A A A A A
Bible Book List

Jóhannesarguðspjall 19-21 Icelandic Bible (ICELAND)

19 Þegar Jesús hafði þetta mælt, fór hann út með lærisveinum sínum og yfir um lækinn Kedron. Þar var grasgarður, sem Jesús gekk inn í og lærisveinar hans.

Júdas, sem sveik hann, þekkti líka þennan stað, því Jesús og lærisveinar hans höfðu oft komið þar saman.

Júdas tók með sér flokk hermanna og verði frá æðstu prestum og faríseum. Þeir koma þar með blysum, lömpum og vopnum.

Jesús vissi allt, sem yfir hann mundi koma, gekk fram og sagði við þá: "Að hverjum leitið þér?"

Þeir svöruðu honum: "Að Jesú frá Nasaret." Hann segir við þá: "Ég er hann." En Júdas, sem sveik hann, stóð líka hjá þeim.

Þegar Jesús sagði við þá: "Ég er hann," hopuðu þeir á hæl og féllu til jarðar.

Þá spurði hann þá aftur: "Að hverjum leitið þér?" Þeir svöruðu: "Að Jesú frá Nasaret."

Jesús mælti: "Ég sagði yður, að ég væri hann. Ef þér leitið mín, þá lofið þessum að fara."

Þannig rættist orð hans, er hann hafði mælt: "Engum glataði ég af þeim, sem þú gafst mér."

10 Símon Pétur hafði sverð, brá því og hjó til þjóns æðsta prestsins og sneið af honum hægra eyrað. Þjónninn hét Malkus.

11 Þá sagði Jesús við Pétur: "Sting sverðinu í slíðrin. Á ég ekki að drekka kaleikinn, sem faðirinn hefur fengið mér?"

12 Hermennirnir, foringinn og varðmenn Gyðinga tóku nú Jesú höndum og bundu hann

13 og færðu hann fyrst til Annasar. Hann var tengdafaðir Kaífasar, sem var æðsti prestur það ár.

14 En Kaífas var sá sem gefið hafði Gyðingum það ráð, að betra væri, að einn maður dæi fyrir lýðinn.

15 Símon Pétur fylgdi Jesú og annar lærisveinn. Sá lærisveinn var kunnugur æðsta prestinum og fór með Jesú inn í hallargarð æðsta prestsins.

16 En Pétur stóð utan dyra. Hinn lærisveinninn, sem var kunnugur æðsta prestinum, kom út aftur, talaði við þernuna, sem dyra gætti, og fór inn með Pétur.

17 Þernan við dyrnar sagði þá við Pétur: "Ert þú ekki líka einn af lærisveinum þessa manns?" Hann sagði: "Ekki er ég það."

18 Þjónarnir og varðmennirnir höfðu kveikt kolaeld, því kalt var, og stóðu við hann og vermdu sig. Pétur stóð hjá þeim og ornaði sér.

19 Nú spurði æðsti presturinn Jesú um lærisveina hans og kenningu hans.

20 Jesús svaraði honum: "Ég hef talað opinskátt í áheyrn heimsins. Ég hef ætíð kennt í samkundunni og í helgidóminum, þar sem allir Gyðingar safnast saman, en í leynum hef ég ekkert talað.

21 Hví spyr þú mig? Spyrðu þá, sem heyrt hafa, hvað ég hef við þá talað. Þeir vita hvað ég hef sagt."

22 Þegar Jesús sagði þetta, rak einn varðmaður, sem þar stóð, honum löðrung og sagði: "Svarar þú æðsta prestinum svona?"

23 Jesús svaraði honum: "Hafi ég illa mælt, þá sanna þú, að svo hafi verið, en hafi ég rétt að mæla, hví slær þú mig?"

24 Þá sendi Annas hann bundinn til Kaífasar æðsta prests.

25 En Símon Pétur stóð og vermdi sig. Hann var þá spurður: "Ert þú ekki líka einn af lærisveinum hans?" Hann neitaði því og sagði: "Ekki er ég það."

26 Þá sagði einn af þjónum æðsta prestsins, frændi þess, sem Pétur sneið af eyrað: "Sá ég þig ekki í grasgarðinum með honum?"

27 Aftur neitaði Pétur, og um leið gól hani.

28 Nú var Jesús fluttur frá Kaífasi til hallar landshöfðingjans. Það var snemma morguns. Gyðingar fóru ekki sjálfir inn í höllina, svo að þeir saurguðust ekki, heldur mættu neyta páskamáltíðar.

29 Pílatus kom út til þeirra og sagði: "Hvaða ákæru berið þér fram gegn þessum manni?"

30 Þeir svöruðu: "Ef þetta væri ekki illvirki, hefðum vér ekki selt hann þér í hendur."

31 Pílatus segir við þá: "Takið þér hann, og dæmið hann eftir yðar lögum." Gyðingar svöruðu: "Oss leyfist ekki að taka neinn af lífi."

32 Þannig rættist orð Jesú, þegar hann gaf til kynna, með hvaða hætti hann átti að deyja.

33 Pílatus gekk þá aftur inn í höllina, kallaði Jesú fyrir sig og sagði við hann: "Ert þú konungur Gyðinga?"

34 Jesús svaraði: "Mælir þú þetta af sjálfum þér, eða hafa aðrir sagt þér frá mér?"

35 Pílatus svaraði: "Er ég þá Gyðingur? Þjóð þín og æðstu prestarnir hafa selt þig mér í hendur. Hvað hefur þú gjört?"

36 Jesús svaraði: "Mitt ríki er ekki af þessum heimi. Væri mitt ríki af þessum heimi, hefðu þjónar mínir barist, svo ég yrði ekki framseldur Gyðingum. En nú er ríki mitt ekki þaðan."

37 Þá segir Pílatus við hann: "Þú ert þá konungur?" Jesús svaraði: "Rétt segir þú. Ég er konungur. Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni. Hver sem er af sannleikanum, heyrir mína rödd."

38 Pílatus segir við hann: "Hvað er sannleikur?" Að svo mæltu gekk hann aftur út til Gyðinga og sagði við þá: "Ég finn enga sök hjá honum.

39 Þér eruð vanir því, að ég gefi yður einn mann lausan á páskunum. Viljið þér nú, að ég gefi yður lausan konung Gyðinga?"

40 Þeir hrópuðu á móti: "Ekki hann, heldur Barabbas." En Barabbas var ræningi.

20 Þá lét Pílatus taka Jesú og húðstrýkja hann.

Hermennirnir fléttuðu kórónu úr þyrnum og settu á höfuð honum og lögðu yfir hann purpurakápu.

Þeir gengu hver af öðrum fyrir hann og sögðu: "Sæll þú, konungur Gyðinga," og slógu hann í andlitið.

Pílatus gekk aftur út fyrir og sagði við þá: "Nú leiði ég hann út til yðar, svo að þér skiljið, að ég finn enga sök hjá honum."

Jesús kom þá út fyrir með þyrnikórónuna og í purpurakápunni. Pílatus segir við þá: "Sjáið manninn!"

Þegar æðstu prestarnir og verðirnir sáu hann, æptu þeir: "Krossfestu, krossfestu!" Pílatus sagði við þá: "Takið þér hann og krossfestið. Ég finn enga sök hjá honum."

Gyðingar svöruðu: "Vér höfum lögmál, og samkvæmt lögmálinu á hann að deyja, því hann hefur gjört sjálfan sig að Guðs syni."

Þegar Pílatus heyrði þessi orð, varð hann enn hræddari.

Hann fór aftur inn í höllina og segir við Jesú: "Hvaðan ertu?" En Jesús veitti honum ekkert svar.

10 Pílatus segir þá við hann: "Viltu ekki tala við mig? Veistu ekki, að ég hef vald til að láta þig lausan, og ég hef vald til að krossfesta þig?"

11 Jesús svaraði: "Þú hefðir ekkert vald yfir mér, ef þér væri ekki gefið það að ofan. Fyrir því ber sá þyngri sök, sem hefur selt mig þér í hendur."

12 Eftir þetta reyndi Pílatus enn að láta hann lausan. En Gyðingar æptu: "Ef þú lætur hann lausan, ert þú ekki vinur keisarans. Hver sem gjörir sjálfan sig að konungi, rís á móti keisaranum."

13 Þegar Pílatus heyrði þessi orð, leiddi hann Jesú út og settist í dómstólinn á stað þeim, sem nefnist Steinhlað, á hebresku Gabbata.

14 Þá var aðfangadagur páska, um hádegi. Hann sagði við Gyðinga: "Sjáið þar konung yðar!"

15 Þá æptu þeir: "Burt með hann! Burt með hann! Krossfestu hann!" Pílatus segir við þá: "Á ég að krossfesta konung yðar?" Æðstu prestarnir svöruðu: "Vér höfum engan konung nema keisarann."

16 Þá seldi hann þeim hann í hendur, að hann yrði krossfestur. Þeir tóku þá við Jesú.

17 Og hann bar kross sinn og fór út til staðar, sem nefnist Hauskúpa, á hebresku Golgata.

18 Þar krossfestu þeir hann og með honum tvo aðra sinn til hvorrar handar; Jesús í miðið.

19 Pílatus hafði ritað yfirskrift og sett hana á krossinn. Þar stóð skrifað: JESÚS FRÁ NASARET, KONUNGUR GYÐINGA.

20 Margir Gyðingar lásu þessa yfirskrift, því staðurinn, þar sem Jesús var krossfestur, var nærri borginni, og þetta var ritað á hebresku, latínu og grísku.

21 Þá sögðu æðstu prestar Gyðinga við Pílatus: "Skrifaðu ekki ,konungur Gyðinga`, heldur að hann hafi sagt: ,Ég er konungur Gyðinga`."

22 Pílatus svaraði: "Það sem ég hef skrifað, það hef ég skrifað."

23 Þegar hermennirnir höfðu krossfest Jesú, tóku þeir klæði hans og skiptu í fjóra hluti, og fékk hver sinn hlut. Þeir tóku og kyrtilinn, en hann var saumlaus, ofinn í eitt ofan frá og niður úr.

24 Þeir sögðu því hver við annan: "Rífum hann ekki sundur, köstum heldur hlut um, hver skuli fá hann." Svo rættist ritningin: Þeir skiptu með sér klæðum mínum og köstuðu hlut um kyrtil minn. Þetta gjörðu hermennirnir.

25 En hjá krossi Jesú stóðu móðir hans og móðursystir, María, kona Klópa, og María Magdalena.

26 Þegar Jesús sá móður sína standa þar og lærisveininn, sem hann elskaði, segir hann við móður sína: "Kona, nú er hann sonur þinn."

27 Síðan sagði hann við lærisveininn: "Nú er hún móðir þín." Og frá þeirri stundu tók lærisveinninn hana heim til sín.

28 Jesús vissi, að allt var þegar fullkomnað. Þá sagði hann, til þess að ritningin rættist: "Mig þyrstir."

29 Þar stóð ker fullt af ediki. Þeir settu njarðarvött fylltan ediki á ísópslegg og báru að munni honum.

30 Þegar Jesús hafði fengið edikið, sagði hann: "Það er fullkomnað." Þá hneigði hann höfuðið og gaf upp andann.

31 Nú var aðfangadagur, og til þess að líkin væru ekki á krossunum hvíldardaginn, báðu Gyðingar Pílatus að láta brjóta fótleggi þeirra og taka líkin ofan, enda var mikil helgi þess hvíldardags.

32 Hermenn komu því og brutu fótleggi þeirra, sem með honum voru krossfestir, fyrst annars, svo hins.

33 Þegar þeir komu að Jesú og sáu, að hann var þegar dáinn, brutu þeir ekki fótleggi hans.

34 En einn af hermönnunum stakk spjóti sínu í síðu hans, og rann jafnskjótt út blóð og vatn.

35 Sá er séð hefur, vitnar þetta, svo að þér trúið líka og vitnisburður hans er sannur. Og hann veit, að hann segir satt.

36 Þetta varð til þess, að ritningin rættist: "Ekkert bein hans skal brotið."

37 Og enn segir önnur ritning: "Þeir munu horfa til hans, sem þeir stungu."

38 Jósef frá Arímaþeu, sem var lærisveinn Jesú, en á laun af ótta við Gyðinga, bað síðan Pílatus að mega taka ofan líkama Jesú. Pílatus leyfði það. Hann kom þá og tók ofan líkama hans.

39 Þar kom líka Nikódemus, er fyrrum hafði komið til hans um nótt, og hafði með sér blöndu af myrru og alóe, nær hundrað pundum.

40 Þeir tóku nú líkama Jesú og sveipuðu hann línblæjum með ilmjurtunum, eins og Gyðingar búa lík til greftrunar.

41 En á staðnum, þar sem hann var krossfestur, var grasgarður og í garðinum ný gröf, sem enginn hafði enn verið lagður í.

42 Þar lögðu þeir Jesú, því það var aðfangadagur Gyðinga, og gröfin var nærri.

21 Fyrsta dag vikunnar kemur María Magdalena til grafarinnar svo snemma, að enn var myrkur, og sér steininn tekinn frá gröfinni.

Hún hleypur því og kemur til Símonar Péturs og hins lærisveinsins, sem Jesús elskaði, og segir við þá: "Þeir hafa tekið Drottin úr gröfinni, og vér vitum ekki, hvar þeir hafa lagt hann."

Pétur fór þá út og hinn lærisveinninn, og þeir komu til grafarinnar.

Þeir hlupu báðir saman. En hinn lærisveinninn hljóp hraðar, fram úr Pétri, og kom á undan að gröfinni.

Hann laut inn og sá línblæjurnar liggjandi, en fór samt ekki inn.

Nú kom líka Símon Pétur á eftir honum og fór inn í gröfina. Hann sá línblæjurnar liggja þar

og sveitadúkinn, sem verið hafði um höfuð hans. Hann lá ekki með línblæjunum, heldur sér samanvafinn á öðrum stað.

Þá gekk einnig inn hinn lærisveinninn, sem komið hafði fyrr til grafarinnar. Hann sá og trúði.

Þeir höfðu ekki enn skilið ritninguna, að hann ætti að rísa upp frá dauðum.

10 Síðan fóru lærisveinarnir aftur heim til sín.

11 En María stóð úti fyrir gröfinni og grét. Grátandi laut hún inn í gröfina

12 og sá tvo engla í hvítum klæðum sitja þar sem líkami Jesú hafði legið, annan til höfða og hinn til fóta.

13 Þeir segja við hana: "Kona, hví grætur þú?" Hún svaraði: "Þeir hafa tekið brott Drottin minn, og ég veit ekki, hvar þeir hafa lagt hann."

14 Að svo mæltu snýr hún sér við og sér Jesú standa þar. En hún vissi ekki, að það var Jesús.

15 Jesús segir við hana: "Kona, hví grætur þú? Að hverjum leitar þú?" Hún hélt, að hann væri grasgarðsvörðurinn, og sagði við hann: "Herra, ef þú hefur borið hann burt, þá segðu mér, hvar þú hefur lagt hann, svo að ég geti sótt hann."

16 Jesús segir við hana: "María!" Hún snýr sér að honum og segir á hebresku: "Rabbúní!" (Rabbúní þýðir meistari.)

17 Jesús segir við hana: "Snertu mig ekki! Ég er ekki enn stiginn upp til föður míns. En farðu til bræðra minna og seg þeim: ,Ég stíg upp til föður míns og föður yðar, til Guðs míns og Guðs yðar."`

18 María Magdalena kemur og boðar lærisveinunum: "Ég hef séð Drottin." Og hún flutti þeim það, sem hann hafði sagt henni.

19 Um kvöldið þennan fyrsta dag vikunnar voru lærisveinarnir saman og höfðu læst dyrum af ótta við Gyðinga. Þá kom Jesús, stóð mitt á meðal þeirra og sagði við þá: "Friður sé með yður!"

20 Þegar hann hafði þetta mælt, sýndi hann þeim hendur sínar og síðu. Lærisveinarnir urðu glaðir, er þeir sáu Drottin.

21 Þá sagði Jesús aftur við þá: "Friður sé með yður. Eins og faðirinn hefur sent mig, eins sendi ég yður."

22 Og er hann hafði sagt þetta, andaði hann á þá og sagði: "Meðtakið heilagan anda.

23 Ef þér fyrirgefið einhverjum syndirnar, eru þær fyrirgefnar. Ef þér synjið einhverjum fyrirgefningar, er þeim synjað."

24 En einn af þeim tólf, Tómas, nefndur tvíburi, var ekki með þeim, þegar Jesús kom.

25 Hinir lærisveinarnir sögðu honum: "Vér höfum séð Drottin." En hann svaraði: "Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína í síðu hans, mun ég alls ekki trúa."

26 Að viku liðinni voru lærisveinar hans aftur saman inni og Tómas með þeim. Dyrnar voru læstar. Þá kemur Jesús, stendur mitt á meðal þeirra og segir: "Friður sé með yður!"

27 Síðan segir hann við Tómas: "Kom hingað með fingur þinn og sjá hendur mínar, og kom með hönd þína og legg í síðu mína, og vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður."

28 Tómas svaraði: "Drottinn minn og Guð minn!"

29 Jesús segir við hann: "Þú trúir, af því þú hefur séð mig. Sælir eru þeir, sem hafa ekki séð og trúa þó."

30 Jesús gjörði einnig mörg önnur tákn í augsýn lærisveina sinna, sem eigi eru skráð á þessa bók.

31 En þetta er ritað til þess að þér trúið, að Jesús sé Kristur, sonur Guðs, og að þér í trúnni eigið líf í hans nafni.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes