A A A A A
Bible Book List

Jeremía 34-36 Icelandic Bible (ICELAND)

34 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni, þá er Nebúkadresar Babelkonungur og allur her hans og öll konungsríki jarðarinnar, þau er lutu hans valdi, og allar þjóðirnar herjuðu á Jerúsalem og allar borgir umhverfis hana:

Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Far og mæl til Sedekía Júdakonungs og seg við hann: Svo segir Drottinn: Sjá, ég sel borg þessa á vald Babelkonungs, til þess að hann brenni hana í eldi,

og þú munt sjálfur ekki komast undan honum, en áreiðanlega gripinn verða og framseldur á hans vald, og augu þín munu líta augu Babelkonungs og munnur hans tala við þinn munn, og til Babýlon munt þú fara.

En heyr orð Drottins, Sedekía Júdakonungur: Svo segir Drottinn um þig: Þú skalt ekki deyja fyrir sverði.

Í friði munt þú deyja, og eins og brennt var ilmreykelsi við jarðarför feðra þinna, hinna fyrri konunga, sem voru á undan þér, eins munu menn brenna þér til heiðurs og harma þig og segja: "Æ, drottnari!" því að það hefi ég talað _ segir Drottinn.

Jeremía spámaður talaði öll þessi orð við Sedekía Júdakonung í Jerúsalem,

þá er her Babelkonungs herjaði á Jerúsalem og allar Júdaborgir, sem enn voru eftir, Lakís og Aseka. Því að þessar einar voru eftir orðnar af borgunum í Júda, af víggirtu borgunum.

Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni, eftir að Sedekía konungur hafði gjört sáttmála við allan lýðinn í Jerúsalem um að boðað skyldi frelsi:

Hver maður skyldi gefa frjálsan þræl sinn og ambátt sína, ef þau væru hebreskur maður og hebresk kona, svo að enginn Júdamaður hefði ættbræður sína að þrælum.

10 Og allir höfðingjarnir hlýddu því og allur lýðurinn, þeir er gengist höfðu undir sáttmálann, að hver skyldi gefa frjálsan þræl sinn og ambátt sína, svo að hann hefði þau eigi framar að þrælum. Þeir hlýddu og gáfu þau frjáls.

11 En seinna sóttu þeir aftur þrælana og ambáttirnar, er þeir höfðu gefið frjáls, og gjörðu þau að ánauðugum þrælum og ambáttum.

12 Þá kom þetta orð Drottins til Jeremía:

13 Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Ég gjörði svohljóðandi sáttmála við feður yðar, þá er ég flutti þá burt af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu:

14 "Að sjö árum liðnum skuluð þér hver og einn gefa lausan hebreskan bróður yðar, sem kann að hafa selt sig þér. Í sex ár skal hann vera þræll þinn, en síðan skalt þú láta hann lausan frá þér fara." En feður yðar hlýddu mér ekki og lögðu ekki við eyrun.

15 En nú tókuð þér sinnaskiptum og gjörðuð það, sem rétt var í mínum augum, með því að boða hver öðrum frelsi, og gjörðuð sáttmála fyrir mínu augliti í musterinu, sem kennt er við nafn mitt.

16 En þér hafið snúið yður aftur og vanhelgað nafn mitt, þar sem þér hafið hver og einn sótt aftur þræl sinn og ambátt, er þér höfðuð gefið algjörlega frjáls, og neytt þau til að vera þræla yðar og ambáttir.

17 Fyrir því segir Drottinn svo: Þér hafið eigi hlýtt mér um að boða frelsi, hver sínum bróður og hver sínum náunga. Sjá, ég ætla því að boða yður frelsi _ segir Drottinn _ svo að þér verðið ofurseldir sverðinu, drepsóttinni og hungrinu, og ég gjöri yður að grýlu öllum konungsríkjum jarðar.

18 Ég framsel þá menn, er brotið hafa sáttmála minn, og eigi hafa haldið orð sáttmálans, er þeir gjörðu fyrir mínu augliti, þá er þeir slátruðu kálfinum, sem þeir skáru í tvennt og gengu á milli hlutanna, _

19 höfðingja Júda og höfðingja Jerúsalem, hirðmennina og prestana og allan landslýðinn, er gengið hafa milli hluta kálfsins.

20 Ég sel þá á vald óvina þeirra og á vald þeirra, sem sækjast eftir lífi þeirra, og lík þeirra skulu verða æti fyrir fugla himinsins og dýr jarðarinnar.

21 En Sedekía konung í Júda og höfðingja hans sel ég á vald óvinum þeirra og á vald þeim, er sækjast eftir lífi þeirra, og á vald her Babelkonungs, þeim sem nú eru frá yður farnir.

22 Sjá, ég mun gefa þeim skipun _ segir Drottinn _ og láta þá koma aftur til þessarar borgar, til þess að þeir herji á hana, vinni hana og brenni hana í eldi, og borgirnar í Júda gjöri ég að auðn, svo að enginn búi í þeim.

35 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni á dögum Jójakíms Jósíasonar, Júdakonungs:

"Gakk til ættflokks Rekabíta og tala við þá og kom með þá í musteri Drottins, inn í eitt herbergið, og gef þeim vín að drekka."

Þá sótti ég Jaasanja Jeremíason, Habasinjasonar, og bræður hans og alla sonu hans og allan Rekabíta-ættflokkinn

og fór með þá í musteri Drottins, inn í herbergi sona Hanans, Jigdaljasonar, guðsmannsins, sem er við hliðina á herbergi höfðingjanna, uppi yfir herbergi Maaseja Sallúmssonar þröskuldsvarðar.

Og ég setti skálar fullar af víni og bikara fyrir ættmenn Rekabíta-flokksins og sagði við þá: "Drekkið vín!"

Þá sögðu þeir: "Vér drekkum ekki vín, því að Jónadab Rekabsson ættfaðir vor hefir lagt svo fyrir oss: ,Þér skuluð aldrei drekka vín að eilífu, hvorki þér né synir yðar,

og þér skuluð ekki reisa hús, né sá sæði, né planta víngarða, né eiga nokkuð slíkt, heldur skuluð þér búa í tjöldum alla ævi yðar, til þess að þér lifið langa ævi í því landi, þar er þér dveljið sem útlendingar.`

Og vér höfum hlýtt skipun Jónadabs Rekabssonar ættföður vors í öllu því, er hann bauð oss, svo að vér drekkum alls ekki vín alla ævi vora, hvorki vér sjálfir, konur vorar, synir vorir né dætur vorar,

og reisum oss ekki hús til að búa í og eigum hvorki víngarða, akra né sáð.

10 Vér höfum því búið í tjöldum og hlýtt og farið eftir öllu því, er Jónadab ættfaðir vor bauð oss.

11 En er Nebúkadresar Babelkonungur braust inn í landið, sögðum vér: ,Komið, vér skulum halda inn í Jerúsalem undan her Kaldea og undan her Sýrlendinga!` og settumst að í Jerúsalem."

12 Þá kom orð Drottins til Jeremía:

13 "Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Far og seg við Júdamenn og Jerúsalembúa: Viljið þér ekki taka umvöndun, svo að þér hlýðið á orð mín? _ segir Drottinn.

14 Orð Jónadabs Rekabssonar eru haldin, þau er hann lagði fyrir sonu sína, að drekka ekki vín. Þeir hafa ekki vín drukkið allt fram á þennan dag, af því að þeir hafa hlýtt skipun ættföður síns. En ég hefi talað til yðar seint og snemma, en þér hafið ekki hlýtt mér.

15 Og ég hefi sent til yðar alla þjóna mína, spámennina, seint og snemma, til þess að segja: "Snúið yður, hver frá sínum vonda vegi, og bætið gjörðir yðar og eltið ekki aðra guði til þess að þjóna þeim, þá skuluð þér búa kyrrir í landinu, sem ég gaf yður og feðrum yðar!" _ en þér lögðuð ekki við eyrun og hlýdduð ekki á mig.

16 Já, niðjar Jónadabs Rekabssonar hafa haldið skipun ættföður síns, þá er hann fyrir þá lagði, en þessi lýður hefir ekki hlýtt mér.

17 Fyrir því segir Drottinn, Guð allsherjar, Ísraels Guð, svo: Sjá, nú leiði ég yfir Júda og alla Jerúsalembúa alla ógæfuna, er ég hefi hótað þeim, af því að þeir hafa ekki hlýtt, þótt ég hafi talað til þeirra, né svarað, þótt ég hafi kallað til þeirra.

18 En við ættflokk Rekabíta sagði Jeremía: "Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Af því að þér hafið hlýtt skipun Jónadabs ættföður yðar og haldið allar skipanir hans og farið í öllu eftir því, er hann fyrir yður lagði,

19 fyrir því segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð, svo: Jónadab Rekabsson skal aldrei vanta mann, er standi frammi fyrir mér."

36 Á fjórða ríkisári Jójakíms Jósíasonar, Júdakonungs, kom þetta orð til Jeremía frá Drottni:

Tak þér bókrollu og rita á hana öll þau orð, sem ég hefi til þín talað um Ísrael og Júda og allar þjóðir, frá þeim degi er ég talaði við þig, frá dögum Jósía, og allt fram á þennan dag;

vera má að Júda hús hlýði á alla þá ógæfu, sem ég hygg að leiða yfir þá, svo að þeir snúi sér, hver og einn frá sínum vonda vegi, og þá mun ég fyrirgefa þeim misgjörð þeirra og synd.

Þá kallaði Jeremía á Barúk Neríason, og Barúk ritaði af munni Jeremía á bókrolluna öll orð Drottins, þau er hann hafði til hans talað.

Og Jeremía skipaði Barúk og mælti: "Mér er tálmað, ég get ekki farið í musteri Drottins.

Far þú því og lestu upphátt úr bókrollunni það, er þú hefir ritað af munni mér, orðin Drottins, fyrir lýðnum í musteri Drottins á föstu-degi. Þú skalt og lesa þau upphátt fyrir öllum Júdamönnum, sem komnir eru hingað úr borgum sínum.

Vera má, að þeir gjöri auðmjúkir bæn sína til Drottins og snúi sér hver og einn frá sínum vonda vegi, því að mikil er reiðin og heiftin, sem Drottinn hefir hótað þessum lýð."

Og Barúk Neríason gjörði með öllu svo sem Jeremía spámaður lagði fyrir hann og las orð Drottins upphátt úr bókinni í musteri Drottins.

En á fimmta ríkisári Jójakíms Jósíasonar, konungs í Júda, í níunda mánuðinum, boðuðu menn allan lýðinn í Jerúsalem og allt það fólk, sem komið var úr Júdaborgum til Jerúsalem, til föstuhalds fyrir Drottni.

10 Þá las Barúk upphátt fyrir öllum lýðnum úr bókinni orð Jeremía í musteri Drottins, í herbergi Gemaría Safanssonar kanslara, í efra forgarðinum, við nýja hliðið á musteri Drottins.

11 En er Míka Gemaríason, Safanssonar, heyrði öll orð Drottins úr bókinni,

12 þá gekk hann ofan í konungshöllina, inn í herbergi kanslarans, og sátu þá allir höfðingjarnir þar: Elísama kanslari, Delaja Semajason, Elnatan Akbórsson, Gemaría Safansson, Sedekía Hananíason og allir hinir höfðingjarnir.

13 En Míka skýrði þeim frá öllu því, er hann hafði heyrt, þá er Barúk las upphátt úr bókinni fyrir öllum lýðnum.

14 Þá sendu allir höfðingjarnir Júdí Nataníason, Selemíasonar, Kúsísonar, til Barúks með svolátandi orðsending: "Tak þér í hönd bókrolluna, sem þú last upphátt úr fyrir lýðnum og kom hingað." Og Barúk Neríason tók bókrolluna sér í hönd og kom til þeirra.

15 En þeir sögðu við hann: "Sestu niður og lestu hana upphátt fyrir oss." Og Barúk gjörði svo.

16 En er þeir höfðu heyrt öll orðin, litu þeir felmtsfullir hver á annan og sögðu við Barúk: "Vér verðum að segja konungi frá öllu þessu!"

17 Jafnframt spurðu þeir Barúk: "Seg oss, hvernig þú hefir skrifað öll þessi orð?"

18 Og Barúk svaraði þeim: "Hann hafði munnlega upp fyrir mér öll þessi orð, en ég skrifaði þau í bókina með bleki."

19 Þá sögðu höfðingjarnir við Barúk: "Far og fel þig, ásamt Jeremía, svo að enginn viti, hvar þið eruð."

20 Síðan gengu þeir til konungs inn í afhýsi hans, en létu bókrolluna eftir í herbergi Elísama kanslara, og sögðu konungi frá öllu þessu.

21 Þá sendi konungur Júdí til þess að sækja bókrolluna, og hann sótti hana í herbergi Elísama kanslara. Síðan las Júdí hana upphátt fyrir konungi og höfðingjunum, sem umhverfis konung stóðu.

22 Konungur bjó í vetrarhöllinni, með því að þetta var í níunda mánuðinum, og eldur brann í glóðarkerinu fyrir framan hann.

23 Í hvert sinn, er Júdí hafði lesið þrjú eða fjögur blöð, skar konungur þau sundur með pennahníf og kastaði þeim á eldinn í glóðarkerinu, uns öll bókrollan var brunnin á eldinum í glóðarkerinu.

24 En hvorki varð konungur hræddur, né nokkur af þjónum hans, þeim er heyrðu öll þessi orð, né heldur rifu þeir klæði sín,

25 og þótt Elnatan, Delaja og Gemaría legðu að konungi að brenna ekki bókrolluna, þá hlýddi hann þeim ekki,

26 heldur skipaði hann Jerahmeel konungssyni og Seraja Asríelssyni og Selemja Abdeelssyni að sækja Barúk skrifara og Jeremía spámann, _ en Drottinn fól þá.

27 Þá kom orð Drottins til Jeremía, eftir að konungur hafði brennt bókrolluna, sem hafði inni að halda orð þau, er Barúk hafði ritað af munni Jeremía:

28 Tak þér aftur aðra bókrollu og rita á hana öll hin fyrri orðin, er voru á fyrri bókrollunni, þeirri sem Jójakím Júdakonungur brenndi.

29 En viðvíkjandi Jójakím Júdakonungi skalt þú segja: Svo segir Drottinn: Þú hefir brennt bókrolluna með þeim ummælum: ,Hvers vegna hefir þú skrifað á hana: Babelkonungur mun vissulega koma og eyða þetta land og útrýma úr því mönnum og skepnum!`

30 Fyrir því segir Drottinn svo um Jójakím Júdakonung: Hann skal engan niðja eiga, er sitji í hásæti Davíðs, og hræ hans skal liggja úti í hitanum á daginn og kuldanum á nóttinni.

31 Og ég vil hegna honum og niðjum hans og þjónum hans fyrir misgjörð þeirra og ég vil láta yfir þá koma og yfir Jerúsalembúa og Júdamenn alla þá ógæfu, er ég hefi hótað þeim, án þess að þeir hlýddu.

32 Og Jeremía tók aðra bókrollu og fékk hana Barúk skrifara Neríasyni, og hann skrifaði á hana af munni Jeremía öll orð bókar þeirrar, er Jójakím Júdakonungur hafði brennt í eldi, _ en auk þeirra var enn fremur bætt við mörgum orðum líkum hinum.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Bréfið til Hebrea 2 Icelandic Bible (ICELAND)

Þess vegna ber oss að gefa því enn betur gaum, er vér höfum heyrt, svo að eigi berumst vér afleiðis.

Því að hafi orðið af englum talað reynst stöðugt og hvert afbrot og óhlýðni hlotið réttlátt endurgjald,

hvernig fáum vér þá undan komist, ef vér vanrækjum slíkt hjálpræði sem Drottinn flutti fyrst og var staðfest fyrir oss af þeim, er heyrðu?

Guð bar jafnframt vitni með þeim með táknum og undrum og margs konar kraftaverkum og gjöfum heilags anda, sem hann útbýtti að vild sinni.

Því ekki lagði hann undir engla hinn komandi heim, sem vér tölum um.

Einhvers staðar er vitnað: Hvað er maður, að þú minnist hans? Eða mannssonur, að þú vitjir hans?

Skamma stund gjörðir þú hann englunum lægri. Þú hefur krýnt hann vegsemd og heiðri. Og þú hefur skipað hann yfir verk handa þinna.

Allt hefur þú lagt undir fætur hans. Með því að leggja allt undir hann, þá hefur hann ekkert það eftir skilið, er ekki sé undir hann lagt. Ennþá sjáum vér ekki, að allir hlutir séu undir hann lagðir.

En vér sjáum, að Jesús, sem "skamma stund var gjörður englunum lægri," er "krýndur vegsemd og heiðri" vegna dauðans sem hann þoldi. Af Guðs náð skyldi hann deyja fyrir alla.

10 Allt er til vegna Guðs og fyrir Guð. Því varð hann, er hann leiðir marga syni til dýrðar, að fullkomna með þjáningum þann, er leiðir þá til hjálpræðis.

11 Því að sá sem helgar og þeir sem helgaðir verða eru allir frá einum komnir. Þess vegna telur hann sér eigi vanvirðu að kalla þá bræður,

12 er hann segir: Ég mun kunnugt gjöra nafn þitt bræðrum mínum, ég mun syngja þér lof mitt í söfnuðinum.

13 Og aftur: Ég mun treysta á hann. Og enn fremur: Sjá, hér er ég og börnin, er Guð gaf mér.

14 Þar sem nú börnin eru af holdi og blóði, þá hefur hann og sjálfur fengið hlutdeild í mannlegu eðli á sama hátt, til þess að hann með dauða sínum gæti að engu gjört þann, sem hefur mátt dauðans, það er að segja djöfulinn,

15 og frelsað alla þá, sem af ótta við dauðann voru undir þrælkun seldir alla sína ævi.

16 Því að víst er um það, að ekki tekur hann að sér englana, en hann tekur að sér afsprengi Abrahams.

17 Því var það, að hann í öllum greinum átti að verða líkur bræðrum sínum, svo að hann yrði miskunnsamur og trúr æðsti prestur í þjónustu fyrir Guði, til þess að friðþægja fyrir syndir lýðsins.

18 Sjálfur hefur hann þjáðst og hans verið freistað. Þess vegna er hann fær um að hjálpa þeim, er verða fyrir freistingu.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes