Add parallel Print Page Options

54 Fagna, þú óbyrja, sem ekki hefir fætt! Hef upp gleðisöng, lát við kveða fagnaðaróp, þú sem eigi hefir haft fæðingarhríðir! Því að börn hinnar yfirgefnu munu fleiri verða en giftu konunnar, _ segir Drottinn.

Víkka þú út tjald þitt, og lát þá þenja út tjalddúka búðar þinnar, meina þeim það ekki, gjör tjaldstög þín löng og rek fast hælana.

Því að þú munt útbreiðast til hægri og vinstri, og niðjar þínir munu eignast lönd þjóðanna og byggja eyddar borgir.

Óttast eigi, því að þú skalt eigi til skammar verða, lát eigi háðungina á þér festa, því að þú skalt eigi þurfa að fyrirverða þig. Því að þú skalt gleyma vanvirðu æsku þinnar og eigi framar minnast svívirðingar ekkjudóms þíns.

Því að hann, sem skóp þig, er eiginmaður þinn, Drottinn allsherjar er nafn hans. Og Hinn heilagi í Ísrael er frelsari þinn, Guð gjörvallrar jarðarinnar heitir hann.

Drottinn kallar þig sem yfirgefna konu og harmþrungna, og æskunnar brúður, sem verið hefir ein látin, _ segir Guð þinn.

Skamma stund yfirgaf ég þig, en með mikilli miskunnsemi tek ég þig að mér.

Í ofurreiði minni byrgði ég auglit mitt fyrir þér um stund, en með eilífri líkn miskunna ég þér, _ segir endurlausnari þinn, Drottinn.

Það fer eins fyrir mér með þetta og með Nóaflóð: Svo sem ég sór þá, að Nóaflóð skyldi ekki framar ganga yfir jörðina, eins sver ég nú að reiðast þér ekki né ávíta þig.

10 Því þótt fjöllin færist úr stað og hálsarnir riði skal mín miskunnsemi við þig ekki færast úr stað og minn friðarsáttmáli ekki raskast, _ segir miskunnari þinn, Drottinn.

11 Þú hin vesala, hrakta, huggunarlausa! Sjá, ég legg rúbína sem steina í bygging þína og hleð grunnmúra þína af safírsteinum.

12 Ég gjöri múrtinda þína af jaspis og hlið þín af roðasteinum og allan ummerkjagarð þinn af dýrindissteinum.

13 Allir synir þínir eru lærisveinar Drottins og njóta mikils friðar.

14 Fyrir réttlæti munt þú stöðug standa. Álít þig fjarlæga ofríki, því að þú þarft ekki að óttast, og fjarlæga skelfingu, því að hún skal ekki koma nærri þér.

15 Ef nokkur áreitir þig, þá er það ekki að mínum vilja. Hver sem áreitir þig, skal falla fyrir þér.

16 Sjá, ég skapa smiðinn, sem blæs að kolaeldinum og framleiðir vopnið til sinnar notkunar, og ég skapa eyðandann til þess að leggja í eyði.

17 Engin vopn, sem smíðuð verða móti þér, skulu verða sigurvænleg, og allar tungur, sem upp rísa gegn þér til málaferla, skalt þú kveða niður. Þetta er hlutskipti þjóna Drottins og það réttlæti, er þeir fá hjá mér _ segir Drottinn.

55 Heyrið, allir þér sem þyrstir eruð, komið hingað til vatnsins, og þér sem ekkert silfur eigið, komið, kaupið korn og etið! Komið, kaupið korn án silfurs og endurgjaldslaust bæði vín og mjólk!

Hví reiðið þér silfur fyrir það, sem ekki er brauð, og gróða yðar fyrir það, sem ekki er til saðnings? Hlýðið á mig, þá skuluð þér fá gott að eta og sálir yðar gæða sér á feiti!

Hneigið eyru yðar og komið til mín, heyrið, svo að sálir yðar megi lifna við! Ég vil gjöra við yður eilífan sáttmála, Davíðs órjúfanlega náðarsáttmála.

Sjá, ég hefi gjört hann að vitni fyrir þjóðirnar, að höfðingja og stjórnara þjóðanna.

Sjá, þú munt kalla til þín þjóð, er þú þekkir ekki, og fólk, sem ekki þekkir þig, mun hraða sér til þín, sakir Drottins Guðs þíns og vegna Hins heilaga í Ísrael, af því að hann hefir gjört þig vegsamlegan.

Leitið Drottins, meðan hann er að finna, kallið á hann, meðan hann er nálægur!

Hinn óguðlegi láti af breytni sinni og illvirkinn af vélráðum sínum og snúi sér til Drottins, þá mun hann miskunna honum, til Guðs vors, því að hann fyrirgefur ríkulega.

Já, mínar hugsanir eru ekki yðar hugsanir, og yðar vegir ekki mínir vegir _ segir Drottinn.

Heldur svo miklu sem himinninn er hærri en jörðin, svo miklu hærri eru mínir vegir yðar vegum og mínar hugsanir yðar hugsunum.

10 Því eins og regn og snjór fellur af himni ofan og hverfur eigi þangað aftur, fyrr en það hefir vökvað jörðina, gjört hana frjósama og gróandi og gefið sáðmanninum sæði og brauð þeim er eta,

11 eins er því farið með mitt orð, það er útgengur af mínum munni: Það hverfur ekki aftur til mín við svo búið, eigi fyrr en það hefir framkvæmt það, sem mér vel líkar, og komið því til vegar, er ég fól því að framkvæma.

12 Já, með gleði skuluð þér út fara, og í friði burt leiddir verða. Fjöll og hálsar skulu hefja upp fagnaðarsöng fyrir yður, og öll tré merkurinnar klappa lof í lófa.

13 Þar sem áður voru þyrnirunnar, mun kýpresviður vaxa, og þar sem áður var lyng, mun mýrtusviður vaxa. Þetta mun verða Drottni til lofs og eilífs minningarmarks, sem aldrei mun afmáð verða.

56 Svo segir Drottinn: Varðveitið réttinn og gjörið það, sem rétt er, því að hjálpræði mitt er í nánd og réttlæti mitt birtist bráðlega.

Sæll er sá maður, sem gjörir þetta, og það mannsbarn, sem heldur fast við það, sá sem gætir þess að vanhelga ekki hvíldardaginn og varðveitir hönd sína frá því að gjöra nokkuð illt.

Eigi má útlendingurinn, er gengið hefir Drottni á hönd, segja: "Drottinn mun skilja mig frá lýð sínum!" Og eigi má geldingurinn segja: "Ég er visið tré!"

Því að svo segir Drottinn: Geldingunum, sem halda hvíldardaga mína og kjósa það, sem mér vel líkar, og halda fast við sáttmála minn,

þeim vil ég gefa minningarmark og nafn í húsi mínu og á múrveggjum mínum, sem er betra en synir og dætur. Eilíft nafn vil ég gefa þeim, það er aldrei mun afmáð verða.

Og útlendinga, sem gengið hafa Drottni á hönd til þess að þjóna honum og til þess að elska nafn Drottins, til þess að verða þjónar hans _ alla þá, sem gæta þess að vanhelga ekki hvíldardaginn og halda fast við minn sáttmála,

þá mun ég leiða til míns heilaga fjalls og gleðja þá í bænahúsi mínu. Brennifórnir þeirra og sláturfórnir skulu vera mér þóknanlegar á altari mínu. Því að hús mitt skal nefnast bænahús fyrir allar þjóðir.

Hinn alvaldi Drottinn segir: Þegar ég safna saman hinum burtreknu af Ísrael, mun ég og safna mörgum auk þeirra!

Safnist saman, öll dýr merkurinnar, komið til að eta, öll dýr skógarins!

10 Varðmenn Ísraels eru allir blindir, vita ekki neitt, þeir eru allir hljóðlausir hundar, sem ekki geta gelt. Þeir liggja í draummóki, þeim þykir gott að lúra.

11 Og hundarnir eru gráðsoltnir, fá aldrei fylli sína. Og hirðarnir sjálfir hafa ekki vit á að taka eftir, þeir fara hver sinna ferða, líta allir á eigin hag:

12 "Komið, ég ætla að sækja vín, vér skulum drekka ósleitulega! Og morgundagurinn skal verða sem þessi, dýrlegur næsta mjög!"

57 Hinir réttlátu líða undir lok, og enginn leggur það á hjarta. Hinum guðhræddu er burt svipt, og enginn veitir því athygli. Hinir réttlátu verða burt numdir frá ógæfunni,

þeir ganga inn til friðar. Þeir, sem ganga beina braut, munu hvíla í legurúmum sínum.

Komið þér hingað, þér seiðkonusynir, þú afsprengi hórkarls og skækju!

Að hverjum skopist þér? Framan í hvern eruð þér að bretta yður og reka út úr yður tunguna? Eruð þér ekki syndarinnar börn og lyginnar afsprengi?

Þér brunnuð af girndarbruna hjá eikitrjánum, undir hverju grænu tré, þér slátruðuð börnum í dölunum, niðri í klettagjánum.

Á sleipum steinum í árfarvegi skriðnar þér fótur. Þú úthelltir drykkjarfórn handa þeim, færðir þeim matfórn. Átti ég að una slíku?

Á háu og gnæfandi fjalli settir þú hvílurúm þitt, þú fórst og upp þangað til þess að færa fórnir.

Á bak við hurð og dyrastafi settir þú minningarmark þitt. Já, fráhverf mér flettir þú ofan af hvílu þinni, steigst upp í hana og rýmkaðir til í henni og gjörðir samning við þá. Þér voru kær hvílubrögð þeirra, þú sást blygðan þeirra.

Þú fórst til konungsins með olíu og hafðir með þér mikil smyrsl, og þú sendir sendiboða þína langar leiðir og steigst niður allt til Heljar.

10 Þú varðst þreytt af hinu langa ferðalagi þínu, en þó sagðir þú ekki: "Ég gefst upp!" Þú fannst nýjan lífsþrótt í hendi þinni, fyrir því örmagnaðist þú ekki.

11 Hvern hræddist og óttaðist þú þá, að þú skyldir bregða svo trúnaði þínum, að þú skyldir ekki muna til mín, ekkert um mig hirða? Er eigi svo: Ég hefi þagað, og það frá eilífð, mig óttaðist þú því ekki?

12 En ég skal gjöra réttlæti þitt kunnugt, og verkin þín _ þau munu þér að engu liði verða.

13 Lát skurðgoðin, sem þú hefir saman safnað, bjarga þér, er þú kallar á hjálp! Vindurinn mun svipta þeim öllum í burt, gusturinn taka þau. En sá, sem leitar hælis hjá mér, mun erfa landið og eignast mitt heilaga fjall.

14 Sagt mun verða: "Leggið braut, leggið braut, greiðið veginn, ryðjið hverjum ásteytingarsteini úr vegi þjóðar minnar!"

15 Já, svo segir hinn hái og háleiti, hann sem ríkir eilíflega og heitir Heilagur: Ég bý á háum og helgum stað, en einnig hjá þeim, sem hafa sundurkraminn og auðmjúkan anda, til þess að lífga anda hinna lítillátu og til þess að lífga hjörtu hinna sundurkrömdu.

16 Því að ég þreyti ekki deilur eilíflega og reiðist ekki ævinlega, ella mundi andi mannsins vanmegnast fyrir mér og sálirnar, sem ég hefi skapað.

17 Sökum hinnar syndsamlegu ágirndar hans reiddist ég og laust hann, ég byrgði andlit mitt og var reiður. Þrjóskufullur hélt hann þá leið, er hann lysti.

18 Ég sá vegu hans og ég vil lækna hann, ég vil leiða hann og veita honum hugsvölun. Öllum þeim, sem hryggir eru hjá honum,

19 vil ég gefa ávöxt varanna _ segir Drottinn. Friður, friður fyrir fjarlæga og fyrir nálæga. Ég lækna hann!

20 En hinir óguðlegu eru sem ólgusjór, því að hann getur ekki verið kyrr og bylgjur hans róta upp aur og leðju.

21 Hinum óguðlegu, segir Guð minn, er enginn friður búinn.

58 Kalla þú af megni og drag ekki af! Hef upp raust þína sem lúður og kunngjör lýð mínum misgjörð þeirra og húsi Jakobs syndir þeirra!

Þeir leita mín dag frá degi og girnast að þekkja mína vegu. Þeir heimta af mér réttláta dóma og girnast það, að Guð komi til, eins og væru þeir þjóð, sem iðkar réttlæti og eigi víkur frá skipunum Guðs síns.

"Hví föstum vér, og þú sér það ekki? Hví þjáum vér oss, og þú skeytir því ekki?" Sjá, daginn sem þér fastið fáist þér við störf yðar og þrælkið öll hjú yðar.

Sjá, þér fastið til þess að vekja deilur og þrætur og til þess að ljósta með ósvífnum hnefa. En þér fastið eigi í dag til þess að láta rödd yðar heyrast upp í hæðirnar.

Mun slíkt vera sú fasta, er mér líkar, sá dagur, er menn þjá sig? Að hengja niður höfuðið sem sef og breiða undir sig sekk og ösku, kallar þú slíkt föstu og dag velþóknunar fyrir Drottni?

Nei, sú fasta, sem mér líkar, er að leysa fjötra rangsleitninnar, láta rakna bönd oksins, gefa frjálsa hina hrjáðu og sundurbrjóta sérhvert ok,

það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu, hýsir bágstadda, hælislausa menn, og ef þú sér klæðlausan mann, að þú þá klæðir hann og firrist eigi þann, sem er hold þitt og blóð.

Þá skal ljós þitt bruna fram sem morgunroði og sár þitt gróa bráðlega, þá mun réttlæti þitt fara fyrir þér, dýrð Drottins fylgja á eftir þér.

Þá munt þú kalla á Drottin, og hann mun svara, þú munt hrópa á hjálp og hann segja: "Hér er ég!" Ef þú hættir allri undirokun, hæðnisbendingum og illmælum,

10 ef þú réttir hinum hungraða brauð þitt og seður þann, sem bágt á, þá mun ljós þitt renna upp í myrkrinu og niðdimman í kringum þig verða sem hábjartur dagur.

11 Þá mun Drottinn stöðugt leiða þig og seðja þig, þótt þú sért staddur á vatnslausum stöðum, og styrkja bein þín, og þá munt þú verða sem vökvaður aldingarður og sem uppsprettulind, er aldrei þrýtur.

12 Þá munu afkomendur þínir byggja upp hinar fornu borgarrústir, og þú munt reisa að nýju múrveggina, er legið hafa við velli marga mannsaldra, og þá munt þú nefndur verða múrskarða-fyllir, farbrauta-bætir.

13 Ef þú varast að vanhelga hvíldardaginn, varast að gegna störfum þínum á helgum degi mínum, ef þú kallar hvíldardaginn feginsdag, hinn helga dag Drottins heiðursdag og virðir hann svo, að þú framkvæmir ekki fyrirætlanir þínar, annast ekki störf þín né talar hégómaorð,

14 þá munt þú gleðjast yfir Drottni og þá mun ég láta þig fram bruna á hæðum landsins og láta þig njóta arfleifðar Jakobs föður þíns, því að munnur Drottins hefir talað það.