A A A A A
Bible Book List

Jobsbók 14-16 Icelandic Bible (ICELAND)

14 Maðurinn, af konu fæddur, lifir stutta stund og mettast órósemi.

Hann rennur upp og fölnar eins og blóm, flýr burt eins og skuggi og hefir ekkert viðnám.

Og yfir slíkum heldur þú opnum augum þínum og dregur mig fyrir dóm hjá þér!

Hvernig ætti hreinn að koma af óhreinum? Ekki einn!

Ef dagar hans eru ákvarðaðir, tala mánaða hans tiltekin hjá þér, hafir þú ákveðið takmark hans, er hann fær eigi yfir komist,

þá lít þú af honum, til þess að hann fái hvíld, svo að hann megi fagna yfir degi sínum eins og daglaunamaður.

Því að tréð hefir von, sé það höggvið, þá skýtur það nýjum frjóöngum, og teinungurinn kemur áreiðanlega upp.

Jafnvel þótt rót þess eldist í jörðinni, og stofn þess deyi í moldinni,

þá brumar það við ilminn af vatninu, og á það koma greinar eins og unga hríslu.

10 En deyi maðurinn, þá liggur hann flatur, og gefi manneskjan upp andann _ hvar er hún þá?

11 Eins og vatnið hverfur úr stöðuvatninu og fljótið grynnist og þornar upp,

12 þannig leggst maðurinn til hvíldar og rís eigi aftur á fætur. Hann rumskar ekki, meðan himnarnir standa og vaknar ekki af svefninum.

13 Ó að þú vildir geyma mig í dánarheimum, fela mig, uns reiði þinni linnir, setja mér tímatakmark og síðan minnast mín!

14 Þegar maðurinn deyr, lifnar hann þá aftur? þá skyldi ég þreyja alla daga herþjónustu minnar, þar til er lausnartíð mín kæmi.

15 Þú mundir kalla, og ég _ ég mundi svara þér, þú mundir þrá verk handa þinna.

16 Því að þá mundir þú telja spor mín, eigi vaka yfir synd minni.

17 Afbrot mín lægju innsigluð í böggli, og á misgjörð mína drægir þú hvítan lit.

18 En eins og fjallið molnar sundur, er það hrynur, og kletturinn færist úr stað sínum,

19 eins og vatnið holar steinana og vatnsflóðin skola burt jarðarleirnum, svo hefir þú gjört von mannsins að engu.

20 Þú ber hann ofurliði að eilífu, og hann fer burt, þú afmyndar ásjónu hans og rekur hann á brott.

21 Komist börn hans til virðingar, þá veit hann það ekki, séu þau lítilsvirt, verður hann þess ekki var.

22 Aðeins kennir líkami hans eigin sársauka, og sál hans hryggist yfir sjálfum honum.

15 Þá svaraði Elífas frá Teman og sagði:

Skyldi vitur maður svara með vindkenndri visku og fylla brjóst sitt austanstormi _

sanna mál sitt með orðum, sem ekkert gagna, og ræðum, sem engu fá áorkað?

Auk þess rífur þú niður guðsóttann og veikir lotninguna, sem Guði ber.

Því að misgjörð þín leggur þér orð í munn og þú velur þér lævísra tungu.

Þinn eigin munnur sakfellir þig, ekki ég, og varir þínar vitna í gegn þér.

Fæddist þú fyrstur manna og ert þú í heiminn borinn fyrr en hæðirnar?

Hefir þú hlustað í ráði Guðs og hrifsað til þín spekina?

Hvað veist þú, er vér eigi vissum, hvað skilur þú, er oss væri ókunnugt?

10 Til eru og öldungar, gráhærðir menn, vor á meðal, auðgari að ævidögum en faðir þinn.

11 Er huggun Guðs þér lítils virði og mildileg orðin sem þú heyrir?

12 Hvers vegna hrífur gremjan þig og hví ranghvolfast augu þín,

13 er þú snýr reiði þinni gegn Guði og lætur þér slík orð um munn fara?

14 Hvað er maðurinn, að hann geti verið hreinn, og sá verið réttlátur, sem af konu er fæddur?

15 Sjá, sínum heilögu treystir Hann ekki, og himinninn er ekki hreinn í augum hans,

16 hvað þá hinn andstyggilegi og spillti, maðurinn, sem drekkur ranglætið eins og vatn.

17 Ég vil fræða þig, heyr þú mig, og það sem ég hefi séð, frá því vil ég segja,

18 því er vitringarnir kunngjörðu _ og duldu ekki _ svo sem arfsögn frá feðrum sínum,

19 en þeim einum var landið gefið, og enginn útlendingur hafði enn farið um meðal þeirra.

20 Alla ævi sína kvelst hinn óguðlegi og öll þau ár, sem geymd eru ofbeldismanninum.

21 Skelfingarhljóð óma í eyrum honum, á friðartímum ræðst eyðandinn á hann.

22 Hann trúir því ekki, að hann komist út úr myrkrinu, og hann er kjörinn undir sverðið.

23 Hann reikar um til þess að leita sér brauðs _ hvar er það? _ hann veit að ógæfudagurinn bíður hans.

24 Neyð og angist skelfa hann, hún ber hann ofurliði eins og konungur, sem búinn er til atlögu,

25 af því hann útrétti hönd sína gegn Guði og reis þrjóskur í móti hinum Almáttka,

26 rann í móti honum illvígur undir þykkum bungum skjalda sinna.

27 Hann þakti andlit sitt spiki og safnaði fitu á lendar sér,

28 settist að í eyddum borgum, í húsum, er enginn átti í að búa og ákveðið var, að verða skyldu að rústum.

29 Hann verður ekki ríkur, og eigur hans haldast ekki við, og kornöx hans svigna ekki til jarðar.

30 Hann kemst eigi undan myrkrinu, frjóanga hans mun loginn svíða, og fyrir reiðiblæstri hans ferst hann.

31 Hann skyldi ekki reiða sig á hégóma; hann villist, því að hégómi verður umbun hans.

32 Það rætist fyrir skapadægur hans, og pálmagrein hans grænkar eigi.

33 Hann hristir af sér súr berin eins og vínviðurinn og varpar af sér blómunum eins og olíutréð.

34 Því að sveit hinna óguðlegu er ófrjó, og eldur eyðir tjöldum mútugjafanna.

35 Þeir ganga þungaðir með mæðu og ala ógæfu, og kviður þeirra undirbýr svik.

16 Þá svaraði Job og sagði:

Ég hefi heyrt nóg af slíku, hvimleiðir huggarar eruð þér allir saman.

Er orðavindurinn nú á enda? eða hvað knýr þig til andsvara?

Ég gæti líka talað eins og þér, ef þér væruð í mínum sporum, gæti spunnið saman ræður gegn yður og hrist yfir yður höfuðið,

ég gæti styrkt yður með munni mínum, og meðaumkun vara minna mundi lina þjáning yðar.

Þótt ég tali, þá linar ekki kvöl mína, og gjöri ég það ekki, hvaða létti fæ ég þá?

Miklu fremur hefir Guð nú örþreytt mig, _ þú hefir eytt öllu ættliði mínu,

hefir hremmt mig, og það er vitni í móti mér. Sjúkdómur minn rís í gegn mér, ákærir mig upp í opið geðið.

Reiði hans slítur mig sundur og ofsækir mig, hann nístir tönnum í móti mér, andstæðingur minn hvessir á mig augun.

10 Þeir glenna upp ginið í móti mér, löðrunga mig til háðungar, allir saman gjöra þeir samtök í móti mér.

11 Guð gefur mig á vald ranglátra og varpar mér í hendur óguðlegra.

12 Ég lifði áhyggjulaus, þá braut hann mig sundur, hann þreif í hnakkann á mér og molaði mig sundur og reisti mig upp sér að skotspæni.

13 Skeyti hans fljúga kringum mig, vægðarlaust sker hann sundur nýru mín, hellir galli mínu á jörðu.

14 Hann brýtur í mig skarð á skarð ofan og gjörir áhlaup á mig eins og hetja.

15 Ég hefi saumað sekk um hörund mitt og stungið horni mínu ofan í moldina.

16 Andlit mitt er þrútið af gráti, og svartamyrkur hvílir yfir hvörmum mínum,

17 þótt ekkert ranglæti sé í hendi minni og bæn mín sé hrein.

18 Jörð, hyl þú eigi blóð mitt, og kvein mitt finni engan hvíldarstað!

19 En sjá, á himnum er vottur minn og vitni mitt á hæðum.

20 Vinir mínir gjöra gys að mér _ til Guðs lítur auga mitt grátandi,

21 að hann láti manninn ná rétti sínum gagnvart Guði og skeri úr milli mannsins og vinar hans.

22 Því að senn eru þessi fáu ár á enda, og ég fer burt þá leiðina, sem ég aldrei sný aftur.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes