnbúinna manna, og voru það allt hraustir menn.

47 Þá sneru þeir á flótta til eyðimerkurinnar að Rimmónkletti, sex hundruð manns, og höfðust við hjá Rimmónkletti í fjóra mánuði.

48 En Ísraelsmenn sneru aftur til Benjamíns sona og felldu þá með sverðseggjum, bæði menn og fénað og allt, sem þeir fundu. Þeir lögðu og eld í allar borgirnar, sem fyrir þeim urðu.

21 Ísraelsmenn höfðu unnið eið í Mispa og sagt: "Enginn af oss skal gifta Benjamíníta dóttur sína."

Og lýðurinn fór til Betel, og þeir dvöldu þar fram á kveld fyrir augliti Guðs og hófu þar mikið harmakvein

og sögðu: "Drottinn, Ísraels Guð! Hví hefir þetta við borið í Ísrael, að nú skuli vanta eina ættkvíslina í Ísrael?"

Morguninn eftir reis lýðurinn árla og reisti þar altari og fórnaði brennifórnum og heillafórnum.

Því næst sögðu Ísraelsmenn: "Mun nokkur vera sá af öllum ættkvíslum Ísraels, er ekki hafi komið upp hingað til Drottins með söfnuðinum?" Því að það hafði verið föstum svardögum bundið, að hver sá, er ekki kæmi upp til Drottins í Mispa, sá hinn sami skyldi lífi týna.

Og Ísraelsmenn tók sárt til Benjamíns bróður síns og þeir sögðu: "Nú er ein ættkvísl upphöggvin úr Ísrael!

Hvernig eigum vér að fara að því að útvega þeim konur, sem eftir eru, þar eð vér höfum unnið Drottni eið að því að gifta þeim eigi neina af dætrum vorum?"

Þá sögðu þeir: "Er nokkur sá af ættkvíslum Ísraels, er ekki hafi farið upp til Drottins í Mispa?" Og sjá, frá Jabes í Gíleað hafði enginn komið í herbúðirnar til samkomunnar.

Fór nú fram liðskönnun, og sjá, enginn var þar af íbúum Jabes í Gíleað.

10 Þá sendi lýðurinn þangað tólf þúsundir hraustra manna og lagði svo fyrir þá: "Farið og fellið íbúana í Jabes í Gíleað með sverðseggjum, ásamt konum og börnum.

11 En þannig skuluð þér að fara: Alla karlmenn og allar konur, er samræði hafa átt við mann, skuluð þér banni helga, en meyjar skuluð þér láta lífi halda." Þeir gjörðu svo.

12 Og þeir fundu meðal íbúanna í Jabes í Gíleað fjögur hundruð meyjar, er eigi höfðu samræði átt við mann, og þeir fóru með þær til herbúðanna í Síló, sem er í Kanaanlandi.

13 Þá sendi allur lýðurinn og lét tala við Benjamíns sonu, þá er voru hjá Rimmónkletti, og bauð þeim frið.

14 Þá hurfu Benjamínítar aftur og þeir gáfu þeim konur þær, er þeir höfðu látið lífi halda af konunum í Jabes í Gíleað. Þær voru þó ekki nógu margar handa þeim.

15 Lýðinn tók sárt til Benjamíns, því að Drottinn hafði höggvið skarð í ættkvíslir Ísraels.

16 Þá sögðu öldungar lýðsins: "Hvernig eigum vér að fara að því að útvega þeim, sem eftir eru, konur, því að konur hafa verið gjöreyddar úr Benjamín?"

17 Og þeir sögðu: "Hvernig mega þeir af Benjamínítum, er undan hafa komist, halda arfleifð sinni, svo að eigi verði ættkvísl afmáð úr Ísrael?

18 En ekki getum vér gift þeim neina af dætrum vorum." Því að Ísraelsmenn höfðu svarið: "Bölvaður sé sá, sem gefur Benjamín konu!"

19 Þá sögðu þeir: "Sjá, hátíð Drottins er árlega haldin í Síló, sem liggur fyrir norðan Betel, fyrir austan þjóðveginn, sem liggur frá Betel upp til Síkem, og fyrir sunnan Lebóna."

20 Og þeir lögðu svo fyrir Benjamíns sonu: "Farið og liggið í leyni í víngörðunum.

21 Og er þér sjáið Sílódætur ganga út til dansleika, þá skuluð þér spretta upp úr víngörðunum og ræna yður sinni konunni hver af Sílódætrum. Farið síðan heim í Benjamínsland.

22 En þegar feður þeirra eða bræður koma að kæra þetta fyrir oss, þá skulum vér segja við þá: ,Gefið oss þær, því að vér fengum engar konur í stríðinu. Þér hafið ekki heldur gefið þeim þær. Ef svo væri, þá væruð þér sekir."`

23 Benjamíns synir gjörðu svo og tóku sér konur, eins og þeir voru margir til, meðal dansmeyjanna, sem þeir rændu. Síðan fóru þeir og hurfu aftur til óðals síns og reistu að nýju borgirnar og bjuggu í þeim.

24 Þá fóru og Ísraelsmenn þaðan, hver til sinnar kynkvíslar og sinnar ættar, og þeir héldu þaðan hver til óðals síns.

31 "Við hvað á ég þá að líkja mönnum þessarar kynslóðar? Hverju eru þeir líkir?

32 Líkir eru þeir börnum, sem á torgi sitja og kallast á: ,Vér lékum fyrir yður á flautu, og ekki vilduð þér dansa. Vér sungum yður sorgarljóð, og ekki vilduð þér gráta.`

33 Nú kom Jóhannes skírari, át ekki brauð né drakk vín, og þér segið: ,Hann hefur illan anda.`

34 Og Mannssonurinn er kominn, etur og drekkur, og þér segið: ,Hann er mathákur og vínsvelgur, vinur tollheimtumanna og bersyndugra!`

35 En spekin hefur rétt fyrir sér, það staðfesta öll börn hennar."

36 Farísei nokkur bauð honum að eta hjá sér, og hann fór inn í hús faríseans og settist til borðs.

37 En kona ein í bænum, sem var bersyndug, varð þess vís, að hann sat að borði í húsi faríseans. Kom hún þá með alabastursbuðk með smyrslum,

38 nam staðar að baki honum til fóta hans grátandi, tók að væta fætur hans með tárum sínum, þerraði þá með höfuðhári sínu, kyssti þá og smurði með smyrslunum.

39 Þegar faríseinn, sem honum hafði boðið, sá þetta, sagði hann við sjálfan sig: "Væri þetta spámaður, mundi hann vita, hver og hvílík sú kona er, sem snertir hann, að hún er bersyndug."

40 Jesús sagði þá við hann: "Símon, ég hef nokkuð að segja þér." Hann svaraði: "Seg þú það, meistari."

41 "Tveir menn voru skuldugir lánveitanda nokkrum. Annar skuldaði honum fimm hundruð denara, en hinn fimmtíu.

42 Nú gátu þeir ekkert borgað, og þá gaf hann báðum upp. Hvor þeirra skyldi nú elska hann meira?"

43 Símon svaraði: "Sá, hygg ég, sem hann gaf meira upp." Jesús sagði við hann: "Þú ályktaðir rétt."

44 Síðan sneri hann sér að konunni og sagði við Símon: "Sér þú konu þessa? Ég kom í hús þitt, og þú gafst mér ekki vatn á fætur mína, en hún vætti fætur mína tárum sínum og þerraði með hári sínu.

45 Ekki gafst þú mér koss, en hún hefur ekki látið af að kyssa fætur mína, allt frá því ég kom.

46 Ekki smurðir þú höfuð mitt olíu, en hún hefur smurt fætur mína með smyrslum.

47 Þess vegna segi ég þér: Hinar mörgu syndir hennar eru fyrirgefnar, enda elskar hún mikið, en sá elskar lítið, sem lítið er fyrirgefið."

48 Síðan sagði hann við hana: "Syndir þínar eru fyrirgefnar."

49 Þá tóku þeir, sem til borðs sátu með honum, að segja með sjálfum sér: "Hver er sá, er fyrirgefur syndir?"

50 En hann sagði við konuna: "Trú þín hefur frelsað þig, far þú í friði."

Read full chapter