Add parallel Print Page Options

59 Sjá, hönd Drottins er eigi svo stutt, að hann geti ekki hjálpað, og eyra hans er ekki svo þykkt, að hann heyri ekki.

Það eru misgjörðir yðar, sem skilnað hafa gjört milli yðar og Guðs yðar, og syndir yðar, sem byrgt hafa auglit hans fyrir yður, svo að hann heyrir ekki.

Hendur yðar eru blóði ataðar og fingur yðar misgjörðum, varir yðar tala lygi og tunga yðar fer með illsku.

Enginn stefnir fyrir dóm af því, að honum gangi réttlæti til, og enginn á í málaferlum sannleikans vegna. Menn reiða sig á hégóma og tala lygi, þeir ganga með ranglæti og ala illgjörðir.

Þeir klekja út hornormseggjum og vefa köngulóarvefi. Hverjum sem etur af eggjum þeirra er dauðinn vís, og verði eitthvert þeirra troðið sundur, skríður úr því eiturormur.

Vefnaður þeirra er ónýtur til klæða, og það sem þeir vinna verður eigi haft til skjóls: Athafnir þeirra eru illvirki, og ofbeldisverk liggja í lófum þeirra.

Fætur þeirra eru skjótir til ills, og fljótir til að úthella saklausu blóði. Ráðagjörðir þeirra eru skaðræðisráðagjörðir, eyðing og tortíming er á vegum þeirra.

Veg friðarins þekkja þeir ekki, og ekkert réttlæti er á þeirra stigum. Þeir hafa gjört vegu sína hlykkjótta, hver sá, er þá gengur, hefir ekki af friði að segja.

Fyrir því er rétturinn fjarlægur oss og réttlætið kemur ekki nálægt oss. Vér væntum ljóss, en það er myrkur, væntum dagsbirtu, en göngum í niðdimmu.

10 Vér þreifum fyrir oss, eins og blindir menn með vegg, fálmum eins og þeir, sem misst hafa sjónina. Oss verður fótaskortur um hábjartan daginn eins og í rökkri, í blóma lífsins erum vér sem dauðir menn.

11 Vér rymjum allir sem birnir, kurrum eins og dúfur. Vér væntum réttar, en hann fæst ekki, væntum hjálpræðis, en það er langt í burtu frá oss.

12 Afbrot vor eru mörg frammi fyrir þér og syndir vorar vitna í gegn oss, því að afbrot vor eru oss kunn og misgjörðir vorar þekkjum vér.

13 Vér höfum horfið frá Drottni og afneitað honum og vikið burt frá Guði vorum. Vér höfum látið oss ofríki og fráhvarf um munn fara, vér höfum upphugsað og mælt fram af hjarta voru lygaorð.

14 Og rétturinn er hrakinn á hæl, og réttlætið stendur langt í burtu, því að sannleikurinn hrasaði á strætunum og hreinskilnin kemst ekki að.

15 Sannleikurinn er horfinn, og sá sem firrist það, sem illt er, verður öðrum að herfangi. Og Drottinn sá það, og honum mislíkaði réttleysið.

16 Og hann sá að þar var enginn, og hann undraðist, að enginn vildi í skerast. En þá hjálpaði honum armleggur hans, og réttlæti hans studdi hann.

17 Hann íklæddist réttlætinu sem pansara og setti hjálm hjálpræðisins á höfuð sér. Hann klæddist klæðum hefndarinnar sem fati og hjúpaði sig vandlætinu eins og skikkju.

18 Eins og menn hafa unnið til, svo mun hann gjalda: mótstöðumönnum sínum heift og óvinum sínum hefnd, fjarlægum landsálfum endurgeldur hann.

19 Menn munu óttast nafn Drottins í frá niðurgöngu sólar og dýrð hans í frá upprás sólar. Já, hann brýst fram eins og á í gljúfrum, er andgustur Drottins knýr áfram.

20 En til Síonar kemur hann sem frelsari, til þeirra í Jakob, sem snúið hafa sér frá syndum _ segir Drottinn.

21 Þessi er sáttmálinn, sem ég gjöri við þá _ segir Drottinn: Andi minn, sem er yfir þér, og orð mín, sem ég hefi lagt í munn þér, þau skulu ekki víkja frá munni þínum, né frá munni niðja þinna, né frá munni niðja niðja þinna, _ segir Drottinn, _ héðan í frá og að eilífu.

60 Statt upp, skín þú, því að ljós þitt kemur og dýrð Drottins rennur upp yfir þér!

Sjá, myrkur grúfir yfir jörðinni og sorti yfir þjóðunum. En yfir þér upp rennur Drottinn, og dýrð hans birtist yfir þér.

Þjóðirnar stefna á ljós þitt og konungar á ljómann, sem upp rennur yfir þér.

Hef upp augu þín og litast um: Þeir safnast allir saman og koma til þín. Synir þínir koma af fjarlægum löndum, og dætur þínar eru bornar á mjöðminni.

Við þá sýn muntu gleðjast, hjarta þitt mun titra og svella, því að auðlegð hafsins hverfur til þín og fjárafli þjóðanna kemur undir þig.

Mergð úlfalda hylur þig, ungir úlfaldar frá Midían og Efa. Þeir koma allir frá Saba, gull og reykelsi færa þeir, og þeir kunngjöra lof Drottins.

Allar hjarðir Kedars safnast til þín, hrútar Nebajóts þjóna þér: Þeir stíga upp á altari mitt mér til þóknunar, og hús dýrðar minnar gjöri ég dýrlegt.

Hverjir eru þessir, sem koma fljúgandi eins og ský og sem dúfur til búra sinna?

Mín bíða eylöndin, og Tarsis-knerrir fara fremstir til þess að flytja sonu þína heim af fjarlægum löndum, og þeir hafa með sér silfur sitt og gull sitt _ vegna nafns Drottins Guðs þíns og vegna Hins heilaga í Ísrael, af því að hann hefir gjört þig vegsamlega.

10 Útlendir menn munu hlaða upp múra þína og konungar þeirra þjóna þér, því að í reiði minni sló ég þig, en af náð minni miskunna ég þér.

11 Hlið þín munu ávallt opin standa, þeim er hvorki lokað dag né nótt, til þess að menn geti fært þér fjárafla þjóðanna og konunga þeirra sem bandingja.

12 Því að hver sú þjóð og hvert það konungsríki, sem eigi vill lúta þér, skal undir lok líða, og þær þjóðir munu gjöreyddar verða.

13 Prýði Líbanons mun til þín koma: kýpresviður, álmviður og sortulyngsviður, hver með öðrum til þess að prýða helgan stað minn og gjöra vegsamlegan stað fóta minna.

14 Og synir þeirra, sem kúguðu þig, munu koma til þín niðurlútir, og allir þeir, sem smánuðu þig, munu fleygja sér flötum fyrir fætur þér. Þeir munu kalla þig borg Drottins, Síon Hins heilaga í Ísrael.

15 Í stað þess, að þú áður varst yfirgefin, hötuð og enginn fór um hjá þér, gjöri ég þig að eilífri vegsemd, að fögnuði margra kynslóða.

16 Og þú munt drekka mjólk þjóðanna og sjúga brjóst konunganna, og þá skalt þú reyna það, að ég, Drottinn, er frelsari þinn, og Jakobs voldugi Guð, lausnari þinn.

17 Ég mun færa þér gull í stað eirs og silfur í stað járns, eir í stað trjáviðar og járn í stað grjóts. Ég gjöri friðinn að valdstjórn þinni og réttlætið að valdsmanni þínum.

18 Eigi skal framar heyrast getið um ofríki í landi þínu, né um tjón og tortíming innan landamerkja þinna. Þú skalt kalla Hjálpræði múra þína og Sigurfrægð hlið þín.

19 Þú skalt ekki framar hafa sólina til að lýsa þér um daga, og tunglið skal ekki skína til að gefa þér birtu, heldur skal Drottinn vera þér eilíft ljós og Guð þinn vera þér geislandi röðull.

20 Þá mun sól þín ekki framar ganga undir og tungl þitt ekki minnka, því að Drottinn mun vera þér eilíft ljós og hörmungardagar þínir skulu þá vera á enda.

21 Og lýður þinn _ þeir eru allir réttlátir, þeir munu eiga landið eilíflega: þeir eru kvisturinn, sem ég hefi gróðursett, verk handa minna, er ég gjöri mig vegsamlegan með.

22 Hinn minnsti skal verða að þúsund og hinn lítilmótlegasti að voldugri þjóð. Ég, Drottinn, mun hraða því, þegar að því kemur.

61 Andi Drottins er yfir mér, af því að Drottinn hefir smurt mig. Hann hefir sent mig til að flytja nauðstöddum gleðilegan boðskap og til að græða þá, sem hafa sundurmarið hjarta, til að boða herteknum frelsi og fjötruðum lausn,

til að boða náðarár Drottins og hefndardag Guðs vors, til að hugga alla hrellda,

til að láta hinum hrelldu í Síon í té, _ gefa þeim höfuðdjásn í stað ösku, fagnaðarolíu í stað hryggðar, skartklæði í stað hugarvíls. Þeir munu kallaðir verða réttlætis-eikur, plantan Drottins honum til vegsemdar.

Þeir munu byggja upp hinar fornu rústir, reisa að nýju tóttir fyrri tíða, koma upp aftur eyddum borgum, sem legið hafa við velli í marga mannsaldra.

Útlendingar munu standa yfir hjörðum yðar og halda þeim til haga, og aðkomnir menn vera akurmenn og víngarðsmenn hjá yður,

en sjálfir munuð þér kallaðir verða prestar Drottins og nefndir verða þjónar Guðs vors. Þér munuð njóta fjárafla þjóðanna og stæra yður af auðlegð þeirra.

Fyrir þá smán, er þér þolduð, skuluð þér fá tvöfalt. Í stað háðungar skulu þeir fagna yfir hlutskipti sínu. Fyrir því skulu þeir eignast tvöföld óðul í landi sínu, og eilíf gleði skal falla þeim í skaut.

Því að ég, Drottinn, elska réttlæti, en hata glæpsamlegt rán. Ég geld þeim laun þeirra með trúfesti og gjöri við þá eilífan sáttmála.

Niðjar þeirra munu kunnir verða meðal þjóðanna og afsprengi þeirra á meðal þjóðflokkanna. Allir sem sjá þá, munu kannast við, að þeir eru sú kynslóð, sem Drottinn hefir blessað.

10 Ég gleðst yfir Drottni, sál mín fagnar yfir Guði mínum, því að hann hefir klætt mig klæðum hjálpræðisins, hann hefir sveipað mig í skikkju réttlætisins, eins og þegar brúðgumi lætur á sig höfuðdjásn og brúður býr sig skarti sínu.

11 Því eins og jörðin lætur gróður sinn koma upp og eins og aldingarðurinn lætur frækornin upp spretta, svo mun hinn alvaldi Drottinn láta réttlæti og frægð upp spretta í augsýn allra þjóða.

Að endingu, bræður: Biðjið fyrir oss, að orð Drottins megi hafa framgang og vegsamast eins og hjá yður,

og að vér mættum frelsast frá spilltum og vondum mönnum. Því að ekki er trúin allra.

En trúr er Drottinn og hann mun styrkja yður og vernda fyrir hinum vonda.

En vér höfum það traust til yðar vegna Drottins, að þér bæði gjörið og munuð gjöra það, sem vér leggjum fyrir yður.

En Drottinn leiði hjörtu yðar til kærleika Guðs og þolgæðis Krists.

En vér bjóðum yður, bræður, í nafni Drottins vors Jesú Krists, að þér sneiðið hjá hverjum þeim bróður, er lifir óreglulega og ekki eftir þeirri kenningu, sem þeir hafa numið af oss.

Því að sjálfir vitið þér, hvernig á að breyta eftir oss. Ekki hegðuðum vér oss óreglulega hjá yður,

neyttum ekki heldur brauðs hjá neinum fyrir ekkert, heldur unnum vér með erfiði og striti nótt og dag, til þess að vera ekki neinum yðar til þyngsla.

Ekki af því að vér höfum ekki rétt til þess, heldur til þess að vér gæfum yður sjálfa oss sem fyrirmynd til eftirbreytni.

10 Því var og það, að þegar vér vorum hjá yður, buðum vér yður: Ef einhver vill ekki vinna, þá á hann heldur ekki mat að fá.

11 Vér heyrum, að nokkrir meðal yðar lifi óreglulega, vinni ekkert, heldur gefi sig alla að því, sem þeim kemur eigi við.

12 Slíkum mönnum bjóðum vér og áminnum þá vegna Drottins Jesú Krists, að vinna kyrrlátlega og eta eigið brauð.

13 En þér, bræður, þreytist ekki gott að gjöra.

14 En ef einhver hlýðir ekki orðum vorum í bréfi þessu, þá merkið yður þann mann. Hafið ekkert samfélag við hann, til þess að hann blygðist sín.

15 En álítið hann þó ekki óvin, heldur áminnið hann sem bróður.

16 En sjálfur Drottinn friðarins gefi yður friðinn, ætíð á allan hátt. Drottinn sé með yður öllum.

17 Kveðjan er með minni, Páls, eigin hendi, og það er merki á hverju bréfi. Þannig skrifa ég.