A A A A A
Bible Book List

Jobsbók 29-31 Icelandic Bible (ICELAND)

29 Og Job hélt áfram að flytja ræðu sína og mælti:

Ó að mér liði eins og forðum daga, eins og þá er Guð varðveitti mig,

þá er lampi hans skein yfir höfði mér, og ég gekk við ljós hans í myrkrinu,

eins og þá er ég var á sumri ævi minnar, þá er vinátta Guðs var yfir tjaldi mínu,

þá er hinn Almáttki var enn með mér og börn mín hringinn í kringum mig,

þá er ég óð í rjóma, og olífuolían rann í lækjum úr klettinum hjá mér,

þá er ég gekk út í borgarhliðið, upp í borgina, bjó mér sæti á torginu.

Þegar sveinarnir sáu mig, földu þeir sig, og öldungarnir risu úr sæti og stóðu.

Höfðingjarnir hættu að tala og lögðu hönd á munn sér.

10 Rödd tignarmannanna þagnaði, og tunga þeirra loddi við góminn.

11 Því að ef eyra heyrði, taldi það mig sælan, og ef auga sá, bar það mér vitni.

12 Því að ég bjargaði bágstöddum, sem hrópuðu á hjálp, og munaðarleysingjum, sem enga aðstoð áttu.

13 Blessunarósk aumingjans kom yfir mig, og hjarta ekkjunnar fyllti ég fögnuði.

14 Ég íklæddist réttlætinu, og það íklæddist mér, ráðvendni mín var mér sem skikkja og vefjarhöttur.

15 Ég var auga hins blinda og fótur hins halta.

16 Ég var faðir hinna snauðu, og málefni þess, sem ég eigi þekkti, rannsakaði ég.

17 Ég braut jaxlana í hinum rangláta og reif bráðina úr tönnum hans.

18 Þá hugsaði ég: "Í hreiðri mínu mun ég gefa upp andann og lifa langa ævi, eins og Fönix-fuglinn.

19 Rót mín er opin fyrir vatninu, og döggin hefir náttstað á greinum mínum.

20 Heiður minn er æ nýr hjá mér, og bogi minn yngist upp í hendi minni."

21 Þeir hlustuðu á mig og biðu og hlýddu þegjandi á tillögu mína.

22 Þá er ég hafði talað, tóku þeir eigi aftur til máls, og ræða mín draup niður á þá.

23 Þeir biðu mín eins og regns, og opnuðu munn sinn, eins og von væri á vorskúr.

24 Ég brosti til þeirra, þegar þeim féllst hugur, og ljós auglitis míns gjörðu þeir aldrei dapurt.

25 Fús lagði ég leið til þeirra og sat þar efstur, sat þar sem konungur umkringdur af hersveit sinni, eins og huggari harmþrunginna.

30 En nú hlæja þeir að mér, sem yngri eru en ég, mundi ég þó ekki hafa virt feður þeirra þess að setja þá hjá fjárhundum mínum.

Hvað hefði og kraftur handa þeirra stoðað mig, þar sem þeir aldrei verða fullþroska?

Þeir eru örmagna af skorti og hungri, naga þurrt landið, sem í gær var auðn og eyðimörk.

Þeir reyta hrímblöðku hjá runnunum, og gýfilrætur er fæða þeirra.

Þeir eru flæmdir úr félagi manna, menn æpa að þeim eins og að þjóf,

svo að þeir verða að hafast við í hræðilegum gjám, í jarðholum og berghellum.

Milli runnanna rymja þeir, og undir netlunum safnast þeir saman,

guðlaust og ærulaust kyn, útreknir úr landinu.

Og nú er ég orðinn þeim að háðkvæði og orðinn umtalsefni þeirra.

10 Þeir hafa andstyggð á mér, koma ekki nærri mér og hlífast jafnvel ekki við að hrækja framan í mig.

11 Þar sem Guð hefir leyst streng sinn og beygt mig, þá sleppa þeir og beislinu fram af sér gagnvart mér.

12 Mér til hægri handar vex hyski þeirra upp, fótum mínum hrinda þeir frá sér og leggja glötunarbrautir sínar gegn mér.

13 Þeir hafa rifið upp stig minn, að falli mínu styðja þeir, sem engan hjálparmann eiga.

14 Þeir koma sem inn um vítt múrskarð, velta sér áfram innan um rústir.

15 Skelfingar hafa snúist móti mér, tign mín er ofsótt eins og af stormi, og gæfa mín er horfin eins og ský.

16 Og nú rennur sála mín sundur í tárum, eymdardagar halda mér föstum.

17 Nóttin nístir bein mín, svo að þau losna frá mér, og hinar nagandi kvalir mínar hvílast ekki.

18 Fyrir mikilleik máttar hans er klæðnaður minn aflagaður, hann lykur fast um mig, eins og hálsmál kyrtils míns.

19 Guð hefir kastað mér ofan í saurinn, svo að ég er orðinn eins og mold og aska.

20 Ég hrópa til þín, en þú svarar ekki, ég stend þarna, en þú starir á mig.

21 Þú ert orðinn grimmur við mig, með krafti handar þinnar ofsækir þú mig.

22 Þú lyftir mér upp á vindinn, lætur mig þeytast áfram, og þú lætur mig farast í stormgný.

23 Því að ég veit, að þú vilt leiða mig til Heljar, í samkomustað allra þeirra er lifa.

24 En _ rétta menn ekki út höndina, þegar allt hrynur? eða hrópa menn ekki á hjálp, þegar þeir eru að farast?

25 Eða grét ég ekki yfir þeim, sem átti illa daga, og hryggðist ekki sál mín vegna fátæklingsins?

26 Já, ég bjóst við góðu, en þá kom illt, vænti ljóss, en þá kom myrkur.

27 Það sýður í innýflum mínum án afláts, eymdardagar eru yfir mig komnir.

28 Svartur geng ég um, þó ekki af sólarhita, ég stend upp, í söfnuðinum hrópa ég á hjálp.

29 Ég er orðinn bróðir sjakalanna og félagi strútsfuglanna.

30 Hörund mitt er orðið svart og flagnar af mér, og bein mín eru brunnin af hita.

31 Og fyrir því varð gígja mín að gráti og hjarðpípa mín að harmakveini.

31 Ég hafði gjört sáttmála við augu mín; hvernig hefði ég þá átt að líta til yngismeyjar?

Og hvert væri þá hlutskiptið frá Guði hér að ofan og arfleifðin frá hinum Almáttka af hæðum?

Er það ekki glötun fyrir glæpamanninn og ógæfa fyrir þá, er illt fremja?

Sér hann ekki vegu mína, og telur hann ekki öll mín spor?

Hafi ég gengið með lyginni og fótur minn hraðað sér til svika _

vegi Guð mig á rétta vog, til þess að hann viðurkenni sakleysi mitt! _

hafi spor mín vikið af leið, hjarta mitt farið eftir fýsn augna minna og flekkur loðað við hendur mínar,

þá eti annar það, sem ég sái, og frjóangar mínir verði rifnir upp með rótum.

Hafi hjarta mitt látið ginnast vegna einhverrar konu, og hafi ég staðið á hleri við dyr náunga míns,

10 þá mali kona mín fyrir annan, og aðrir menn leggist með henni.

11 Því að slíkt væri óhæfa og glæpur, sem dómurum ber að hegna fyrir,

12 því að það væri eldur, sem eyðir ofan í undirdjúpin og hlyti að uppræta allar eigur mínar.

13 Hafi ég lítilsvirt rétt þjóns míns eða þernu minnar, þá er þau áttu í deilu við mig,

14 hvað ætti ég þá að gjöra, þegar Guð risi upp, og hverju svara honum, þegar hann rannsakaði?

15 Hefir eigi sá er mig skóp, skapað þjón minn í móðurlífi, og hefir ekki hinn sami myndað okkur í móðurkviði?

16 Hafi ég synjað fátækum bónar og látið augu ekkjunnar daprast,

17 hafi ég etið bitann minn einn; og munaðarleysinginn ekkert fengið af honum _

18 nei, frá barnæsku minni hefir hann vaxið upp hjá mér sem hjá föður og frá móðurlífi hefi ég leitt hann _

19 hafi ég séð aumingja klæðlausan og snauðan mann ábreiðulausan,

20 hafi lendar hans ekki blessað mig og hafi honum ekki hitnað við ullina af sauðum mínum;

21 hafi ég reitt hnefann að munaðarleysingjanum, af því að ég sá mér liðsvon í borgarhliðinu,

22 þá detti axlir mínar frá herðunum og handleggur minn brotni úr axlarliðnum.

23 Því að glötunin frá Guði var mér skelfileg, og gegn hátign hans megna ég ekkert.

24 Hafi ég gjört gullið að athvarfi mínu og nefnt skíragullið fulltrúa minn,

25 hafi ég glaðst yfir því, að auður minn var mikill og að hönd mín aflaði svo ríkulega,

26 hafi ég horft á sólina, hversu hún skein, og á tunglið, hversu dýrlega það óð áfram,

27 og hafi hjarta mitt þá látið tælast í leynum, svo að ég bæri hönd að munni og kyssti hana,

28 það hefði líka verið hegningarverð synd, því að þá hefði ég afneitað Guði á hæðum.

29 Hafi ég glaðst yfir óförum fjandmanns míns og hlakkað yfir því, að ógæfa kom yfir hann _

30 nei, aldrei hefi ég leyft munni mínum svo að syndga að ég með formælingum óskaði dauða hans.

31 Hafa ekki heimilismenn mínir sagt: "Hvenær hefir nokkur farið ósaddur frá borði hans?"

32 ég lét ekki aðkomumann nátta á bersvæði, heldur opnaði ég dyr mínar fyrir ferðamanninum.

33 Hafi ég hulið yfirsjónir mínar, eins og menn gjöra, og falið misgjörð mína í brjósti mínu,

34 af því að ég hræddist mannfjöldann, og af því að fyrirlitning ættanna fældi mig, svo að ég hafði hægt um mig og fór ekki út fyrir dyr,

35 Ó að ég hefði þann, er hlusta vildi á mig! Hér er undirskrift mín _ hinn Almáttki svari mér! Sá sem mig ákærir, skrifi sitt ákæruskjal!

36 Vissulega skyldi ég bera það á öxlinni, binda það sem höfuðsveig um ennið,

37 ég skyldi segja Guði frá hverju spori mínu og ganga sem höfðingi fram fyrir hann! Hér enda ræður Jobs.

38 hafi akurland mitt hrópað undan mér og öll plógför þess grátið,

39 hafi ég etið gróður þess endurgjaldslaust og slökkt líf eiganda þess,

40 þá spretti þyrnar upp í stað hveitis og illgresi í stað byggs.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes