A A A A A
Bible Book List

Jeremía 7-9 Icelandic Bible (ICELAND)

Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni:

Nem staðar við hlið musteris Drottins og boða þar þessi orð og seg: Heyrið orð Drottins, allir Júdamenn, þér sem gangið inn um þetta hlið til þess að falla fram fyrir Drottni.

Svo segir Drottinn allsherjar, Guð Ísraels: Bætið breytni yðar og gjörðir, þá mun ég láta yður búa á þessum stað.

Reiðið yður ekki á lygatal, er menn segja: "Þetta er musteri Drottins, musteri Drottins, musteri Drottins."

En ef þér bætið breytni yðar og gjörðir alvarlega, ef þér iðkið réttlæti í þrætum manna á milli,

undirokið ekki útlendinga, munaðarleysingja og ekkjur, og úthellið ekki saklausu blóði á þessum stað, og eltið ekki aðra guði, yður til tjóns,

þá vil ég láta yður búa á þessum stað, í landinu, sem ég gaf feðrum yðar, frá eilífð til eilífðar.

Sjá, þér reiðið yður á lygaræður, sem ekki eru til nokkurs gagns.

Er ekki svo: Stela, myrða, drýgja hór, sverja meinsæri, færa Baal reykelsisfórnir og elta aðra guði, er þér ekki þekkið,

10 og síðan komið þér og gangið fram fyrir mig í þessu húsi, sem kennt er við nafn mitt, og segið: "Oss er borgið!" og fremjið síðan að nýju allar þessar svívirðingar.

11 Er þá hús þetta, sem kennt er við nafn mitt, orðið að ræningjabæli í augum yðar? Já, ég lít svo á _ segir Drottinn.

12 Farið til bústaðar míns í Síló, þar sem ég forðum daga lét nafn mitt búa, og sjáið, hvernig ég hefi farið með hann fyrir sakir illsku lýðs míns Ísraels.

13 Og þar eð þér nú hafið framið öll þessi verk _ segir Drottinn _ og eigi hlýtt, þótt ég hafi talað til yðar seint og snemma, og eigi svarað, þótt ég hafi kallað á yður,

14 þá ætla ég að fara með húsið, sem kennt er við nafn mitt og þér treystið á, og staðinn, sem ég hefi gefið yður og feðrum yðar, eins og ég fór með Síló,

15 og útskúfa yður frá augliti mínu, eins og ég útskúfaði bræðrum yðar, öllum niðjum Efraíms.

16 Þú skalt ekki biðja fyrir þessum lýð og ekki hefja þeirra vegna grátbeiðni né fyrirbón, og legg ekki að mér, því að ég heyri þig ekki.

17 Sér þú ekki hvað þeir hafast að í Júdaborgum og á strætum Jerúsalem?

18 Börnin tína saman eldivið og feðurnir kveikja eldinn, en konurnar hnoða deig til þess að gjöra af fórnarkökur handa himnadrottningunni, og færa öðrum guðum dreypifórnir til þess að skaprauna mér.

19 En skaprauna þeir mér _ segir Drottinn _, hvort ekki miklu fremur sjálfum sér, til þess að þeir verði sér herfilega til skammar?

20 Fyrir því segir herrann Drottinn svo: Reiði minni og heift mun úthellt verða yfir þennan stað, yfir menn og skepnur, yfir tré merkurinnar og yfir ávexti akurlendisins, _ og hún skal brenna og eigi slokkna.

21 Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Bætið brennifórnum yðar við sláturfórnir yðar og etið kjöt!

22 Því að ég hefi ekkert talað til feðra yðar né boðið þeim nokkuð um brennifórnir og sláturfórnir, þá er ég leiddi þá burt af Egyptalandi.

23 En þetta hefi ég boðið þeim: Hlýðið minni raustu, þá skal ég vera yðar Guð og þér skuluð vera mín þjóð, og gangið jafnan á þeim vegi, sem ég býð yður, til þess að yður vegni vel.

24 En þeir heyrðu ekki og lögðu ekki við eyrun, en fóru eftir vélráðum síns illa hjarta og sneru við mér bakinu, en ekki andlitinu.

25 Frá þeim degi, er feður yðar fóru burt af Egyptalandi, og fram á þennan dag, hefi ég stöðugt dag eftir dag sent þjóna mína, spámennina, til yðar.

26 En þeir heyrðu mig ekki og lögðu ekki við eyrun, heldur gjörðust harðsvíraðir og breyttu enn verr en feður þeirra.

27 Og þótt þú talir öll þessi orð til þeirra, munu þeir ekki hlýða á þig, og þótt þú kallir til þeirra, munu þeir ekki svara þér.

28 Seg því við þá: Þetta er þjóðin, sem eigi hlýðir raustu Drottins, Guðs síns, og engri umvöndun tekur. Horfin er trúfestin, já, upprætt úr munni þeirra.

29 Sker af þér höfuðprýði þína og varpa henni frá þér og hef upp harmakvein á skóglausu hæðunum, því að Drottinn hefir hafnað og útskúfað þeirri kynslóð, sem hann reiddist.

30 Júdamenn hafa gjört það, sem illt er í mínum augum _ segir Drottinn _, þeir hafa reist upp viðurstyggðir sínar í húsi því, sem kennt er við nafn mitt, og saurgað það

31 og byggt Tófet-fórnarhæðir í Hinnomssonar-dal til þess að brenna sonu sína og dætur í eldi, sem ég hefi ekki boðið og mér hefir ekki í hug komið!

32 Sjá, fyrir því munu þeir dagar koma _ segir Drottinn _, að eigi mun framar verða talað um "Tófet" og "Hinnomssonar-dal," heldur um "Drápsdal," og menn munu jarða í Tófet vegna rúmleysis.

33 Lík þessa lýðs munu verða æti fyrir fugla himinsins og dýr jarðarinnar, og enginn mun fæla þau burt.

34 Þá mun ég láta öll ánægju- og gleðihljóð, öll fagnaðarlæti brúðguma og brúðar hverfa burt úr Júdaborgum og af strætum Jerúsalem, því að landið skal verða auðn.

Þá munu menn _ segir Drottinn _ taka bein Júdakonunga og bein Júdahöfðingja og bein prestanna og bein spámannanna og bein Jerúsalembúa úr gröfum þeirra,

og breiða þau út á móti sólinni og tunglinu og öllum her himinsins, er þeir elskuðu og þjónuðu og eltu og gengu til frétta við og féllu fram fyrir. Þeim verður ekki safnað saman og þau verða ekki grafin, þau skulu verða að áburði á akrinum.

Og allar leifarnar, þeir er eftir verða af þessari vondu kynslóð á öllum þeim stöðum, þangað sem ég hefi rekið þá, munu heldur kjósa dauða en líf _ segir Drottinn allsherjar.

Seg því við þá: Svo segir Drottinn: Hvort falla menn og standa ekki upp aftur? Eða hverfa menn burt án þess að koma aftur?

Hvers vegna hefir þessi lýður horfið burt til ævarandi fráhvarfs? Þeir halda fast við svikin og vilja ekki hverfa aftur.

Ég tók eftir og heyrði: Þeir tala ósannindi, enginn iðrast illsku sinnar, svo að hann segi: "Hvað hefi ég gjört?" Allir hafa þeir gjörst fráhverfir í rásinni, eins og hestur, sem ryðst áfram í orustu.

Jafnvel storkurinn í loftinu þekkir sínar ákveðnu tíðir, og turtildúfan og svalan og tranan gefa gætur að tíma endurkomu sinnar, en lýður minn þekkir ekki rétt Drottins.

Hvernig getið þér sagt: "Vér erum vitrir og lögmál Drottins er hjá oss"? Víst er svo, en lygapenni fræðimannanna hefir gjört það að lygi.

Hinir vitru verða til skammar, þeir skelfast og verða gripnir, sjá, þeir hafa hafnað orði Drottins, hvaða visku hafa þeir þá?

10 Fyrir því mun ég selja konur þeirra öðrum á vald og sigurvegurunum lönd þeirra, því að bæði ungir og gamlir, allir eru þeir fíknir í rangfenginn gróða, bæði spámenn og prestar, allir hafa þeir svik í frammi.

11 Þeir hyggjast að lækna áfall þjóðar minnar með hægu móti, segjandi: "Heill, heill!" þar sem engin heill er.

12 Þeir munu hljóta að skammast sín fyrir að hafa framið svívirðing! En þeir skammast sín ekki og vita ekki hvað það er að blygðast sín. Fyrir því munu þeir falla meðal þeirra, sem falla. Þegar minn tími kemur að hegna þeim, munu þeir steypast _ segir Drottinn.

13 Ég vil safna þeim saman eins og um uppskeru _ segir Drottinn _ en engin vínber eru á vínviðinum og engar fíkjur á fíkjutrénu, og laufið er fölnað. Vil ég því selja þá þeim á vald, er þá munu upp eta.

14 Til hvers sitjum vér hér kyrrir? Safnist saman og höldum inn í víggirtu borgirnar og förumst þar, því að Drottinn, Guð vor, lætur oss farast og drykkjar oss með eiturvatni, af því að vér höfum syndgað á móti Drottni.

15 Menn vænta hamingju, en ekkert gott kemur, vænta lækningartíma, og sjá, skelfing!

16 Frá Dan heyrist frýsið í fákum hans, og af hneggi hesta hans nötrar allt landið, og þeir koma og eta upp landið og það, sem í því er, borgina og íbúa hennar.

17 Sjá, ég sendi meðal yðar höggorma, nöðrur, sem særingar vinna ekki á, og þeir skulu bíta yður _ segir Drottinn.

18 Ó hvað má hugsvala mér í harminum! Hjartað er sjúkt í mér.

19 Heyr, kvein þjóðar minnar hljómar úr fjarlægu landi. Er Drottinn ekki í Síon, eða er konungur hennar ekki í henni? "Hví egndu þeir mig til reiði með skurðmyndum sínum, með fánýtum, útlendum goðum?"

20 Uppskeran er liðin, aldinskurðurinn á enda, en vér höfum eigi hlotið hjálp.

21 Ég er helsærður af helsári þjóðar minnar, ég geng í sorgarbúningi, skelfing hefir gripið mig.

22 Eru þá engin smyrsl í Gíleað, eða er þar enginn læknir? Hví er engin hyldgan komin á sár þjóðar minnar?

Ó að höfuð mitt væri vatn og augu mín táralind, þá skyldi ég gráta daga og nætur þá, er fallið hafa af þjóð minni.

Ó að ég hefði sæluhús í eyðimörkinni, þá skyldi ég yfirgefa þjóð mína og fara burt frá þeim, því að allir eru þeir hórdómsmenn, flokkur svikara.

Þeir spenna tungu sína eins og boga sinn, með lygi, en eigi með sannleika, hafa þeir náð völdum í landinu, því að frá einni vonskunni ganga þeir til annarrar, en mig þekkja þeir ekki _ segir Drottinn.

Varið yður hver á öðrum og treystið engum bróður, því að sérhver bróðir beitir undirferli og sérhver vinur gengur með róg.

Þeir blekkja hver annan og sannleika tala þeir ekki. Þeir venja tungu sína á að tala lygi, kosta kapps um að gjöra rangt.

Þú býr mitt á meðal svikara. Vegna svika vilja þeir ekki þekkja mig _ segir Drottinn.

Fyrir því segir Drottinn allsherjar svo: Sjá, ég vil hreinsa þá og reyna þá, því að hvernig ætti ég að fara öðruvísi að andspænis illsku þjóðar minnar?

Tunga þeirra er deyðandi ör, svik tala þeir, með munninum tala þeir vingjarnlega við náunga sinn, en í hjarta sínu sitja þeir á svikráðum við hann.

Ætti ég ekki að hegna slíkum mönnum _ segir Drottinn _ eða hefna mín á annarri eins þjóð og þessari?

10 Á fjöllunum vil ég hefja grát og harmakvein, og sorgarljóð á beitilöndunum í öræfunum, því að þau eru sviðin, svo að enginn fer þar um framar og menn heyra eigi framar baul hjarðanna. Bæði fuglar himinsins og villidýrin eru flúin, farin.

11 Og ég vil gjöra Jerúsalem að grjóthrúgum, að sjakalabæli, og Júdaborgir vil ég gjöra að auðn, þar sem enginn býr.

12 Hver er svo vitur maður, að hann skilji þetta? Hver er sá, er munnur Drottins hafi talað við, að hann megi kunngjöra hvers vegna landið er gjöreytt, sviðið eins og eyðimörk, sem enginn fer um?

13 En Drottinn sagði: Af því að þeir hafa yfirgefið lögmál mitt, sem ég setti þeim, og ekki hlýtt minni raustu og ekki farið eftir henni,

14 heldur farið eftir þverúð hjarta síns og elt Baalana, er feður þeirra höfðu kennt þeim að dýrka,

15 þess vegna _ svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð _ vil ég gefa þeim, þessum lýð, malurt að eta og eiturvatn að drekka,

16 og tvístra þeim meðal þjóða, sem hvorki þeir né feður þeirra hafa þekkt, og senda sverðið á eftir þeim, þar til er ég hefi gjöreytt þeim.

17 Takið eftir og kallið til harmkonur, að þær komi, og sendið til hinna vitru kvenna, að þær komi

18 og hraði sér að hefja harmakvein yfir oss, til þess að augu vor fljóti í tárum og vatnið streymi af hvörmunum.

19 Hátt harmakvein heyrist frá Síon: Hversu erum vér eyðilagðir, mjög til skammar orðnir, því að vér höfum orðið að yfirgefa landið, af því að þeir hafa brotið niður bústaði vora.

20 Já, heyrið, þér konur, orð Drottins, og eyra yðar nemi orð hans munns. Kennið dætrum yðar harmljóð og hver annarri sorgarkvæði!

21 Því að dauðinn er stiginn upp í glugga vora, kominn inn í hallir vorar, hann hrífur börnin af götunum, unglingana af torgunum.

22 Og líkin af mönnunum liggja eins og hlöss á velli og eins og kornbundin að baki kornskurðarmanninum, sem enginn tekur saman.

23 Svo segir Drottinn: Hinn vitri hrósi sér ekki af visku sinni og hinn sterki hrósi sér ekki af styrkleika sínum og hinn auðugi hrósi sér ekki af auði sínum.

24 Hver sá er vill hrósa sér, hrósi sér af því, að hann sé hygginn og þekki mig, að það er ég, Drottinn, sem auðsýni miskunnsemi, rétt og réttlæti á jörðinni, því að á slíku hefi ég velþóknun _ segir Drottinn.

25 Sjá, þeir dagar munu koma _ segir Drottinn _, að ég mun hegna öllum umskornum, sem þó eru óumskornir:

26 Egyptalandi, Júda, Edóm, Ammónítum, Móab og öllum, sem skera hár sitt við vangann, þeim er búa í eyðimörkinni, _ því að allir heiðingjar eru óumskornir og allt Ísraels hús er óumskorið á hjarta.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes