Add parallel Print Page Options

26 Í byrjun ríkisstjórnar Jójakíms Jósíasonar, konungs í Júda, kom þetta orð frá Drottni:

Svo segir Drottinn: Gakk í forgarð musteris Drottins, og tala til allra þeirra manna úr Júdaborgum, sem komnir eru til þess að falla fram í musteri Drottins, öll þau orð, sem ég hefi boðið þér að tala til þeirra. Þú skalt ekki draga neitt orð undan.

Ef til vill hlýða þeir og snúa sér, hver og einn frá sínum vonda vegi. Mun mig þá iðra þeirrar óhamingju, sem ég hygg að leiða yfir þá sakir illra verka þeirra.

Og þú skalt segja þeim: Svo segir Drottinn: Ef þér hlýðið mér ekki, svo að þér breytið eftir lögmáli mínu, sem ég hefi fyrir yður lagt,

svo að þér hlýðið orðum þjóna minna, spámannanna, er ég hefi sent til yðar æ að nýju óaflátanlega, _ en þér hafið ekki hlýtt þeim _,

þá vil ég fara með þetta hús eins og húsið í Síló, og gjöra þessa borg að formæling fyrir allar þjóðir jarðarinnar.

En er prestarnir og spámennirnir og allur lýðurinn heyrði Jeremía flytja þessi orð í musteri Drottins,

og Jeremía hafði lokið að tala allt það, sem Drottinn hafði boðið honum að tala til alls lýðsins, þá tóku prestarnir og spámennirnir og allur lýðurinn hann höndum og sögðu: "Þú skalt vissulega deyja!

Hví hefir þú spáð í nafni Drottins og sagt: Þetta hús skal verða eins og húsið í Síló, og þessi borg skal í eyði lögð og mannlaus verða!" Og allur lýðurinn safnaðist gegn Jeremía í musteri Drottins.

10 En er höfðingjarnir í Júda fréttu þetta, fóru þeir úr konungshöllinni upp til musteris Drottins og settust úti fyrir Hinu nýja hliði musterisins.

11 Og prestarnir og spámennirnir töluðu til höfðingjanna og alls lýðsins og sögðu: "Þessi maður er dauða sekur, því að hann hefir spáð gegn þessari borg, eins og þér hafið heyrt með eigin eyrum."

12 Jeremía mælti til allra höfðingjanna og alls lýðsins á þessa leið: "Drottinn hefir sent mig til þess að boða öll þessi orð, sem þér hafið heyrt, gegn þessu húsi og þessari borg.

13 Og bætið nú framferði yðar og athafnir og hlýðið raustu Drottins, Guðs yðar, svo að Drottin megi iðra þeirrar óhamingju, er hann hefir hótað yður.

14 En að því er til sjálfs mín kemur, þá er ég á yðar valdi. Gjörið við mig það, sem yður þykir gott og rétt.

15 En það skuluð þér vita, að ef þér deyðið mig, þá leiðið þér saklaust blóð yfir yður og yfir þessa borg og yfir íbúa hennar, því að Drottinn hefir sannlega sent mig til yðar til þess að flytja yður öll þessi orð."

16 Þá sögðu höfðingjarnir og allur lýðurinn við prestana og spámennina: "Þessi maður er ekki dauða sekur, því að hann hefir talað til vor í nafni Drottins, Guðs vors."

17 Þá gengu nokkrir af öldungum landsins fram og mæltu til alls mannsafnaðarins á þessa leið:

18 "Míka frá Móreset kom fram sem spámaður á dögum Hiskía konungs í Júda og mælti til alls Júdalýðs á þessa leið: ,Svo segir Drottinn allsherjar: Síon mun plægð verða sem akur og Jerúsalem mun verða að rústum og musterisfjallið að skógarhæðum.`

19 Hvort deyddi Hiskía Júdakonungur og allur Júdalýður hann? Óttaðist hann ekki Drottin og blíðkaði Drottin, svo að Drottin iðraði þeirrar óhamingju, er hann hafði hótað þeim? En vér erum rétt að því komnir að baka oss mikla óhamingju!"

20 Annar maður var og, sem spáði í nafni Drottins, Úría Semajason frá Kirjat-Jearím. Hann spáði og gegn þessari borg og þessu landi, alveg á sama hátt og Jeremía.

21 En er Jójakím konungur og allir kappar hans og allir höfðingjarnir spurðu orð hans, leitaðist konungur við að láta drepa hann. En er Úría frétti það, varð hann hræddur, flýði burt og fór til Egyptalands.

22 En Jójakím konungur gjörði menn til Egyptalands, Elnatan Akbórsson og menn með honum.

23 Og þeir sóttu Úría til Egyptalands og fóru með hann til Jójakíms konungs, og hann lét drepa hann með sverði og kasta líkinu á grafir múgamanna.

24 En Ahíkam Safansson verndaði Jeremía, svo að hann var eigi framseldur í hendur lýðsins til lífláts.

27 Í upphafi ríkisstjórnar Sedekía Jósíasonar, konungs í Júda, kom þetta orð til Jeremía frá Drottni:

Svo sagði Drottinn við mig: Gjör þér bönd og ok og legg um háls þér

og gjör konunginum í Edóm og konunginum í Móab og konungi Ammóníta og konunginum í Týrus og konunginum í Sídon orðsending með sendimönnunum, sem komnir eru til Jerúsalem til Sedekía Júdakonungs,

og bjóð þeim að mæla svo til herra sinna: "Svo sagði Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Svo skuluð þér segja við herra yðar:

Ég hefi gjört jörðina og mennina og skepnurnar, sem á jörðinni eru, með mínum mikla mætti og útrétta armlegg, og ég gef þetta þeim, er mér þóknast.

Og nú gef ég öll þessi lönd á vald Nebúkadnesars Babelkonungs, þjóns míns. Jafnvel dýr merkurinnar gef ég honum, til þess að þau þjóni honum.

Og allar þjóðir skulu þjóna honum og syni hans og sonarsyni hans, þar til er einnig tími hans lands kemur og voldugar þjóðir og miklir konungar gjöra hann að þræl sínum.

Og sú þjóð og það konungsríki, sem ekki vill þjóna honum, Nebúkadnesar Babelkonungi, og ekki beygja háls sinn undir ok Babelkonungs, þeirrar þjóðar mun ég vitja með sverði, hungri og drepsótt _ segir Drottinn _ uns ég hefi gjöreytt þeim fyrir hans hendi.

Hlýðið ekki á spámenn yðar né spásagnarmenn, né drauma yðar, né á galdramenn yðar né töframenn, þá er þeir mæla til yðar á þessa leið: ,Þér munuð ekki þjóna Babelkonungi.`

10 Því að þeir boða yður lygar til þess að flæma yður úr landi yðar, svo að ég reki yður burt og þér farist.

11 En þá þjóð, sem beygir háls sinn undir ok Babelkonungs og þjónar honum, hana vil ég láta vera kyrra í landi sínu _ segir Drottinn _ til þess að hún yrki það og byggi."

12 Og við Sedekía Júdakonung talaði ég öldungis á sama hátt: "Sveigið háls yðar undir ok Babelkonungs og þjónið honum og þjóð hans, þá munuð þér lífi halda.

13 Hví viljið þér, þú og þjóð þín, deyja fyrir sverði, af hungri og drepsótt, eins og Drottinn hefir hótað þeim þjóðum, er eigi vilja þjóna Babelkonungi?

14 Hlýðið eigi á orð spámannanna, er segja við yður: ,Þér munuð eigi þjóna Babelkonungi!` Því að þeir boða yður lygar.

15 Því að ég hefi ekki sent þá _ segir Drottinn _ heldur spá þeir ranglega í mínu nafni, til þess að ég reki yður burt og þér farist, ásamt spámönnunum, er yður hafa spáð."

16 Við prestana og allan þennan lýð hefi ég og talað á þessa leið: "Svo segir Drottinn: Hlýðið eigi á orð spámanna yðar, er spá yður og segja: ,Sjá, áhöldin úr musteri Drottins munu bráðlega verða flutt heim aftur frá Babýlon!` _ því að þeir boða yður lygar.

17 Hlýðið eigi á þá. Þjónið heldur Babelkonungi, þá munuð þér lífi halda! Hví á þessi borg að verða að rúst?

18 En séu þeir spámenn og sé orð Drottins hjá þeim, þá biðja þeir Drottin allsherjar, að áhöld þau, sem enn eru eftir í musteri Drottins og í höll Júdakonungs og í Jerúsalem, fari eigi líka til Babýlon.

19 Því að svo segir Drottinn allsherjar um súlurnar, um hafið og um undirstöðupallana og um hin önnur áhöld, sem eftir eru í þessari borg,

20 þau er Nebúkadnesar Babelkonungur ekki tók, þá er hann herleiddi Jekonja Jójakímsson, Júdakonung, frá Jerúsalem til Babýlon, ásamt öllum tignarmönnum Júda og Jerúsalem,

21 já, svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð, um áhöldin, sem eftir eru í musteri Drottins og höll Júdakonungs og í Jerúsalem:

22 Til Babýlon skulu þau flutt verða og þar skulu þau vera, allt til þess dags, er ég vitja þeirra _ segir Drottinn _ og sæki þau og flyt þau aftur á þennan stað.

28 Þetta ár _ í upphafi ríkisstjórnar Sedekía konungs í Júda, fjórða árið, í fimmta mánuðinum _ sagði Hananja spámaður Assúrsson frá Gíbeon við mig í musteri Drottins í viðurvist prestanna og alls lýðsins:

"Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Ég brýt sundur ok Babelkonungs!

Áður en tvö ár eru liðin, flyt ég aftur á þennan stað öll áhöldin úr musteri Drottins, þau er Nebúkadnesar Babelkonungur tók á þessum stað og flutti til Babýlon.

Jekonja Jójakímsson, Júdakonung, og alla hina herleiddu úr Júda, þá er komnir eru til Babýlon, flyt ég og aftur á þennan stað _ segir Drottinn _ því að ég brýt sundur ok Babelkonungs!"

Þá talaði Jeremía spámaður til Hananja spámanns í viðurvist prestanna og alls lýðsins, sem stóð í musteri Drottins,

og Jeremía spámaður mælti: "Verði svo! Drottinn gjöri það! Drottinn láti orð þín, er þú hefir spáð, rætast, svo að hann flytji aftur frá Babýlon á þennan stað áhöldin úr musteri Drottins og alla hina herleiddu!

En heyr þessi orð, sem ég kunngjöri þér og öllum lýðnum:

Þeir spámenn, sem komið hafa fram á undan mér og á undan þér frá alda öðli, þeir spáðu voldugum löndum og stórum konungsríkjum ófriði, óhamingju og drepsótt.

En sá spámaður, sem spáir heill, _ ef orð hans rætast, þá þekkist á því sá spámaður, er Drottinn hefir sannarlega sent."

10 Þá tók Hananja spámaður okið af hálsi Jeremía spámanns og braut það sundur.

11 Síðan mælti Hananja í viðurvist alls lýðsins á þessa leið: "Svo segir Drottinn: Eins skal ég sundurbrjóta ok Nebúkadnesars Babelkonungs áður tvö ár eru liðin af hálsi allra þjóða!" En Jeremía spámaður fór leiðar sinnar.

12 En orð Drottins kom til Jeremía, eftir að Hananja spámaður hafði sundurbrotið okið af hálsi Jeremía spámanns:

13 Far og seg við Hananja: Svo segir Drottinn: Tré-ok hefir þú sundurbrotið, en ég vil í þess stað gjöra járn-ok!

14 Því að svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Járnok legg ég á háls allra þessara þjóða, til þess að þær verði þegnskyldar Nebúkadnesar Babelkonungi og þjóni honum, já, jafnvel dýr merkurinnar gef ég honum.

15 Þá sagði Jeremía spámaður við Hananja spámann: "Heyr þú, Hananja! Drottinn hefir ekki sent þig, og þó hefir þú ginnt lýð þennan til að reiða sig á lygar!

16 Fyrir því segir Drottinn svo: Sjá, ég kippi þér burt af jörðinni. Á þessu ári skalt þú deyja, því að þú hefir prédikað fráhvarf frá Drottni."

17 Og Hananja spámaður dó þetta ár, í sjöunda mánuðinum.

29 Þessi eru orð bréfsins, sem Jeremía spámaður sendi frá Jerúsalem til öldunga hinna herleiddu og til prestanna og til spámannanna og til alls lýðsins, sem Nebúkadnesar hafði herleitt frá Jerúsalem til Babýlon

(eftir að Jekonja konungur og konungsmóðir og hirðmennirnir, höfðingjar Júda og Jerúsalem, og trésmiðirnir og járnsmiðirnir voru farnir burt úr Jerúsalem),

með Elasa Safanssyni og Gemaría Hilkíasyni, sem Sedekía Júdakonungur sendi til Nebúkadnesars Babelkonungs til Babýlon:

"Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð, öllum hinum herleiddu, þeim er ég herleiddi frá Jerúsalem til Babýlon:

Reisið hús og búið í þeim, plantið garða og etið ávöxtu þeirra.

Takið yður konur og getið sonu og dætur, og takið sonum yðar konur og giftið dætur yðar, til þess að þær megi fæða sonu og dætur og yður fjölgi þar, en fækki ekki.

Látið yður umhugað um heill borgarinnar, sem ég herleiddi yður til, og biðjið til Drottins fyrir henni, því að heill hennar er heill sjálfra yðar.

Því að svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Látið eigi spámenn yðar, sem meðal yðar eru, né spásagnamenn yðar tæla yður, og trúið ekki á drauma yðar, sem yður dreymir.

Því að þeir spá yður ranglega í mínu nafni, ég hefi ekki sent þá! _ segir Drottinn.

10 Svo segir Drottinn: Þegar sjötíu ár eru umliðin fyrir Babýlon, mun ég vitja yðar og efna við yður fyrirheit mitt að flytja yður aftur á þennan stað.

11 Því að ég þekki þær fyrirætlanir, sem ég hefi í hyggju með yður _ segir Drottinn _ fyrirætlanir til heilla, en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð.

12 Þá munuð þér ákalla mig og fara og biðja til mín, og ég mun bænheyra yður.

13 Og þér munuð leita mín og finna mig. Þegar þér leitið mín af öllu hjarta,

14 vil ég láta yður finna mig _ segir Drottinn _ og snúa við högum yðar og safna yður saman frá öllum þjóðum og úr öllum þeim stöðum, þangað sem ég hefi rekið yður _ segir Drottinn _ og flytja yður aftur á þann stað, þaðan sem ég herleiddi yður.

15 Þér segið: ,Drottinn hefir vakið oss upp spámenn í Babýlon.`

16 Svo segir Drottinn um konunginn, sem situr í hásæti Davíðs, og um allan lýðinn, sem býr í þessari borg, bræður yðar, sem ekki voru herleiddir með yður _

17 svo segir Drottinn allsherjar: Sjá, ég sendi yfir þá sverð, hungur og drepsótt og gjöri þá eins og viðbjóðslegar fíkjur, sem eru svo vondar, að þær eru ekki ætar,

18 og ég elti þá með sverði, hungri og drepsótt og gjöri þá að grýlu öllum konungsríkjum jarðar, að formæling, að skelfing, að spotti og háðung meðal allra þjóða, þangað sem ég rek þá,

19 fyrir það að þeir hlýddu ekki orðum mínum _ segir Drottinn _ er ég hefi óaflátanlega sent þjóna mína, spámennina, með til þeirra, en þér heyrðuð ekki _ segir Drottinn.

20 En heyrið þér orð Drottins, allir þér hinir herleiddu, er ég hefi sent frá Jerúsalem til Babýlon.

21 Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð, um Ahab Kólajason og um Sedekía Maasejason, sem boða yður lygar í mínu nafni: Sjá, ég gef þá Nebúkadresar Babelkonungi á vald, og hann mun láta drepa þá fyrir augum yðar.

22 Og þeir munu verða bölbænar-formáli fyrir alla hina herleiddu úr Júda, sem eru í Babýlon, svo að menn kveði svo að orði: ,Drottinn fari með þig eins og Sedekía og Ahab, sem Babelkonungur steikti á eldi.`

23 Sök þeirra er, að þeir frömdu óhæfuverk í Ísrael og drýgðu hór með konum vina sinna og töluðu orð í mínu nafni, er ég hafði þeim eigi um boðið, já ég þekki það sjálfur og er vottur að því! _ segir Drottinn."

24 En við Semaja frá Nehalam skalt þú segja á þessa leið:

25 Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Þú hefir sent bréf í þínu eigin nafni til alls lýðsins, sem er í Jerúsalem, og til Sefanía Maasejasonar prests og til allra prestanna, þess efnis:

26 "Drottinn hefir sett þig prest í stað Jójada prests, til þess að þú hafir nákvæmar gætur í musteri Drottins á öllum óðum mönnum og þeim, er spámannsæði er á, og setjir þá í stokk og hálsjárn!

27 Hví hefir þú þá ekki ávítað Jeremía frá Anatót, sem hér iðkar spádóma?

28 Þannig hefir hann gjört oss svolátandi orðsending til Babýlon: ,Það verður langvinnt! Reisið hús og búið í þeim og plantið garða og etið ávöxtu þeirra."`

29 En Sefanía prestur las þetta bréf upphátt fyrir Jeremía spámanni.

30 Þá kom orð Drottins til Jeremía, svo hljóðandi:

31 Gjör öllum hinum herleiddu svo hljóðandi orðsending: Svo segir Drottinn um Semaja frá Nehalam: Sökum þess að Semaja hefir spáð yður án þess að ég hafi sent hann og ginnt yður til þess að reiða yður á lygar,

32 fyrir því segir Drottinn svo: Sjá, ég mun hefna þess á Semaja frá Nehalam og niðjum hans. Hann skal ekki eiga neinn niðja, sem búi meðal þessarar þjóðar, og hann skal ekki fá litið þau gæði, sem ég bý þjóð minni _ segir Drottinn _ því að hann hefir prédikað fráhvarf frá Drottni.