Add parallel Print Page Options

24 Hvers vegna eru ekki hegningartímar geymdir af hinum Almáttka,

og hví sjá þeir ekki daga hans, sem á hann trúa? Menn færa landamerki úr stað, ræna hjörðum og halda þeim á beit.

Asna munaðarleysingjanna reka menn burt og taka uxa ekkjunnar að veði.

Þeir hrinda hinum fátæku út af veginum, hinir bágstöddu í landinu verða allir að fela sig.

Já, sem skógarasnar á öræfum ganga þeir út til starfa sinna, leitandi að fæðu, eyðimörkin veitir þeim brauð handa börnunum.

Á akrinum uppskera þeir fóður sitt og fara í eftirleit í víngarði hins óguðlega.

Naktir liggja þeir um nætur, klæðlausir, og hafa enga ábreiðu í kuldanum.

Þeir eru gagndrepa af fjallaskúrunum, og hælislausir faðma þeir klettinn.

Menn slíta föðurleysingjana af brjóstinu og taka veð af hinum bágstöddu.

10 Naktir ganga þeir, klæðlausir, og hungraðir bera þeir kornbundin.

11 Í olífugörðum annarra pressa þeir olíu, troða vínlagarþrór og kveljast af þorsta.

12 Úr borgunum heyrast stunur deyjandi manna, sálir hinna drepnu hrópa á hefnd, en Guð gefur ekki gaum að óhæfunni.

13 Slíkir menn eru ljósfjendur orðnir, þeir þekkja ekki vegu hans og halda sig ekki á stigum hans.

14 Með morgunsárinu fer morðinginn á fætur og drepur hinn volaða og snauða, og á nóttunni læðist þjófurinn.

15 Og auga hórkarlsins bíður eftir rökkrinu, og hann segir: "Ekkert auga sér mig," og dregur skýlu fyrir andlitið.

16 Í myrkrinu brjótast þeir inn í hús, á daginn loka þeir sig inni, þeir þekkja ekki ljósið.

17 Því að öllum er þeim niðamyrkrið morgunn, því að þeir eru nákunnugir skelfingum niðamyrkursins.

18 Fljótt berst hann burt með straumnum, bölvaður verður erfðahluti hans í landinu, hann snýr eigi framar á leið til víngarðanna.

19 Þurrkur og hiti hrífa snjóvatnið burt, Hel þann, er svo hefir syndgað.

20 Móðurskautið gleymir honum, ormarnir gæða sér á honum. Hans er eigi framar minnst, og ranglætið verður brotið sundur eins og tré,

21 hann sem rændi óbyrjuna, er ekki fæddi, og enga velgjörð sýndi ekkjunni.

22 En Guð heldur samt hinum volduga við með mætti sínum, slíkur maður rís aftur upp, þótt hann væri tekinn að örvænta um lífið.

23 Guð veitir honum að lifa óhultur, og hann er studdur, og augu hans vaka yfir vegum hans.

24 Hátt standa þeir, en eftir stundarkorn eru þeir horfnir. Þeir hníga, þeir eru hrifnir burt eins og allir aðrir og sviðnir af eins og höfuð kornaxins.

25 Og ef það er eigi svo, _ hver vill þá sanna, að ég sé lygari, og gjöra ræðu mína að engu?

25 Þá svaraði Bildad frá Súa og sagði:

Hans er drottinvald og ótti, hans sem lætur frið ríkja í hæðum sínum.

Verður tölu komið á hersveitir hans, og yfir hverjum rennur ekki upp ljós hans?

Hvernig ætti maðurinn þá að vera réttlátur hjá Guði, og hvernig ætti sá að vera hreinn, sem af konu er fæddur?

Sjá, jafnvel tunglið, það er ekki bjart, og stjörnurnar eru ekki hreinar í augum hans,

hvað þá maðurinn, maðkurinn, og mannssonurinn, ormurinn!

26 Þá svaraði Job og sagði:

En hvað þú hefir hjálpað hinum þróttlausa, stutt hinn máttvana armlegg!

En hvað þú hefir ráðið hinum óvitra og kunngjört mikla speki!

Fyrir hverjum hefir þú flutt ræðu þína, og hvers andi var það, sem gekk fram úr þér?

Andar hinna framliðnu í undirdjúpunum skelfast ásamt vötnunum og íbúum þeirra.

Naktir liggja undirheimar fyrir Guði og undirdjúpin skýlulaus.

Hann þenur norðrið út yfir auðninni og lætur jörðina svífa í tómum geimnum,

hann bindur vatnið saman í skýjum sínum, og þó brestur skýflókinn ekki undir því,

hann byrgir fyrir ásjónu hásætis síns með því að breiða ský sitt yfir hana.

10 Marklínu hefir hann dregið hringinn í kring á haffletinum, þar sem mætast ljós og myrkur.

11 Stoðir himinsins nötra og hræðast ógnun hans.

12 Með mætti sínum æsir hann hafið, og með hyggindum sínum sundurmolar hann hafdrekann.

13 Fyrir andgusti hans verður himinninn heiður, hönd hans leggur í gegn hinn flughraða dreka.

14 Sjá, þetta eru aðeins ystu takmörk vega hans, og hversu lágt hvísl er það, sem vér heyrum! En þrumu máttarverka hans _ hver skilur hana?

27 Og Job hélt áfram að flytja ræðu sína og mælti:

Svo sannarlega sem Guð lifir, sá er svipt hefir mig rétti mínum, og hinn Almáttki, er hryggt hefir sálu mína:

meðan lífsönd er í mér og andi Guðs í nösum mínum,

skulu varir mínar ekki tala ranglæti og tunga mín ekki mæla svik.

Fjarri sé mér að játa, að þér hafið rétt að mæla. Þar til er ég gef upp andann, læt ég ekki taka frá mér sakleysi mitt.

Ég held fast í réttlæti mitt og sleppi því ekki, hjarta mitt átelur mig ekki fyrir neinn daga minna.

Fyrir óvini mínum fari eins og hinum óguðlega og fyrir mótstöðumanni mínum eins og hinum rangláta.

Því að hvaða von hefir guðlaus maður, þegar skorið er á þráðinn, þá er Guð hrífur burt líf hans?

Ætli Guð heyri óp hans, þá er neyð kemur yfir hann?

10 Eða getur hann haft yndi af hinum Almáttka, hrópað til Guðs, hvenær sem vera skal?

11 Ég vil fræða yður um hönd Guðs, eigi leyna því, er hinn Almáttki hefir í hyggju.

12 Sjá, þér hafið allir séð það sjálfir, hví farið þér þá með slíka heimsku?

13 Þetta er hlutskipti óguðlegs manns hjá Guði, arfleifð ofbeldismanns, sú er hann fær frá hinum Almáttka:

14 Eignist hann mörg börn, þá er það handa sverðinu, og afkvæmi hans mettast eigi af brauði.

15 Þeir af fólki hans er af komast, verða jarðaðir af drepsóttinni, og ekkjur þeirra halda engan harmagrát.

16 Þegar hann hrúgar saman silfri eins og sandi og hleður saman klæðum sem leir,

17 þá hleður hann þeim saman, en hinn réttláti klæðist þeim, og silfrinu deilir hinn saklausi.

18 Hann hefir byggt hús sitt eins og köngulló og svo sem skála, er varðmaður reisir sér.

19 Ríkur leggst hann til hvíldar _ hann gjörir það eigi oftar, hann lýkur upp augunum, og þá er allt farið.

20 Skelfingar ná honum eins og vatnaflaumur, um nótt hrífur stormurinn hann burt.

21 Austanvindurinn hefur hann á loft, svo að hann þýtur áfram, og feykir honum burt af stað hans.

22 Vægðarlaust sendir hann skeyti sín á hann, fyrir hendi hans flýr hann í skyndi _

23 þá skella menn saman lófum yfir honum og blístra hann burt frá bústað hans.

28 Að sönnu á silfrið upptökustað og gullið, sem menn hreinsa, fundarstað.

Járn er tekið úr jörðu, og steinn er bræddur að eiri.

Maðurinn hefir gjört enda á myrkrinu, og til ystu takmarka rannsakar hann steinana, sem faldir eru í kolniðamyrkri.

Hann brýtur námugöng fjarri þeim, sem í dagsbirtunni búa, gleymdur mannafótum, fjarlægur mönnum hangir hann, svífur hann.

Upp úr jörðinni sprettur brauð, en niðri í henni er öllu umturnað eins og af eldi.

Safírinn finnst í grjóti jarðarinnar, og gullkorn fær sá er grefur.

Örninn þekkir eigi veginn þangað, og valsaugað sér hann ekki,

hin drembnu rándýr ganga hann eigi, ekkert ljón fer hann.

Á tinnusteinana leggur maðurinn hönd sína, umturnar fjöllunum frá rótum.

10 Hann heggur göng í björgin, og auga hans sér alls konar dýrindi.

11 Hann bindur fyrir vatnsæðarnar, til þess að þær tárist ekki, og leiðir leynda hluti fram í dagsbirtuna.

12 En spekin, hvar er hana að finna, og hvar á viskan heima?

13 Enginn maður þekkir veginn til hennar, og hana er ekki að finna á landi lifenda.

14 Undirdjúpið segir: "Í mér er hún ekki!" og hafið segir: "Ekki er hún hjá mér!"

15 Hún fæst ekki fyrir skíragull, og ekki verður silfur reitt sem andvirði hennar.

16 Eigi verður hún Ófírgulli goldin né dýrum sjóam- og safírsteinum.

17 Gull og gler kemst ekki til jafns við hana, og hún fæst ekki í skiptum fyrir ker af skíragulli.

18 Kóralla og krystalla er ekki að nefna, og að eiga spekina er meira um vert en perlur.

19 Tópasar Blálands komast ekki til jafns við hana, hún verður ekki goldin með hreinasta gulli.

20 Já spekin, hvaðan kemur hún, og hvar á viskan heima?

21 Hún er falin augum allra þeirra er lifa, og fuglum loftsins er hún hulin.

22 Undirdjúpin og dauðinn segja: "Með eyrum vorum höfum vér heyrt hennar getið."

23 Guð veit veginn til hennar, og hann þekkir heimkynni hennar.

24 Því að hann sér til endimarka jarðar, lítur allt, sem undir himninum er.

25 Þá er hann ákvað þunga vindarins og ákvarðaði takmörk vatnsins,

26 þá er hann setti regninu lög og veg eldingunum,

27 þá sá hann hana og kunngjörði hana, fékk henni stað og rannsakaði hana einnig.

28 Og við manninn sagði hann: "Sjá, að óttast Drottin _ það er speki, og að forðast illt _ það er viska."