Add parallel Print Page Options

10 Eftir Abímelek reis upp Tóla Púason, Dódóssonar, maður af Íssakar, til að frelsa Ísrael. Hann bjó í Samír á Efraímfjöllum,

og var hann dómari í Ísrael í tuttugu og þrjú ár. Síðan andaðist hann og var grafinn í Samír.

Eftir hann reis upp Jaír Gíleaðíti og var dómari í Ísrael í tuttugu og tvö ár.

Hann átti þrjátíu sonu, sem riðu á þrjátíu ösnufolum, þeir áttu þrjátíu borgir. Eru þær kallaðar Jaírs-þorp allt fram á þennan dag. Þær liggja í Gíleaðlandi.

Síðan andaðist Jaír og var grafinn í Kamón.

Ísraelsmenn gjörðu enn að nýju það, sem illt var í augum Drottins, og dýrkuðu Baala og Astörtur, guði Arams, guði Sídonar, guði Móabs, guði Ammóníta og guði Filista, og yfirgáfu Drottin og dýrkuðu hann ekki.

Þá upptendraðist reiði Drottins gegn Ísrael, og hann seldi þá í hendur Filistum og í hendur Ammónítum.

Og þeir þjáðu og þjökuðu Ísraelsmenn það ár. Í átján ár þjökuðu þeir alla Ísraelsmenn, sem bjuggu hinumegin Jórdanar í landi Amoríta, þá er bjuggu í Gíleað.

Enn fremur fóru Ammónítar yfir Jórdan til þess að herja einnig á Júda, Benjamín og Efraíms hús, svo að Ísrael komst í miklar nauðir.

10 Þá hrópuðu Ísraelsmenn til Drottins og sögðu: "Vér höfum syndgað móti þér, því að vér höfum yfirgefið Guð vorn og dýrkað Baala."

11 En Drottinn sagði við Ísraelsmenn: "Hafa ekki Egyptar, Amorítar, Ammónítar, Filistar,

12 Sídoningar, Amalekítar og Midíanítar kúgað yður? Þá hrópuðuð þér til mín og ég frelsaði yður úr höndum þeirra.

13 En þér hafið yfirgefið mig og dýrkað aðra guði. Fyrir því vil ég eigi framar hjálpa yður.

14 Farið og hrópið til guða þeirra, er þér hafið kjörið. Hjálpi þeir yður, þegar þér eruð í nauðum."

15 Þá sögðu Ísraelsmenn við Drottin: "Vér höfum syndgað. Gjör við oss rétt sem þér líkar, frelsa oss aðeins í dag."

16 Síðan köstuðu þeir burt frá sér útlendu guðunum og dýrkuðu Drottin. Eirði hann þá illa eymd Ísraels.

17 Þá var Ammónítum stefnt saman, og settu þeir herbúðir sínar í Gíleað. Og Ísraelsmenn söfnuðust saman og settu herbúðir sínar í Mispa.

18 En lýðurinn, höfðingjarnir í Gíleað sögðu hver við annan: "Hver er sá maður, er fyrstur vill hefja ófrið við Ammóníta? Hann skal vera höfðingi yfir öllum Gíleaðbúum!"

11 Jefta Gíleaðíti var kappi mikill, en hann var skækjuson. Gíleað hafði getið Jefta,

og er kona Gíleaðs fæddi honum sonu og synir hennar uxu upp, þá ráku þeir Jefta burt og sögðu við hann: "Eigi skalt þú taka arf í ætt vorri, því að þú ert sonur annarrar konu."

Þá flýði Jefta burt frá bræðrum sínum og settist að í landinu Tób. Þá söfnuðust til Jefta lausingjar og fylgdu þeir honum.

Nokkrum tíma eftir þetta hófu Ammónítar hernað á hendur Ísrael.

En er Ammónítar herjuðu á Ísrael, lögðu öldungarnir í Gíleað af stað til þess að sækja Jefta í landið Tób.

Og þeir sögðu við Jefta: "Kom þú og ver þú fyrirliði vor, og munum vér berjast við Ammóníta."

Jefta sagði við öldungana í Gíleað: "Hafið þér ekki lagt hatur á mig og rekið mig burt úr ætt minni? Hví komið þér þá nú til mín, þá er þér eruð í nauðum staddir?"

Öldungarnir í Gíleað sögðu við Jefta: "Fyrir því erum vér nú aftur komnir til þín, og ef þú fer með oss og berst við Ammóníta, þá skalt þú vera höfðingi vor, allra þeirra er búa í Gíleað."

Þá sagði Jefta við öldungana í Gíleað: "Ef þér sækið mig til þess að berjast við Ammóníta, og Drottinn gefur þá á mitt vald, þá vil ég vera höfðingi yfir yður!"

10 Þá sögðu öldungarnir í Gíleað við Jefta: "Drottinn veri heyrnarvottur að tali voru og hegni oss, ef vér gjörum eigi það, sem þú hefir mælt."

11 Og Jefta fór með öldungunum í Gíleað, og lýðurinn tók hann til höfðingja yfir sig og fyrirliða. Og Jefta talaði öll orð sín frammi fyrir Drottni í Mispa.

12 Þá gjörði Jefta sendimenn á fund konungs Ammóníta og lét segja honum: "Hvað er þér á höndum við mig, er þú hefir farið í móti mér til þess að herja á land mitt?"

13 Konungur Ammóníta svaraði sendimönnum Jefta: "Ísrael lagði undir sig land mitt, þá er hann fór af Egyptalandi, frá Arnon til Jabbok og að Jórdan. Skila þú því nú aftur með góðu!"

14 Jefta gjörði enn menn á fund Ammónítakonungs

15 og lét segja honum: "Svo segir Jefta: Ísrael lagði ekki undir sig Móabsland né land Ammóníta,

16 því að þegar þeir fóru af Egyptalandi og Ísrael hafði farið um eyðimörkina að Sefhafi og var kominn til Kades,

17 þá gjörði Ísrael menn á fund Edómkonungs og lét segja honum: ,Leyf mér að fara um land þitt!` En Edómkonungur daufheyrðist við. Þá sendi hann og til Móabskonungs, en hann vildi ekki. Hélt Ísrael nú kyrru fyrir í Kades,

18 hélt síðan áfram um eyðimörkina og fór í bug kringum Edómland og Móabsland og kom austan að Móabslandi og setti búðir sínar hinumegin Arnon. En inn yfir landamæri Móabs komu þeir ekki, því að Arnon ræður landamærum Móabs.

19 Þá gjörði Ísrael sendimenn á fund Síhons Amorítakonungs, konungs í Hesbon, og Ísrael lét segja honum: ,Leyf oss að fara um land þitt, þangað sem ferðinni er heitið.`

20 En Síhon treysti eigi Ísrael svo, að hann vildi leyfa honum að fara um land sitt, heldur safnaði Síhon öllu liði sínu, og settu þeir herbúðir sínar í Jahsa, og hann barðist við Ísrael.

21 En Drottinn, Ísraels Guð, gaf Síhon og allt hans lið í hendur Ísraels, svo að þeir unnu sigur á þeim, og lagði Ísrael undir sig allt land Amoríta, er byggðu það land.

22 Lögðu þeir þannig undir sig allt land Amoríta frá Arnon að Jabbok, og frá eyðimörkinni að Jórdan.

23 Drottinn, Guð Ísraels, hefir því stökkt Amorítum burt undan lýð sínum Ísrael, og nú ætlar þú að taka land hans til eignar?

24 Hvort tekur þú ekki til eignar það, sem Kamos, guð þinn, gefur þér til eignar? Svo tökum vér og til eignar land allra þeirra, sem Drottinn, Guð vor, stökkvir burt undan oss.

25 Og hvort munt þú nú vera nokkru betri en Balak Sippórsson, konungur í Móab? Átti hann í deilum við Ísrael eða fór hann með hernað á hendur þeim?

26 Þar sem Ísrael hefir búið í Hesbon og smáborgunum, er að liggja, og í Aróer og smáborgunum, er að liggja, og í öllum borgunum, sem liggja meðfram Arnon báðumegin, í þrjú hundruð ár, hvers vegna hafið þér þá ekki náð þeim aftur allan þennan tíma?

27 Ég hefi ekki gjört þér neitt mein, en þú beitir mig ranglæti, er þú herjar á mig. Drottinn, dómarinn, dæmi í dag milli Ísraelsmanna og Ammóníta!"

28 En konungur Ammóníta sinnti ekki orðum Jefta, þeim er hann lét færa honum.

29 Þá kom andi Drottins yfir Jefta, og hann fór um Gíleað og Manasse og hann fór til Mispe í Gíleað, og frá Mispe í Gíleað fór hann í móti Ammónítum.

30 Og Jefta gjörði Drottni heit og sagði: "Ef þú gefur Ammóníta í hendur mér,

31 þá skal sá, er fyrstur gengur út úr dyrum húss míns í móti mér, er ég sný aftur heilu og höldnu frá Ammónítum, heyra Drottni, og skal ég fórna honum að brennifórn."

32 Síðan fór Jefta í móti Ammónítum til þess að berjast við þá, og Drottinn gaf þá í hendur honum.

33 Hann vann mjög mikinn sigur á þeim frá Aróer alla leið til Minnít, tuttugu borgir, og til Abel-Keramím. Þannig urðu Ammónítar að lúta í lægra haldi fyrir Ísraelsmönnum.

34 En er Jefta kom heim til húss síns í Mispa, sjá, þá gekk dóttir hans út í móti honum með bumbum og dansi. Hún var einkabarnið hans. Hann átti engan son né dóttur nema hana.

35 Og er hann sá hana, reif hann klæði sín og sagði: "Æ, dóttir mín, mjög beygir þú mig nú. Sjálf veldur þú mér nú sárustum trega. Ég hefi upp lokið munni mínum gagnvart Drottni, og ég get ekki tekið það aftur."

36 En hún sagði við hann: "Faðir minn, ef þú hefir upp lokið munni þínum gagnvart Drottni, þá gjör þú við mig eins og fram gengið er af munni þínum, fyrst Drottinn hefir látið þig koma fram hefndum á óvinum þínum, Ammónítum."

37 Og enn sagði hún við föður sinn: "Gjör þetta fyrir mig: Lát mig fá tveggja mánaða frest, svo að ég geti farið hér ofan í fjöllin og grátið það með stallsystrum mínum, að ég verð að deyja ung mær."

38 Hann sagði: "Far þú!" og lét hana burt fara í tvo mánuði. Fór hún þá burt með stallsystrum sínum og grét það á fjöllunum, að hún varð að deyja ung mær.

39 En að tveim mánuðum liðnum sneri hún aftur til föður síns, og hann gjörði við hana samkvæmt heiti því, er hann hafði unnið. En hún hafði aldrei karlmann kennt. Og varð það siður í Ísrael:

40 Ár frá ári fara Ísraels dætur að lofsyngja dóttur Jefta Gíleaðíta, fjóra daga á ári hverju.

12 Efraímsmönnum var stefnt saman. Þeir héldu í norður og sögðu við Jefta: "Hví hefir þú farið að berjast við Ammóníta og eigi kvatt oss þér til fylgdar? Nú munum vér leggja eld í hús þitt yfir þér."

Þá sagði Jefta við þá: "Ég og þjóð mín áttum í miklum deilum við Ammóníta. Beiddist ég þá liðs hjá yður, en þér hjálpuðuð mér ekki úr höndum þeirra.

Og er ég sá, að þér ætluðuð ekki að hjálpa mér, þá lagði ég líf mitt í hættu og fór í móti Ammónítum, og Drottinn gaf þá í hendur mér. Hvers vegna komið þér þá í dag til mín til þess að berjast við mig?"

Og Jefta safnaði saman öllum mönnum í Gíleað og barðist við Efraímíta, og unnu Gíleaðsmenn sigur á Efraímítum, því að Efraímítar höfðu sagt: "Þér eruð flóttamenn frá Efraím! Gíleað liggur mitt í Efraím, mitt í Manasse."

Gíleaðítar settust um Jórdanvöðin yfir til Efraím. Og þegar flóttamaður úr Efraím sagði: "Leyf mér yfir um!" þá sögðu Gíleaðsmenn við hann: "Ert þú Efraímíti?" Ef hann svaraði: "Nei!"

þá sögðu þeir við hann: "Segðu ,Sjibbólet."` Ef hann þá sagði: "Sibbólet," og gætti þess eigi að bera það rétt fram, þá gripu þeir hann og drápu hann við Jórdanvöðin. Féllu þá í það mund af Efraím fjörutíu og tvær þúsundir.

Jefta var dómari í Ísrael í sex ár. Síðan andaðist Jefta Gíleaðíti og var grafinn í einni af Gíleaðs borgum.

Eftir Jefta var Íbsan frá Betlehem dómari í Ísrael.

Hann átti þrjátíu sonu, og þrjátíu dætur gifti hann burt frá sér, og þrjátíu konur færði hann sonum sínum annars staðar að. Hann var dómari í Ísrael í sjö ár.

10 Síðan andaðist Íbsan og var grafinn í Betlehem.

11 Eftir hann var Elón Sebúloníti dómari í Ísrael. Hann var dómari í Ísrael í tíu ár.

12 Síðan andaðist Elón Sebúloníti og var grafinn í Ajalon í Sebúlon-landi.

13 Eftir hann var Abdón Híllelsson Píratóníti dómari í Ísrael.

14 Hann átti fjörutíu sonu og þrjátíu sonasonu, sem riðu sjötíu ösnufolum. Hann var dómari í Ísrael í átta ár.

15 Síðan andaðist Abdón Híllelsson Píratóníti og var grafinn í Píratón í Efraímlandi á Amalekítafjöllum.