Add parallel Print Page Options

28 Að sönnu á silfrið upptökustað og gullið, sem menn hreinsa, fundarstað.

Járn er tekið úr jörðu, og steinn er bræddur að eiri.

Maðurinn hefir gjört enda á myrkrinu, og til ystu takmarka rannsakar hann steinana, sem faldir eru í kolniðamyrkri.

Hann brýtur námugöng fjarri þeim, sem í dagsbirtunni búa, gleymdur mannafótum, fjarlægur mönnum hangir hann, svífur hann.

Upp úr jörðinni sprettur brauð, en niðri í henni er öllu umturnað eins og af eldi.

Safírinn finnst í grjóti jarðarinnar, og gullkorn fær sá er grefur.

Örninn þekkir eigi veginn þangað, og valsaugað sér hann ekki,

hin drembnu rándýr ganga hann eigi, ekkert ljón fer hann.

Á tinnusteinana leggur maðurinn hönd sína, umturnar fjöllunum frá rótum.

10 Hann heggur göng í björgin, og auga hans sér alls konar dýrindi.

11 Hann bindur fyrir vatnsæðarnar, til þess að þær tárist ekki, og leiðir leynda hluti fram í dagsbirtuna.

12 En spekin, hvar er hana að finna, og hvar á viskan heima?

13 Enginn maður þekkir veginn til hennar, og hana er ekki að finna á landi lifenda.

14 Undirdjúpið segir: "Í mér er hún ekki!" og hafið segir: "Ekki er hún hjá mér!"

15 Hún fæst ekki fyrir skíragull, og ekki verður silfur reitt sem andvirði hennar.

16 Eigi verður hún Ófírgulli goldin né dýrum sjóam- og safírsteinum.

17 Gull og gler kemst ekki til jafns við hana, og hún fæst ekki í skiptum fyrir ker af skíragulli.

18 Kóralla og krystalla er ekki að nefna, og að eiga spekina er meira um vert en perlur.

19 Tópasar Blálands komast ekki til jafns við hana, hún verður ekki goldin með hreinasta gulli.

20 Já spekin, hvaðan kemur hún, og hvar á viskan heima?

21 Hún er falin augum allra þeirra er lifa, og fuglum loftsins er hún hulin.

22 Undirdjúpin og dauðinn segja: "Með eyrum vorum höfum vér heyrt hennar getið."

23 Guð veit veginn til hennar, og hann þekkir heimkynni hennar.

24 Því að hann sér til endimarka jarðar, lítur allt, sem undir himninum er.

25 Þá er hann ákvað þunga vindarins og ákvarðaði takmörk vatnsins,

26 þá er hann setti regninu lög og veg eldingunum,

27 þá sá hann hana og kunngjörði hana, fékk henni stað og rannsakaði hana einnig.

28 Og við manninn sagði hann: "Sjá, að óttast Drottin _ það er speki, og að forðast illt _ það er viska."

29 Og Job hélt áfram að flytja ræðu sína og mælti:

Ó að mér liði eins og forðum daga, eins og þá er Guð varðveitti mig,

þá er lampi hans skein yfir höfði mér, og ég gekk við ljós hans í myrkrinu,

eins og þá er ég var á sumri ævi minnar, þá er vinátta Guðs var yfir tjaldi mínu,

þá er hinn Almáttki var enn með mér og börn mín hringinn í kringum mig,

þá er ég óð í rjóma, og olífuolían rann í lækjum úr klettinum hjá mér,

þá er ég gekk út í borgarhliðið, upp í borgina, bjó mér sæti á torginu.

Þegar sveinarnir sáu mig, földu þeir sig, og öldungarnir risu úr sæti og stóðu.

Höfðingjarnir hættu að tala og lögðu hönd á munn sér.

10 Rödd tignarmannanna þagnaði, og tunga þeirra loddi við góminn.

11 Því að ef eyra heyrði, taldi það mig sælan, og ef auga sá, bar það mér vitni.

12 Því að ég bjargaði bágstöddum, sem hrópuðu á hjálp, og munaðarleysingjum, sem enga aðstoð áttu.

13 Blessunarósk aumingjans kom yfir mig, og hjarta ekkjunnar fyllti ég fögnuði.

14 Ég íklæddist réttlætinu, og það íklæddist mér, ráðvendni mín var mér sem skikkja og vefjarhöttur.

15 Ég var auga hins blinda og fótur hins halta.

16 Ég var faðir hinna snauðu, og málefni þess, sem ég eigi þekkti, rannsakaði ég.

17 Ég braut jaxlana í hinum rangláta og reif bráðina úr tönnum hans.

18 Þá hugsaði ég: "Í hreiðri mínu mun ég gefa upp andann og lifa langa ævi, eins og Fönix-fuglinn.

19 Rót mín er opin fyrir vatninu, og döggin hefir náttstað á greinum mínum.

20 Heiður minn er æ nýr hjá mér, og bogi minn yngist upp í hendi minni."

21 Þeir hlustuðu á mig og biðu og hlýddu þegjandi á tillögu mína.

22 Þá er ég hafði talað, tóku þeir eigi aftur til máls, og ræða mín draup niður á þá.

23 Þeir biðu mín eins og regns, og opnuðu munn sinn, eins og von væri á vorskúr.

24 Ég brosti til þeirra, þegar þeim féllst hugur, og ljós auglitis míns gjörðu þeir aldrei dapurt.

25 Fús lagði ég leið til þeirra og sat þar efstur, sat þar sem konungur umkringdur af hersveit sinni, eins og huggari harmþrunginna.

13 Í söfnuðinum í Antíokkíu voru spámenn og kennarar. Þar voru þeir Barnabas, Símeon, nefndur Níger, Lúkíus frá Kýrene, Manaen, samfóstri Heródesar fjórðungsstjóra, og Sál.

Eitt sinn er þeir voru að þjóna Drottni og föstuðu sagði heilagur andi: "Skiljið frá mér til handa þá Barnabas og Sál til þess verks, sem ég hef kallað þá til."

Síðan föstuðu þeir og báðust fyrir, lögðu hendur yfir þá og létu þá fara.

Þeir fóru nú, sendir af heilögum anda, til Selevkíu og sigldu þaðan til Kýpur.

Þegar þeir voru komnir til Salamis, boðuðu þeir orð Guðs í samkunduhúsum Gyðinga. Höfðu þeir og Jóhannes til aðstoðar.

Þeir fóru um alla eyna, allt til Pafos. Þar fundu þeir töframann nokkurn og falsspámann, Gyðing, er hét Barjesús.

Hann var hjá landstjóranum Sergíusi Páli, hyggnum manni, sem hafði boðað þá Barnabas og Sál á fund sinn og fýsti að heyra Guðs orð.

Gegn þeim stóð Elýmas, töframaðurinn, en svo er nafn hans útlagt. Reyndi hann að gjöra landstjórann fráhverfan trúnni.

En Sál, sem og er nefndur Páll, hvessti á hann augun og sagði, fylltur heilögum anda:

10 "Þú djöfuls sonur, fullur allra véla og flærðar, óvinur alls réttlætis, ætlar þú aldrei að hætta að rangsnúa réttum vegum Drottins?

11 Nú er hönd Drottins reidd gegn þér, og þú munt verða blindur og ekki sjá sól um tíma." Jafnskjótt féll yfir hann þoka og myrkur, og hann reikaði um og leitaði einhvers til að leiða sig.

12 Þegar landstjórinn sá þennan atburð, varð hann gagntekinn af kenningu Drottins og tók trú.

13 Þeir Páll lögðu út frá Pafos og komu til Perge í Pamfýlíu, en Jóhannes skildi við þá og sneri aftur til Jerúsalem.

14 Sjálfir héldu þeir áfram frá Perge og komu til Antíokkíu í Pisidíu, gengu á hvíldardegi inn í samkunduhúsið og settust.

15 En eftir upplestur úr lögmálinu og spámönnunum sendu samkundustjórarnir til þeirra og sögðu: "Bræður, ef þér hafið einhver hvatningarorð til fólksins, takið þá til máls."

16 Þá stóð Páll upp, benti til hljóðs með hendinni og sagði: "Ísraelsmenn og aðrir þér, sem óttist Guð, hlýðið á.

17 Guð lýðs þessa, Ísraels, útvaldi feður vora og hóf upp lýðinn í útlegðinni í Egyptalandi. Með upplyftum armi leiddi hann þá út þaðan.

18 Og um fjörutíu ára skeið fóstraði hann þá í eyðimörkinni.

19 Hann stökkti burt sjö þjóðum úr Kanaanslandi og gaf þeim land þeirra til eignar.

20 Svo stóð um fjögur hundruð og fimmtíu ára skeið. Eftir þetta gaf hann þeim dómara allt til Samúels spámanns.

21 Síðan báðu þeir um konung, og Guð gaf þeim Sál Kísson, mann af Benjamíns ætt. Hann ríkti í fjörutíu ár.

22 Þegar Guð hafði sett hann af, hóf hann Davíð til konungs yfir þeim. Um hann vitnaði hann: ,Ég hef fundið Davíð, son Ísaí, mann eftir mínu hjarta, er gjöra mun allan vilja minn.`

23 Af kyni hans sendi Guð Ísrael frelsara, Jesú, samkvæmt fyrirheiti.

24 En áður en hann kom fram, boðaði Jóhannes öllum Ísraelslýð iðrunarskírn.

25 Þegar Jóhannes var að enda skeið sitt, sagði hann: ,Hvern hyggið þér mig vera? Ekki er ég hann. Annar kemur eftir mig, og er ég eigi verður þess að leysa skó af fótum honum.`

Read full chapter