Add parallel Print Page Options

16 Síðan kom upp hlutur Jósefs sona, og hlutu þeir land austan frá Jórdan, gegnt Jeríkó, til Jeríkóvatna, eyðimörkina, sem liggur frá Jeríkó upp á Betelfjöll.

Frá Betel lágu landamerkin til Lúz, þaðan yfir til lands Arkíta, til Atarót,

þaðan ofan á við og í vestur, til lands Jafletíta, að landamærum Bet Hóron neðri og allt til Geser, og þaðan alla leið til sjávar.

Synir Jósefs, Manasse og Efraím, fengu óðal sitt.

Þetta var land Efraíms sona, eftir ættum þeirra: Takmörk ættaróðals þeirra voru að austan Aterót Addar til Bet Hóron efri,

og takmörkin lágu út að hafi. Að norðan var Mikmetat, þaðan beygðu landamerkin af austur á við til Taanat Síló og þar fram hjá austur fyrir Janóha.

En frá Janóha lágu þau ofan á við til Atarót og Naarat, lentu hjá Jeríkó og lágu þaðan að Jórdan.

Frá Tappúa lágu landamerkin í vestur til Kana-lækjar og þaðan alla leið til sjávar. Þetta er óðal kynkvíslar Efraíms sona, eftir ættum þeirra,

auk þess borgirnar, sem skildar voru frá handa Efraíms sonum í ættaróðali Manasse sona _ allar borgirnar og þorpin, er að lágu.

10 En ekki ráku þeir burt Kanaanítana, sem bjuggu í Geser. Fyrir því búa Kanaanítar meðal Efraíms fram á þennan dag og urðu vinnuskyldir þrælar.

17 Kynkvísl Manasse fékk sinn hlut, því að hann var frumgetningur Jósefs. Makír, frumgetningur Manasse, faðir Gíleaðs, fékk Gíleað og Basan, því að hann var bardagamaður.

Og hinir synir Manasse fengu sinn hluta eftir ættum þeirra: synir Abíesers, synir Heleks, synir Asríels, synir Sekems, synir Hefers og synir Semída. Þessir voru synir Manasse Jósefssonar í karllegginn, eftir ættum þeirra.

En Selofhað Hefersson, Gíleaðssonar, Makírssonar, Manassesonar, átti enga sonu, heldur dætur einar, og hétu þær Mahla, Nóa, Hogla, Milka og Tirsa.

Þær gengu fyrir Eleasar prest, Jósúa Núnsson og höfuðsmennina og sögðu: "Drottinn bauð Móse að gefa oss óðal meðal bræðra vorra." Gaf hann þeim þá eftir boði Drottins óðal meðal bræðra föður þeirra.

Komu þá tíu hlutir á Manasse, auk Gíleaðlands og Basans, sem liggja hinumegin Jórdanar,

með því að dætur Manasse fengu óðal meðal sona hans, en Gíleaðland fengu hinir synir Manasse.

Landamerki Manasse lágu frá Asser til Mikmetat, sem liggur fyrir austan Síkem; þaðan lágu landamærin til hægri, til þeirra sem bjuggu í En-Tappúa.

Tappúasveit fékk Manasse, en Tappúaborg, sem lá við takmörk Manasse, fengu Efraíms synir.

Þá lágu landamerkin niður að Kana-læk, fyrir sunnan lækinn. Þessar borgir heyra Efraím mitt á meðal borga Manasse. Þaðan lágu landamerki Manasse norðan með læknum og alla leið til sjávar.

10 Það sem var að sunnanverðu, átti Efraím, en það sem var að norðanverðu, átti Manasse, og hafið réð takmörkum hans. Að norðanverðu lágu lönd þeirra að Asser og að austanverðu að Íssakar.

11 En í Íssakar og Asser fékk Manasse: Bet Sean og smáborgirnar, er að liggja, Jibleam og smáborgirnar, er að liggja, íbúana í Dór og smáborgirnar, er að liggja, íbúana í Endór og smáborgirnar, er að liggja, íbúana í Taanak og smáborgirnar, er að liggja, og íbúana í Megiddó og smáborgirnar, er að liggja, þ. e. hæðirnar þrjár.

12 En ekki gátu Manasse synir stökkt íbúum þessara borga burt, og þannig fengu Kanaanítar haldið bústað í landi þessu.

13 En þegar Ísraelsmenn efldust, gjörðu þeir Kanaaníta sér vinnuskylda, en ráku þá ekki algjörlega burt.

14 Þá báru Jósefs synir sig upp við Jósúa og sögðu: "Hví hefir þú ekki gefið mér nema eitt hlutskipti og einn hlut að óðali, og er ég þó fjölmennur, þar sem Drottinn hefir blessað mig allt til þessa?"

15 Jósúa sagði við þá: "Ef þú ert orðinn svo fjölmennur, þá far þú upp í skóginn og ryð þér þar til bólstaða í landi Peresíta og Refaíta, ef of þröngt er orðið um þig á Efraímfjöllum."

16 Þá sögðu Jósefs synir: "Fjalllendið nægir oss eigi, því að allir Kanaanítar, þeir er á sléttlendinu búa, hafa járnvagna, bæði þeir sem búa í Bet Sean og þorpunum, er að liggja, og þeir sem búa á Jesreelsléttunni."

17 Þá sagði Jósúa við hús Jósefs, við Efraím og Manasse: "Þú ert orðinn fjölmennur, og styrkur þinn er mikill. Þú skalt fá meira en einn erfðahluta,

18 því að fjalllendið skal vera þitt. Ef það er skógi vaxið, þá verður þú að ryðja hann, þá munt þú og eignast fjalladrögin. Því að þú verður að reka Kanaanítana burt, fyrst þeir hafa járnvagna og fyrst þeir eru sterkir."

18 Allur söfnuður Ísraelsmanna safnaðist saman í Síló, og reistu þeir þar samfundatjaldið, enda höfðu þeir nú lagt landið undir sig.

En enn þá voru eftir sjö ættkvíslir meðal Ísraelsmanna, sem eigi höfðu skipt arfleifð sinni.

Jósúa sagði þá við Ísraelsmenn: "Hversu lengi ætlið þér að vera svo tómlátir, að fara ekki og taka til eignar land það, sem Drottinn, Guð feðra yðar, hefir gefið yður?

Veljið nú þrjá menn af ættkvísl hverri, og mun ég senda þá út. Skulu þeir halda af stað og fara um landið og skrifa lýsingu á landinu með tilliti til þess, að því á að skipta meðal þeirra. Skulu þeir síðan koma aftur til mín.

Því næst skulu þeir skipta því í sjö hluti. Júda skal halda sínu landi í suðri, og hús Jósefs skal halda sínu landi í norðri.

En þér skuluð skrifa lýsingu landsins í sjö hlutum og færa mér hingað, síðan mun ég varpa hlutum fyrir yður hér frammi fyrir augliti Drottins, Guðs vors.

En levítarnir fá eigi hlut meðal yðar, heldur er prestdómur Drottins óðal þeirra. En Gað og Rúben og hálf ættkvísl Manasse hafa fengið sinn erfðahluta hinumegin Jórdanar, austanmegin, þann er Móse, þjónn Drottins, gaf þeim."

Þá tóku mennirnir, er fóru að skrifa lýsingu landsins, sig upp og héldu af stað, og Jósúa bauð þeim og mælti: "Farið nú og ferðist um landið og skrifið lýsingu þess, komið síðan aftur til mín. Mun ég þá varpa hlutum fyrir yður hér frammi fyrir Drottni í Síló."

Og mennirnir héldu af stað og fóru um landið og skrifuðu lýsingu þess í bók eftir borgunum í sjö hlutum. Síðan komu þeir til Jósúa í herbúðirnar í Síló.

10 Og Jósúa varpaði hlutum fyrir þá í Síló frammi fyrir Drottni, og Jósúa skipti þar landinu meðal Ísraelsmanna eftir skiptingu þeirra.

11 Kom nú upp hlutur kynkvíslar Benjamíns sona eftir ættum þeirra, og lá það land, er þeim hlotnaðist, milli Júda sona og Jósefs sona.

12 Landamerki þeirra að norðanverðu lágu frá Jórdan og upp á hálsinn fyrir norðan Jeríkó, og þaðan vestur á fjöllin og alla leið til eyðimerkurinnar hjá Betaven.

13 Þaðan lágu landamerkin yfir til Lúz, yfir á hálsinn fyrir sunnan Lúz, það er Betel. Þaðan lágu landamerkin niður til Aterót Addar, yfir á fjallið, sem er fyrir sunnan Bet Hóron neðri.

14 Þá beygðust landamerkin við og lágu í suðvestur frá fjallinu, sem er fyrir sunnan Bet Hóron, og lágu alla leið til Kirjat Baal, það er Kirjat Jearím, borg Júda sona. Þetta voru vesturtakmörkin.

15 Suðurtakmörkin lágu frá útjaðrinum á Kirjat Jearím, og lágu þau í vestur og gengu út að Neftóavatnslind.

16 Þá lágu landamerkin niður að enda fjallsins, sem liggur andspænis Hinnomssonardal og norðanvert í Refaímdal, þaðan niður Hinnomsdal að Jebúsíta-öxl sunnanverðri, og þaðan niður að Rógel-lind.

17 Þaðan beygðust þau norður á við og lágu til En-Semes, og þaðan til Gelílót, sem liggur þar gegnt sem upp er gengið til Adúmmím, þaðan niður til steins Bóhans, Rúbenssonar,

18 þaðan yfir á hálsinn, sem liggur gegnt Araba norðanvert, og þaðan niður til Araba.

19 Þaðan lágu landamerkin norðan fram með hálsinum hjá Bet Hogla og alla leið að nyrstu vík Saltasjós, þar sem Jórdan fellur suður í hann. Þetta voru suðurtakmörkin.

20 Að austanverðu réð Jórdan mörkum. Þessi voru landamærin hringinn í kringum arfleifð Benjamíns, eftir ættum þeirra.

21 Borgir kynkvíslar Benjamíns sona, eftir ættum þeirra, voru: Jeríkó, Bet Hogla, Emek Kesís,

22 Bet Araba, Semaraím, Betel,

23 Avím, Para, Ofra,

24 Kefar Ammóní, Ofní og Geba, tólf borgir og þorpin er að liggja.

25 Gíbeon, Rama, Beerót,

26 Mispe, Kefíra, Mósa,

27 Rekem, Jirpeel, Tarala,

28 Sela, Elef, Jebúsítaborg, það er Jerúsalem, Gíbeat og Kirjat, fjórtán borgir og þorpin er að liggja. Þetta var arfleifð Benjamíns sona eftir ættum þeirra.

En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Ágústus keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina.

Þetta var fyrsta skrásetningin og var gjörð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi.

Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar.

Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs,

að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni, sem var þunguð.

En meðan þau voru þar, kom sá tími, er hún skyldi verða léttari.

Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því að eigi var rúm handa þeim í gistihúsi.

En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar.

Og engill Drottins stóð hjá þeim, og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir,

10 en engillinn sagði við þá: "Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum:

11 Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.

12 Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu."

13 Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita, sem lofuðu Guð og sögðu:

14 Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.

15 Þegar englarnir voru farnir frá þeim til himins, sögðu hirðarnir sín á milli: "Förum beint til Betlehem að sjá það, sem gjörst hefur og Drottinn hefur kunngjört oss."

16 Og þeir fóru með skyndi og fundu Maríu og Jósef og ungbarnið, sem lá í jötu.

17 Þegar þeir sáu það, skýrðu þeir frá því, er þeim hafði verið sagt um barn þetta.

18 Og allir, sem heyrðu, undruðust það, er hirðarnir sögðu þeim.

19 En María geymdi allt þetta í hjarta sér og hugleiddi það.

20 Og hirðarnir sneru aftur og vegsömuðu Guð og lofuðu hann fyrir það, sem þeir höfðu heyrt og séð, en allt var það eins og þeim hafði verið sagt.

21 Þegar átta dagar voru liðnir, skyldi umskera hann, og var hann látinn heita Jesús, eins og engillinn nefndi hann, áður en hann var getinn í móðurlífi.

22 En er hreinsunardagar þeirra voru úti eftir lögmáli Móse, fóru þau með hann upp til Jerúsalem til að færa hann Drottni, _

23 en svo er ritað í lögmáli Drottins: "Allt karlkyns, er fyrst fæðist af móðurlífi, skal helgað Drottni," _

24 og til að færa fórn eins og segir í lögmáli Drottins, "tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur."

Read full chapter