Add parallel Print Page Options

12 Þessir eru konungar landsins, þeir er Ísraelsmenn unnu sigur á og tóku lönd af hinumegin Jórdanar, austanmegin, frá Arnoná til Hermonfjalls og allt sléttlendið austanmegin:

Síhon, Amorítakonungur, sem bjó í Hesbon og réð landi frá Aróer, sem liggur á bakka Arnonár, og dalnum miðjum og hálfu Gíleað að Jabboká, sem er á landamærum Ammóníta,

og sléttlendinu að Genesaretvatni að austanverðu og að vatninu á sléttlendinu, Saltasjó, að austanverðu, suður undir Bet Jesímót, og til suðurs að Pisgahlíðum.

Sömuleiðis land Ógs, konungs í Basan, sem var einn þeirra Refaíta, er eftir voru, og bjó í Astarót og Edreí

og réð yfir Hermonfjöllum, Salka og öllu Basan, að landamærum Gesúra og Maakatíta, og yfir hálfu Gíleað, að landamærum Síhons, konungs í Hesbon.

Móse, þjónn Drottins, og Ísraelsmenn höfðu unnið sigur á þeim, og Móse, þjónn Drottins, hafði gefið Rúbenítum, Gaðítum og hálfri ættkvísl Manasse landið til eignar.

Þessir eru konungar landsins, þeir er Jósúa og Ísraelsmenn unnu sigur á fyrir vestan Jórdan, frá Baal Gað í Líbanonsdal til Skallabergs, sem liggur upp til Seír, _ en landið gaf Jósúa ættkvíslum Ísraels til eignar eftir skiptingu þeirra _,

í fjalllendinu, á láglendinu, á sléttlendinu, í fjallahlíðunum, í eyðimörkinni og í suðurlandinu, _ land Hetíta, Amoríta, Kanaaníta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta:

Konungurinn í Jeríkó einn, konungurinn í Aí, sem er hjá Betel, einn,

10 konungurinn í Jerúsalem einn, konungurinn í Hebron einn,

11 konungurinn í Jarmút einn, konungurinn í Lakís einn,

12 konungurinn í Eglon einn, konungurinn í Geser einn,

13 konungurinn í Debír einn, konungurinn í Geder einn,

14 konungurinn í Horma einn, konungurinn í Arad einn,

15 konungurinn í Líbna einn, konungurinn í Adúllam einn,

16 konungurinn í Makeda einn, konungurinn í Betel einn,

17 konungurinn í Tappúa einn, konungurinn í Hefer einn,

18 konungurinn í Afek einn, konungurinn í Saron einn,

19 konungurinn í Madón einn, konungurinn í Hasór einn,

20 konungurinn í Simrón Meróm einn, konungurinn í Aksaf einn,

21 konungurinn í Taanak einn, konungurinn í Megíddó einn,

22 konungurinn í Kedes einn, konungurinn í Jokneam hjá Karmel einn,

23 konungurinn í Dór í Dórshæðum einn, konungur heiðingjanna í Gilgal einn,

24 konungurinn í Tirsa einn, _ alls þrjátíu og einn konungur.

13 Þegar Jósúa var orðinn gamall og hniginn að aldri, sagði Drottinn við hann: "Þú ert orðinn gamall og hniginn að aldri, en mjög mikið af landinu er enn óunnið.

Þetta er landið, sem enn er eftir: Öll héruð Filista og allt land Gesúra;

frá Síhór, sem rennur fram með Egyptalandi að austanverðu, til landamæra Ekron í norðri _ það telst með landi Kanaaníta _, fimm höfðingjar Filistanna í Gasa, Asdód, Askalon, Gat og Ekron, svo og Avítar í suðri,

allt land Kanaaníta og Meara, sem heyrir Sídoningum, allt til Afek, til landamæra Amoríta,

og land Giblíta og allt Líbanon í austri, frá Baal Gað undir Hermonfjalli allt þangað, er leið liggur til Hamat.

Allir fjallabúarnir frá Líbanon til Misrefót Majím, allir Sídoningar, _ ég mun stökkva þeim burt undan Ísraelsmönnum. En legg þú á hluti og skipt því meðal Ísraels til eignar, eins og ég hefi boðið þér.

Skipt þú nú landi þessu til eignar níu ættkvíslunum og hálfri ættkvísl Manasse."

Með hálfri ættkvísl Manasse hafa Rúbenítar og Gaðítar fengið sinn eignarhluta, er Móse gaf þeim hinumegin Jórdanar, austanmegin. Móse, þjónn Drottins, gaf þeim hann:

landið frá Aróer, sem liggur á bakka Arnonár, og borginni, sem liggur í dalnum miðjum, og allt sléttlendið frá Medeba til Díbon,

10 svo og allar borgir, er átti Síhon, Amorítakonungur, er sat í Hesbon, allt til landamæra Ammóníta.

11 Enn fremur Gíleað og land Gesúra og Maakatíta, Hermonfjöll öll og allt Basan til Salka,

12 allt konungsríki Ógs í Basan, sem sat í Astarót og Edreí. Hann var einn eftir af Refaítum; en Móse vann sigur á þeim og stökkti þeim burt.

13 Aftur á móti stökktu Ísraelsmenn Gesúrum og Maakatítum ekki burt, heldur búa Gesúrar og Maakatítar meðal Ísraels allt fram á þennan dag.

14 En ættkvísl Leví gaf hann ekkert óðal. Eldfórnir Drottins, Ísraels Guðs, eru óðal hans, eins og hann hét honum.

15 Móse fékk kynkvíslum Rúbens sona land eftir ættum þeirra.

16 Fengu þeir land frá Aróer, sem liggur á bakka Arnonár, og frá borginni, sem liggur í dalnum miðjum, og allt sléttlendið hjá Medeba,

17 Hesbon og allar borgirnar þar umhverfis, sem liggja á sléttlendinu, Díbon, Bamót Baal, Bet-Baal-Meon,

18 Jahsa, Kedemót, Mefaat,

19 Kirjataím, Síbma, Seret Sahar á fellinu í dalnum,

20 og Bet Peór, Pisgahlíðar og Bet Jesímót,

21 enn fremur allar borgir á sléttlendinu og allt konungsríki Síhons, Amorítakonungs, sem sat í Hesbon og Móse vann sigur á ásamt höfðingjum Midíaníta: Eví, Rekem, Súr, Húr og Reba, jörlum Síhons, sem bjuggu í landinu.

22 Ísraelsmenn drápu og spásagnamanninn Bíleam Beórsson með sverði, auk annarra, er þeir felldu.

23 Og vesturtakmörkum Rúbens sona réð Jórdan alla leið. Þetta er óðal Rúbens sona eftir ættum þeirra, borgirnar og þorpin, sem að liggja.

24 Móse fékk kynkvísl Gaðs, Gaðs sonum, land eftir ættum þeirra.

25 Fengu þeir land sem hér segir: Jaser og allar borgirnar í Gíleað og hálft land Ammóníta, allt til Aróer, sem liggur fyrir austan Rabba,

26 og frá Hesbon til Ramat Mispe og Betóním, og frá Mahanaím til Lídebír landamæra.

27 Enn fremur í dalnum: Bet Haram, Bet Nimra, Súkkót og Safón, leifarnar af konungsríki Síhons, konungs í Hesbon, og Jórdan á mörkum allt að suðurenda Genesaretvatns, austanmegin Jórdanar.

28 Þetta er óðal Gaðs sona eftir ættum þeirra, borgirnar og þorpin, er að liggja.

29 Móse fékk hálfri ættkvísl Manasse land. Fékk hálf kynkvísl Manasse sona land eftir ættum sínum sem hér segir.

30 Land þeirra náði frá Mahanaím yfir allt Basan, allt konungsríki Ógs, konungs í Basan, og öll Jaírs-þorp, sem liggja í Basan, sextíu borgir.

31 Enn fremur yfir hálft Gíleað og Astarót og Edreí, höfuðstaði konungsríkis Ógs í Basan. Þetta fengu Makírs synir, Manassesonar, helmingurinn af Makírs sonum eftir ættum þeirra.

32 Þetta voru lönd þau, er Móse úthlutaði á Móabsvöllum hinumegin Jórdanar gegnt Jeríkó, austanmegin.

33 En ættkvísl Leví gaf Móse ekkert óðal. Drottinn, Ísraels Guð, er óðal þeirra, eins og hann hefir heitið þeim.

14 Þetta er það, sem Ísraelsmenn fengu að arfleifð í Kanaanlandi, það sem Eleasar prestur, Jósúa Núnsson og ætthöfðingjar kynkvísla Ísraelsmanna úthlutuðu þeim

með hlutkesti til arfleifðar, eins og Drottinn hafði skipað fyrir meðalgöngu Móse um níu kynkvíslirnar og hálfa.

Móse hafði gefið tveimur kynkvíslunum og hálfri óðul hinumegin Jórdanar, en levítunum hafði hann eigi gefið óðal meðal þeirra.

Jósefs synir voru tvær kynkvíslir, Manasse og Efraím, og levítunum gáfu þeir ekki hlut í landinu, heldur aðeins borgir til að búa í og beitilandið, er lá undir þær, handa fénaði þeirra og skepnum.

Eins og Drottinn hafði boðið Móse, svo gjörðu Ísraelsmenn og skiptu landinu.

Þá gengu Júda synir fyrir Jósúa í Gilgal, og Kaleb Jefúnneson, Kenisíti, sagði við hann: "Þér er kunnugt um, hvað Drottinn sagði við guðsmanninn Móse um mig og þig í Kades Barnea.

Þá var ég fertugur að aldri, er Móse, þjónn Drottins, sendi mig frá Kades Barnea að kanna landið, og bar ég honum það, er ég vissi sannast.

En bræður mínir, sem með mér fóru, skelfdu hjörtu lýðsins, en ég fylgdi Drottni Guði mínum trúlega.

Og þann dag sór Móse og sagði: ,Sannlega skal land það, sem þú steigst fæti á, vera þín eign og sona þinna ævinlega, því að þú fylgdir Drottni Guði mínum trúlega.`

10 Og sjá, nú hefir Drottinn látið mig lifa, eins og hann lofaði, í þessi fjörutíu og fimm ár, síðan Drottinn sagði þetta við Móse, meðan Ísrael hefir farið um eyðimörkina, og sjá, nú hefi ég fimm um áttrætt.

11 Og enn í dag er ég eins hraustur og þegar Móse sendi mig. Orka mín er enn hin sama og hún var þá til að berjast og til að ganga út og inn.

12 Gef mér nú fjalllendi þetta, sem Drottinn talaði um þann dag, því að þú hlýddir sjálfur á þann dag. Anakítar eru þar og stórar, víggirtar borgir. Vera má, að Drottinn veiti mér fulltingi, svo ég fái stökkt þeim burt, eins og Drottinn hefir heitið."

13 Jósúa blessaði hann og gaf Kaleb Jefúnnesyni Hebron að arfleifð.

14 Fyrir því fékk Kaleb Jefúnneson, Kenisíti, Hebron að arfleifð, og er svo enn í dag, sökum þess að hann fylgdi Drottni, Ísraels Guði, trúlega.

15 En Hebron hét áður Kirjat Arba, eftir Arba þeim, er mestur var meðal Anakíta. Eftir það létti ófriði af landinu.

15 Hlutur sá, er kynkvísl Júda sona fékk eftir ættum þeirra, lá að landamærum Edóms, suður undir Síneyðimörk, syðst í landinu.

Suðurtakmörkin að landi þeirra voru frá enda Saltasjós, frá víkinni, er snýr til suðurs,

og lágu fyrir sunnan Sporðdrekaskarð og yfir til Sín og upp eftir fyrir sunnan Kades Barnea og yfir til Hesron, þaðan upp til Adar og því næst í boga til Karka.

Þaðan lágu þau yfir til Asmón og alla leið til Egyptalandsár, og síðast lágu takmörkin til sjávar. Þetta skulu vera landamerki þeirra að sunnanverðu.

Austurtakmörkin voru Saltisjór, allt til þess er Jórdan fellur í hann. Norðurmörkin lágu frá nyrstu vík vatnsins, þar sem Jórdan fellur í það.

Þaðan lágu takmörkin upp til Bet Hogla og fram hjá Bet Araba að norðanverðu og þaðan upp til steins Bóhans, Rúbenssonar.

Þá lágu takmörkin upp til Debír úr Akordal, þaðan í norður til Gilgal, sem liggur þar gegnt sem upp er gengið til Adúmmím, sem er sunnanvert við lækinn. Þaðan lágu takmörkin yfir til En-Semesvatns og þaðan alla leið að Rógel-lind.

Þaðan lágu landamerkin upp til Hinnomssonardals, að Jebúsítaöxl sunnanverðri; þar heitir nú Jerúsalem. Þaðan lágu landamerkin upp á fjallstindinn, sem er beint í vestur frá Hinnomsdal og við norðurendann á Refaímdal.

Frá fjallstindinum beygðust landamerkin til Neftóavatnslindar og lágu þaðan til borganna á Efronfjalli. Þaðan beygðust landamerkin til Baala; þar heitir nú Kirjat Jearím.

10 Frá Baala lágu landamerkin í boga vestur til Seírfjalls og þaðan yfir að öxl Jearímfjalls norðanverðri, það er Kesalon; og þaðan ofan til Bet Semes og yfir til Timna.

11 Þá lágu landamerkin norður til Ekron-axlar, þaðan beygðust þau til Síkrón og yfir til Baala-fjalls og alla leið til Jabneel, og síðast lágu takmörkin til sjávar.

12 Vesturtakmörkunum réð hafið mikla alla leið. Þetta voru landamerki Júda sona hringinn í kring, eftir ættum þeirra.

13 Kaleb Jefúnnesyni gaf hann hlut meðal Júda sona, eins og Drottinn hafði boðið Jósúa, sem sé borg Arba, föður Anaks; það er Hebron.

14 Og Kaleb rak þaðan þrjá sonu Anaks: Sesaí, Ahíman og Talmaí, afkomendur Anaks.

15 Þaðan fór hann móti Debír-búum, en Debír hét áður Kirjat Sefer.

16 Kaleb sagði: "Hver sem leggur Kirjat Sefer undir sig og vinnur hana, honum skal ég gefa Aksa dóttur mína að konu."

17 Þá vann Otníel Kenasson, bróðir Kalebs, borgina, og hann gaf honum Aksa dóttur sína að konu.

18 Þegar hún skyldi heim fara með bónda sínum, eggjaði hún hann þess, að hann skyldi beiðast lands nokkurs af föður hennar. Steig hún þá niður af asnanum. Kaleb spurði hana þá: "Hvað viltu?"

19 Hún svaraði: "Gef mér gjöf nokkra, af því að þú hefir gefið mig til Suðurlandsins. Gef mér því vatnsbrunna." Gaf hann henni þá brunna hið efra og brunna hið neðra.

20 Þetta er óðal kynkvíslar Júda sona, eftir ættum þeirra.

21 Syðstu borgirnar í kynkvísl Júda sona, við landamæri Edóms, í Suðurlandinu voru: Kabseel, Eder, Jagúr,

22 Kína, Dímóna, Adada,

23 Kedes, Hasór og Jítnan,

24 Síf, Telem, Bealót,

25 Hasór Hadatta og Keríjót Hesron, það er Hasór;

26 Amam, Sema, Mólada,

27 Hasar Gadda, Hesmon, Bet Pelet,

28 Hasar Súal, Beerseba og Bisjótja,

29 Baala, Ijím, Esem,

30 Eltólað, Kesíl, Horma,

31 Siklag, Madmanna, Sansanna,

32 Lebaót, Silhím, Aín og Rimmon, _ alls tuttugu og níu borgir og þorpin, er að liggja.

33 Á láglendinu: Estaól, Sórea, Asna,

34 Sanóa og En Ganním, Tappúa og Enam,

35 Jarmút og Adúllam, Sókó, Aseka,

36 Saaraím, Adítaím, Gedera og Gederótaím, _ fjórtán borgir og þorpin, er að liggja.

37 Senan, Hadasa, Migdal Gað,

38 Dílean, Mispe og Jokteel,

39 Lakís, Boskat, Eglon,

40 Kabbón, Lahmas, Kitlís

41 og Gederót, Bet Dagón, Naama og Makeda, _ sextán borgir og þorpin, er að liggja.

42 Líbna, Eter, Asan,

43 Jifta, Asna, Nesíb,

44 Kegíla, Aksíb og Maresa, _ níu borgir og þorpin, er að liggja.

45 Ekron með smáborgum hennar og þorpum.

46 Frá Ekron og vestur að hafi allt það, sem er á hlið við Asdód, og þorpin, er að liggja.

47 Asdód með smáborgum hennar og þorpum, Gasa með smáborgum hennar og þorpum, allt til Egyptalandsár, en vesturtakmörkum réð hafið mikla.

48 Í fjalllendinu: Samír, Jattír, Sókó,

49 Danna, Kirjat Sanna, það er Debír;

50 Anab, Estemó, Aním,

51 Gósen, Hólon og Gíló, _ ellefu borgir og þorpin, er að liggja.

52 Arab, Dúma, Esean,

53 Janúm, Bet Tappúa, Afeka,

54 Húmta, Kirjat Arba, það er Hebron; og Síór, _ níu borgir og þorpin, er að liggja.

55 Maon, Karmel, Síf, Júta,

56 Jesreel, Jokdeam, Sanóa,

57 Kaín, Gíbea og Timna, _ tíu borgir og þorpin, er að liggja.

58 Halhúl, Bet Súr, Gedór,

59 Maarat, Bet Anót og Eltekón, _ sex borgir og þorpin er að liggja.

60 Kirjat Baal, það er Kirjat Jearím; og Rabba, _ tvær borgir og þorpin, er að liggja.

61 Í eyðimörkinni: Bet Araba, Middín, Sekaka,

62 Nibsan, Saltborgin og Engedí, _ sex borgir og þorpin er að liggja.

63 En Jebúsítana, sem bjuggu í Jerúsalem, gátu Júda synir ekki rekið burt. Fyrir því hafa Jebúsítar búið í Jerúsalem ásamt Júda sonum fram á þennan dag.