Add parallel Print Page Options

Eftir andlát Móse, þjóns Drottins, mælti Drottinn við Jósúa Núnsson, þjónustumann Móse, á þessa leið:

"Móse, þjónn minn, er andaður. Rís þú nú upp og far yfir ána Jórdan með allan þennan lýð, inn í landið, sem ég gef þeim, Ísraelsmönnum.

Hvern þann stað, er þér stígið fæti á, mun ég gefa yður, eins og ég sagði Móse.

Frá eyðimörkinni og Líbanon allt til fljótsins mikla, Efratfljótsins, allt land Hetíta, allt til hafsins mikla mót sólar setri skal land yðar ná.

Enginn mun standast fyrir þér alla ævidaga þína. Svo sem ég var með Móse, svo mun ég og með þér vera. Ég mun eigi sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.

Ver þú hughraustur og öruggur, því að þú skalt skipta meðal þessa lýðs landi því, er ég sór feðrum þeirra að gefa þeim.

Ver þú aðeins hughraustur og harla öruggur að gæta þess að breyta eftir öllu lögmálinu, því er Móse þjónn minn fyrir þig lagði. Vík eigi frá því, hvorki til hægri né vinstri, til þess að þér lánist vel allt, sem þú tekur þér fyrir hendur.

Eigi skal lögmálsbók þessi víkja úr munni þínum, heldur skalt þú hugleiða hana um daga og nætur, til þess að þú gætir þess að gjöra allt það, sem í henni er skrifað, því að þá munt þú gæfu hljóta á vegum þínum og breyta viturlega.

Hefi ég ekki boðið þér: Ver þú hughraustur og öruggur? Lát eigi hugfallast og óttast eigi, því að Drottinn Guð þinn er með þér í öllu, sem þú tekur þér fyrir hendur."

10 Þá bauð Jósúa tilsjónarmönnum lýðsins á þessa leið:

11 "Farið um allar herbúðirnar og bjóðið lýðnum og segið: ,Búið yður veganesti, því að þrem dögum liðnum skuluð þér fara yfir ána Jórdan, svo að þér komist inn í og fáið til eignar landið, sem Drottinn, Guð yðar, gefur yður til eignar."`

12 En við Rúbeníta, Gaðíta og hálfa ættkvísl Manasse mælti Jósúa á þessa leið:

13 "Minnist þess, sem Móse, þjónn Drottins, bauð yður, er hann sagði: ,Drottinn, Guð yðar, mun veita yður hvíld og gefa yður þetta land.`

14 Konur yðar, börn yðar og búsmali skal eftir verða í landi því, er Móse gaf yður hinumegin Jórdanar, en þér skuluð fara hertygjaðir fyrir bræðrum yðar, allir þér sem vopnfærir eruð, og veita þeim fulltingi,

15 þar til er Drottinn veitir bræðrum yðar hvíld eins og yður, og þeir hafa líka tekið til eignar land það, sem Drottinn, Guð yðar, gefur þeim. Þá skuluð þér snúa aftur í eignarland yðar og setjast þar að, í landinu, sem Móse, þjónn Drottins, gaf yður hinumegin Jórdanar, austanmegin."

16 Þeir svöruðu Jósúa á þessa leið: "Vér skulum gjöra allt sem þú býður oss, og fara hvert sem þú sendir oss.

17 Eins og vér í öllu hlýddum Móse, svo viljum vér og hlýða þér. Veri Drottinn, Guð þinn, með þér, eins og hann var með Móse.

18 Hver sá er þverskallast gegn skipun þinni og hlýðir ekki orðum þínum í öllu, sem þú býður oss, skal líflátinn verða. Vertu aðeins hughraustur og öruggur."

Jósúa Núnsson sendi tvo njósnarmenn leynilega frá Sittím og sagði: "Farið og skoðið landið og Jeríkó!" Þeir fóru og komu í hús portkonu einnar, er Rahab hét, og tóku sér þar gistingu.

Konunginum í Jeríkó var sagt: "Sjá, hingað komu menn nokkrir í kveld af Ísraelsmönnum til þess að kanna landið."

Sendi þá konungurinn í Jeríkó til Rahab og lét segja henni: "Sel fram mennina, sem til þín eru komnir, þá er komnir eru í hús þitt, því að þeir eru komnir til þess að kanna allt landið."

En konan tók mennina báða og leyndi þeim. Og hún sagði: "Satt er það, menn komu til mín, en eigi vissi ég hvaðan þeir voru,

og er loka skyldi borgarhliðinu í rökkrinu, fóru mennirnir burt. Eigi veit ég hvert þeir hafa farið. Veitið þeim eftirför sem skjótast, þá munuð þér ná þeim."

En hún hafði leitt þá upp á þakið og falið þá undir hörjurtarleggjum, sem breiddir voru á þakið.

Menn konungs veittu þeim eftirför veginn til Jórdanar, að vöðunum. Og borgarhliðinu var lokað, þá er leitarmennirnir voru út farnir.

Áður en njósnarmennirnir gengu til hvílu, gekk hún til þeirra upp á þakið

og sagði við þá: "Ég veit, að Drottinn hefir gefið yður land þetta og að ótti við yður er yfir oss kominn og að allir landsbúar hræðast yður.

10 Því að frétt höfum vér, að Drottinn þurrkaði fyrir yður vatnið í Sefhafi, þá er þér fóruð af Egyptalandi, og hvað þér hafið gjört við Amorítakonungana tvo, þá Síhon og Óg, hinumegin Jórdanar, að þér eydduð þeim með öllu.

11 Síðan vér heyrðum þetta, er æðra komin í brjóst vor, og enginn hugur er í nokkrum manni, þegar yður skal mæta, því að Drottinn, Guð yðar, er Guð á himnum uppi og á jörðu niðri.

12 Sverjið mér nú við Drottin, að fyrst ég sýndi ykkur miskunn, þá skuluð þið og miskunn sýna húsi föður míns og gefið mér um það óbrigðult merki,

13 að þið viljið láta föður minn og móður, bræður mína og systur halda lífi, og alla, sem þeim heyra, og frelsa oss frá dauða!"

14 Mennirnir svöruðu henni: "Við setjum líf okkar í veð fyrir yður, ef þú lætur ekki vitnast erindi okkar. Og þegar Drottinn gefur oss land þetta, þá skulum vér auðsýna þér miskunn og trúfesti."

15 Þá lét hún þá síga í festi út um gluggann, því að hús hennar stóð við borgarmúrinn og sjálf bjó hún úti við múrinn.

16 Og hún sagði við þá: "Haldið til fjalla, svo að leitarmennirnir finni ykkur ekki, og leynist þar þrjá daga, uns leitarmennirnir eru aftur horfnir. Eftir það getið þið farið leiðar ykkar."

17 Mennirnir sögðu við hana: "Lausir viljum við vera eiðs þess, er þú lést okkur sverja þér,

18 nema svo verði, að þegar vér komum inn í landið, þá bindir þú í gluggann, þann er þú lést okkur síga út um, festina þessa rauðu, og kallir saman í hús þitt föður þinn og móður og bræður þína og allt heimilisfólk föður þíns,

19 en gangi nokkur út fyrir húsdyr þínar, þá er hann sjálfur valdur að dauða sínum, en við sýknir, en verði hönd lögð á nokkurn þann, sem í þínu húsi er, þá skal dauði hans verða gefinn okkur að sök.

20 Og ef þú lætur vitnast erindi okkar, þá erum við lausir þess eiðs, er þú lést okkur sverja þér."

21 Hún sagði: "Svo skal vera sem þið segið!" Lét hún þá síðan fara, og þeir gengu burt, en hún batt rauðu festina í gluggann.

22 Gengu þeir þá á burt og héldu til fjalla og dvöldust þar þrjá daga, uns leitarmennirnir voru aftur heim horfnir. Höfðu leitarmennirnir leitað þeirra alla leiðina, en ekki fundið.

23 Hurfu þá þessir tveir menn aftur og gengu niður af fjöllunum og fóru yfir um og komu til Jósúa Núnssonar og sögðu honum frá öllu, er fyrir þá hafði komið.

24 Og þeir sögðu við Jósúa: "Drottinn hefir gefið allt landið oss í hendur, enda hræðast allir landsbúar oss."

Morguninn eftir reis Jósúa árla. Lögðu þeir nú upp frá Sittím og komu að Jórdan, hann og allir Ísraelsmenn, og voru þar um nóttina, áður þeir færu yfir um.

En að þremur dögum liðnum fóru tilsjónarmennirnir um allar herbúðirnar

og buðu lýðnum og sögðu: "Þegar þér sjáið sáttmálsörk Drottins, Guðs yðar, og levítaprestana bera hana, þá leggið upp frá yðar stað og farið á eftir henni.

Látið þó vera um tveggja þúsund álna bil millum yðar og hennar og komið ekki nærri henni. Megið þér þá vita, hvaða veg þér eigið að fara, því að þér hafið aldrei farið þann veg áður."

Þá sagði Jósúa við lýðinn: "Helgið yður, því að á morgun mun Drottinn gjöra undursamlega hluti meðal yðar."

Og við prestana sagði Jósúa: "Takið upp sáttmálsörkina og farið yfir um á undan lýðnum." Þeir tóku þá upp sáttmálsörkina og fóru yfir um á undan lýðnum.

Drottinn sagði við Jósúa: "Í dag mun ég taka til að mikla þig í augsýn alls Ísraels, svo að þeir megi vita, að ég er með þér, eins og ég var með Móse.

En bjóð þú prestunum, sem bera sáttmálsörkina, á þessa leið: Þegar þér komið í vatnsbrúnina í Jórdan, þá nemið þar staðar í ánni."

Og Jósúa sagði við Ísraelsmenn: "Komið hingað og heyrið orð Drottins, Guðs yðar!"

10 Og Jósúa mælti: "Af þessu skuluð þér vita mega, að lifandi Guð er á meðal yðar og að hann vissulega mun stökkva burt undan yður Kanaanítum, Hetítum, Hevítum, Peresítum, Gírgasítum, Amorítum og Jebúsítum:

11 Sjá, sáttmálsörk hans, sem er Drottinn allrar veraldar, mun fara á undan yður út í Jórdan.

12 Veljið yður nú tólf menn af ættkvíslum Ísraels, einn mann af ættkvísl hverri.

13 Og þegar prestarnir, sem bera sáttmálsörk Drottins, hans sem er Drottinn allrar veraldar, stíga fæti í vatn Jórdanar, þá mun vatnið í Jórdan stöðvast, vatnið, sem ofan að kemur, og standa sem veggur."

14 Fólkið tók sig nú upp úr tjöldum sínum til þess að fara yfir um Jórdan, og prestarnir, sem báru sáttmálsörkina, fóru fyrir lýðnum.

15 Og er þeir, sem örkina báru, komu að Jórdan, og prestarnir, sem báru örkina, drápu fótum sínum í vatnsbrúnina (en Jórdan flóði yfir alla bakka allan kornskurðartímann),

16 þá stóð vatnið kyrrt, það er ofan að kom, og hófst upp sem veggur mjög langt burtu, við Adam, borgina, sem liggur hjá Sartan. En það sem rann niður til vatnsins á sléttlendinu, Saltasjós, rann allt til þurrðar. Og lýðurinn fór yfir um gegnt Jeríkó.

17 En prestarnir, sem báru sáttmálsörk Drottins, stóðu kyrrir á þurru mitt í Jórdan, meðan allur Ísrael fór yfir um á þurru, þar til er allt fólkið var komið yfir um Jórdan.

Er allt fólkið var komið yfir um Jórdan, mælti Drottinn við Jósúa á þessa leið:

"Veljið yður tólf menn af lýðnum, einn mann af ættkvísl hverri,

og bjóðið þeim og segið: Takið upp tólf steina hér úr Jórdan miðri, á þeim stað, þar sem prestarnir stóðu kyrrir, og berið þá yfir um með yður og setjið þá niður þar sem þér hafið náttstað í nótt."

Þá kallaði Jósúa tólf menn, sem hann kvaddi til af Ísraelsmönnum, einn mann af ættkvísl hverri.

Og Jósúa sagði við þá: "Farið fyrir örk Drottins, Guðs yðar, út í Jórdan miðja, og taki hver yðar einn stein sér á herðar, eftir tölu ættkvísla Ísraelsmanna.

Skal þetta vera tákn meðal yðar. Þegar synir yðar spyrja á síðan og segja: ,Hvað eiga steinar þessir að jarteina?`

þá skuluð þér segja við þá: ,Það, að vatnið í Jórdan stöðvaðist fyrir sáttmálsörk Drottins, þá er hún fór yfir Jórdan. Vatnið í Jórdan stöðvaðist, og þessir steinar skulu vera Ísraelsmönnum til minningar ævinlega."`

Og Ísraelsmenn gjörðu svo sem Jósúa bauð, og tóku tólf steina upp úr Jórdan miðri, eins og Drottinn hafði lagt fyrir Jósúa, eftir tölu ættkvísla Ísraelsmanna, og báru þá yfir um með sér, þangað er þeir höfðu náttstað, og settu þá þar niður.

Og Jósúa reisti tólf steina í Jórdan miðri á þeim stað, sem prestarnir, þeir er sáttmálsörkina báru, höfðu staðið, og eru þeir þar enn í dag.

10 En prestarnir, sem örkina báru, stóðu í Jórdan miðri, uns öllu því var lokið, sem Drottinn hafði boðið Jósúa að segja lýðnum samkvæmt öllu því, sem Móse hafði boðið Jósúa. Og lýðurinn flýtti sér að fara yfir um.

11 Og er allur lýðurinn var kominn yfir um, þá fór og örk Drottins yfir um og prestarnir, sem fóru fyrir lýðnum.

12 Rúbens synir, Gaðs synir og hálf ættkvísl Manasse fóru hertygjaðir fyrir Ísraelsmönnum, eins og Móse hafði fyrir þá lagt.

13 Um fjörutíu þúsundir vígbúinna manna að tölu héldu þeir yfir á Jeríkóvöllu fyrir augliti Drottins til hernaðar.

14 Á þeim degi miklaði Drottinn Jósúa í augsýn alls Ísraels, og þeir óttuðust hann alla ævi hans, eins og þeir höfðu óttast Móse.

15 Drottinn sagði við Jósúa:

16 "Bjóð þú prestunum, sem bera sáttmálsörkina, að stíga upp úr Jórdan."

17 Bauð Jósúa þá prestunum og mælti: "Stígið upp úr Jórdan!"

18 Og jafnskjótt sem prestarnir, er báru sáttmálsörk Drottins, voru komnir upp úr Jórdan og þeir höfðu stigið fótum á þurrt land, féll vatnið í Jórdan aftur í farveg sinn, og hún flóði sem áður yfir alla bakka.

19 Lýðurinn kom upp úr Jórdan á tíunda degi hins fyrsta mánaðar og setti búðir sínar í Gilgal, við austurtakmörkin á Jeríkó.

20 Og steinana tólf, er þeir höfðu tekið upp úr Jórdan, reisti Jósúa í Gilgal.

21 Mælti hann þá til Ísraelsmanna á þessa leið: "Þegar synir yðar á síðan spyrja feður sína og segja: ,Hvað eiga steinar þessir að jarteina?`

22 þá skuluð þér gjöra það kunnugt og segja: ,Ísrael gekk á þurru yfir ána Jórdan,

23 með því að Drottinn Guð yðar þurrkaði vatnið í Jórdan fyrir yður, þar til er þér voruð komnir yfir um, eins og Drottinn Guð yðar gjörði við Sefhafið, er hann þurrkaði það fyrir oss, þar til er vér vorum komnir yfir um,

24 til þess að allar þjóðir á jörðu mættu vita, að hönd Drottins er sterk, svo að þær óttuðust Drottin Guð yðar alla daga."`