A A A A A
Bible Book List

Jobsbók 21-23 Icelandic Bible (ICELAND)

21 Þá svaraði Job og sagði:

Hlustið gaumgæfilega á mál mitt, og látið það vera huggun af yðar hendi.

Unnið mér þess, að ég tali, og þegar ég hefi talað út, þá mátt þú hæða.

Er ég þá að kvarta yfir mönnum? eða hví skyldi ég ekki vera óþolinmóður?

Lítið til mín og undrist og leggið hönd á munn!

Já, þegar ég hugsa um það, skelfist ég, og hryllingur fer um mig allan.

Hvers vegna lifa hinir óguðlegu, verða gamlir, já, magnast að krafti?

Niðjar þeirra dafna fyrir augliti þeirra hjá þeim og afsprengi þeirra fyrir augum þeirra.

Hús þeirra eru óhult og óttalaus, og hirtingarvöndur Guðs kemur ekki niður á þeim.

10 Boli þeirra kelfir og kemur að gagni, kýr þeirra ber og lætur ekki kálfi.

11 Þeir hleypa út börnum sínum eins og lambahjörð, og smásveinar þeirra hoppa og leika sér.

12 Þeir syngja hátt undir með bumbum og gígjum og gleðjast við hljóm hjarðpípunnar.

13 Þeir eyða dögum sínum í velgengni og fara til Heljar í friði,

14 og þó sögðu þeir við Guð: "Vík frá oss _ að þekkja þína vegu girnumst vér eigi.

15 Hvað er hinn Almáttki, að vér skyldum dýrka hann, og hvað skyldi það stoða oss að leita hans í bæn?"

16 Sjá, gæfa þeirra er ekki á þeirra valdi, _ ráðlag óguðlegra er fjarri mér.

17 Hversu oft slokknar þá á lampa hinna óguðlegu, og hversu oft kemur ógæfa þeirra yfir þá? Hversu oft deilir Guð þeim hlutskiptum í reiði sinni?

18 Hversu oft verða þeir sem strá fyrir vindi og sem sáðir, er stormurinn feykir burt?

19 "Guð geymir börnum hans óhamingju hans." Endurgjaldi hann honum sjálfum, svo að hann fái að kenna á því!

20 Sjái augu sjálfs hans glötun hans, og drekki hann sjálfur af reiði hins Almáttka!

21 Því að hvað hirðir hann um hús sitt eftir dauðann, þegar tala mánaða hans er fullnuð?

22 Ætla menn að kenna Guði visku eða dæma hinn hæsta?

23 Einn deyr í mestu velgengni, fullkomlega áhyggjulaus og ánægður,

24 trog hans eru full af mjólk, og mergurinn í beinum hans er safamikill.

25 Og annar deyr með beiskju í huga og hefir aldrei notið hamingjunnar.

26 Þeir hvíla báðir í duftinu, og maðkarnir hylja þá.

27 Sjá, ég þekki hugsanir yðar og fyrirætlanir, að beita mig ofbeldi.

28 Þegar þér segið: "Hvar er hús harðstjórans og hvar er tjaldið, sem hinir óguðlegu bjuggu í?"

29 hafið þér þá ekki spurt vegfarendur, _ og sönnunum þeirra munuð þér ekki hafna _

30 að á degi glötunarinnar er hinum vonda þyrmt, á reiðinnar degi er þeim skotið undan.

31 Hver setur honum breytni hans fyrir sjónir? Og þegar hann gjörir eitthvað, hver endurgeldur honum?

32 Og til grafar er hann borinn og vakað er yfir legstaðnum.

33 Moldarhnausar dalsins liggja mjúklega ofan á honum, og eftir honum flykkjast allir menn, eins og óteljandi eru á undan honum farnir.

34 Og hvernig megið þér þá hugga mig með hégóma, og andsvör yðar _ sviksemin ein er eftir!

22 Þá svaraði Elífas frá Teman og sagði:

Vinnur maðurinn Guði gagn? Nei, sjálfum sér vinnur vitur maður gagn.

Er það ábati fyrir hinn Almáttka, að þú ert réttlátur, eða ávinningur, að þú lifir grandvöru lífi?

Er það vegna guðsótta þíns, að hann refsar þér, að hann dregur þig fyrir dóm?

Er ekki vonska þín mikil og misgjörðir þínar óþrjótandi?

Því að þú tókst veð af bræðrum þínum að ástæðulausu og færðir fáklædda menn úr flíkum þeirra.

Þú gafst ekki hinum örmagna vatn að drekka, og hinum hungraða synjaðir þú brauðs.

En hinn voldugi átti landið, og virðingarmaðurinn bjó í því.

Ekkjur lést þú fara burt tómhentar, og armleggir munaðarleysingjanna voru brotnir sundur.

10 Fyrir því eru snörur allt í kringum þig, og fyrir því skelfir ótti þig skyndilega!

11 Eða sér þú ekki myrkrið og vatnaflauminn, sem hylur þig?

12 Er ekki Guð himinhár? og lít þú á hvirfil stjarnanna, hve hátt þær gnæfa!

13 Og þú segir: "Hvað veit Guð? Getur hann dæmt gegnum skýsortann?

14 Skýin skyggja á hann, svo að hann sér ekki, og hann gengur á himinhvelfingunni."

15 Ætlar þú að halda fortíðar leið, þá er ranglátir menn hafa farið?

16 Þeir er kippt var burt fyrir tímann og grundvöllur þeirra skolaðist burt sem straumur,

17 þeir er sögðu við Guð: "Vík frá oss! og hvað gæti hinn Almáttki gjört fyrir oss?"

18 og það þó hann fyllti hús þeirra blessun. _ Hugarfar óguðlegra sé fjarri mér!

19 Hinir réttlátu sjá það og gleðjast, og hinn saklausi gjörir gys að þeim:

20 "Vissulega er andstæðingur vor að engu orðinn, og eldurinn hefir eytt leifum þeirra."

21 Vingast þú við Guð, þá muntu vera í friði, við það mun blessun yfir þig koma.

22 Tak á móti kenning af munni hans, og fest þér orð hans í hjarta.

23 Ef þú snýr þér til hins Almáttka, auðmýkir þig, ef þú rekur ranglætið langt burt frá tjaldi þínu _

24 já, varpaðu gullinu í duftið og skíragullinu ofan í lækjamölina! _

25 þá skal hinn Almáttki vera gull þitt, vera þér hið skærasta silfur.

26 Já, þá munt þú hafa yndi af hinum Almáttka og lyfta augliti þínu til Guðs.

27 Biðjir þú til hans, bænheyrir hann þig, og heit þín munt þú greiða.

28 Og áformir þú eitthvað, mun þér heppnast það, og birta skína yfir vegu þína.

29 Þegar þeir liggja niður á við, þá kallar þú "Upp á við!" og hinum auðmjúka hjálpar hann.

30 Hann bjargar jafnvel þeim, sem ekki er saklaus, já, hann bjargast fyrir hreinleik handa þinna.

23 Þá svaraði Job og sagði:

Enn sem fyrr munu kveinstafir mínir verða taldir uppreisn, hönd Guðs hvílir þungt á andvörpum mínum.

Ég vildi að ég vissi, hvernig ég ætti að finna hann, hvernig ég gæti komist fram fyrir dómstól hans!

Þá mundi ég útskýra málið fyrir honum og fylla munn minn sönnunum.

Ég mundi fá að vita, hverju hann svaraði mér, og heyra hvað hann segði við mig.

Mundi hann deila við mig í mikilleik máttar síns? Nei, hann mundi veita mér óskipta athygli.

Þá mundi hreinskilinn maður þreyta málsókn við hann, og ég mundi að eilífu losna við dómara minn.

En fari ég í austur, þá er hann þar ekki, og í vestur, þar verð ég hans eigi var.

Þótt hann hafist að í norðri, þá sé ég hann ekki, og sveigi hann á leið til suðurs, fæ ég ekki litið hann.

10 En hann veit, hvernig breytni mín hefir verið, ef hann prófaði mig, mundi ég reynast sem gull.

11 Fótur minn hefir þrætt spor hans, ég hefi haldið veg hans og eigi hneigt af leið.

12 Frá skipun vara hans hefi ég ekki vikið, hefi varðveitt í brjósti mér orð munns hans.

13 En hann er samur við sig _ hver aftrar honum? Ef hann girnist eitthvað, gjörir hann það.

14 Já, hann framkvæmir það, er hann hefir ætlað mér, og mörgu slíku býr hann yfir.

15 Þess vegna skelfist ég auglit hans. Hugleiði ég það, hræðist ég hann.

16 Já, Guð hefir gjört mig hugdeigan, og hinn Almáttki skotið mér skelk í bringu.

17 Því að það er ekki vegna ógæfunnar, að ég stend örþrota, né vegna sjálfs mín, þótt niðdimman hylji mig.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes