Add parallel Print Page Options

16 Samson fór til Gasa. Þar sá hann portkonu eina og gekk inn til hennar.

Þá var Gasabúum sagt svo frá: "Samson er hér kominn." En þeir umkringdu hann og gjörðu honum fyrirsát alla nóttina í borgarhliðinu, en höfðu þó hljótt um sig alla nóttina, með því að þeir hugsuðu: Þegar birtir af degi, skulum vér drepa hann.

En Samson svaf til miðrar nætur. En um miðja nótt reis hann á fætur, þreif hurðirnar á borgarhliðinu, ásamt báðum dyrastöfunum, og kippti þeim upp ásamt slagbrandinum og lagði á herðar sér og bar þær efst upp á fjallið, sem er gegnt Hebron.

Eftir þetta bar svo við, að Samson felldi ástarhug til konu einnar í Sórekdal. Hún hét Dalíla.

Höfðingjar Filista komu til hennar og sögðu við hana: "Ginn þú hann og komstu að því, í hverju hið mikla afl hans er fólgið og með hverju móti vér fáum yfirbugað hann, svo að vér getum bundið hann og þjáð hann, og munum vér gefa þér hver um sig eitt þúsund sikla silfurs og hundraði betur."

Dalíla sagði þá við Samson: "Seg mér, í hverju hið mikla afl þitt er fólgið og með hverju þú verður bundinn, svo að menn eigi alls kostar við þig."

Samson svaraði henni: "Ef menn binda mig með sjö nýjum strengjum, sem ekki eru þurrir orðnir, þá gjörist ég linur og verð eins og hver annar maður."

Þá færðu höfðingjar Filista henni sjö nýja strengi, sem ekki voru þurrir orðnir, og hún batt hann með þeim.

En mennina, er um hann sátu, hafði hún hjá sér í svefnhúsinu. Því næst sagði hún við hann: "Filistar yfir þig, Samson!" Þá sleit hann sundur strengina, eins og hörþráður slitnar sundur, er hann kennir elds, og ekki varð komist fyrir afl hans.

10 Þá sagði Dalíla við Samson: "Sjá, þú hefir blekkt mig og logið að mér! Seg mér nú, með hverju þú verður bundinn."

11 Hann svaraði henni: "Ef menn binda mig með nýjum reipum, sem ekki hafa verið höfð til neinnar vinnu, þá gjörist ég linur og verð sem hver annar maður."

12 Þá tók Dalíla ný reipi og batt hann með þeim og sagði við hann: "Filistar yfir þig, Samson!" og mennirnir, er um hann sátu, voru í svefnhúsinu. En hann sleit þau af armleggjum sér sem þráður væri.

13 Og Dalíla sagði við Samson: "Enn hefir þú blekkt mig og logið að mér. Seg mér, með hverju þú verður bundinn." En hann sagði við hana: "Ef þú vefur hárlokkana sjö á höfði mér saman við uppistöðuna í vef."

14 Og hún festi þá með nagla og sagði við hann: "Filistar yfir þig, Samson!" Þá vaknaði hann af svefninum og kippti út vefjarnaglanum og uppistöðunni.

15 Þá sagði hún við hann: "Hvernig getur þú sagt: Ég elska þig! þar sem þú ert ekki einlægur við mig? Þrisvar sinnum hefir þú nú blekkt mig og ekki sagt mér, í hverju hið mikla afl þitt sé fólgið."

16 En er hún nauðaði á honum alla daga með orðum sínum og gekk á hann fastlega, þá varð hann dauðleiður á því

17 og sagði henni allt hjarta sitt og mælti til hennar: "Aldrei hefir rakhnífur komið á höfuð mitt, því að ég er Guði helgaður í frá móðurlífi. Væri nú hár mitt skorið, þá hyrfi afl mitt frá mér og ég gjörðist linur og yrði sem allir menn aðrir."

18 Þegar Dalíla sá, að hann hafði sagt henni allt hjarta sitt, þá sendi hún og lét kalla höfðingja Filista, og lét hún segja þeim: "Nú skuluð þér koma, því að hann hefir sagt mér allt hjarta sitt." Þá fóru höfðingjar Filista til hennar og höfðu silfrið með sér.

19 En hún svæfði hann á skauti sínu og kallaði á mann og lét hann skera hárlokkana sjö af höfði honum. Og hún tók að þjá hann, en afl hans var frá honum horfið.

20 Þá sagði hún: "Filistar yfir þig, Samson!" Þá vaknaði hann af svefninum og hugsaði: Ég slepp í þetta sinn sem hin fyrri og slít mig lausan! En hann vissi ekki, að Drottinn var vikinn frá honum.

21 Filistar tóku hann höndum og stungu úr honum augun og fóru með hann niður til Gasa og bundu hann eirfjötrum, og varð hann að draga kvörn í dýflissunni.

22 En höfuðhár hans tók aftur að vaxa, eftir að það hafði verið skorið.

23 Nú söfnuðust höfðingjar Filista saman til þess að færa Dagón, guði sínum, fórn mikla og til þess að gjöra sér glatt, með því að þeir sögðu: "Guð vor hefir gefið Samson, óvin vorn, í vorar hendur."

24 Og er fólkið sá hann, vegsömuðu þeir guð sinn, því að þeir sögðu: "Guð vor hefir gefið óvin vorn í vorar hendur, hann sem eytt hefir land vort og drepið hefir marga menn af oss."

25 En er þeir nú gjörðust glaðir, sögðu þeir: "Látið sækja Samson, til þess að hann skemmti oss." Létu þeir nú sækja Samson úr dýflissunni, og varð hann að skemmta þeim. Og þeir höfðu sett hann milli súlnanna.

26 Þá sagði Samson við sveininn, sem leiddi hann: "Slepptu mér og leyfðu mér að þreifa á súlunum, sem húsið hvílir á, svo að ég geti stutt mig upp við þær."

27 En húsið var fullt af körlum og konum. Þar voru og allir höfðingjar Filista, og uppi á þakinu voru um þrjú þúsund karla og kvenna, sem horfðu á, er Samson skemmti.

28 Þá hrópaði Samson til Drottins og sagði: "Drottinn Guð! Minnstu mín! Styrk mig nú, Guð, í þetta eina sinn, svo að ég geti hefnt mín á Filistum fyrir bæði augun mín í einu!"

29 Því næst þreif Samson í báðar miðsúlurnar, sem húsið hvíldi á, hægri hendinni í aðra og vinstri hendinni í hina, og treysti á.

30 Þá mælti Samson: "Deyi nú sála mín með Filistum!" Síðan lagðist hann á af öllu afli, svo að húsið féll ofan á höfðingjana og allt fólkið, er í því var, og þeir dauðu, sem hann drap um leið og hann beið bana, voru fleiri en þeir, er hann hafði drepið um ævina.

31 Bræður hans fóru ofan og allt ættfólk hans, og tóku þeir hann og fóru upp þaðan með hann og jörðuðu hann millum Sorea og Estaól, í gröf Manóa föður hans. En hann hafði verið dómari í Ísrael í tuttugu ár.

17 Maður hét Míka. Hann var frá Efraímfjöllum.

Hann sagði við móður sína: "Þeir ellefu hundruð siklar silfurs, sem hafa verið teknir frá þér og þú hefir beðið bölbæna fyrir og talað það í mín eyru, _ sjá, það silfur er nú hjá mér. Ég var sá, sem tók það." Þá sagði móðir hans: "Blessaður veri sonur minn af Drottni."

Síðan skilaði hann móður sinni þessum ellefu hundruð siklum silfurs aftur, og móðir hans sagði: "Ég helga að öllu leyti Drottni silfrið úr minni hendi til heilla fyrir son minn, til þess að úr því verði gjört útskorið og steypt líkneski, og fyrir því fæ ég þér það nú aftur."

Er hann hafði skilað móður sinni aftur silfrinu, þá tók móðir hans tvö hundruð sikla silfurs og fékk þá gullsmið, og hann gjörði úr þeim útskorið og steypt líkneski, og það var í húsi Míka.

Þessi maður, Míka, átti goðahús, og hann bjó til hökullíkneski og húsgoð, og hann vígði einn sona sinna, og varð hann prestur hans.

Í þá daga var enginn konungur í Ísrael. Hver maður gjörði það, er honum vel líkaði.

Í Betlehem í Júda var ungur maður, af ætt Júda. Hann var levíti og var þar dvalarmaður.

Þessi maður fór burt úr borginni Betlehem í Júda til þess að fá sér dvalarvist, hvar sem hann gæti. Og hann kom upp í Efraímfjöll, til húss Míka, og ætlaði að halda áfram ferð sinni.

Míka sagði við hann: "Hvaðan kemur þú?" Hann svaraði honum: "Ég er levíti frá Betlehem í Júda, og er ég á ferðalagi til þess að fá mér dvalarvist, hvar sem ég get."

10 Þá sagði Míka við hann: "Sestu að hjá mér, og skaltu vera faðir minn og prestur, og ég mun gefa þér tíu sikla silfurs um árið og fullan klæðnað og viðurværi þitt." Og levítinn gekk inn til hans.

11 Levítinn lét sér vel líka að setjast að hjá manninum, og fór hann með hinn unga mann sem væri hann einn af sonum hans.

12 Og Míka setti levítann inn í embætti, og varð hinn ungi maður prestur hans og var í húsi Míka.

13 Þá sagði Míka: "Nú veit ég, að Drottinn muni gjöra vel við mig, af því að ég hefi levíta fyrir prest."

18 Í þá daga var enginn konungur í Ísrael, og í þá daga var ættkvísl Daníta að leita sér að arfleifð til búsetu, því að henni hafði eigi til þess dags hlotnast nein arfleifð meðal ættkvísla Ísraels.

Dans synir sendu þá fimm hrausta menn af kynþætti sínum, úr sínum hóp, frá Sorea og Estaól til þess að kanna landið og rannsaka það, og sögðu við þá: "Farið og rannsakið landið." Og þeir komu upp í Efraímfjöll, til húss Míka, og voru þar nætursakir.

Þegar þeir voru staddir hjá húsi Míka, þekktu þeir málfæri hins unga manns, levítans, og viku þangað og sögðu við hann: "Hver hefir fært þig hingað? Hvað hefst þú hér að og hverja kosti hefir þú hér?"

Og hann sagði við þá: "Svo og svo hefir Míka gjört við mig. Hann leigði mig, og gjörðist ég prestur hans."

Þá sögðu þeir við hann: "Gakk þú til frétta við Guð, svo að vér fáum að vita, hvort för sú muni lánast, sem vér nú erum að fara."

Presturinn svaraði þeim: "Farið heilir. Förin, sem þér eruð að fara, er Drottni þóknanleg."

Síðan fóru mennirnir fimm leiðar sinnar og komu til Laís, og sáu þeir að fólkið, sem bjó þar, var óhult um sig að hætti Sídoninga, öruggt og óhult, og að ekki var skortur á neinu þar í landi og að fólkið var auðugt. Þeir voru og langt frá Sídoningum og höfðu engin mök við neinn.

Og þeir komu til bræðra sinna í Sorea og Estaól. Og bræður þeirra sögðu við þá: "Hvað hafið þér að segja?"

Þeir svöruðu: "Af stað! Vér skulum fara í móti þeim, því að vér höfum séð landið, og sjá, það er mjög gott. Og þér eruð aðgjörðalausir! Verið ekki tregir að leggja af stað í ferð þessa til þess að taka landið til eignar.

10 Þegar þér komið þangað, munuð þér hitta ugglaust fólk, og landið er víðáttumikið á allar hliðar, því að Guð hefir gefið það í yðar hendur, land, þar sem ekki er skortur á neinu því, sem til er á jörðinni."

11 Þá tóku sig upp þaðan, frá Sorea og Estaól, sex hundruð menn, búnir hervopnum, af kynþætti Daníta.

12 Héldu þeir norður eftir og settu herbúðir sínar í Kirjat Jearím í Júda. Fyrir því er sá staður kallaður "Dans herbúðir" fram á þennan dag, sjá, það er fyrir vestan Kirjat Jearím.

13 Þaðan fóru þeir yfir á Efraímfjöll og komu til húss Míka.

14 Þá hófu mennirnir fimm máls, þeir er farið höfðu til Laís til þess að kanna landið, og sögðu við frændur sína: "Vitið þér, að í þessum húsum er hökullíkneski, húsgoð, skurðlíkneski og steypt líkneski? Hyggið nú að, hvað þér eigið að gjöra!"

15 Og þeir viku þangað og komu í hús hins unga manns, levítans, í hús Míka, og spurðu hann, hvernig honum liði.

16 En þeir sex hundruð menn, sem voru af sonum Dans, stóðu búnir hervopnum fyrir utan hliðið,

17 og mennirnir fimm, sem farið höfðu að kanna landið, fóru upp og komu þangað, tóku skurðlíkneskið, hökullíkneskið, húsgoðin og steypta líkneskið. En presturinn stóð fyrir utan hliðið og þeir sex hundruð menn, búnir hervopnum.

18 En er þeir voru komnir inn í hús Míka, þá tóku þeir skurðlíkneskið, hökullíkneskið, húsgoðin og steypta líkneskið. Og presturinn sagði við þá: "Hvað hafist þér að?"

19 En þeir svöruðu honum: "Þegi þú! Legg þú hönd þína á munn þér og far með oss, og ver þú faðir vor og prestur! Er þér það betra að vera heimilisprestur eins manns heldur en að vera prestur hjá ættkvísl og kynþætti í Ísrael?"

20 Prestur tók þessu feginsamlega og tók hökullíkneskið, húsgoðin og skurðlíkneskið og slóst í för með mönnunum.

21 Sneru þeir nú á leið og héldu af stað og létu börn og búsmala og verðmæta hluti fara á undan sér.

22 En er þeir voru komnir langt í burt frá húsi Míka, þá voru þeir menn, sem bjuggu í húsunum hjá húsi Míka, kallaðir saman, og eltu þeir Dans syni og náðu þeim.

23 Og þeir kölluðu til Dans sona, og sneru þeir sér þá við og sögðu við Míka: "Hvað stendur til fyrir þér, er þú kemur svo fjölmennur?"

24 Hann svaraði: "Þér hafið tekið guði mína, sem ég hafði gjört mér, og prestinn, og eruð farnir burt. Hvað á ég þá eftir? Hvernig getið þér þá spurt mig: Hvað stendur til fyrir þér?"

25 Þá sögðu Dans synir við hann: "Haf engin orð við oss, ella kynnu gremjufullir menn að ráðast á yður og þú verða valdur að því, að bæði þú og þitt hús týni lífi."

26 Síðan fóru Dans synir leiðar sinnar. En Míka sá, að þeir voru honum ofurefli, og sneri því við og fór aftur heim til sín.

27 Þeir tóku skurðlíkneskið, sem Míka hafði til búið, svo og prestinn, sem hann hafði haft, og réðust á Laís, ugglaust fólk og óhult um sig, og felldu þá með sverðseggjum, en lögðu eld í borgina.

28 Og þar var enginn, sem kæmi þeim til hjálpar, því að borgin lá langt frá Sídon og þeir höfðu ekki mök við nokkurn mann, enda lá borgin í dalnum, sem er hjá Bet-Rehób. Síðan endurreistu þeir borgina og settust þar að.

29 Þeir nefndu borgina Dan, eftir nafni Dans, föður þeirra, er fæddist Ísrael, en í öndverðu hafði borgin heitið Laís.

30 Og Dans synir reistu upp skurðlíkneskið handa sér, og Jónatan Gersómsson, Mósesonar, og synir hans voru prestar hjá ættkvísl Daníta, til þess er fólkið var flutt burt úr landinu.

31 Og þeir settu upp skurðlíkneski Míka handa sér, það er hann hafði til búið, og stóð það alla þá stund er Guðs hús var í Síló.