Add parallel Print Page Options

32 Og þessir þrír menn hættu að svara Job, því að hann þóttist vera réttlátur.

Þá upptendraðist reiði Elíhú Barakelssonar Búsíta af Rams kynstofni. Upptendraðist reiði hans gegn Job, af því að hann taldi sig hafa á réttu að standa gagnvart Guði.

Reiði hans upptendraðist og gegn vinum hans þremur, fyrir það að þeir fundu engin andsvör til þess að sanna Job, að hann hefði á röngu að standa.

En Elíhú hafði beðið með að mæla til Jobs, því að hinir voru eldri en hann.

En er Elíhú sá, að mennirnir þrír gátu engu svarað, upptendraðist reiði hans.

Þá tók Elíhú Barakelsson Búsíti til máls og sagði: Ég er ungur að aldri, en þér eruð öldungar, þess vegna fyrirvarð ég mig og kom mér eigi að því að kunngjöra yður það, sem ég veit.

Ég hugsaði: Aldurinn tali, og árafjöldinn kunngjöri speki!

En _ það er andinn í manninum og andblástur hins Almáttka, sem gjörir þá vitra.

Elstu mennirnir eru ekki ávallt vitrastir, og öldungarnir skynja eigi, hvað réttast er.

10 Fyrir því segi ég: Hlýð á mig, nú ætla einnig ég að kunngjöra það, sem ég veit.

11 Sjá, ég beið eftir ræðum yðar, hlustaði á röksemdir yðar, uns þér fynduð orðin, sem við ættu.

12 Og að yður gaf ég gaum, en sjá, enginn sannfærði Job, enginn yðar hrakti orð hans.

13 Segið ekki: "Vér höfum hitt fyrir speki, Guð einn fær sigrað hann, en enginn maður!"

14 Gegn mér hefir hann ekki sett fram neinar sannanir, og með yðar orðum ætla ég ekki að svara honum.

15 Þeir eru skelkaðir, svara eigi framar, þeir standa uppi orðlausir.

16 Og ætti ég að bíða, þar sem þeir þegja, þar sem þeir standa og svara eigi framar?

17 Ég vil og svara af minni hálfu, ég vil og kunngjöra það, sem ég veit.

18 Því að ég er fullur af orðum, andinn í brjósti mínu knýr mig.

19 Sjá, brjóst mitt er sem vín, er ekki fær útrás, ætlar að rifna, eins og nýfylltir belgir.

20 Ég ætla að tala til þess að létta á mér, ætla að opna varir mínar og svara.

21 Ég ætla ekki að draga taum neins, og ég ætla engan að skjalla.

22 Því að ég kann ekki að skjalla, ella kynni skapari minn bráðlega að kippa mér burt.

33 En heyr þú, Job, ræðu mína, og hlýð þú á öll orð mín.

Sjá, ég opna munn minn, og tunga mín talar í gómi mínum.

Orð mín eru hjartans hreinskilni, og það sem varir mínar vita, mæla þær í einlægni.

Andi Guðs hefir skapað mig, og andblástur hins Almáttka gefur mér líf.

Ef þú getur, þá svara þú mér, bú þig út í móti mér og gakk fram.

Sjá, ég stend eins og þú gagnvart Guði, ég er og myndaður af leiri.

Sjá, hræðsla við mig þarf eigi að skelfa þig og þungi minn eigi þrýsta þér niður.

En þú hefir sagt í eyru mér, og ég heyrði hljóm orðanna:

"Hreinn er ég, laus við afbrot, saklaus er ég, og hjá mér er engin misgjörð.

10 En Guð reynir að finna tilefni til fjandskapar við mig og ætlar að ég sé óvinur hans.

11 Hann setur fætur mína í stokk og aðgætir alla vegu mína."

12 Sjá, í þessu hefir þú rangt fyrir þér, svara ég þér, því að Guð er meiri en maður.

13 Hví hefir þú þráttað við hann, að hann svaraði engu öllum orðum þínum?

14 Því að vissulega talar Guð einu sinni, já, tvisvar, en menn gefa því ekki gaum.

15 Í draumi, í nætursýn, þá er þungur svefnhöfgi er fallinn yfir mennina, í blundi á hvílubeði,

16 opnar hann eyru mannanna og innsiglar viðvörunina til þeirra

17 til þess að fá manninn til þess að láta af gjörðum sínum og forða manninum við drambsemi.

18 Hann hlífir sálu hans við gröfinni og lífi hans frá því að farast fyrir skotvopni.

19 Maðurinn er og agaður með kvölum á sæng sinni, og stríðið geisar stöðuglega í beinum hans.

20 Þá vekur lífshvötin óbeit hjá honum á brauðinu og sál hans á uppáhaldsfæðunni.

21 Hold hans eyðist og verður óásjálegt, og beinin, sem sáust ekki áður, verða ber,

22 svo að sál hans nálgast gröfina og líf hans engla dauðans.

23 En ef þar er hjá honum árnaðarengill, talsmaður, einn af þúsund til þess að boða manninum skyldu hans,

24 og miskunni hann sig yfir hann og segi: "Endurleys hann og lát hann eigi stíga niður í gröfina, ég hefi fundið lausnargjaldið,"

25 þá svellur hold hans af æskuþrótti, hann snýr aftur til æskudaga sinna.

26 Hann biður til Guðs, og Guð miskunnar honum, lætur hann líta auglit sitt með fögnuði og veitir manninum aftur réttlæti hans.

27 Hann syngur frammi fyrir mönnum og segir: "Ég hafði syndgað og gjört hið beina bogið, og þó var mér ekki goldið líku líkt.

28 Guð hefir leyst sálu mína frá því að fara ofan í gröfina, og líf mitt gleður sig við ljósið."

29 Sjá, allt þetta gjörir Guð tvisvar eða þrisvar við manninn

30 til þess að hrífa sál hans frá gröfinni, til þess að lífsins ljós megi leika um hann.

31 Hlýð á, Job, heyr þú mig, ver þú hljóður og lát mig tala.

32 Hafir þú eitthvað að segja, þá svara mér, tala þú, því að gjarnan vildi ég, að þú reyndist réttlátur.

33 Ef svo er eigi þá heyr þú mig, ver hljóður, að ég megi kenna þér speki.

34 Og Elíhú tók aftur til máls og sagði:

Heyrið, þér vitrir menn, orð mín, og þér fróðir menn, hlustið á mig.

Því að eyrað prófar orðin, eins og gómurinn smakkar matinn.

Vér skulum rannsaka, hvað rétt er, komast að því hver með öðrum, hvað gott er.

Því að Job hefir sagt: "Ég er saklaus, en Guð hefir svipt mig rétti mínum.

Þótt ég hafi rétt fyrir mér, stend ég sem lygari, banvæn ör hefir hitt mig, þótt ég hafi í engu brotið."

Hvaða maður er eins og Job, sem drekkur guðlast eins og vatn

og gefur sig í félagsskap við þá, sem illt fremja, og er í fylgi við óguðlega menn?

Því að hann hefir sagt: "Maðurinn hefir ekkert gagn af því að vera í vinfengi við Guð."

10 Fyrir því, skynsamir menn, heyrið mig! Fjarri fer því, að Guð aðhafist illt og hinn Almáttki fremji ranglæti.

11 Nei, hann geldur manninum verk hans og lætur manninum farnast eftir breytni hans.

12 Já, vissulega fremur Guð ekki ranglæti, og hinn Almáttki hallar ekki réttinum.

13 Hver hefir fengið honum jörðina til varðveislu, og hver hefir grundvallað allan heiminn?

14 Ef hann hugsaði aðeins um sjálfan sig, ef hann drægi til sín anda sinn og andardrátt,

15 þá mundi allt hold gefa upp andann og maðurinn aftur verða að dufti.

16 Hafir þú vit, þá heyr þú þetta, hlusta þú á hljóm orða minna.

17 Getur sá stjórnað, sem hatar réttinn? Eða vilt þú dæma hinn réttláta, volduga?

18 þann sem segir við konunginn: "Þú varmenni!" við tignarmanninn: "Þú níðingur!"

19 sem ekki dregur taum höfðingjanna og gjörir ekki ríkum hærra undir höfði en fátækum, því að handaverk hans eru þeir allir.

20 Skyndilega deyja þeir, og það um miðja nótt, fólkið verður skelkað, og þeir hverfa, og hinn sterki er hrifinn burt, en eigi af manns hendi.

21 Því að augu Guðs hvíla yfir vegum hvers manns, og hann sér öll spor hans.

22 Ekkert það myrkur er til eða sú niðdimma, að illgjörðamenn geti falið sig þar.

23 Því að Guð þarf ekki fyrst að gefa manni gaum, til þess að hann komi fyrir dóm hans.

24 Hann brýtur hina voldugu sundur rannsóknarlaust og setur aðra í þeirra stað.

25 Þannig þekkir hann verk þeirra og steypir þeim um nótt, og þeir verða marðir sundur.

26 Hann hirtir þá sem misgjörðamenn í augsýn allra manna,

27 vegna þess að þeir hafa frá honum vikið og vanrækt alla vegu hans

28 og látið kvein hins fátæka berast til hans, en hann heyrði kvein hinna voluðu.

29 Haldi hann kyrru fyrir, hver vill þá sakfella hann? og byrgi hann auglitið, hver fær þá séð hann? Þó vakir hann yfir þjóð og einstaklingi,

30 til þess að guðlausir menn skuli ekki drottna, til þess að þeir séu ekki snörur lýðsins.

31 Því að segir nokkur við Guð: "Mér hefir verið hegnt og breyti þó ekki illa.

32 Kenn þú mér það, sem ég sé ekki. Hafi ég framið ranglæti, skal ég eigi gjöra það framar"?

33 Á hann að endurgjalda eftir geðþótta þínum, af því að þú hafnar? því að þú átt að velja, en ekki ég. Og seg nú fram það, er þú veist!

34 Skynsamir menn munu segja við mig, og vitur maður, sem á mig hlýðir:

35 "Job talar ekki hyggilega, og orð hans eru ekki skynsamleg."

36 Ó að Job mætti reyndur verða æ að nýju, af því að hann svarar eins og illir menn svara.

37 Því að hann bætir misgjörð ofan á synd sína, hann klappar saman höndunum framan í oss og heldur langar ræður móti Guði.