Add parallel Print Page Options

Eftir þetta fór Jesús um Galíleu. Hann vildi ekki fara um Júdeu, sökum þess að Gyðingar sátu um líf hans.

Nú fór að hátíð Gyðinga, laufskálahátíðin.

Þá sögðu bræður hans við hann: "Flyt þig héðan og farðu til Júdeu, til þess að lærisveinar þínir sjái líka verkin þín, sem þú gjörir.

Því enginn starfar í leynum, ef hann vill verða alkunnur. Fyrst þú vinnur slík verk, þá opinbera sjálfan þig heiminum."

Því jafnvel bræður hans trúðu ekki á hann.

Jesús sagði við þá: "Minn tími er ekki enn kominn, en yður hentar allur tími.

Heimurinn getur ekki hatað yður. Mig hatar hann, af því ég vitna um hann, að verk hans eru vond.

Þér skuluð fara upp eftir á hátíðina. Ég fer ekki til þessarar hátíðar, því minn tími er ekki enn kominn."

Þetta sagði hann þeim og var kyrr í Galíleu.

10 Þegar bræður hans voru farnir upp eftir til hátíðarinnar, fór hann samt líka upp eftir, ekki svo menn vissu, heldur nánast á laun.

11 Gyðingar voru að leita að honum á hátíðinni og spurðu, hvar hann væri.

12 Manna á meðal var margt um hann talað. Sumir sögðu: "Hann er góður," en aðrir sögðu: "Nei, hann leiðir fjöldann í villu."

13 Þó talaði enginn opinskátt um hann af ótta við Gyðinga.

14 Er hátíðin var þegar hálfnuð, fór Jesús upp í helgidóminn og tók að kenna.

15 Gyðingar urðu forviða og sögðu: "Hvernig hefur þessi maður orðið lærður og hefur þó ekki fræðslu notið?"

16 Jesús svaraði þeim: "Kenning mín er ekki mín, heldur hans, er sendi mig.

17 Sá sem vill gjöra vilja hans, mun komast að raun um, hvort kenningin er frá Guði eða ég tala af sjálfum mér.

18 Sá sem talar af sjálfum sér, leitar eigin heiðurs, en sá sem leitar heiðurs þess, er sendi hann, er sannorður og í honum ekkert ranglæti.

19 Gaf Móse yður ekki lögmálið? Samt heldur enginn yðar lögmálið. Hví sitjið þér um líf mitt?"

20 Fólkið ansaði: "Þú ert haldinn illum anda. Hver situr um líf þitt?"

21 Jesús svaraði þeim: "Eitt verk gjörði ég, og þér undrist það allir.

22 Móse gaf yður umskurnina _ hún er að vísu ekki frá Móse, heldur feðrunum _ og þér umskerið mann jafnvel á hvíldardegi.

23 Fyrst maður er umskorinn á hvíldardegi, til þess að lögmál Móse verði ekki brotið, hví reiðist þér mér, að ég gjörði manninn allan heilan á hvíldardegi?

24 Dæmið ekki eftir útliti, dæmið réttlátan dóm."

25 Þá sögðu nokkrir Jerúsalembúar: "Er þetta ekki sá, sem þeir sitja um að lífláta?

26 Og nú er hann að tala á almannafæri, og þeir segja ekkert við hann. Skyldu nú höfðingjarnir hafa komist að raun um, að hann sé Kristur?

27 Nei, vér vitum, hvaðan þessi maður er. Þegar Kristur kemur, veit enginn, hvaðan hann er."

28 Jesús var að kenna í helgidóminum, og nú kallaði hann: "Bæði þekkið þér mig og vitið hvaðan ég er. Þó er ég ekki kominn af sjálfum mér. En sá er sannur, sem sendi mig, og hann þekkið þér ekki.

29 Ég þekki hann, því ég er frá honum og hann sendi mig."

30 Nú ætluðu þeir að grípa hann, en enginn lagði hendur á hann, því stund hans var enn ekki komin.

31 En af alþýðu manna tóku margir að trúa á hann og sögðu: "Mun Kristur gjöra fleiri tákn, þegar hann kemur, en þessi maður hefur gjört?"

32 Farísear heyrðu, að fólk var að skrafa þetta um hann, og æðstu prestar og farísear sendu þjóna að taka hann höndum.

33 Þá sagði Jesús: "Enn verð ég hjá yður skamma stund, og þá fer ég aftur til þess, sem sendi mig.

34 Þér munuð leita mín og eigi finna. Þér getið ekki komist þangað sem ég er."

35 Þá sögðu Gyðingar sín á milli: "Hvert skyldi hann ætla að fara, svo að vér finnum hann ekki? Hann ætlar þó ekki að fara til Gyðinga, sem dreifðir eru meðal Grikkja og kenna Grikkjum?

36 Hvað var hann að segja: ,Þér munuð leita mín og eigi finna, og þér getið ekki komist þangað sem ég er`?"

37 Síðasta daginn, hátíðardaginn mikla, stóð Jesús þar og kallaði: "Ef nokkurn þyrstir, þá komi hann til mín og drekki.

38 Sá sem trúir á mig, _ frá hjarta hans munu renna lækir lifandi vatns, eins og ritningin segir."

39 Þarna átti hann við andann, er þeir skyldu hljóta, sem á hann trúa. Því enn var andinn ekki gefinn, þar eð Jesús var ekki enn dýrlegur orðinn.

40 Þá sögðu nokkrir úr mannfjöldanum, sem hlýddu á þessi orð: "Þessi er sannarlega spámaðurinn."

41 Aðrir mæltu: "Hann er Kristur." En sumir sögðu: "Mundi Kristur þá koma frá Galíleu?

42 Hefur ekki ritningin sagt, að Kristur komi af kyni Davíðs og frá Betlehem, þorpinu þar sem Davíð var?"

43 Þannig greindi menn á um hann.

44 Nokkrir þeirra vildu grípa hann, en þó lagði enginn hendur á hann.

45 Nú komu þjónarnir til æðstu prestanna og faríseanna, sem sögðu við þá: "Hvers vegna komuð þér ekki með hann?"

46 Þjónarnir svöruðu: "Aldrei hefur nokkur maður talað þannig."

47 Þá sögðu farísearnir: "Létuð þér þá einnig leiðast afvega?

48 Ætli nokkur af höfðingjunum hafi farið að trúa á hann, eða þá af faríseum?

49 Þessi almúgi, sem veit ekkert í lögmálinu, hann er bölvaður!"

50 Nikódemus, sem kom til hans fyrrum og var einn af þeim, segir við þá:

51 "Mundi lögmál vort dæma mann, nema hann sé yfirheyrður áður og að því komist, hvað hann hefur aðhafst?"

52 Þeir svöruðu honum: "Ert þú nú líka frá Galíleu? Gáðu að og sjáðu, að enginn spámaður kemur úr Galíleu."

53 [Nú fór hver heim til sín.

En Jesús fór til Olíufjallsins.

Snemma morguns kom hann aftur í helgidóminn, og allur lýður kom til hans, en hann settist og tók að kenna þeim.

Farísear og fræðimenn koma með konu, staðna að hórdómi, létu hana standa mitt á meðal þeirra

og sögðu við hann: "Meistari, kona þessi var staðin að verki, þar sem hún var að drýgja hór.

Móse bauð oss í lögmálinu að grýta slíkar konur. Hvað segir þú nú?"

Þetta sögðu þeir til að reyna hann, svo þeir hefðu eitthvað að ákæra hann fyrir. En Jesús laut niður og skrifaði með fingrinum á jörðina.

Og þegar þeir héldu áfram að spyrja hann, rétti hann sig upp og sagði við þá: "Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana."

Og aftur laut hann niður og skrifaði á jörðina.

Þegar þeir heyrðu þetta, fóru þeir burt, einn af öðrum, öldungarnir fyrstir. Jesús var einn eftir, og konan stóð í sömu sporum.

10 Hann rétti sig upp og sagði við hana: "Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig?"

11 En hún sagði: "Enginn, herra." Jesús mælti: "Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar."]

12 Nú talaði Jesús aftur til þeirra og sagði: "Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins."

13 Þá sögðu farísear við hann: "Þú vitnar um sjálfan þig. Vitnisburður þinn er ekki gildur."

14 Jesús svaraði þeim: "Enda þótt ég vitni um sjálfan mig, er vitnisburður minn gildur, því ég veit hvaðan ég kom og hvert ég fer. En þér vitið ekki, hvaðan ég kem né hvert ég fer.

15 Þér dæmið að hætti manna. Ég dæmi engan.

16 En ef ég dæmi, er dómur minn réttur, því ég er ekki einn, með mér er faðirinn, sem sendi mig.

17 Og í lögmáli yðar er ritað, að vitnisburður tveggja manna sé gildur.

18 Ég er sá, sem vitna um sjálfan mig, og faðirinn, sem sendi mig, vitnar um mig."

19 Þeir sögðu við hann: "Hvar er faðir þinn?" Jesús svaraði: "Hvorki þekkið þér mig né föður minn. Ef þér þekktuð mig, þá þekktuð þér líka föður minn."

20 Þessi orð mælti Jesús hjá fjárhirslunni, þegar hann var að kenna í helgidóminum. Enginn lagði hendur á hann, því stund hans var ekki enn komin.

21 Enn sagði hann við þá: "Ég fer burt, og þér munuð leita mín, en þér munuð deyja í synd yðar. Þangað sem ég fer, getið þér ekki komist."

22 Nú sögðu Gyðingar: "Mun hann ætla að fyrirfara sér, fyrst hann segir: ,Þangað sem ég fer, getið þér ekki komist`?"

23 En hann sagði við þá: "Þér eruð neðan að, ég er ofan að. Þér eruð af þessum heimi, ég er ekki af þessum heimi.

24 Þess vegna sagði ég yður, að þér munduð deyja í syndum yðar. Því ef þér trúið ekki, að ég sé sá sem ég er, munuð þér deyja í syndum yðar."

25 Þeir spurðu hann þá: "Hver ert þú?" Jesús svaraði þeim: "Sá sem ég hef sagt yður frá upphafi.

26 Margt hef ég um yður að tala og fyrir margt að dæma. En sá sem sendi mig, er sannur, og það sem ég heyrði hjá honum, það tala ég til heimsins."

27 Þeir skildu ekki, að hann var að tala við þá um föðurinn.

28 Því sagði Jesús: "Þegar þér hefjið upp Mannssoninn, munuð þér skilja, að ég er sá sem ég er, og að ég gjöri ekkert af sjálfum mér, heldur tala ég það eitt, sem faðirinn hefur kennt mér.

29 Og sá sem sendi mig, er með mér. Hann hefur ekki látið mig einan, því ég gjöri ætíð það sem honum þóknast."

30 Þegar hann mælti þetta, fóru margir að trúa á hann.

31 Þá sagði Jesús við Gyðingana, sem tekið höfðu trú á hann: "Ef þér eruð stöðugir í orði mínu, eruð þér sannir lærisveinar mínir

32 og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa."

33 Þeir svöruðu honum: "Vér erum niðjar Abrahams og höfum aldrei verið nokkurs manns þrælar. Hvernig getur þú þá sagt: ,Þér munuð verða frjálsir`?"

34 Jesús svaraði þeim: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Hver sem syndina drýgir, er þræll syndarinnar.

35 En þrællinn dvelst ekki um aldur í húsinu, sonurinn dvelst þar um aldur og ævi.

36 Ef sonurinn gjörir yður frjálsa, munuð þér sannarlega verða frjálsir.

37 Ég veit, að þér eruð niðjar Abrahams. Þó leitist þér við að lífláta mig, því að orð mitt fær ekki rúm hjá yður.

38 Ég tala það, sem ég hef séð hjá föður mínum, og þér gjörið það, sem þér hafið heyrt hjá föður yðar."

39 Þeir svöruðu honum: "Faðir vor er Abraham." Jesús segir við þá: "Ef þér væruð börn Abrahams, munduð þér vinna verk Abrahams.

40 En nú leitist þér við að lífláta mig, mann sem hefur sagt yður sannleikann, sem ég heyrði hjá Guði. Slíkt gjörði Abraham aldrei.

41 Þér vinnið verk föður yðar." Þeir sögðu við hann: "Vér erum ekki hórgetnir. Einn föður eigum vér, Guð."

42 Jesús svaraði: "Ef Guð væri faðir yðar, munduð þér elska mig, því frá Guði er ég út genginn og kominn. Ekki er ég sendur af sjálfum mér. Það er hann, sem sendi mig.

43 Hví skiljið þér ekki mál mitt? Af því að þér getið ekki hlustað á orð mitt.

44 Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gjöra það, sem faðir yðar girnist. Hann var manndrápari frá upphafi og aldrei í sannleikanum, því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu, því hann er lygari og lyginnar faðir.

45 En af því að ég segi sannleikann, trúið þér mér ekki.

46 Hver yðar getur sannað á mig synd? Ef ég segi sannleikann, hví trúið þér mér ekki?

47 Sá sem er af Guði, heyrir Guðs orð. Þér heyrið ekki, vegna þess að þér eruð ekki af Guði."

48 Gyðingar svöruðu honum: "Er það ekki rétt, sem vér segjum, að þú sért Samverji og hafir illan anda?"

49 Jesús ansaði: "Ekki hef ég illan anda. Ég heiðra föður minn, en þér smánið mig.

50 Ég leita ekki míns heiðurs. Sá er til, sem leitar hans og dæmir.

51 Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem varðveitir mitt orð, skal aldrei að eilífu deyja."

52 Þá sögðu Gyðingar við hann: "Nú vitum vér, að þú hefur illan anda. Abraham dó og spámennirnir, og þú segir, að sá sem varðveitir orð þitt, skuli aldrei að eilífu deyja.

53 Ert þú meiri en faðir vor, Abraham? Hann dó, og spámennirnir dóu. Hver þykist þú vera?"

54 Jesús svaraði: "Ef ég vegsama sjálfan mig, er vegsemd mín engin. Faðir minn er sá, sem vegsamar mig, hann sem þér segið vera Guð yðar.

55 Og þér þekkið hann ekki, en ég þekki hann. Ef ég segðist ekki þekkja hann, væri ég lygari eins og þér. En ég þekki hann og varðveiti orð hans.

56 Abraham faðir yðar vænti þess með fögnuði að sjá dag minn, og hann sá hann og gladdist."

57 Nú sögðu Gyðingar við hann: "Þú ert ekki enn orðinn fimmtugur, og hefur séð Abraham!"

58 Jesús sagði við þá: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Áður en Abraham fæddist, er ég."

59 Þá tóku þeir upp steina til að grýta Jesú. En hann duldist og fór út úr helgidóminum.