Add parallel Print Page Options

18 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni:

Statt upp og gakk ofan í hús leirkerasmiðsins. Þar vil ég láta þig heyra orð mín!

Og ég gekk ofan í hús leirkerasmiðsins, og var hann að verki sínu við hjólið.

Mistækist kerið, sem hann var að búa til, þá bjó hann aftur til úr því annað ker, eins og leirkerasmiðinum leist að gjöra.

Þá kom orð Drottins til mín:

Get ég ekki farið með yður eins og þessi leirkerasmiður, þú Ísraels hús? _ segir Drottinn. Sjá, eins og leirinn í hendi leirkerasmiðsins, svo eruð þér í minni hendi, Ísraels hús.

Stundum hóta ég þjóð og konungsríki að uppræta það, umturna því og eyða því,

en snúi þjóðin, er ég hefi hótað þessu, sér frá vonsku sinni, þá iðrar mig hins illa, er ég hugði að gjöra henni.

En stundum heiti ég þjóð og konungsríki að byggja það og gróðursetja það,

10 en ef það gjörir það, sem illt er í mínum augum, svo að það hlýðir ekki minni raustu, þá iðrar mig þess góða, er ég hafði heitið að veita því.

11 Seg þú nú við Júdamenn og Jerúsalembúa á þessa leið: Svo segir Drottinn: Sjá, ég bý yður ógæfu og brugga ráð gegn yður. Snúið yður hver og einn frá sinni vondu breytni og temjið yður góða breytni og góð verk!

12 En þeir munu segja: "Það er til einskis! Vér förum eftir vorum hugsunum og breytum hver og einn eftir þverúð síns vonda hjarta."

13 Svo segir Drottinn: Spyrjið meðal þjóðanna: Hefir nokkur heyrt slíkt? Mjög hryllilega hluti hefir mærin Ísrael í frammi haft.

14 Hvort hverfur snjór Líbanons af gnæfandi klettinum? Eða þrýtur uppvellandi vatnið, hið svala og niðandi?

15 Þjóð mín hefir gleymt mér. Fánýtum goðunum færa þeir reykelsisfórnir, og þeir hafa leitt þá í hrösun á vegum þeirra, gömlu götunum, svo að þeir ganga stigu, ólagðan veg.

16 Þeir gjöra land sitt að skelfingu, að eilífu háði, svo að hver sá, er þar fer um, skelfist og hristir höfuðið.

17 Eins og fyrir austanvindi mun ég tvístra þeim fyrir óvinunum, ég mun sýna þeim bakið, en ekki andlitið á þeirra glötunardegi.

18 Þeir sögðu: "Komið, bruggum ráð gegn Jeremía, því að eigi mun prestana skorta kenning, spekingana ráð, né spámennina opinberun. Komið, vér skulum drepa hann með tungunni og engan gaum gefa orðum hans."

19 Gef mér gaum, Drottinn, og heyr tal andstæðinga minna.

20 Á að launa gott með illu, þar sem þeir hafa grafið mér gröf? Minnstu þess, hversu ég hefi staðið frammi fyrir þér til þess að tala máli þeirra, til þess að snúa þinni heiftarreiði frá þeim.

21 Ofursel því sonu þeirra hungrinu og fá þá sverðinu á vald, svo að konur þeirra verði barnlausar og ekkjur, og menn þeirra farist af drepsótt og æskumenn þeirra falli fyrir sverði í bardaga.

22 Lát neyðarkvein heyrast úr húsum þeirra, þegar þú lætur morðflokka skyndilega yfir þá koma, því að þeir hafa grafið gröf til að veiða mig í, og lagt snörur fyrir fætur mína.

23 En þú, Drottinn, þekkir öll fjörráð þeirra gegn mér. Fyrirgef eigi misgjörð þeirra og afmá ekki synd þeirra fyrir augliti þínu. Lát þá steypast fyrir þér, framkvæm það á þeim, þegar reiði þín brýst út.

19 Svo sagði Drottinn: Far og kaup krús eftir leirkerasmið, tak því næst með þér nokkra af helstu mönnum þjóðarinnar og nokkra af helstu prestunum

og gakk út í Hinnomssonar-dal, sem er fyrir utan Leirbrotahlið, og kunngjör þar þau orð, sem ég mun tala til þín,

og seg: Heyrið orð Drottins, þér Júdakonungar og Jerúsalembúar! Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Sjá, ég mun leiða ógæfu yfir þennan stað, svo að óma mun fyrir báðum eyrum allra þeirra, er það heyra.

Af því að þeir yfirgáfu mig og óvirtu þennan stað og færðu á honum reykelsisfórnir öðrum guðum, sem þeir ekki þekktu, hvorki þeir né feður þeirra né Júdakonungar, og fylltu þennan stað blóði saklausra manna

og byggðu Baals-fórnarhæðir til þess að brenna sonu sína í eldi sem brennifórn Baal til handa, sem ég hefi hvorki skipað né mælt svo fyrir og mér hefir aldrei til hugar komið.

Sjá, fyrir því munu þeir dagar koma _ segir Drottinn _ að þessi staður mun ekki framar nefndur verða "Tófet" og "Hinnomssonar-dalur", heldur "Drápsdalur".

Þá mun ég ónýta ráð Júda og Jerúsalem á þessum stað og láta þá falla fyrir sverði, er þeir flýja undan óvinum sínum, og fyrir hendi þeirra, er sitja um líf þeirra, en lík þeirra mun ég gefa fuglum himinsins og dýrum jarðarinnar að æti,

og ég mun gjöra þessa borg að skelfingu og háði: Hver sá, er hér fer um, mun skelfast og hæðast að öllum áföllunum, sem hún hefir orðið fyrir.

Og ég mun láta þá eta hold sona sinna og hold dætra sinna, og þeir munu eta hver annars hold í neyð þeirri og þrenging, er óvinir þeirra og þeir, er sitja um líf þeirra, munu koma þeim í.

10 Og þú skalt brjóta krúsina fyrir augum þeirra manna, sem með þér hafa farið,

11 og segja við þá: Svo segir Drottinn allsherjar: Svo mun ég brjóta þessa þjóð og þessa borg, eins og menn brjóta leirker, sem ekki verður gjört heilt aftur, og í Tófet mun verða jarðað, með því að ekkert pláss er til að jarða í.

12 Þannig mun ég fara með þennan stað _ segir Drottinn _ og þá, er hér búa, svo að ég gjöri þessa borg að Tófet.

13 Þá skulu hús Jerúsalem og hús Júdakonunga verða óhrein, eins og Tófet-staðurinn, öll þau hús, þar sem menn hafa fært öllum himinsins her reykelsisfórnir á þökunum og öðrum guðum dreypifórnir.

14 En er Jeremía kom frá Tófet, þangað sem Drottinn hafði sent hann til þess að spá, nam hann staðar í forgarði musteris Drottins og sagði við allan lýðinn:

15 Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Sjá, ég leiði yfir þessa borg og allar borgir, er henni tilheyra, alla þá ógæfu, er ég hefi hótað henni, af því að þeir hafa verið harðsvíraðir og ekki hlýtt orðum mínum.

20 En er Pashúr prestur Immersson, yfirumsjónarmaður í musteri Drottins, heyrði Jeremía boða þessi orð,

þá lét Pashúr húðstrýkja Jeremía spámann og setti hann í stokkinn, sem var í efra Benjamínshliði, hjá musteri Drottins.

En daginn eftir losaði Pashúr Jeremía úr stokknum. Þá sagði Jeremía við hann: "Drottinn kallar þig ekki ,Pashúr`, heldur ,Skelfing allt um kring.`

Því að svo segir Drottinn: Sjá, ég gjöri þig að skelfingu fyrir sjálfan þig og fyrir alla vini þína, og þeir skulu falla fyrir sverði óvina sinna og þú horfa upp á það, og allan Júdalýð sel ég Babelkonungi á vald, og hann mun herleiða þá til Babýlon og drepa þá með sverði.

Og ég framsel allan auð þessarar borgar og allar eigur hennar og öll dýrindi hennar, og alla fjársjóðu Júdakonunga sel ég óvinum þeirra á vald. Þeir skulu ræna þeim, taka þá og flytja þá til Babýlon.

En þú, Pashúr, og allir þeir, sem búa í húsi þínu, skuluð herleiddir verða, og þú skalt komast til Babýlon og þar skalt þú deyja og þar skalt þú greftraður verða _ þú og allir vinir þínir, þeir er þú spáðir lygum."

Þú hefir tælt mig, Drottinn, og ég lét tælast! Þú tókst mig tökum og barst hærra hlut. Ég er orðinn að stöðugu athlægi, allir gjöra gys að mér.

Já, í hvert sinn er ég tala, verð ég að kvarta undan ofbeldi og kúgun, því að orð Drottins hefir orðið mér til stöðugrar háðungar og spotts.

Ef ég hugsaði: "Ég skal ekki minnast hans og eigi framar tala í hans nafni," þá var sem eldur brynni í hjarta mínu, er byrgður væri inni í beinum mínum. Ég reyndi að þola það, en ég gat það ekki.

10 Já, ég hefi heyrt illyrði margra _ skelfing allt um kring: "Kærið hann!" og "Vér skulum kæra hann!" Jafnvel allir þeir, sem ég hefi verið í vináttu við, vaka yfir því, að ég hrasi: "Ef til vill lætur hann ginnast, svo að vér fáum yfirstigið hann og hefnt vor á honum."

11 En Drottinn er með mér eins og voldug hetja. Fyrir því munu ofsóknarmenn mínir steypast og engu áorka. Þeir skulu verða herfilega til skammar, af því að þeir hafa ekki farið viturlega að ráði sínu _ til eilífrar, ógleymanlegrar smánar.

12 Drottinn allsherjar, þú sem prófar hinn réttláta, þú sem sér nýrun og hjartað, lát mig sjá hefnd þína á þeim, því að þér fel ég málefni mitt.

13 Lofsyngið Drottni! Vegsamið Drottin, því að hann frelsar líf hins fátæka undan valdi illgjörðamanna.

14 Bölvaður sé dagurinn, sem ég fæddist. Dagurinn, sem móðir mín ól mig, sé ekki blessaður!

15 Bölvaður sé maðurinn, sem flutti föður mínum gleðitíðindin: "Þér er fæddur sonur!" og gladdi hann stórlega með því.

16 Fyrir þeim manni fari eins og fyrir borgum, sem Drottinn hefir umturnað vægðarlaust, og hann heyri óp á morgnana og hergný um hádegið,

17 af því að hann lét mig ekki deyja í móðurlífi, svo að móðir mín hefði orðið gröf mín og móðurlíf hennar hefði eilíflega verið þungað.

18 Hví kom ég af móðurlífi til þess að þola strit og mæðu og til þess að eyða ævinni í skömm?

21 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni, þegar Sedekía konungur sendi þá Pashúr Malkíason og Sefanía prest Maasejason til hans með þessa orðsendingu:

"Nebúkadresar Babelkonungur herjar á oss. Gakk til frétta við Drottin fyrir oss, hvort Drottinn muni við oss gjöra samkvæmt öllum sínum dásemdarverkum, svo að hann fari burt frá oss aftur."

Þá sagði Jeremía við þá: "Segið svo Sedekía:

Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Sjá, ég sný við hervopnunum í höndum yðar, sem þér berjist með við Babelkonung og við Kaldea, sem að yður kreppa fyrir utan borgarmúrinn. Ég safna þeim saman inni í þessari borg,

og ég mun sjálfur berjast við yður með útréttri hendi og sterkum armlegg og með reiði, heift og mikilli gremi.

Ég mun ljósta íbúa þessarar borgar, bæði menn og skepnur, þeir skulu deyja af mikilli drepsótt.

En eftir það _ segir Drottinn _ mun ég selja Sedekía Júdakonung og þjóna hans og lýðinn, þá er eftir verða í þessari borg eftir drepsóttina, sverðið og hungrið, í hendur Nebúkadresars Babelkonungs og í hendur óvina þeirra og í hendur þeirra, er sækjast eftir lífi þeirra, og hann mun drepa þá með sverðseggjum hlífðarlaust, vægðarlaust og miskunnarlaust."

En við lýð þennan skalt þú segja: Svo segir Drottinn: Sjá, ég legg fyrir yður veg lífsins og veg dauðans.

Þeir sem verða kyrrir í þessari borg, munu deyja fyrir sverði, af hungri og af drepsótt, en þeir sem fara út og ganga á vald Kaldeum, sem að yður kreppa, þeir munu lífi halda og hljóta líf sitt að herfangi.

10 Því að ég hefi snúið andliti mínu gegn þessari borg, til óheilla og ekki til heilla _ segir Drottinn. Hún skal ofurseld verða Babelkonungi, og hann skal brenna hana í eldi.

11 Um hús konungsins í Júda. Heyrið orð Drottins! Davíðs hús,

12 svo segir Drottinn: Haldið rétt að morgni dags og frelsið hinn rænda af hendi kúgarans, til þess að heiftarreiði mín brjótist ekki út eins og eldur og brenni, svo að enginn fái slökkt sakir illverka yðar!

13 Sjá, ég skal finna þig, þú sem býr í dalnum, kletturinn á sléttunni _ segir Drottinn _ yður sem segið: "Hver skyldi koma ofan gegn oss og hver skyldi brjótast inn í bústaði vora?"

14 Og ég skal vitja yðar samkvæmt ávöxtum verka yðar _ segir Drottinn _ og leggja eld í skóg yðar, og hann skal eyða öllu, sem umhverfis hana er.

22 Svo mælti Drottinn: Gakk þú ofan að höll Júdakonungs og flyt þar þessi orð

og seg: Heyr orð Drottins, konungur í Júda, þú sem situr í hásæti Davíðs, þú og þjónar þínir og lýður þinn, þeir sem ganga inn um þessi hlið!

Svo segir Drottinn: Iðkið rétt og réttlæti og frelsið hinn rænda af hendi kúgarans. Undirokið ekki útlendinga, munaðarleysingja og ekkjur, og hafið ekki órétt í frammi, og úthellið ekki saklausu blóði á þessum stað.

Því ef þér gjörið þetta, munu inn um hlið þessa húss fara konungar, er sitja í hásæti Davíðs sem eftirmenn hans, akandi í vögnum og ríðandi á hestum _ konungurinn sjálfur, þjónar hans og lýður hans.

En ef þér hlýðið ekki þessum orðum, þá sver ég við sjálfan mig _ segir Drottinn _ að höll þessi skal verða að eyðirúst.

Svo segir Drottinn um höll Júdakonungs: Þú ert mér sem Gíleað, sem Líbanonstindur. Vissulega vil ég gjöra þig að eyðimörk, eins og óbyggðar borgir,

og vígja spillvirkja í móti þér, hvern með sín vopn, til þess að þeir höggvi þín ágætu sedrustré og varpi þeim á eldinn.

Margar þjóðir skulu ganga fram hjá þessari borg og menn segja hver við annan: "Hvers vegna hefir Drottinn farið svo með þessa miklu borg?"

Og þá munu menn svara: "Af því að þeir yfirgáfu sáttmála Drottins, Guðs síns, og féllu fram fyrir öðrum guðum og þjónuðu þeim."

10 Grátið ekki þann, sem dauður er, og harmið hann ekki. Grátið miklu heldur þann, sem burt er farinn, því að hann mun aldrei koma heim aftur og sjá ættland sitt.

11 Því að svo segir Drottinn um Sallúm Jósíason, konung í Júda, sem ríki tók eftir Jósía föður sinn og burt er farinn úr þessum stað: Hann mun aldrei framar koma hingað aftur,

12 heldur mun hann deyja á þeim stað, þangað sem þeir hafa flutt hann hertekinn, en þetta land mun hann aldrei framar líta.

13 Vei þeim, sem byggir hús sitt með ranglæti og veggsvalir sínar með rangindum, sem lætur náunga sinn vinna fyrir ekki neitt og greiðir honum ekki kaup hans,

14 sem segir: "Ég vil reisa mér rúmgott hús og loftgóðar svalir!" og heggur sér glugga, þiljar með sedrusviði og málar fagurrautt!

15 Ert þú konungur, þótt þú keppir við aðra með húsagjörð úr sedrusviði? Át ekki faðir þinn og drakk? En hann iðkaði rétt og réttlæti, þá vegnaði honum vel.

16 Hann rak réttar hinna aumu og fátæku, þá gekk allt vel. Er slíkt ekki að þekkja mig? _ segir Drottinn.

17 En augu þín og hjarta stefna eingöngu að eigin ávinning og að því að úthella saklausu blóði og beita kúgun og undirokun.

18 Fyrir því segir Drottinn svo um Jójakím Jósíason, Júdakonung: Menn munu ekki harma hann og segja: "Æ, bróðir minn! Æ, systir!" Menn munu ekki harma hann og segja: "Æ, herra! Æ, vegsemd hans!"

19 Hann skal verða jarðaður eins og asni er jarðaður: dreginn burt og varpað langt út fyrir hlið Jerúsalem.

20 Stíg þú upp á Líbanon og hljóða! Lát raust þína gjalla í Basan og hljóða þú frá Abarím, því að allir ástmenn þínir eru sundurmolaðir.

21 Ég talaði við þig í velgengni þinni, en þú sagðir: "Ég vil ekki heyra!" Þannig var breytni þín frá æsku, að þú hlýddir ekki minni raustu.

22 Nú mun stormurinn hirða alla hirða þína, og ástmenn þínir munu herleiddir verða. Já, þá munt þú verða til skammar og smánar vegna allrar vonsku þinnar.

23 Þú sem býr á Líbanon og hreiðrar þig í sedrustrjám, hversu munt þú stynja, þegar hríðirnar koma yfir þig, kvalir eins og yfir jóðsjúka konu.

24 Svo sannarlega sem ég lifi _ segir Drottinn _ þótt Konja Jójakímsson, konungur í Júda, væri innsiglishringur á hægri hendi minni, þá mundi ég rífa hann þaðan.

25 Og ég sel þig í hendur þeirra, sem sitja um líf þitt, og í hendur þeirra, sem þú hræðist, og í hendur Nebúkadresars Babelkonungs og í hendur Kaldea.

26 Og ég varpa þér og móður þinni, sem ól þig, burt til annars lands, þar sem þið ekki eruð fædd, og þar skuluð þið deyja,

27 en í landið, sem þeir þrá að komast til aftur, þangað skulu þeir aldrei aftur komast.

28 Er þá þessi Konja fyrirlitlegt ílát, sem ekki er til annars en að brjóta sundur, eða ker, sem engum manni geðjast að? Hví var honum og niðjum hans þá kastað burt og varpað til lands, sem þeir þekktu ekki?

29 Ó land, land, land, heyr orð Drottins!

30 Svo segir Drottinn: Skrásetjið þennan mann barnlausan, mann, sem ekki mun verða lángefinn um dagana, því að engum af niðjum hans mun auðnast að sitja í hásæti Davíðs og ríkja framar yfir Júda.