Add parallel Print Page Options

Er allt fólkið var komið yfir um Jórdan, mælti Drottinn við Jósúa á þessa leið:

"Veljið yður tólf menn af lýðnum, einn mann af ættkvísl hverri,

og bjóðið þeim og segið: Takið upp tólf steina hér úr Jórdan miðri, á þeim stað, þar sem prestarnir stóðu kyrrir, og berið þá yfir um með yður og setjið þá niður þar sem þér hafið náttstað í nótt."

Þá kallaði Jósúa tólf menn, sem hann kvaddi til af Ísraelsmönnum, einn mann af ættkvísl hverri.

Og Jósúa sagði við þá: "Farið fyrir örk Drottins, Guðs yðar, út í Jórdan miðja, og taki hver yðar einn stein sér á herðar, eftir tölu ættkvísla Ísraelsmanna.

Skal þetta vera tákn meðal yðar. Þegar synir yðar spyrja á síðan og segja: ,Hvað eiga steinar þessir að jarteina?`

þá skuluð þér segja við þá: ,Það, að vatnið í Jórdan stöðvaðist fyrir sáttmálsörk Drottins, þá er hún fór yfir Jórdan. Vatnið í Jórdan stöðvaðist, og þessir steinar skulu vera Ísraelsmönnum til minningar ævinlega."`

Og Ísraelsmenn gjörðu svo sem Jósúa bauð, og tóku tólf steina upp úr Jórdan miðri, eins og Drottinn hafði lagt fyrir Jósúa, eftir tölu ættkvísla Ísraelsmanna, og báru þá yfir um með sér, þangað er þeir höfðu náttstað, og settu þá þar niður.

Og Jósúa reisti tólf steina í Jórdan miðri á þeim stað, sem prestarnir, þeir er sáttmálsörkina báru, höfðu staðið, og eru þeir þar enn í dag.

10 En prestarnir, sem örkina báru, stóðu í Jórdan miðri, uns öllu því var lokið, sem Drottinn hafði boðið Jósúa að segja lýðnum samkvæmt öllu því, sem Móse hafði boðið Jósúa. Og lýðurinn flýtti sér að fara yfir um.

11 Og er allur lýðurinn var kominn yfir um, þá fór og örk Drottins yfir um og prestarnir, sem fóru fyrir lýðnum.

12 Rúbens synir, Gaðs synir og hálf ættkvísl Manasse fóru hertygjaðir fyrir Ísraelsmönnum, eins og Móse hafði fyrir þá lagt.

13 Um fjörutíu þúsundir vígbúinna manna að tölu héldu þeir yfir á Jeríkóvöllu fyrir augliti Drottins til hernaðar.

14 Á þeim degi miklaði Drottinn Jósúa í augsýn alls Ísraels, og þeir óttuðust hann alla ævi hans, eins og þeir höfðu óttast Móse.

15 Drottinn sagði við Jósúa:

16 "Bjóð þú prestunum, sem bera sáttmálsörkina, að stíga upp úr Jórdan."

17 Bauð Jósúa þá prestunum og mælti: "Stígið upp úr Jórdan!"

18 Og jafnskjótt sem prestarnir, er báru sáttmálsörk Drottins, voru komnir upp úr Jórdan og þeir höfðu stigið fótum á þurrt land, féll vatnið í Jórdan aftur í farveg sinn, og hún flóði sem áður yfir alla bakka.

19 Lýðurinn kom upp úr Jórdan á tíunda degi hins fyrsta mánaðar og setti búðir sínar í Gilgal, við austurtakmörkin á Jeríkó.

20 Og steinana tólf, er þeir höfðu tekið upp úr Jórdan, reisti Jósúa í Gilgal.

21 Mælti hann þá til Ísraelsmanna á þessa leið: "Þegar synir yðar á síðan spyrja feður sína og segja: ,Hvað eiga steinar þessir að jarteina?`

22 þá skuluð þér gjöra það kunnugt og segja: ,Ísrael gekk á þurru yfir ána Jórdan,

23 með því að Drottinn Guð yðar þurrkaði vatnið í Jórdan fyrir yður, þar til er þér voruð komnir yfir um, eins og Drottinn Guð yðar gjörði við Sefhafið, er hann þurrkaði það fyrir oss, þar til er vér vorum komnir yfir um,

24 til þess að allar þjóðir á jörðu mættu vita, að hönd Drottins er sterk, svo að þær óttuðust Drottin Guð yðar alla daga."`

Allir konungar Amoríta, þeirra er bjuggu fyrir vestan Jórdan, og allir konungar Kanaaníta, sem búa við hafið, heyrðu, að Drottinn hefði þurrkað vatnið í Jórdan fyrir Ísraelsmönnum, uns þeir voru komnir yfir um. Þá kom þeim æðra í brjóst og þeim féllst hugur fyrir Ísraelsmönnum.

Í það mund sagði Drottinn við Jósúa: "Gjör þér steinhnífa og umsker Ísraelsmenn öðru sinni."

Jósúa gjörði sér þá steinhnífa og umskar Ísraelsmenn á Yfirhúðahæð.

En sú var orsök til þess, að Jósúa umskar þá, að allur lýðurinn, sem af Egyptalandi fór, karlmennirnir, allir vígir menn, höfðu dáið í eyðimörkinni á leiðinni, eftir að þeir voru farnir af Egyptalandi.

Allir þeir, er þaðan fóru, höfðu verið umskornir, en allir þeir, sem fæðst höfðu í eyðimörkinni á leiðinni eftir brottför þeirra af Egyptalandi, höfðu eigi verið umskornir.

Í fjörutíu ár fóru Ísraelsmenn um eyðimörkina, uns allt það fólk, allir vígir menn, er farið höfðu af Egyptalandi, voru dánir, því að þeir hlýddu ekki raust Drottins. Þess vegna hafði Drottinn svarið þeim, að þeir skyldu ekki fá að sjá landið, sem hann sór feðrum þeirra að gefa oss, _ land, sem flýtur í mjólk og hunangi.

En hann hafði látið sonu þeirra koma í þeirra stað. Þá umskar Jósúa, því að þeir voru óumskornir, þar eð þeir höfðu eigi verið umskornir á leiðinni.

Er gjörvallt fólkið hafði verið umskorið, héldu þeir kyrru fyrir, hver á sínum stað, í herbúðunum, uns þeir voru grónir.

Þá sagði Drottinn við Jósúa: "Í dag hefi ég velt af yður brigsli Egypta!" Fyrir því heitir þessi staður Gilgal fram á þennan dag.

10 Þegar Ísraelsmenn höfðu sett búðir sínar í Gilgal, héldu þeir páska á Jeríkóvöllum, hinn fjórtánda dag mánaðarins, að kveldi.

11 Og daginn eftir páska átu þeir ósýrð brauð og bakað korn af gróðri landsins, einmitt þennan dag.

12 Daginn eftir þraut manna, er þeir átu af gróðri landsins, og upp frá því fengu Ísraelsmenn ekki manna, heldur átu þeir af gróðri Kanaanlands það árið.

13 Það bar til, er Jósúa var staddur hjá Jeríkó, að hann leit upp og sá, hvar maður stóð gegnt honum með brugðið sverð í hendi. Jósúa gekk til hans og sagði við hann: "Hvort ert þú vor maður eða af óvinum vorum?"

14 Hann svaraði: "Nei! heldur er ég fyrirliði fyrir hersveit Drottins. Nú er ég kominn." Þá féll Jósúa fram á ásjónu sína til jarðar, laut og sagði: "Hvað vilt þú, herra, mæla við þjón þinn?"

15 Þá sagði fyrirliðinn fyrir hersveit Drottins við Jósúa: "Drag skó þína af fótum þér, því að það er heilagur staður, er þú stendur á!" Og Jósúa gjörði svo.

Hliðum Jeríkó hafði verið lokað, og var borgin harðlokuð vegna Ísraelsmanna, svo að enginn maður komst þar út né inn.

Þá sagði Drottinn við Jósúa: "Sjá, nú gef ég Jeríkó í þínar hendur, konung hennar og kappa.

Og þér skuluð, allir vígir menn, ganga kringum borgina, hringinn í kringum borgina einu sinni. Svo skalt þú gjöra í sex daga.

Og sjö prestar skulu bera sjö lúðra úr hrútshornum fyrir örkinni, og sjöunda daginn skuluð þér ganga sjö sinnum kringum borgina, og prestarnir þeyta lúðrana.

En þegar hrútshornið kveður við, þá skal allur lýðurinn æpa heróp mikið, jafnskjótt og þér heyrið lúðurhljóminn. Mun þá borgarmúrinn hrynja til grunna og lýðurinn mega upp ganga, hver þar sem hann er staddur."

Þá lét Jósúa Núnsson kalla prestana og sagði við þá: "Þér skuluð bera sáttmálsörkina, og sjö prestar skulu bera sjö lúðra úr hrútshornum fyrir örk Drottins."

Og við lýðinn sagði hann: "Farið og gangið kringum borgina, en þeir sem hertygjaðir eru, skulu fara fyrir örk Drottins."

Er Jósúa hafði talað til lýðsins, gengu sjö prestarnir, þeir er báru lúðrana sjö úr hrútshornunum, fram fyrir augliti Drottins og þeyttu lúðrana, en sáttmálsörk Drottins fór á eftir þeim.

Þeir sem hertygjaðir voru, gengu á undan prestunum, þeim sem lúðrana þeyttu, en múgurinn fylgdi eftir örkinni, og var í sífellu blásið í lúðrana.

10 Og Jósúa bauð lýðnum á þessa leið: "Þér skuluð ekki æpa heróp og enga háreysti gjöra og ekkert orð mæla, fyrr en ég segi við yður: ,Æpið nú heróp!` Þá skuluð þér æpa heróp."

11 Og hann lét fara með örk Drottins hringinn í kringum borgina einu sinni. Síðan gengu menn til herbúðanna og voru um nóttina í herbúðunum.

12 Jósúa reis árla um morguninn. Tóku nú prestarnir örk Drottins,

13 og prestarnir sjö, þeir er báru lúðrana sjö úr hrútshornunum fyrir örk Drottins, gengu og þeyttu lúðrana í sífellu, og þeir, sem hertygjaðir voru, gengu á undan þeim, en múgurinn fylgdi eftir örk Drottins, og var í sífellu blásið í lúðrana.

14 Þeir gengu og einu sinni kringum borgina annan daginn, fóru síðan aftur til herbúðanna. Svo gjörðu þeir í sex daga.

15 Hinn sjöunda dag risu þeir, þegar er lýsti af degi, og gengu með sama hætti kringum borgina sjö sinnum. Þennan daginn gengu þeir sjö sinnum kringum borgina.

16 En í sjöunda sinnið þeyttu prestarnir lúðrana. Þá sagði Jósúa við lýðinn: "Æpið nú heróp, því að Drottinn hefir gefið yður borgina.

17 En borgin skal með banni helguð Drottni og allt sem í henni er. Portkonan Rahab ein skal lífi halda, svo og allir þeir, sem með henni eru í húsinu, því að hún leyndi sendimönnunum, er vér sendum.

18 Gætið yðar aðeins fyrir hinu bannfærða, að þér eigi girnist neitt af því og takið það, og leiðið með því bannfæring yfir herbúðir Ísraels og stofnið þeim í ógæfu.

19 Allt silfur og gull, og allir hlutir, sem af eiri eða járni eru gjörðir, skulu vera Drottni helgaðir og koma í féhirslu Drottins."

20 Þá æpti lýðurinn heróp, og þeir þeyttu lúðrana. Og er lýðurinn heyrði lúðurhljóminn, æpti lýðurinn heróp mikið. Hrundi þá múrinn til grunna, en lýðurinn gekk inn í borgina, hver þar sem hann var staddur. Þannig unnu þeir borgina.

21 Og þeir bannfærðu allt, sem í borginni var, bæði karla og konur, unga og gamla, naut og sauði og asna, með sverðseggjum.

22 En við mennina tvo, er kannað höfðu landið, sagði Jósúa: "Farið í hús portkonunnar og leiðið burt þaðan konuna og alla, sem henni heyra, eins og þið sóruð henni."

23 Fóru þá sveinarnir, þeir er njósnað höfðu, og leiddu Rahab burt, föður hennar og móður, bræður hennar og alla, sem henni heyrðu. Þeir leiddu og burt alla ættmenn hennar og settu þá fyrir utan herbúðir Ísraels.

24 En borgina brenndu þeir í eldi og allt, sem í henni var. Aðeins silfur og gull og hluti þá, sem af eiri eða járni voru gjörðir, lögðu þeir í féhirslu húss Drottins.

25 En portkonunni Rahab og ættliði föður hennar gaf Jósúa líf, svo og öllum þeim, er henni heyrðu, og bjó hún og niðjar hennar meðal Ísraels upp frá því fram á þennan dag, fyrir því að hún leyndi sendimönnunum, er Jósúa hafði sent til þess að kanna Jeríkó.

26 Í það mund lýsti Jósúa þessari bannfæringu: "Bölvaður sé sá maður fyrir Drottni, sem fer til og reisir að nýju þessa borg, Jeríkó! Frumgetning sinn skal hann missa, þegar hann leggur undirstöður hennar, og yngsta son sinn, er hann reisir hlið hennar."

27 En Drottinn var með Jósúa, og barst orðstír hans um allt landið.

Margir hafa tekið sér fyrir hendur að rekja sögu þeirra viðburða, er gjörst hafa meðal vor,

samkvæmt því, sem oss hafa flutt þeir menn, er frá öndverðu voru sjónarvottar og þjónar orðsins.

Nú hef ég athugað kostgæfilega allt þetta frá upphafi og réð því einnig af að rita samfellda sögu fyrir þig, göfugi Þeófílus,

svo að þú megir ganga úr skugga um sannindi þeirra frásagna, sem þú hefur fræðst um.

Á dögum Heródesar, konungs í Júdeu, var uppi prestur nokkur að nafni Sakaría, af sveit Abía. Kona hans var og af ætt Arons og hét Elísabet.

Þau voru bæði réttlát fyrir Guði og lifðu vammlaus eftir öllum boðum og ákvæðum Drottins.

En þau áttu ekki barn, því að Elísabet var óbyrja, og bæði voru þau hnigin að aldri.

En svo bar við, er röðin kom að sveit hans og hann var að gegna þjónustu fyrir Guði,

að það féll í hans hlut, samkvæmt venju prestdómsins, að ganga inn í musteri Drottins og fórna reykelsi.

10 En allur fólksfjöldinn var fyrir utan á bæn, meðan reykelsisfórnin var færð.

11 Birtist honum þá engill Drottins, sem stóð hægra megin við reykelsisaltarið.

12 Sakaría varð hverft við sýn þessa, og ótta sló á hann.

13 En engillinn sagði við hann: "Óttast þú eigi, Sakaría, því bæn þín er heyrð. Elísabet kona þín mun fæða þér son, og þú skalt láta hann heita Jóhannes.

14 Og þér mun veitast gleði og fögnuður, og margir munu gleðjast vegna fæðingar hans.

15 Því að hann mun verða mikill í augliti Drottins. Aldrei mun hann drekka vín né áfengan drykk, en fyllast heilögum anda þegar frá móðurlífi.

16 Og mörgum af Ísraels sonum mun hann snúa til Drottins, Guðs þeirra.

17 Og hann mun ganga fyrir honum í anda og krafti Elía til að snúa hjörtum feðra til barna og óhlýðnum til hugarfars réttlátra og búa Drottni altygjaðan lýð."

18 Sakaría sagði við engilinn: "Af hverju get ég vitað þetta? Ég er gamall og kona mín hnigin að aldri."

19 En engillinn svaraði honum: "Ég er Gabríel, sem stend frammi fyrir Guði, ég var sendur til að tala við þig og flytja þér þessa gleðifregn.

20 Og þú munt verða mállaus og ekki geta talað til þess dags, er þetta kemur fram, vegna þess að þú trúðir ekki orðum mínum, en þau munu rætast á sínum tíma."

Read full chapter