Add parallel Print Page Options

Þá svaraði Bildad frá Súa og sagði:

Hversu lengi ætlar þú slíkt að mæla og orðin í munni þínum að vera hvass vindur?

Hallar þá Guð réttinum, eða hallar hinn Almáttki réttlætinu?

Hafi börn þín syndgað móti honum, þá hefir hann selt þau misgjörð þeirra á vald.

En ef þú leitar Guðs og biður hinn Almáttka miskunnar _

ef þú ert hreinn og einlægur _ já, þá mun hann þegar vakna til að sinna þér og endurreisa bústað þíns réttlætis.

Þá mun þinn fyrri hagur virðast lítilfjörlegur, en framtíðarhagur þinn vaxa stórum.

Spyr þú hina fyrri kynslóð og gef þú gaum að reynslu feðranna.

Vér erum síðan í gær og vitum ekkert, því að skuggi eru dagar vorir á jörðunni.

10 En þeir munu fræða þig, segja þér það og bera fram orð úr sjóði hjarta síns:

11 "Sprettur pappírssefið þar sem engin mýri er? vex störin nema í vatni?

12 Enn stendur hún í blóma og verður eigi slegin, en hún skrælnar fyrr en nokkurt annað gras."

13 Svo fer fyrir hverjum þeim, sem gleymir Guði, og von hins guðlausa verður að engu.

14 Athvarf hans brestur sundur, og köngullóarvefur er það, sem hann treystir.

15 Hann styðst við hús sitt, en það stendur ekki, hann heldur sér fast í það, en það stenst ekki.

16 Hann er safarík skríðandi flétta í sólskini, sem teygir jarðstöngla sína um garðinn

17 og vefur rótum sínum um grjóthrúgur og læsir sig milli steinanna.

18 En ef hann er upprættur frá stað sínum, þá afneitar staðurinn honum og segir: "Ég hefi aldrei séð þig!"

19 Sjá, þetta er öll gleði hans, og aðrir spretta í staðinn upp úr moldinni.

20 Sjá, Guð hafnar ekki hinum ráðvanda og heldur ekki í hönd illgjörðamanna.

21 Enn mun hann fylla munn þinn hlátri og varir þínar fagnaðarópi.

22 Þeir sem hata þig, munu skömminni klæðast, og tjald hinna óguðlegu mun horfið vera.

Þá svaraði Job og sagði:

Vissulega, ég veit að það er svo, og hvernig ætti maðurinn að hafa rétt fyrir sér gagnvart Guði?

Þóknist honum að deila við hann, getur hann ekki svarað einni spurningu af þúsund.

Hann er vitur í hjarta og máttkur að afli _ hver þrjóskaðist gegn honum og sakaði eigi? _

Hann sem flytur fjöll, svo að þau vita ekki af, hann sem kollvarpar þeim í reiði sinni,

hann sem hrærir jörðina úr stað, svo að stoðir hennar leika á reiðiskjálfi,

hann sem býður sólinni, og hún rennur ekki upp, og setur innsigli fyrir stjörnurnar,

hann sem þenur út himininn aleinn, og gengur á háöldum sjávarins,

hann sem skóp Vagnstirnið og Óríon, Sjöstjörnuna og forðabúr sunnanvindsins,

10 hann sem gjörir mikla hluti og órannsakanlega og dásemdarverk, er eigi verða talin,

11 sjá, hann gengur fram hjá mér, en ég sé hann ekki, hann strýkst fram hjá, en ég verð hans ekki var.

12 Þegar hann þrífur til, hver vill þá aftra honum, hver vill segja við hann: "Hvað gjörir þú?"

13 Guð heldur ekki aftur reiði sinni, bandamenn hafdrekans beygðu sig undir hann.

14 Hversu miklu síður mundi ég þá geta svarað honum, geta valið orð mín gagnvart honum,

15 ég sem ekki mætti svara, þótt ég hefði rétt fyrir mér, heldur verð að beiðast miskunnar af dómara mínum.

16 Þótt ég kallaði og hann svaraði mér, þá mundi ég ekki trúa, að hann hlustaði á mig.

17 Miklu fremur mundi hann hvæsa á mig í stormviðri og margfalda sár mín án saka,

18 aldrei leyfa mér að draga andann, heldur metta mig beiskri kvöl.

19 Sé um kraft að ræða, er mátturinn hans, sé um rétt að ræða, hver vill þá stefna honum?

20 Þótt ég hefði rétt fyrir mér, þá mundi munnur minn sakfella mig, þótt ég væri saklaus, mundi hann koma á mig sektinni.

21 Saklaus er ég, ég hirði ekkert um líf mitt, ég virði að vettugi tilveru mína!

22 Mér stendur á sama um það. Fyrir því segi ég: hann tortímir jafnt saklausum sem óguðlegum.

23 Þegar svipan deyðir snögglega, þá gjörir hann gys að örvænting hinna saklausu.

24 Jörðin er gefin í vald hinna óguðlegu, hann byrgir fyrir andlitið á dómendum hennar. Sé það ekki hann _ hver þá?

25 Dagar mínir voru skjótari en hraðboði, liðu svo hjá, að þeir litu enga hamingju.

26 Þeir brunuðu áfram eins og reyrbátar, eins og örn, sem steypir sér niður á æti.

27 Ef ég segi: Ég ætla að gleyma volæði mínu, ég ætla að breyta andlitssvip mínum og vera kátur, _

28 þá hryllir mig við öllum þjáningum mínum, því ég veit þú sýknar mig ekki.

29 Ég á nú að vera sekur, hví skyldi ég þá vera að mæðast til ónýtis?

30 Þótt ég þvægi mér úr snjó og hreinsaði hendur mínar í lút,

31 þá mundir þú dýfa mér ofan í forarvilpu, svo að klæðum mínum byði við mér.

32 Guð er ekki maður eins og ég, að ég geti svarað honum, að við getum gengið saman fyrir réttinn.

33 Enginn er sá, er úr skeri okkar í milli, er lagt geti hönd sína á okkur báða.

34 Hann taki vönd sinn frá mér og láti ekki skelfing sína hræða mig,

35 þá vil ég tala og eigi óttast hann, því að svo er mér eigi farið hið innra.

10 Mér býður við lífi mínu, ég ætla því að gefa kveinstöfum mínum lausan tauminn, ætla að tala í sálarkvöl minni.

Ég segi við Guð: Sakfell mig ekki! lát mig vita, hvers vegna þú deilir við mig.

Er það ávinningur fyrir þig, að þú undirokar, að þú hafnar verki handa þinna, en lætur ljós skína yfir ráðagerð hinna óguðlegu?

Hefir þú holdleg augu, eða sér þú eins og menn sjá?

Eru dagar þínir eins og dagar mannanna, eru ár þín eins og mannsævi,

er þú leitar að misgjörð minni og grennslast eftir synd minni,

þótt þú vitir, að ég er ekki sekur, og að enginn frelsar af þinni hendi?

Hendur þínar hafa skapað mig og myndað mig, allan í krók og kring, og samt ætlar þú að tortíma mér?

Minnstu þó þess, að þú myndaðir mig sem leir, og nú vilt þú aftur gjöra mig að dufti.

10 Hefir þú ekki hellt mér sem mjólk og hleypt mig sem ost?

11 Hörundi og holdi klæddir þú mig og ófst mig saman úr beinum og sinum.

12 Líf og náð veittir þú mér, og umsjá þín varðveitti andardrátt minn.

13 En þetta falst þú í hjarta þínu, ég veit þú hafðir slíkt í hyggju.

14 Ef ég syndgaði, þá ætlaðir þú að hafa gætur á mér og eigi sýkna mig af misgjörð minni.

15 Væri ég sekur, þá vei mér! Og þótt ég væri réttlátur, þá mundi ég samt ekki bera höfuð mitt hátt, mettur af smán og þjakaður af eymd.

16 Og ef ég reisti mig upp, þá mundir þú elta mig sem ljón, og ávallt að nýju sýna á mér undramátt þinn.

17 Þú mundir leiða fram ný vitni á móti mér og herða á gremju þinni gegn mér, senda nýjan og nýjan kvalaher á hendur mér.

18 Hvers vegna útleiddir þú mig þá af móðurlífi? Ég hefði átt að deyja, áður en nokkurt auga leit mig!

19 Ég hefði átt að verða eins og ég hefði aldrei verið til, verið borinn frá móðurkviði til grafar!

20 Eru ekki dagar mínir fáir? Slepptu mér, svo að ég megi gleðjast lítið eitt,

21 áður en ég fer burt og kem aldrei aftur, fer í land myrkurs og niðdimmu,

22 land svartamyrkurs sem um hánótt, land niðdimmu og skipuleysis, þar sem birtan sjálf er sem svartnætti.

26 En engill Drottins mælti til Filippusar: "Statt upp og gakk suður á veginn, sem liggur ofan frá Jerúsalem til Gasa." Þar er óbyggð.

27 Hann hlýddi og fór. Þá bar að mann frá Eþíópíu. Hann var hirðmaður og höfðingi hjá Kandake, drottningu Eþíópa, og settur yfir alla fjárhirslu hennar. Hann hafði farið til Jerúsalem til að biðjast fyrir

28 og var á heimleið, sat í vagni sínum og las Jesaja spámann.

29 Andinn sagði þá við Filippus: "Gakk að þessum vagni og vertu sem næst honum."

30 Filippus skundaði þangað og heyrði manninn vera að lesa Jesaja spámann. Hann spurði: "Hvort skilur þú það, sem þú ert að lesa?"

31 Hinn svaraði: "Hvernig ætti ég að geta það, ef enginn leiðbeinir mér?" Og hann bað Filippus stíga upp í og setjast hjá sér.

32 En orð þeirrar ritningar, sem hann var að lesa, voru þessi: Eins og sauður til slátrunar leiddur, og sem lamb þegir hjá þeim, er klippir það, svo lauk hann ekki upp munni sínum.

33 Í niðurlægingunni var hann sviptur rétti. Hver getur sagt frá ætt hans? Því að líf hans var hrifið burt af jörðinni.

34 Hirðmaðurinn mælti þá við Filippus: "Seg þú mér: Um hvern segir spámaðurinn þetta, sjálfan sig eða einhvern annan?"

35 Filippus tók þá til orða, hóf máls á ritningu þessari og boðaði honum fagnaðarerindið um Jesú.

36 Þegar þeir fóru áfram veginn, komu þeir að vatni nokkru. Þá mælti hirðmaðurinn: "Hér er vatn, hvað hamlar mér að skírast?"

38 Hann lét stöðva vagninn, og stigu báðir niður í vatnið, Filippus og hirðmaðurinn, og Filippus skírði hann.

39 En er þeir stigu upp úr vatninu, hreif andi Drottins Filippus burt. Hirðmaðurinn sá hann ekki framar og fór fagnandi leiðar sinnar.

40 En Filippus kom fram í Asdód, fór um og flutti fagnaðarerindið í hverri borg, uns hann kom til Sesareu.

Read full chapter