Añadir traducción en paralelo Imprimir Opciones de la página

48 Um Móab. Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Vei yfir Nebó, því að hún er eydd, orðin til skammar, Kirjataím er unnin, háborgin er orðin til skammar og skelfd.

Frægð Móabs er farin. Í Hesbon brugga menn ill ráð gegn borginni: "Komið, vér skulum uppræta hana, svo að hún sé eigi framar þjóð!" Einnig þú, Madmen, munt gjöreydd verða, sverðið eltir þig!

Neyðarkvein heyrist frá Hórónaím: "Eyðing og ógurleg tortíming!"

Móab er í eyði lagður, þeir láta neyðarkvein heyrast allt til Sóar,

því að grátandi ganga þeir upp stíginn hjá Lúkít, já, í hlíðinni hjá Hórónaím heyra menn neyðarkvein tortímingarinnar.

Flýið, forðið lífi yðar, og verðið eins og einirunnur í eyðimörkinni!

Af því að þú reiddir þig á káksmíðar þínar og fjársjóðu þína, verður þú og unnin, og Kamos verður að fara í útlegð, prestar hans og höfðingjar hver með öðrum.

Eyðandinn kemur yfir hverja borg, engin borg kemst undan. Dalurinn ferst og sléttlendið eyðileggst, eins og Drottinn hefir sagt.

Fáið Móab vængi, því að á flugferð skal hann brott fara, og borgir hans skulu verða að auðn og enginn í þeim búa.

10 Bölvaður sé sá, sem slælega framkvæmir verk Drottins, og bölvaður sé sá, sem synjar sverði sínu um blóð!

11 Móab hefir lifað í friði frá æsku og legið í náðum á dreggjum sínum. Honum hefir ekki verið hellt úr einu kerinu í annað, og aldrei hefir hann farið í útlegð. Fyrir því hefir bragðið af honum haldist og ilmurinn af honum eigi breytst.

12 Sjá, þeir dagar munu því koma, segir Drottinn, að ég sendi honum tæmendur, sem tæma hann. Þeir skulu hella úr kerum hans og mölva sundur krúsir hans.

13 Þá mun Móab verða til skammar vegna Kamoss, eins og Ísraels hús varð til skammar vegna Betel, er það treysti á.

14 Hvernig getið þér sagt: "Vér erum hetjur og öflugir hermenn?"

15 Eyðandi Móabs og borga hans kemur þegar, og úrval æskumanna hans hnígur niður til slátrunar _ segir konungurinn. Drottinn allsherjar er nafn hans.

16 Eyðilegging Móabs er komin nærri og óhamingja hans hraðar sér mjög.

17 Vottið honum hluttekning, allir þér nábúar hans, og allir þér, sem þekkið nafn hans. Segið: "Hvernig brotnaði stafurinn sterki, sprotinn dýrlegi!"

18 Stíg niður úr vegsemdinni og sest í duftið, þú sem þar býr, dóttirin Díbon, því að eyðandi Móabs kemur í móti þér, eyðir vígi þín.

19 Gakk út á veginn og skyggnst um, þú sem býr í Aróer, spyr flóttamanninn og þá konu, er undan hefir komist, og seg: "Hvað hefir til borið?"

20 Móab varð til skammar, já skelfdist. Hljóðið og kveinið! Kunngjörið hjá Arnon, að Móab sé eyddur.

21 Dómur er genginn yfir sléttulandið, yfir Hólon og Jahsa og Mefaat,

22 yfir Díbon, Nebó og Bet-Díblataím,

23 yfir Kirjataím, Bet-Gamúl og Bet-Meon,

24 yfir Keríót, Bosra, og allar borgir Móabslands, fjær og nær.

25 Horn Móabs er afhöggvið og armur hans brotinn _ segir Drottinn.

26 Gjörið hann drukkinn _ því að gegn Drottni hefir hann miklast _, til þess að Móab skelli ofan í spýju sína og verði líka að athlægi.

27 Eða var Ísrael þér eigi hlátursefni? Var hann gripinn með þjófum, þar sem þú hristir höfuðið í hvert sinn sem þú talar um hann?

28 Yfirgefið borgirnar og setjist að í klettaskorum, þér íbúar Móabs, og verið eins og dúfan, sem hreiðrar sig hinum megin á gjárbarminum.

29 Heyrt höfum vér um drambsemi Móabs _ hann er mjög hrokafullur _ um hroka hans, drambsemi, ofmetnað og yfirlæti hans.

30 Já, ég þekki _ segir Drottinn _ ofsa hans: Svo marklaus eru stóryrði hans, svo marklaust það, er þeir gjöra.

31 Fyrir því kveina ég yfir Móab og hljóða yfir Móab öllum, yfir mönnunum frá Kír-Heres mun andvarpað verða.

32 Meir en grátið verður yfir Jaser, græt ég yfir þér, vínviður Síbma. Greinar þínar fóru yfir hafið, komust til Jaser, á sumargróða þinn og vínberjatekju hefir eyðandinn ráðist.

33 Fögnuður og kæti er horfin úr aldingörðunum og úr Móabslandi. Vínið læt ég þverra í vínþröngunum, troðslumaðurinn mun eigi framar troða, fagnaðarópið er ekkert fagnaðaróp.

34 Frá hinni kveinandi Hesbon allt til Eleale, allt til Jahas láta þeir raust sína glymja, frá Sóar allt til Hórónaím, allt til Eglat-Selisía, því að einnig Nimrímvötn verða að öræfum.

35 Og ég eyði úr Móab _ segir Drottinn _ sérhverjum þeim, sem stígur upp á fórnarhæð og færir guði sínum reykelsi.

36 Fyrir því kveinar hjarta mitt yfir Móab eins og hljóðpípur og hjarta mitt kveinar yfir mönnunum frá Kír-Heres eins og hljóðpípur, fyrir því misstu þeir það, er þeir höfðu dregið saman.

37 Því að hvert höfuð er sköllótt orðið og allt skegg af rakað, á öllum handleggjum eru skinnsprettur, og hærusekkur um mjaðmir.

38 Uppi á öllum þökum í Móab og á torgunum heyrist ekki annað en harmakvein, því að ég hefi brotið Móab eins og ker, sem engum manni geðjast að, _ segir Drottinn.

39 Hversu er hann skelfdur! Hljóðið! Hversu hefir Móab snúið baki við! Fyrirverð þig! Og Móab skal verða til athlægis og skelfingar öllum nágrönnum sínum.

40 Svo segir Drottinn: Sjá, hann kemur fljúgandi eins og örn og breiðir vængi sína út yfir Móab.

41 Borgirnar eru teknar og vígin unnin, og hjarta Móabs kappa mun á þeim degi verða eins og hjarta konu, sem er í barnsnauð.

42 En Móab mun afmáður verða, svo að hann verði eigi þjóð framar, því að hann hefir miklast gegn Drottni.

43 Geigur, gröf og gildra koma yfir þig, Móabsbúi _ segir Drottinn.

44 Sá, sem flýr undan geignum, fellur í gröfina, og sá, sem kemst upp úr gröfinni, festist í gildrunni. Því að þetta leiði ég yfir Móab árið, sem þeim verður hegnt _ segir Drottinn.

45 Í skugga Hesbon nema flóttamenn staðar magnlausir, en eldur brýst út úr Hesbon og logi úr höll Síhons, hann eyðir þunnvanganum á Móab og hvirflinum á hávaðamönnum.

46 Vei þér, Móab! Það er úti um lýð Kamoss! Því að synir þínir munu verða fluttir burt til herleiðingar og dætur þínar hernumdar.

47 En ég mun snúa við högum Móabs, þá er fram líða stundir _ segir Drottinn. Hér lýkur dómsorðunum yfir Móab.

49 Um Ammóníta. Svo segir Drottinn: Á þá Ísrael enga sonu, eða á hann engan erfingja? Hví hefir Milkóm erft Gað og hví hefir lýður hans setst að í borgum hans?

Sjá, þeir dagar munu koma _ segir Drottinn _ að ég læt heróp heyrast til Rabba, borgar Ammóníta, og hún skal verða að grjóthrúgu og dæturnar eyðast í eldi, og þá skal Ísrael erfa aftur erfingja sína _ segir Drottinn.

Hljóða þú, Hesbon, yfir því að borgin er unnin! Kveinið Rabbadætur! Gyrðist hærusekk, harmið og reikið um innan fjárgirðinganna, því að Milkóm verður að fara í útlegð, prestar hans og höfðingjar hverjir með öðrum.

Hví stærir þú þig af dölunum, af frjósemi dals þíns, fráhverfa dóttir, sem reiðir sig á fjársjóðu sína og segir: "Hver skyldi ráða á mig?"

Sjá, ég læt skelfingu koma yfir þig _ segir herrann, Drottinn allsherjar _ úr öllum áttum í kringum þig, og þér skuluð verða reknir brott, hver það sem horfir, og enginn safnar þeim saman, er flýja.

En síðar meir mun ég leiða heim aftur hina herleiddu af Ammónítum _ segir Drottinn.

Um Edóm. Svo segir Drottinn allsherjar: Er þá engin viska framar í Teman? Eru góð ráð horfin hinum hyggnu, er viska þeirra þrotin?

Flýið, hverfið brott, felið yður djúpt niðri, þér íbúar Dedans! Því að Esaús glötun læt ég yfir hann koma, þá er ég hegni honum.

Ef vínlestursmenn ráðast á þig, þá skilja þeir ekki neinn eftirtíning eftir. Ef þjófar koma að þér á náttarþeli, þá skemma þeir, þar til er þeim nægir.

10 En af því að ég sjálfur afhjúpa Esaú, gjöri ber fylgsni hans, svo að hann getur ekki falið sig, þá verða niðjar hans unnir og frændþjóðir hans og nábúar, og úti er um hann.

11 Yfirgef munaðarleysingja þína, _ ég mun halda lífinu í þeim, og ekkjur þínar mega reiða sig á mig!

12 Svo segir Drottinn: Sjá, þeim sem eigi bar að drekka bikarinn, þeir urðu að drekka hann _ og þú ættir að sleppa óhegndur? Þú munt ekki sleppa óhegndur, heldur skalt þú drekka.

13 Því að ég sver við sjálfan mig _ segir Drottinn _, að Bosra skal verða að skelfing, háðung, undrun og formæling, og allar borgir hennar skulu verða að eilífum rústum.

14 Ég hefi fengið vitneskju frá Drottni, og boðberi er sendur meðal þjóðanna! Safnist saman og farið gegn borginni og búist til bardaga!

15 Sjá, ég vil gjöra þig litla meðal þjóðanna, fyrirlitna meðal mannanna.

16 Skelfingin, sem þú skaust öðrum í brjóst, og hroki hjarta þíns hafa dregið þig á tálar, þú sem átt byggð í klettaskorum, situr á háa hnúknum. Þó að þú byggðir hreiður þitt hátt, eins og örninn, þá steypi ég þér þaðan niður _ segir Drottinn.

17 Edóm skal verða að skelfingu, hver sem fer þar um mun skelfast og hæðast að öllum áföllunum, er hann hefir orðið fyrir.

18 Eins og Sódómu og Gómorru og nágrannaborgunum var umturnað, segir Drottinn, svo skal og enginn maður búa þar, né nokkurt mannsbarn hafast þar við.

19 Sjá, eins og ljón, sem kemur út úr kjarrinu á Jórdanbökkum og stígur upp á sígrænt engið, svo mun ég skyndilega reka hann burt þaðan, og hvern þann, sem útvalinn er, mun ég setja yfir hana. Því að hver er minn líki? Hver vill stefna mér? Hver er sá hirðir, er fái staðist fyrir mér?

20 Heyrið því ráðsályktun Drottins, er hann hefir gjört viðvíkjandi Edóm, og þær fyrirætlanir, er hann hefir í huga viðvíkjandi Teman-búum: Sannarlega munu þeir draga hina lítilmótlegustu úr hjörðinni burt. Sannarlega skal haglendi þeirra verða agndofa yfir þeim.

21 Af dyn falls þeirra nötrar jörðin, neyðarkveinið _ ómurinn af því heyrist við Rauðahafið.

22 Sjá, sem örn stígur hann upp og flýgur hingað og breiðir út vængi sína yfir Bosra, og hjarta Edóms kappa mun á þeim degi verða eins og hjarta konu, sem er í barnsnauð.

23 Um Damaskus. Hamat og Arpad eru agndofa, því að þær hafa spurt ill tíðindi, þær eru hræddar, fullar af óró, eins og hafið, sem getur ekki verið kyrrt.

24 Damaskus er orðin huglaus, hefir snúist á flótta, og ótti hefir gripið hana, angist og kvalir hafa altekið hana, eins og jóðsjúka konu.

25 Hví var hún ekki yfirgefin, hin vegsamaða borg, ununar-borgin mín?

26 Fyrir því verða nú æskumenn hennar að falla á torgunum og allir hermenn hennar að farast á þeim degi _ segir Drottinn allsherjar.

27 Og ég kveiki eld við múra Damaskus, til þess að hann eyði höllum Benhadads.

28 Um Kedar og konungsríki Hasórs, er Nebúkadresar Babelkonungur vann. Svo segir Drottinn: Standið upp, farið á móti Kedar og herjið á austurbyggja.

29 Tjöld þeirra og sauði munu þeir taka, og tjalddúka þeirra og öll áhöld og úlfalda þeirra munu þeir flytja burt frá þeim. Þá munu menn hrópa yfir þeim: "Skelfing allt um kring!"

30 Leggið á flótta, flýið sem hraðast, felið yður djúpt niðri, þér íbúar Hasórs _ segir Drottinn, því að Nebúkadresar Babelkonungur hefir gjört ráðsályktun gegn yður og hefir í huga ráðagjörð gegn yður.

31 Af stað! Farið á móti meinlausri þjóð, sem býr örugg _ segir Drottinn _, og hvorki hefir hurðir né slagbranda. Þeir búa einir sér.

32 Úlfaldar þeirra skulu verða að ránsfeng og mergð nautahjarða þeirra að herfangi, og ég mun dreifa þeim fyrir öllum vindum, þeim sem skera hár sitt við vangann, og láta ógæfu hvaðanæva yfir þá koma _ segir Drottinn.

33 Hasór skal verða að sjakalabæli, að auðn um eilífð. Enginn maður mun framar búa þar og ekkert mannsbarn hafast þar við.

34 Þetta birtist Jeremía spámanni sem orð Drottins um Elam í upphafi ríkisstjórnar Sedekía Júdakonungs:

35 Svo segir Drottinn allsherjar: Sjá, ég brýt sundur boga Elamíta, meginstyrk þeirra.

36 Og ég hleypi á Elamíta fjórum vindum úr fjórum áttum himins og tvístra þeim fyrir öllum þessum vindum, og engin skal sú þjóð til vera, að þangað komi ekki flóttamenn frá Elam.

37 Ég læt Elamíta skelfast fyrir óvinum þeirra og fyrir þeim, er sækjast eftir lífi þeirra, og leiði yfir þá óhamingju, mína brennandi reiði _ segir Drottinn _ og sendi sverðið á eftir þeim, uns ég hefi gjöreytt þeim.

38 Ég reisi hásæti mitt í Elam og eyði þaðan konungi og höfðingjum _ segir Drottinn.

39 En þá er fram líða stundir mun ég snúa við högum Elams _ segir Drottinn.

Melkísedek þessi var konungur í Salem og prestur Guðs hins hæsta. Hann gekk á móti Abraham og blessaði hann, þegar hann sneri heimleiðis eftir að hafa unnið sigur á konungunum.

Og honum lét Abraham í té tíund af öllu. Fyrst þýðir nafn hans "réttlætis konungur", en hann heitir enn fremur Salem-konungur, það er "friðar konungur".

Hann er föðurlaus, móðurlaus, ekki ættfærður, og hefur hvorki upphaf daga né endi lífs. Hann er líkur syni Guðs, hann heldur áfram að vera prestur um aldur.

Virðið nú fyrir yður, hvílíkur maður það var, sem Abraham, sjálfur forfaðirinn, gaf valda tíund af herfanginu.

Og víst er um það, að þeim Levísonum, er prestþjónustuna fá, er boðið að taka tíund af lýðnum eftir lögmálinu, það er að segja af bræðrum sínum, enda þótt þeir séu komnir af Abraham.

En sá, er eigi var ættfærður til þeirra, tók tíund af Abraham og blessaði þann, er fyrirheitin hafði.

En með öllu er það ómótmælanlegt, að sá sem er meiri blessar þann sem minni er.

Hér taka dauðlegir menn tíund, en þar tók sá er um var vitnað, að hann lifi áfram.

Og svo má að orði kveða, að enda Leví, hann sem tíund tekur, hafi greitt tíund, þar sem Abraham gjörði það,

10 því að enn þá var hann í lend forföður síns, þegar Melkísedek gekk á móti honum.

11 Hefði nú fullkomnun fengist með levíska prestdóminum, _ en hann var grundvöllur lögmálsins, sem lýðurinn fékk _, hver var þá framar þörf þess að segja að koma skyldi annars konar prestur að hætti Melkísedeks, en ekki að hætti Arons?

12 Þegar prestdómurinn breytist, þá verður og breyting á lögmálinu.

13 Sá sem þetta er sagt um var af annarri ætt, og af þeirri ætt hefur enginn innt þjónustu af hendi við altarið.

14 Því að alkunnugt er, að Drottinn vor er af Júda upp runninn, en Móse hefur ekkert um presta talað, að því er varðar þá ættkvísl.

15 Þetta er enn miklu bersýnilegra á því, að upp er kominn annar prestur, líkur Melkísedek.

16 Hann varð ekki prestur eftir mannlegum lögmálsboðum, heldur í krafti óhagganlegs lífs.

17 Því að um hann er vitnað: "Þú ert prestur að eilífu að hætti Melkísedeks."

18 Hið fyrra boðorð er þar með ógilt, af því að það var vanmáttugt og gagnslaust.

19 Lögmálið gjörði ekkert fullkomið. En jafnframt er leidd inn betri von. Fyrir hana nálgumst vér Guð.

20 Þetta varð ekki án eiðs. Hinir urðu prestar án eiðs,

21 en hann með eiði, þegar Guð sagði við hann: "Drottinn sór, og ekki mun hann iðra þess: Þú ert prestur að eilífu."

22 Þessi samanburður sýnir, að Jesús er orðinn ábyrgðarmaður betri sáttmála.

23 Enn fremur urðu hinir prestarnir margir af því að dauðinn meinaði þeim að vera áfram.

24 En hann er að eilífu og hefur prestdóm þar sem ekki verða mannaskipti.

25 Þess vegna getur hann og til fulls frelsað þá, sem fyrir hann ganga fram fyrir Guð, þar sem hann ávallt lifir til að biðja fyrir þeim.

26 Slíks æðsta prests höfðum vér þörf, sem er heilagur, svikalaus, óflekkaður, greindur frá syndurum og orðinn himnunum hærri.

27 Hann þarf ekki daglega, eins og hinir æðstu prestarnir, fyrst að bera fram fórnir fyrir eigin syndir, síðan fyrir syndir lýðsins. Það gjörði hann í eitt skipti fyrir öll, er hann fórnfærði sjálfum sér.

28 Lögmálið skipar menn æðstu presta, sem eru veikleika háðir, en eiðurinn, er kom á eftir lögmálinu, skipar son, fullkominn gjörðan að eilífu.