A A A A A
Bible Book List

Dómarabókin 13-15 Icelandic Bible (ICELAND)

13 Ísraelsmenn gjörðu enn að nýju það, sem illt var í augum Drottins. Þá gaf Drottinn þá í hendur Filistum í fjörutíu ár.

Maður er nefndur Manóa. Hann var frá Sorea, af ætt Daníta. Kona hans var óbyrja og hafði eigi barn alið.

Engill Drottins birtist konunni og sagði við hana: "Sjá, þú ert óbyrja og hefir eigi barn alið, en þú munt þunguð verða og son ala.

Og haf nú gætur á þér, drekk hvorki vín né áfengan drykk, og et ekkert óhreint.

Því sjá, þú munt þunguð verða og ala son, og skal rakhnífur ekki koma á höfuð hans, því að sveinninn skal vera Guði helgaður allt í frá móðurlífi, og hann mun byrja að frelsa Ísrael af hendi Filista."

Þá fór konan og sagði við mann sinn á þessa leið: "Guðsmaður nokkur kom til mín, og var hann ásýndum sem engill Guðs, ægilegur mjög; en ég spurði hann ekki, hvaðan hann væri, og nafn sitt sagði hann mér ekki.

Hann sagði við mig: ,Sjá, þú munt þunguð verða og son ala. Drekk því hvorki vín né áfengan drykk, og et ekkert óhreint, því að sveinninn skal vera Guði helgaður allt í frá móðurlífi til dauðadags."`

Þá bað Manóa Drottin og sagði: "Æ, herra! Lát guðsmanninn, sem þú sendir, koma til okkar aftur, svo að hann megi kenna okkur, hvernig við eigum að fara með sveininn, sem fæðast á."

Guð heyrði bæn Manóa, og engill Guðs kom aftur til konunnar. Var hún þá stödd úti á víðavangi og maður hennar Manóa ekki hjá henni.

10 Þá hljóp konan sem skjótast og sagði manni sínum frá og mælti við hann: "Sjá, maðurinn, sem til mín kom um daginn, hefir birst mér."

11 Þá reis Manóa upp og fór á eftir konu sinni, og hann kom til mannsins og sagði við hann: "Ert þú maðurinn, sem talaði við konuna?" Hann svaraði: "Já."

12 Þá sagði Manóa: "Ef það nú kemur fram, sem þú hefir sagt, hvernig á þá að fara með sveininn, og hvað á hann að gjöra?"

13 Engill Drottins sagði við Manóa: "Konan skal forðast allt það, sem ég hefi sagt henni.

14 Hún skal ekkert það eta, er af vínviði kemur, ekki drekka vín né áfengan drykk, og ekkert óhreint eta. Hún skal gæta alls þess, er ég hefi boðið henni."

15 Þá sagði Manóa við engil Drottins: "Leyf okkur að tefja þig stundarkorn, svo að við getum matbúið handa þér hafurkið."

16 En engill Drottins sagði við Manóa: "Þó að þú fáir mig til að tefja, þá et ég samt ekki af mat þínum. En ef þú vilt tilreiða brennifórn, þá fær þú hana Drottni."

17 Því að Manóa vissi ekki, að það var engill Drottins. Þá sagði Manóa við engil Drottins: "Hvert er nafn þitt? Því að rætist orð þín, munum við tigna þig."

18 Engill Drottins svaraði honum: "Hví spyr þú um nafn mitt? Nafn mitt er undursamlegt."

19 Þá tók Manóa geithafurinn og matfórnina og færði það Drottni á kletti einum. Þá varð undur mikið að þeim Manóa og konu hans ásjáandi.

20 Því að þegar logann lagði upp af altarinu til himins, þá fór engill Drottins upp í altarisloganum. Og er þau Manóa og kona hans sáu það, féllu þau fram á ásjónur sínar til jarðar.

21 Eftir það birtist engill Drottins eigi framar Manóa og konu hans. Þá sá Manóa að það hafði verið engill Drottins.

22 Manóa sagði við konu sína: "Vissulega munum við deyja, því að við höfum séð Guð!"

23 En kona hans svaraði honum: "Ef Drottinn hefði viljað deyða okkur, þá hefði hann eigi þegið brennifórn og matfórn af okkur, né látið okkur sjá allt þetta, og þá hefði hann eigi nú látið okkur heyra slíka hluti."

24 Og konan ól son og nefndi hann Samson; og sveinninn óx upp, og Drottinn blessaði hann.

25 Og andi Drottins tók að knýja hann í herbúðum Dans millum Sorea og Estaól.

14 Samson fór niður til Timna og sá konu eina þar í Timna. Var hún ein af dætrum Filista.

Síðan fór hann heim aftur og sagði föður sínum og móður frá þessu og mælti: "Ég hefi séð konu eina í Timna. Er hún ein af dætrum Filista. Takið þið hana nú mér til handa að eiginkonu."

En faðir hans og móðir sögðu við hann: "Er þá engin kona meðal dætra frænda þinna og í öllu fólki mínu, að þú þurfir að fara og taka þér konu af Filistum, sem eru óumskornir?" Samson svaraði föður sínum: "Tak hana mér til handa, því að hún geðjast augum mínum."

En faðir hans og móðir vissu ekki, að þetta var frá Drottni, og að hann leitaði færis við Filistana. Um þær mundir drottnuðu Filistar yfir Ísrael.

Þá fóru þau Samson og faðir hans og móðir niður til Timna. Og er þau komu að víngörðum Timna, þá kom ungt ljón öskrandi í móti honum.

Þá kom andi Drottins yfir hann, svo að hann sleit það sundur, eins og menn slíta sundur hafurkið, og hann hafði þó ekkert í hendinni. En eigi sagði hann föður sínum né móður frá því, er hann hafði gjört.

Síðan fór Samson ofan og talaði við konuna, og hún geðjaðist augum hans.

Eftir nokkurn tíma kom hann aftur að sækja hana. Vék hann þá af leið til þess að sjá dauða ljónið, og sjá, býflugur voru í ljónshræinu og hunang.

Og hann tók það í lófa sér, hélt síðan áfram og át, og hann fór til föður síns og móður og gaf þeim, og þau átu. En ekki sagði hann þeim frá því, að hann hefði tekið hunangið úr ljónshræinu.

10 Því næst fór faðir hans ofan til konunnar, og gjörði Samson þar veislu, því að sá var háttur ungra manna.

11 En er þeir sáu hann, fengu þeir honum þrjátíu brúðarsveina, er vera skyldu með honum.

12 Og Samson sagði við þá: "Ég mun bera upp fyrir yður gátu eina. Ef þér fáið ráðið hana á þessum sjö veisludögum og getið hennar, þá mun ég gefa yður þrjátíu kyrtla og þrjátíu hátíðaklæðnaði.

13 En ef þér getið ekki ráðið hana, þá skuluð þér gefa mér þrjátíu kyrtla og þrjátíu hátíðaklæðnaði." Þeir svöruðu honum: "Ber þú upp gátu þína, svo að vér megum heyra hana."

14 Þá sagði hann við þá: "Æti gekk út af etanda og sætleiki gekk út af hinum sterka." Og liðu svo þrír dagar að þeir gátu ekki ráðið gátuna.

15 Á fjórða degi sögðu þeir við konu Samsonar: "Ginn þú bónda þinn til að segja oss ráðningu gátunnar, ella munum vér þig í eldi brenna og hús föður þíns. Hafið þér boðið oss til þess að féfletta oss? Er ekki svo?"

16 Þá grét kona Samsonar og sagði við hann: "Hatur hefir þú á mér, en enga ást, þú hefir borið upp gátu fyrir samlöndum mínum, en ekki sagt mér ráðningu hennar." Hann svaraði henni: "Sjá, ég hefi ekki sagt föður mínum og móður minni ráðningu hennar og ætti þó að segja þér hana?"

17 Og hún grét og barmaði sér við hann sjö dagana, sem veislan stóð yfir, og á sjöunda degi sagði hann henni ráðninguna, af því að hún gekk svo fast á hann. En hún sagði samlöndum sínum ráðningu gátunnar.

18 Þá sögðu borgarmenn við hann á sjöunda degi, áður sól settist: "Hvað er sætara en hunang? Og hvað er sterkara en ljón?" Samson sagði við þá: "Ef þér hefðuð ekki erjað með kvígu minni, munduð þér ekki hafa ráðið gátu mína."

19 Þá kom andi Drottins yfir hann, svo að hann fór ofan til Askalon og drap þrjátíu menn af þeim, tók klæðnaði þeirra og gaf þá þeim að hátíðaklæðum, er ráðið höfðu gátuna. Og hann varð ákaflega reiður og fór upp til húss föður síns.

20 En kona Samsonar giftist brúðarsveini hans, þeim er hann hafði valið sér að svaramanni.

15 Að nokkrum tíma liðnum kom Samson um hveitiuppskerutímann að vitja konu sinnar og hafði með sér hafurkið. Og hann sagði við föður hennar: "Leyf mér að ganga inn í afhýsið til konu minnar!" En faðir hennar vildi ekki leyfa honum inn að ganga.

Og faðir hennar sagði: "Ég var fullviss um, að þú hefðir fengið megna óbeit á henni og gifti hana því brúðarsveini þínum, en yngri systir hennar er fríðari en hún, hana skalt þú fá í hennar stað."

Þá sagði Samson við þá: "Nú ber ég enga sök á því við Filista, þó að ég vinni þeim mein."

Síðan fór Samson og veiddi þrjú hundruð refi, tók blys, sneri hölunum saman og batt eitt blys millum hverra tveggja hala.

Síðan kveikti hann í blysunum og sleppti því næst refunum inn á kornakra Filista og brenndi þannig bæði kerfaskrúf, óslegið korn, víngarða og olíugarða.

Þá sögðu Filistar: "Hver hefir gjört þetta?" Og menn svöruðu: "Samson, tengdasonur Timnítans, því að hann hefir tekið frá honum konuna og gift hana brúðarsveini hans." Þá fóru Filistar upp þangað og brenndu hana inni og föður hennar.

En Samson sagði við þá: "Fyrst þér aðhafist slíkt, mun ég ekki hætta fyrr en ég hefi hefnt mín á yður."

Síðan barði hann svo óþyrmilega á þeim, að sundur gengu lær og leggir. Og hann fór þaðan og settist að í Etamklettaskoru.

Þá fóru Filistar upp eftir og settu herbúðir sínar í Júda og dreifðu sér um Lekí.

10 Og Júdamenn sögðu: "Hví hafið þér farið í móti oss?" En þeir svöruðu: "Vér erum hingað komnir til þess að binda Samson, svo að vér megum með hann fara sem hann hefir farið með oss."

11 Þá fóru þrjú þúsund manns frá Júda ofan til Etamklettaskoru og sögðu við Samson: "Veist þú ekki, að Filistar drottna yfir oss? Hví hefir þú þá gjört oss þetta?" Hann svaraði þeim: "Eins og þeir fóru með mig, svo hefi ég farið með þá."

12 Þeir sögðu við hann: "Vér erum hingað komnir til að binda þig, svo að vér getum selt þig í hendur Filista." Þá sagði Samson við þá: "Vinnið mér eið að því, að þér sjálfir skulið ekki drepa mig."

13 Þeir svöruðu honum: "Nei, vér munum aðeins binda þig og selja þig í hendur þeirra _ en drepa þig munum vér ekki." Og þeir bundu hann með tveimur reipum nýjum og fóru með hann burt frá klettinum.

14 En er Samson kom til Lekí, fóru Filistar með ópi miklu í móti honum. Þá kom andi Drottins yfir hann, og urðu reipin, sem voru um armleggi hans, sem þræðir í eldi brunnir, og hrukku fjötrarnir sundur af höndum hans.

15 Og hann fann nýjan asnakjálka, rétti út höndina og tók hann og laust með honum þúsund manns.

16 Þá sagði Samson: "Með asnakjálka hefi ég gjörsamlega flegið þá, með asnakjálka hefi ég banað þúsund manns!"

17 Og er hann hafði mælt þetta, varpaði hann kjálkanum úr hendi sér, og var þessi staður upp frá því nefndur Ramat Lekí.

18 En Samson var mjög þyrstur og hrópaði því til Drottins og mælti: "Þú hefir veitt þennan mikla sigur fyrir hönd þjóns þíns, en nú hlýt ég að deyja af þorsta og falla í hendur óumskorinna manna!"

19 Þá klauf Guð holuna, sem var í Lekí, svo að vatn rann fram úr henni. En er hann hafði drukkið, kom andi hans aftur og hann lifnaði við. Fyrir því var hún nefnd Hrópandans lind. Hún er í Lekí fram á þennan dag.

20 En Samson var dómari í Ísrael um daga Filista í tuttugu ár.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes