Add parallel Print Page Options

Allir konungar Amoríta, þeirra er bjuggu fyrir vestan Jórdan, og allir konungar Kanaaníta, sem búa við hafið, heyrðu, að Drottinn hefði þurrkað vatnið í Jórdan fyrir Ísraelsmönnum, uns þeir voru komnir yfir um. Þá kom þeim æðra í brjóst og þeim féllst hugur fyrir Ísraelsmönnum.

Í það mund sagði Drottinn við Jósúa: "Gjör þér steinhnífa og umsker Ísraelsmenn öðru sinni."

Jósúa gjörði sér þá steinhnífa og umskar Ísraelsmenn á Yfirhúðahæð.

En sú var orsök til þess, að Jósúa umskar þá, að allur lýðurinn, sem af Egyptalandi fór, karlmennirnir, allir vígir menn, höfðu dáið í eyðimörkinni á leiðinni, eftir að þeir voru farnir af Egyptalandi.

Allir þeir, er þaðan fóru, höfðu verið umskornir, en allir þeir, sem fæðst höfðu í eyðimörkinni á leiðinni eftir brottför þeirra af Egyptalandi, höfðu eigi verið umskornir.

Í fjörutíu ár fóru Ísraelsmenn um eyðimörkina, uns allt það fólk, allir vígir menn, er farið höfðu af Egyptalandi, voru dánir, því að þeir hlýddu ekki raust Drottins. Þess vegna hafði Drottinn svarið þeim, að þeir skyldu ekki fá að sjá landið, sem hann sór feðrum þeirra að gefa oss, _ land, sem flýtur í mjólk og hunangi.

En hann hafði látið sonu þeirra koma í þeirra stað. Þá umskar Jósúa, því að þeir voru óumskornir, þar eð þeir höfðu eigi verið umskornir á leiðinni.

Er gjörvallt fólkið hafði verið umskorið, héldu þeir kyrru fyrir, hver á sínum stað, í herbúðunum, uns þeir voru grónir.

Þá sagði Drottinn við Jósúa: "Í dag hefi ég velt af yður brigsli Egypta!" Fyrir því heitir þessi staður Gilgal fram á þennan dag.

10 Þegar Ísraelsmenn höfðu sett búðir sínar í Gilgal, héldu þeir páska á Jeríkóvöllum, hinn fjórtánda dag mánaðarins, að kveldi.

11 Og daginn eftir páska átu þeir ósýrð brauð og bakað korn af gróðri landsins, einmitt þennan dag.

12 Daginn eftir þraut manna, er þeir átu af gróðri landsins, og upp frá því fengu Ísraelsmenn ekki manna, heldur átu þeir af gróðri Kanaanlands það árið.

13 Það bar til, er Jósúa var staddur hjá Jeríkó, að hann leit upp og sá, hvar maður stóð gegnt honum með brugðið sverð í hendi. Jósúa gekk til hans og sagði við hann: "Hvort ert þú vor maður eða af óvinum vorum?"

14 Hann svaraði: "Nei! heldur er ég fyrirliði fyrir hersveit Drottins. Nú er ég kominn." Þá féll Jósúa fram á ásjónu sína til jarðar, laut og sagði: "Hvað vilt þú, herra, mæla við þjón þinn?"

15 Þá sagði fyrirliðinn fyrir hersveit Drottins við Jósúa: "Drag skó þína af fótum þér, því að það er heilagur staður, er þú stendur á!" Og Jósúa gjörði svo.

Hliðum Jeríkó hafði verið lokað, og var borgin harðlokuð vegna Ísraelsmanna, svo að enginn maður komst þar út né inn.

Þá sagði Drottinn við Jósúa: "Sjá, nú gef ég Jeríkó í þínar hendur, konung hennar og kappa.

Og þér skuluð, allir vígir menn, ganga kringum borgina, hringinn í kringum borgina einu sinni. Svo skalt þú gjöra í sex daga.

Og sjö prestar skulu bera sjö lúðra úr hrútshornum fyrir örkinni, og sjöunda daginn skuluð þér ganga sjö sinnum kringum borgina, og prestarnir þeyta lúðrana.

En þegar hrútshornið kveður við, þá skal allur lýðurinn æpa heróp mikið, jafnskjótt og þér heyrið lúðurhljóminn. Mun þá borgarmúrinn hrynja til grunna og lýðurinn mega upp ganga, hver þar sem hann er staddur."

Þá lét Jósúa Núnsson kalla prestana og sagði við þá: "Þér skuluð bera sáttmálsörkina, og sjö prestar skulu bera sjö lúðra úr hrútshornum fyrir örk Drottins."

Og við lýðinn sagði hann: "Farið og gangið kringum borgina, en þeir sem hertygjaðir eru, skulu fara fyrir örk Drottins."

Er Jósúa hafði talað til lýðsins, gengu sjö prestarnir, þeir er báru lúðrana sjö úr hrútshornunum, fram fyrir augliti Drottins og þeyttu lúðrana, en sáttmálsörk Drottins fór á eftir þeim.

Þeir sem hertygjaðir voru, gengu á undan prestunum, þeim sem lúðrana þeyttu, en múgurinn fylgdi eftir örkinni, og var í sífellu blásið í lúðrana.

10 Og Jósúa bauð lýðnum á þessa leið: "Þér skuluð ekki æpa heróp og enga háreysti gjöra og ekkert orð mæla, fyrr en ég segi við yður: ,Æpið nú heróp!` Þá skuluð þér æpa heróp."

11 Og hann lét fara með örk Drottins hringinn í kringum borgina einu sinni. Síðan gengu menn til herbúðanna og voru um nóttina í herbúðunum.

12 Jósúa reis árla um morguninn. Tóku nú prestarnir örk Drottins,

13 og prestarnir sjö, þeir er báru lúðrana sjö úr hrútshornunum fyrir örk Drottins, gengu og þeyttu lúðrana í sífellu, og þeir, sem hertygjaðir voru, gengu á undan þeim, en múgurinn fylgdi eftir örk Drottins, og var í sífellu blásið í lúðrana.

14 Þeir gengu og einu sinni kringum borgina annan daginn, fóru síðan aftur til herbúðanna. Svo gjörðu þeir í sex daga.

15 Hinn sjöunda dag risu þeir, þegar er lýsti af degi, og gengu með sama hætti kringum borgina sjö sinnum. Þennan daginn gengu þeir sjö sinnum kringum borgina.

16 En í sjöunda sinnið þeyttu prestarnir lúðrana. Þá sagði Jósúa við lýðinn: "Æpið nú heróp, því að Drottinn hefir gefið yður borgina.

17 En borgin skal með banni helguð Drottni og allt sem í henni er. Portkonan Rahab ein skal lífi halda, svo og allir þeir, sem með henni eru í húsinu, því að hún leyndi sendimönnunum, er vér sendum.

18 Gætið yðar aðeins fyrir hinu bannfærða, að þér eigi girnist neitt af því og takið það, og leiðið með því bannfæring yfir herbúðir Ísraels og stofnið þeim í ógæfu.

19 Allt silfur og gull, og allir hlutir, sem af eiri eða járni eru gjörðir, skulu vera Drottni helgaðir og koma í féhirslu Drottins."

20 Þá æpti lýðurinn heróp, og þeir þeyttu lúðrana. Og er lýðurinn heyrði lúðurhljóminn, æpti lýðurinn heróp mikið. Hrundi þá múrinn til grunna, en lýðurinn gekk inn í borgina, hver þar sem hann var staddur. Þannig unnu þeir borgina.

21 Og þeir bannfærðu allt, sem í borginni var, bæði karla og konur, unga og gamla, naut og sauði og asna, með sverðseggjum.

22 En við mennina tvo, er kannað höfðu landið, sagði Jósúa: "Farið í hús portkonunnar og leiðið burt þaðan konuna og alla, sem henni heyra, eins og þið sóruð henni."

23 Fóru þá sveinarnir, þeir er njósnað höfðu, og leiddu Rahab burt, föður hennar og móður, bræður hennar og alla, sem henni heyrðu. Þeir leiddu og burt alla ættmenn hennar og settu þá fyrir utan herbúðir Ísraels.

24 En borgina brenndu þeir í eldi og allt, sem í henni var. Aðeins silfur og gull og hluti þá, sem af eiri eða járni voru gjörðir, lögðu þeir í féhirslu húss Drottins.

25 En portkonunni Rahab og ættliði föður hennar gaf Jósúa líf, svo og öllum þeim, er henni heyrðu, og bjó hún og niðjar hennar meðal Ísraels upp frá því fram á þennan dag, fyrir því að hún leyndi sendimönnunum, er Jósúa hafði sent til þess að kanna Jeríkó.

26 Í það mund lýsti Jósúa þessari bannfæringu: "Bölvaður sé sá maður fyrir Drottni, sem fer til og reisir að nýju þessa borg, Jeríkó! Frumgetning sinn skal hann missa, þegar hann leggur undirstöður hennar, og yngsta son sinn, er hann reisir hlið hennar."

27 En Drottinn var með Jósúa, og barst orðstír hans um allt landið.

En Ísraelsmenn fóru sviksamlega með hið bannfærða. Akan Karmíson, Sabdísonar, Serakssonar, af Júda ættkvísl, tók af hinu bannfærða. Upptendraðist þá reiði Drottins gegn Ísraelsmönnum.

Nú sendi Jósúa menn frá Jeríkó til Aí, sem er hjá Betaven, fyrir austan Betel, og sagði við þá: "Farið og kannið landið." Og mennirnir fóru og könnuðu Aí.

Þeir sneru aftur til Jósúa og sögðu við hann: "Lát ekki allan lýðinn fara upp þangað. Hér um bil tvær eða þrjár þúsundir manna geta farið og unnið Aí. Ómaka eigi allan lýðinn þangað, því að þeir eru fáliðaðir fyrir."

Þá fóru þangað hér um bil þrjár þúsundir manns af lýðnum, en þeir flýðu fyrir Aí-mönnum.

Og Aí-menn felldu hér um bil þrjátíu og sex menn af þeim og eltu þá frá borgarhliðinu alla leið að grjótnámunum og unnu sigur á þeim í hlíðinni. Þá æðraðist lýðurinn og varð að gjalti.

Jósúa reif klæði sín og féll fram á ásjónu sína til jarðar fyrir örk Drottins og lá þar allt til kvelds, hann og öldungar Ísraels, og jusu mold yfir höfuð sér.

Og Jósúa sagði: "Æ, Drottinn Guð, hví leiddir þú lýð þennan yfir Jórdan, ef þú selur oss nú í hendur Amorítum, til þess að þeir gjöri út af við oss? Ó að vér hefðum látið oss það lynda að vera kyrrir hinumegin Jórdanar!

Æ, Drottinn, hvað á ég að segja, nú þegar Ísrael hefir orðið að flýja fyrir óvinum sínum?

Og þegar Kanaanítar og aðrir landsbúar spyrja þetta, munu þeir umkringja oss og afmá nafn vort af jörðinni. Hvað ætlar þú þá að gjöra til að halda uppi þínu mikla nafni?"

10 Drottinn sagði við Jósúa: "Rís þú upp! Hví liggur þú hér fram á ásjónu þína?

11 Ísrael hefir syndgað, þeir hafa rofið sáttmála minn, þann er ég bauð þeim að halda. Þeir hafa tekið af hinu bannfærða, þeir hafa stolið, þeir hafa leynt því og lagt það hjá sínum munum.

12 Fyrir því fá Ísraelsmenn eigi staðist fyrir óvinum sínum, heldur leggja þeir á flótta fyrir þeim, því að þeir eru í banni. Ég vil eigi vera með yður eftir þetta, ef þér eyðið eigi hinu bannfærða, sem meðal yðar er.

13 Rís þú upp, helga þú lýðinn og seg: ,Helgið yður til morgundagsins,` því að svo segir Drottinn, Ísraels Guð: ,Bannfærðir hlutir eru hjá þér, Ísrael! Þú munt eigi fá staðist fyrir óvinum þínum, uns þér hafið komið hinum bannfærðu hlutum burt frá yður.`

14 Á morgun snemma skuluð þér leiddir verða fram eftir ættkvíslum yðar, og sú ættkvísl, sem Drottinn lætur hlut falla á, skal ganga fram eftir kynþáttum, og sá kynþáttur, sem Drottinn lætur hlut falla á, skal ganga fram eftir ættum, og af þeirri ætt, sem Drottinn lætur hlut falla á, skulu karlmennirnir ganga fram, hver út af fyrir sig.

15 En þann skal brenna í eldi, sem hið bannfærða finnst hjá, svo og allt, sem hann á, því að hann hefir rofið sáttmála Drottins og framið óhæfuverk í Ísrael."

16 Jósúa reis árla morguninn eftir og leiddi Ísrael fram, hverja ættkvísl út af fyrir sig. Kom þá upp hlutur Júda ættkvíslar.

17 Þá leiddi hann fram kynþáttu Júda, og kom upp hlutur Seraks kynþáttar. Því næst leiddi hann fram kynþátt Seraks, hverja ætt út af fyrir sig, og kom upp hlutur Sabdí ættar.

18 Síðan leiddi hann fram ætt hans, hvern karlmann út af fyrir sig, og kom þá upp hlutur Akans Karmísonar, Sabdísonar, Serakssonar, af Júda ættkvísl.

19 Þá sagði Jósúa við Akan: "Sonur minn, gef þú Drottni, Ísraels Guði, dýrðina og gjör játningu fyrir honum. Seg mér, hvað þú hefir gjört, leyn mig engu."

20 Akan svaraði Jósúa og sagði: "Sannlega hefi ég syndgað gegn Drottni, Ísraels Guði. Svo og svo hefi ég gjört.

21 Ég sá meðal herfangsins fagra skikkju sínearska, tvö hundruð sikla silfurs, og gullstöng eina, er vó fimmtíu sikla. Ég ágirntist þetta og tók það. Og sjá, það er fólgið í jörðu í tjaldi mínu og silfrið undir."

22 Jósúa sendi þá sendimenn þangað. Þeir runnu til tjaldsins, og sjá, það var fólgið í tjaldi hans, og silfrið undir.

23 Og þeir tóku það úr tjaldinu og færðu það Jósúa og öllum Ísraelsmönnum og lögðu það niður frammi fyrir Drottni.

24 Þá tók Jósúa Akan Seraksson, silfrið, skikkjuna, gullstöngina, sonu hans og dætur, uxa hans, asna og sauðfé, svo og tjald hans og allt, sem hann átti, í viðurvist alls Ísraels, og fór með það upp í Akordal.

25 Þá sagði Jósúa: "Hví hefir þú stofnað oss í ógæfu? Drottinn stofni þér í ógæfu í dag!" Og allur Ísrael lamdi hann grjóti, og þeir brenndu þá í eldi og grýttu þá.

26 Gjörðu þeir steindys mikla yfir hann, og er hún þar enn í dag. Og Drottinn lét af hinni brennandi reiði sinni. Fyrir því heitir þessi staður Akordalur allt fram á þennan dag.

Drottinn sagði við Jósúa: "Óttast þú eigi og lát eigi hugfallast. Tak með þér allt herliðið, og tak þig upp og far til Aí. Sjá, ég mun gefa konunginn í Aí, fólk hans, borg og land í þínar hendur.

Og þú skalt fara með Aí og konung hennar eins og þú fórst með Jeríkó og konung hennar. Þó megið þér taka herfang það og fénað þann, sem þar er, yður til handa. Settu launsátur að baki borgarinnar."

Þá tók Jósúa sig upp með allt herliðið og hélt til Aí. En Jósúa valdi nú þrjátíu þúsundir hraustra manna og sendi þá af stað um nóttina

og lagði svo fyrir þá: "Sjáið til! Þér skuluð liggja í launsátri að baki borgarinnar, en verið ekki mjög langt frá borginni og verið allir viðbúnir.

Sjálfur mun ég fara til borgarinnar með alla mína menn, og er þeir fara út í móti oss, eins og hið fyrra sinnið, munum vér flýja undan þeim.

Og þeir munu veita oss eftirför, uns vér höfum teygt þá burt frá borginni, því að þeir munu segja: ,Nú flýja þeir fyrir oss, eins og hið fyrra sinnið,` og vér munum flýja fyrir þeim.

Þá skuluð þér spretta upp úr launsátrinu og taka borgina, því að Drottinn, Guð yðar, mun gefa hana á yðar vald.

En er þér hafið tekið borgina herskildi, skuluð þér leggja eld í borgina. Gjörið það, sem Drottinn segir. Gefið nú gætur að; ég hefi boðið yður það."

Sendi Jósúa þá nú af stað, og fóru þeir í launsátrið og námu staðar milli Betel og Aí, vestanvert við Aí. En Jósúa hafðist við um nóttina meðal lýðsins.

10 Morguninn eftir reis Jósúa árla og kannaði liðið. Fór hann því næst sjálfur og öldungar Ísraels fyrir liðinu upp til Aí.

11 Og allt herliðið, sem með honum var, fór upp þangað. Héldu þeir fram, þar til er þeir komu gegnt borginni. Þar settu þeir herbúðir sínar fyrir norðan Aí, og var dalurinn milli þeirra og Aí.

12 Því næst tók hann um fimm þúsundir manns og setti þá í launsátur milli Betel og Aí, vestanvert við borgina.

13 Þeir fylktu nú liðinu, öllum hernum, sem var fyrir norðan borgina, og afturliðinu fyrir vestan borgina. En Jósúa fór þessa sömu nótt ofan í dalinn miðjan.

14 Er konungurinn í Aí varð þessa vís, höfðu borgarmenn hraðan á, risu árla og fóru út í móti Ísrael til orustu, hann og allt hans lið, á ákveðnum stað gegnt Jórdandalnum. En hann vissi ekki, að honum var búin launsát að borgar baki.

15 En Jósúa og allur Ísrael létust bíða ósigur fyrir þeim og flýðu á leið til eyðimerkurinnar.

16 Voru þá allir menn, er í borginni voru, kvaddir til að reka flóttann, og veittu þeir Jósúa eftirför og létu teygjast burt frá borginni.

17 Varð enginn maður eftir í Aí og Betel, sá er eigi færi eftir Ísrael; skildu þeir eftir opna borgina og veittu Ísrael eftirför.

18 Þá sagði Drottinn við Jósúa: "Rétt þú út spjót það, sem þú hefir í hendi þér, gegn Aí, því að ég mun gefa hana þér á vald." Og Jósúa rétti út spjótið, sem hann hafði í hendi sér, gegn borginni.

19 Þá spratt launsátursliðið hratt upp úr stað sínum. Skunduðu þeir að, er hann rétti út höndina, fóru inn í borgina og tóku hana, lögðu því næst sem skjótast eld í borgina.

20 En er Aí-menn sneru sér við, sáu þeir að reyk lagði upp af borginni til himins, og brast þá nú þróttur, svo að þeir máttu í hvoruga áttina flýja, og liðið, sem flúið hafði til eyðimerkurinnar, snerist nú í móti þeim, er rekið höfðu flóttann.

21 En er Jósúa og allur Ísrael sáu, að launsátursliðið hafði tekið borgina og að reykinn lagði upp af borginni, þá hurfu þeir aftur og gjörðu áhlaup á Aí-menn.

22 Hinir komu þá og úr borginni út í móti þeim, og urðu þeir nú milli Ísraelsmanna, sem umkringdu þá á alla vegu. Felldu þeir þá, svo að enginn var eftir skilinn, sá er undan kæmist eða forðaði lífi sínu.

23 En konunginum í Aí náðu þeir lifandi á sitt vald og fóru með hann til Jósúa.

24 Er Ísrael hafði drepið alla Aí-búa úti á víðavangi, í eyðimörkinni, þangað sem þeir höfðu veitt þeim eftirför, og þeir voru allir fallnir fyrir sverðseggjum, svo að enginn þeirra var eftir, þá hurfu allir Ísraelsmenn aftur til Aí og felldu íbúana með sverðseggjum.

25 Og allir þeir, sem féllu á þeim degi, bæði karlar og konur, voru tólf þúsund manns, allir Aí-búar.

26 Jósúa dró ekki að sér höndina, sem hann hélt í spjótinu, uns hann hafði gjöreytt öllum Aí-búum.

27 En fénaðinum og herfangi því, er í borginni var, rændu Ísraelsmenn sér til handa eftir boði Drottins, því er hann hafði lagt fyrir Jósúa.

28 Jósúa brenndi Aí og gjörði hana að ævinlegri grjóthrúgu, eyðirúst, fram á þennan dag.

29 Og konunginn í Aí lét hann hengja á tré og lét hann hanga til kvelds, en um sólarlagsbil bauð Jósúa að taka líkama hans ofan af trénu. Köstuðu þeir honum út fyrir borgarhliðið og gjörðu yfir hann steindys mikla, og er hún þar enn í dag.

30 Jósúa reisti Drottni, Ísraels Guði, altari á Ebalfjalli,

31 eins og Móse, þjónn Drottins, hafði boðið Ísraelsmönnum, samkvæmt því sem skrifað er í lögmálsbók Móse, altari af óhöggnum steinum, er járntól hafði ekki verið borið að. Og þeir fórnuðu Drottni brennifórnum á því og slátruðu heillafórnum.

32 Og hann skrifaði þar á steinana eftirrit af lögmáli Móse, því er hann hafði skrifað í augsýn Ísraelsmanna.

33 Og allur Ísrael, öldungar hans, tilsjónarmenn og dómarar stóðu báðumegin við örkina, gegnt levítaprestunum, er báru sáttmálsörk Drottins, bæði útlendir menn og innbornir, annar helmingurinn utan í Garísímfjalli og hinn helmingurinn utan í Ebalfjalli, samkvæmt því sem Móse, þjónn Drottins, hafði boðið, að blessa Ísraelslýð.

34 Og eftir það las hann upp öll orð lögmálsins, blessunina og bannfæringuna, samkvæmt öllu því, sem skrifað er í lögmálsbókinni.

35 Ekkert orð af því, er Móse hafði boðið, var úr fellt. Jósúa las það allt upp fyrir öllum söfnuði Ísraels, einnig fyrir konum og börnum og útlendingum þeim, er með þeim höfðu farið.