Add parallel Print Page Options

62 Sökum Síonar get ég ekki þagað, og sökum Jerúsalem get ég ekki kyrr verið, uns réttlæti hennar rennur upp sem ljómi og hjálpræði hennar sem brennandi blys.

Þá skulu þjóðirnar sjá réttlæti þitt og allir konungar vegsemd þína, og þú munt nefnd verða nýju nafni, er munnur Drottins mun ákveða.

Þú munt verða prýðileg kóróna í hendi Drottins og konunglegt höfuðdjásn í hendi Guðs þíns.

Þú munt ekki framar nefnd verða Yfirgefin, og land þitt ekki framar nefnt verða Auðn, heldur skalt þú kölluð verða Yndið mitt, og land þitt Eiginkona, því að Drottinn ann þér og land þitt mun manni gefið verða.

Eins og ungur maður fær meyjar, eins munu synir þínir eignast þig, og eins og brúðgumi gleðst yfir brúði, eins mun Guð þinn gleðjast yfir þér.

Ég hefi skipað varðmenn yfir múra þína, Jerúsalem. Þeir skulu aldrei þegja, hvorki um daga né nætur. Þér sem minnið Drottin á, unnið yður engrar hvíldar!

Ljáið honum engrar hvíldar, uns hann reisir Jerúsalem og gjörir hana vegsamlega á jörðinni.

Drottinn hefir svarið við hægri hönd sína og við sinn máttuga armlegg: "Ég mun aldrei framar gefa óvinum þínum korn þitt að eta, og eigi skulu útlendir menn drekka aldinlög þinn, sem þú hefir erfiði fyrir haft,

heldur skulu þeir, sem hirt hafa kornið, eta það sjálfir og lofa Drottin fyrir, og þeir, sem safnað hafa aldinleginum, skulu drekka hann í forgörðum helgidóms míns."

10 Gangið út, gangið út um borgarhliðin! Greiðið götu lýðsins! Leggið, leggið braut! Ryðjið burt grjótinu! Reisið merki fyrir þjóðirnar!

11 Sjá, Drottinn gjörir það kunnugt til endimarka jarðarinnar: Segið dótturinni Síon: "Sjá, hjálpræði þitt kemur! Sjá, endurgjald hans fylgir honum, og fengur hans fer á undan honum!"

12 Og þeir munu kallaðir verða hinn heilagi lýður, hinir endurleystu Drottins, og þú munt kölluð verða hin fjölsótta, borgin, sem eigi var yfirgefin.

63 Hver er þessi, sem kemur frá Edóm, í hárauðum klæðum frá Bosra? Þessi hinn tigulega búni, sem gengur fram hnarreistur í mikilleik máttar síns? _ Það er ég, sá er mæli réttlæti og mátt hefi til að frelsa.

Hví er rauð skikkja þín, og klæði þín eins og þess, er treður ber í vínþröng?

_ Vínlagarþró hefi ég troðið, aleinn, af þjóðunum hjálpaði mér enginn. Ég fótum tróð þá í reiði minni, marði þá sundur í heift minni. Þá hraut lögur þeirra á klæði mín, og skikkju mína ataði ég alla.

Hefndardagur var mér í hug, og lausnarár mitt er komið.

Ég litaðist um, en enginn var til að hjálpa, mig undraði, að enginn skyldi aðstoða mig. En þá hjálpaði mér armleggur minn, og heift mín aðstoðaði mig.

Ég tróð þjóðirnar í reiði minni og marði þær sundur í heift minni og lét löginn úr þeim renna á jörðina.

Ég vil víðfrægja hinar mildilegu velgjörðir Drottins, syngja honum lof fyrir allt það, sem hann hefir við oss gjört, og hina miklu gæsku hans við Ísraels hús, er hann hefir auðsýnt þeim af miskunn sinni og mikilli mildi.

Hann sagði: "Vissulega eru þeir minn lýður, börn, sem ekki munu bregðast!" Og hann varð þeim frelsari.

Ávallt þegar þeir voru í nauðum staddir, kenndi hann nauða, og engill auglitis hans frelsaði þá. Af elsku sinni og vægðarsemi endurleysti hann þá, hann tók þá upp og bar þá alla daga hinna fyrri tíða.

10 En þeir gjörðust mótsnúnir og hryggðu heilagan anda hans. Gjörðist hann þá óvinur þeirra og barðist sjálfur í móti þeim.

11 Þá minntist lýður hans hinna fyrri tíða, þá er Móse var á dögum: Hvar er hann, sem leiddi þá upp úr hafinu ásamt hirði hjarðar sinnar? Hvar er hann, sem lét heilagan anda sinn búa mitt á meðal þeirra?

12 Hann sem lét dýrðarsamlegan armlegg sinn ganga Móse til hægri handar, hann sem klauf vötnin fyrir þeim til þess að afreka sér eilíft nafn,

13 hann sem lét þá ganga um djúpin, eins og hestur gengur um eyðimörk, og þeir hrösuðu ekki?

14 Eins og búféð, sem fer ofan í dalinn, færði andi Drottins þá til hvíldar. Þannig hefir þú leitt lýð þinn til þess að afreka þér dýrðarsamlegt nafn.

15 Horf þú af himni ofan og lít niður frá hinum heilaga og dýrðarsamlega bústað þínum! Hvar er nú vandlæti þitt og máttarverk þín? Þín viðkvæma elska og miskunnsemi við mig hefir dregið sig í hlé!

16 Sannlega ert þú faðir vor, því að Abraham þekkir oss ekki og Ísrael kannast ekki við oss. Þú, Drottinn, ert faðir vor, "Frelsari vor frá alda öðli" er nafn þitt.

17 Hví lést þú oss, Drottinn, villast af vegum þínum, hví lést þú hjarta vort forherða sig, svo að það óttaðist þig ekki? Hverf aftur fyrir sakir þjóna þinna, fyrir sakir ættkvísla arfleifðar þinnar!

18 Um skamma stund fékk fólk þitt hið heilaga fjall þitt til eignar, en nú hafa óvinir vorir fótum troðið helgidóm þinn.

19 Vér erum orðnir sem þeir, er þú um langan aldur hefir ekki drottnað yfir, og eins og þeir, er aldrei hafa nefndir verið eftir nafni þínu.

64 Ó, að þú sundurrifir himininn og færir ofan, svo að fjöllin nötruðu fyrir augliti þínu _ eins og þegar eldur kveikir í þurru limi eða þegar eldur kemur vatni til að vella, _ til þess að gjöra óvinum þínum kunnugt nafn þitt, svo að þjóðirnar mættu skjálfa fyrir augliti þínu,

er þú framkvæmdir hræðilega hluti, sem vér gátum eigi vænst eftir. Þú fórst ofan, fjöllin nötruðu fyrir augliti þínu.

Frá alda öðli hefir enginn haft spurn af eða heyrt, né auga séð nokkurn Guð nema þig, þann er gjöri slíkt fyrir þá, er á hann vona.

Þú kemur í móti þeim er gjöra með gleði það, sem rétt er, þeim er minnast þín á vegum þínum. Sjá, þú reiddist, og vér urðum brotlegir, _ yfir tryggðrofi voru, og vér urðum sakfallnir.

Vér urðum allir sem óhreinn maður, allar dyggðir vorar sem saurgað klæði. Vér visnuðum allir sem laufblað, og misgjörðir vorar feyktu oss burt eins og vindur.

Enginn ákallar nafn þitt, enginn herðir sig upp til þess að halda fast við þig, því að þú hefir byrgt auglit þitt fyrir oss og gefið oss á vald misgjörðum vorum.

En nú, Drottinn! Þú ert faðir vor! Vér erum leirinn, og þú ert sá, er myndar oss, og handaverk þín erum vér allir!

Reiðst eigi, Drottinn, svo stórlega, og minnstu eigi misgjörða vorra eilíflega. Æ, lít þú á: Vér erum allir þitt fólk.

Þínar heilögu borgir eru orðnar að eyðimörk. Síon er orðin að eyðimörk, Jerúsalem komin í auðn.

10 Hið heilaga og veglega musteri vort, þar sem feður vorir vegsömuðu þig, er brunnið upp til kaldra kola, og allt það, sem oss var dýrmætt, er orðið að rústum.

11 Hvort fær þú, Drottinn, leitt slíkt hjá þér? Getur þú þagað og þjáð oss svo stórlega?

Páll, postuli Krists Jesú, að boði Guðs frelsara vors og Krists Jesú, vonar vorrar, heilsar

Tímóteusi, skilgetnum syni sínum í trúnni. Náð, miskunn og friður frá Guði föður og Kristi Jesú, Drottni vorum.

Þegar ég var á förum til Makedóníu, hvatti ég þig að halda kyrru fyrir í Efesus. Þú áttir að bjóða sumum mönnum að fara ekki með annarlegar kenningar

og gefa sig ekki að ævintýrum og endalausum ættartölum, er fremur efla þrætur en trúarskilning á ráðstöfun Guðs.

Markmið þessarar hvatningar er kærleikur af hreinu hjarta, góðri samvisku og hræsnislausri trú.

Sumir eru viknir frá þessu og hafa snúið sér til hégómamáls.

Þeir vilja vera lögmálskennendur, þó að hvorki skilji þeir, hvað þeir sjálfir segja, né hvað þeir eru að fullyrða.

Vér vitum, að lögmálið er gott, noti maðurinn það réttilega

og viti að það er ekki ætlað réttlátum, heldur lögleysingjum og þverbrotnum, óguðlegum og syndurum, vanheilögum og óhreinum, föðurmorðingjum og móðurmorðingjum, manndrápurum,

10 frillulífismönnum, mannhórum, mannaþjófum, lygurum, meinsærismönnum, og hvað sem það er nú annað, sem gagnstætt er hinni heilnæmu kenningu.

11 Þetta er samkvæmt fagnaðarerindinu um dýrð hins blessaða Guðs, sem mér var trúað fyrir.

12 Ég þakka honum, sem mig styrkan gjörði, Kristi Jesú, Drottni vorum, fyrir það að hann sýndi mér það traust að fela mér þjónustu,

13 mér, sem fyrrum var lastmælandi, ofsóknari og smánari. En mér var miskunnað, sökum þess að ég gjörði það í vantrú, án þess að vita, hvað ég gjörði.

14 Og náðin Drottins vors varð stórlega rík með trúnni og kærleikanum, sem veitist í Kristi Jesú.

15 Það orð er satt, og í alla staði þess vert, að við því sé tekið, að Kristur Jesús kom í heiminn til að frelsa synduga menn, og er ég þeirra fremstur.

16 En fyrir þá sök var mér miskunnað, að Kristur Jesús skyldi sýna á mér fyrstum gjörvallt langlyndi sitt, þeim til dæmis, er á hann munu trúa til eilífs lífs.

17 Konungi eilífðar, ódauðlegum, ósýnilegum, einum Guði sé heiður og dýrð um aldir alda. Amen.

18 Þetta er það, sem ég minni þig á, barnið mitt, Tímóteus, með þau spádómsorð í huga, sem áður voru yfir þér töluð. Samkvæmt þeim skalt þú berjast hinni góðu baráttu,

19 í trú og með góðri samvisku. Henni hafa sumir frá sér varpað og liðið skipbrot á trú sinni.

20 Í tölu þeirra eru þeir Hýmeneus og Alexander, sem ég hef selt Satan á vald, til þess að hirtingin kenni þeim að hætta að guðlasta.