Add parallel Print Page Options

11 Þá svaraði Sófar frá Naama og sagði:

Á ekki að svara orðagjálfrinu, og á málskrafsmaðurinn að hafa rétt fyrir sér?

Ættu stóryrði þín að koma mönnum til að þegja, og ættir þú að spotta og enginn sneypa þig,

þar sem þú segir: "Kenning mín er rétt, og ég er hreinn í augum Guðs"?

En _ ó að Guð vildi tala og ljúka upp vörum sínum í móti þér

og kunngjöra þér leyndardóma spekinnar, að í þeim felast margföld hyggindi, þá mundir þú kannast við, að Guð hegnir ekki til fulls misgjörð þinni.

Getur þú náð til botns í Guði eða komist til ystu takmarka hins Almáttka?

Himinhá er speki hans _ hvað fær þú gjört? dýpri en undirheimar _ hvað fær þú vitað?

Hún er lengri en jörðin að víðáttu og breiðari en hafið.

10 Ef hann ryðst fram og hneppir í varðhald og stefnir dómþing _ hver aftrar honum?

11 Því að hann þekkir varmennin og sér ranglætið, þótt hann sé ekki að veita því athygli.

12 Verður óvitur maður hygginn? og fæðist skógarösnu-folald sem maður?

13 Ef þú undirbýr hjarta þitt og breiðir út lófa þína til hans,

14 _ ef misgjörð er í hendi þinni, þá fjarlæg hana, og lát eigi órétt búa í tjöldum þínum _

15 já, þá munt þú flekklaus hefja höfuð þitt, munt standa fastur og eigi þurfa að óttast.

16 Já, þá munt þú gleyma mæðu þinni, þú munt minnast hennar sem vatns, er runnið er fram hjá.

17 Og lífið mun renna upp bjartara en hádegið, þótt dimmi, þá mun það verða sem morgunn.

18 Og þú munt vera öruggur, því að enn er von, og skyggnist þú um, getur þú lagst óhultur til hvíldar.

19 Og þú hvílist, og enginn hræðir þig, og margir munu reyna að koma sér í mjúkinn hjá þér.

20 En augu hinna óguðlegu daprast, fyrir þá er fokið í öll skjól, og þeirra eina von er að gefa upp andann.

12 Þá svaraði Job og sagði:

Já, vissulega, miklir menn eruð þér, og með yður mun spekin deyja út!

En ég hefi vit eins og þér, ekki stend ég yður að baki, og hver er sá, er eigi viti slíkt!

Athlægi vinar síns _ það má ég vera, ég sem kallaði til Guðs, og hann svaraði mér, _ ég, hinn réttláti, hreinlyndi, er að athlægi!

"Ógæfan er fyrirlitleg" _ segir hinn öruggi, "hún hæfir þeim, sem skrikar fótur."

Tjöld spellvirkjanna standa ósködduð, og þeir lifa áhyggjulausir, sem egna Guð til reiði, og sá sem þykist bera Guð í hendi sér.

En spyr þú skepnurnar, og þær munu kenna þér, fugla loftsins, og þeir munu fræða þig,

eða villidýrin, og þau munu kenna þér, og fiskar hafsins munu kunngjöra þér.

Hver þeirra veit ekki að hönd Drottins hefir gjört þetta?

10 Í hans hendi er líf alls hins lifanda og andi sérhvers mannslíkama.

11 Prófar eyrað ekki orðin, eins og gómurinn smakkar matinn?

12 Hjá öldruðum mönnum er speki, og langir lífdagar veita hyggindi.

13 Hjá Guði er speki og máttur, hans eru ráð og hyggindi.

14 Þegar hann rífur niður, þá verður eigi byggt upp aftur, þegar hann setur einhvern í fangelsi, þá verður ekki lokið upp.

15 Þegar hann stíflar vötnin, þá þorna þau upp, þegar hann hleypir þeim, þá umturna þau jörðinni.

16 Hjá honum er máttur og viska, á valdi hans er sá er villist, og sá er í villu leiðir.

17 Hann leiðir ráðherra burt nakta og gjörir dómara að fíflum.

18 Hann leysir fjötra konunganna og bindur reipi um lendar sjálfra þeirra.

19 Hann leiðir presta burt nakta og steypir þeim, sem sitja fastir í sessi.

20 Hann rænir reynda menn málinu og sviptir öldungana dómgreind.

21 Hann hellir fyrirlitning yfir tignarmennin og gjörir slakt belti hinna sterku.

22 Hann grefur hið hulda fram úr myrkrinu og dregur niðdimmuna fram í birtuna.

23 Hann veitir þjóðunum vöxt og eyðir þeim, útbreiðir þjóðirnar og leiðir þær burt.

24 Hann firrir þjóðhöfðingja landsins viti og lætur þá villast um veglaus öræfi.

25 Þeir fálma í ljóslausu myrkri, og hann lætur þá skjögra eins og drukkinn mann.

13 Sjá, allt þetta hefir auga mitt séð og eyra mitt heyrt og sett það á sig.

Það sem þér vitið, það veit ég líka, ekki stend ég yður að baki.

En ég vil tala til hins Almáttka og mig langar til að þreyta málsókn við Guð.

Því að sannlega samtvinnið þér lygar og eruð gagnslausir gutlarar allir saman.

Ó að þér vilduð steinþegja, þá mætti meta yður það til mannvits.

Heyrið átölur mínar og hlustið á ásakanir vara minna.

Viljið þér mæla það, sem rangt er, Guði til varnar, og honum til varnar mæla svik?

Viljið þér draga taum hans, eða viljið þér taka málstað Guðs?

Ætli það fari vel, þegar hann rannsakar yður, eða ætlið þér að leika á hann, eins og leikið er á menn?

10 Nei, hegna, hegna mun hann yður, ef þér eruð hlutdrægir í leyni.

11 Hátign hans mun skelfa yður, og ógn hans mun falla yfir yður.

12 Spakmæli yðar eru ösku-orðskviðir, vígi yðar eru leirvígi.

13 Þegið og látið mig í friði, þá mun ég mæla, og komi yfir mig hvað sem vill.

14 Ég stofna sjálfum mér í hættu og legg lífið undir.

15 Sjá, hann mun deyða mig _ ég bíð hans, aðeins vil ég verja breytni mína fyrir augliti hans.

16 Það skal og verða mér til sigurs, því að guðlaus maður kemur ekki fyrir auglit hans.

17 Hlýðið því gaumgæfilega á ræðu mína, og vörn mín gangi yður í eyru.

18 Sjá, ég hefi undirbúið málið, ég veit, að ég verð dæmdur sýkn.

19 Hver er sá, er deila vilji við mig? þá skyldi ég þegja og gefa upp andann.

20 Tvennt mátt þú, Guð, ekki við mig gjöra, þá skal ég ekki fela mig fyrir augliti þínu.

21 Tak hönd þína burt frá mér, og lát ekki skelfing þína hræða mig.

22 Kalla því næst, og mun ég svara, eða ég skal tala, og veit þú mér andsvör í móti.

23 Hversu margar eru þá misgjörðir mínar og syndir? Kunngjör mér afbrot mín og synd mína!

24 Hvers vegna byrgir þú auglit þitt og ætlar, að ég sé óvinur þinn?

25 Ætlar þú að skelfa vindþyrlað laufblað og ofsækja þurrt hálmstrá,

26 er þú dæmir mér beiskar kvalir og lætur mig erfa misgjörðir æsku minnar,

27 er þú setur fætur mína í stokk og aðgætir alla vegu mína og markar hring kringum iljar mínar?

28 _ Þessi maður dettur þó sundur eins og maðksmoginn viður, eins og möletið fat.