Add parallel Print Page Options

Ég vil kveða kvæði um ástvin minn, ástarkvæði um víngarð hans. Ástvinur minn átti víngarð á frjósamri hæð.

Hann stakk upp garðinn og tíndi grjótið úr honum, hann gróðursetti gæðavínvið í honum, reisti turn í honum miðjum og hjó þar einnig út vínlagarþró, og hann vonaði að garðurinn mundi bera vínber, en hann bar muðlinga.

Dæmið nú, þér Jerúsalembúar og Júdamenn, milli mín og víngarðs míns!

Hvað varð meira að gjört við víngarð minn en ég hafði gjört við hann? Hví bar hann muðlinga, þegar ég vonaði að hann mundi bera vínber?

En nú vil ég kunngjöra yður, hvað ég ætla að gjöra við víngarð minn: Rífa þyrnigerðið, svo að hann verði etinn upp, brjóta niður múrvegginn, svo að hann verði troðinn niður.

Og ég vil gjöra hann að auðn, hann skal ekki verða sniðlaður og ekki stunginn upp, þar skulu vaxa þyrnar og þistlar, og skýjunum vil ég um bjóða, að þau láti enga regnskúr yfir hann drjúpa.

Víngarður Drottins allsherjar er Ísraels hús, og Júdamenn ástkær plantan hans. Hann vonaðist eftir rétti, en sjá, manndráp; eftir réttvísi, en sjá, neyðarkvein.

Vei þeim, sem bæta húsi við hús og leggja akur við akur, uns ekkert landrými er eftir og þér búið einir í landi.

Drottinn allsherjar mælir í eyra mér: Í sannleika skulu mörg hús verða að auðn, mikil og fögur hús verða mannlaus.

10 Því að tíu plóglönd í víngarði skulu gefa af sér eina skjólu og ein tunna sæðis eina skeppu.

11 Vei þeim, sem rísa árla morguns til þess að sækjast eftir áfengum drykk, sem sitja fram á nótt eldrauðir af víni.

12 Gígjur, hörpur, bumbur og hljóðpípur kveða við, og vínið flóir við samdrykkjur þeirra, en gjörðum Drottins gefa þeir eigi gaum, og það, sem hann hefir með höndum, sjá þeir ekki.

13 Fyrir því mun lýður minn fyrr en af veit fara í útlegð, og tignarmennirnir kveljast af hungri og svallararnir vanmegnast af þorsta.

14 Fyrir því vex græðgi Heljar og hún glennir ginið sem mest hún má, og skrautmenni landsins og svallarar, hávaðamennirnir og gleðimennirnir steypast niður þangað.

15 Og mannkind skal beygjast og maðurinn lægjast og augu dramblátra verða niðurlút.

16 En Drottinn allsherjar mun háleitur verða í dóminum og hinn heilagi Guð sýna heilagleik í réttvísi.

17 Lömb munu ganga þar á beit eins og á afrétti, og hinar auðu lendur ríkismannanna munu geitur upp eta.

18 Vei þeim, sem draga refsinguna í böndum ranglætisins og syndagjöldin eins og í aktaugum,

19 þeim er segja: "Flýti hann sér og hraði verki sínu, svo að vér megum sjá það, komi nú ráðagjörð Hins heilaga í Ísrael fram og rætist, svo að vér megum verða varir við."

20 Vei þeim, sem kalla hið illa gott og hið góða illt, sem gjöra myrkur að ljósi og ljós að myrkri, sem gjöra beiskt að sætu og sætt að beisku.

21 Vei þeim, sem vitrir eru í augum sjálfra sín og hyggnir að eigin áliti.

22 Vei þeim, sem kappar eru í víndrykkju og öflugar hetjur í því að byrla áfengan drykk,

23 þeim sem sýkna hinn seka fyrir mútur og svipta hina réttlátu rétti þeirra.

24 Fyrir því, eins og eldsloginn eyðir stráinu og heyið hnígur í bálið, svo skal rót þeirra fúna og blóm þeirra feykjast sem ryk, af því að þeir hafa hafnað lögmáli Drottins allsherjar og fyrirlitið orð Hins heilaga í Ísrael.

25 Þess vegna bálaðist reiði Drottins í gegn lýð hans, og hann rétti út hönd sína móti honum og laust hann, og fjöllin skulfu og líkin lágu sem sorp á strætum. Allt fyrir það linnir ekki reiði hans og hönd hans er enn þá útrétt.

26 Drottinn reisir hermerki fyrir fjarlæga þjóð og blístrar á hana frá ystu landsálfu, og sjá, hún kemur fljót og frá.

27 Enginn er þar móður og engum skrikar fótur, enginn blundar né tekur á sig náðir, engum þeirra losnar belti frá lendum, og ekki slitnar skóþvengur nokkurs þeirra.

28 Örvar þeirra eru hvesstar og allir bogar þeirra bentir. Hófarnir á hestum þeirra eru sem tinna og vagnhjól þeirra sem vindbylur.

29 Öskur þeirra er sem ljónsöskur, þeir öskra sem ung ljón. Þeir grenja, grípa herfangið og hafa það á burt, og enginn fær bjargað.

30 Á þeim degi munu þeir koma grenjandi í móti þjóðinni eins og ólgandi brim. Ef horft er yfir landið, er þar skelfilegt myrkur, og dagsbirtan er myrkvuð af dimmum skýjum.

Árið sem Ússía konungur andaðist sá ég Drottin sitjandi á háum og gnæfandi veldistóli, og slóði skikkju hans fyllti helgidóminn.

Umhverfis hann stóðu serafar. Hafði hver þeirra sex vængi. Með tveimur huldu þeir ásjónur sínar, með tveimur huldu þeir fætur sína og með tveimur flugu þeir.

Og þeir kölluðu hver til annars og sögðu: "Heilagur, heilagur, heilagur er Drottinn allsherjar, öll jörðin er full af hans dýrð."

Við raust þeirra, er þeir kölluðu, skulfu undirstöður þröskuldanna og húsið varð fullt af reyk.

Þá sagði ég: "Vei mér, það er úti um mig! Því að ég er maður, sem hefi óhreinar varir og bý meðal fólks, sem hefir óhreinar varir, því að augu mín hafa séð konunginn, Drottin allsherjar."

Einn serafanna flaug þá til mín. Hann hélt á glóandi koli, sem hann hafði tekið af altarinu með töng,

og hann snart munn minn með kolinu og sagði: "Sjá, þetta hefir snortið varir þínar. Misgjörð þín er burt tekin og friðþægt er fyrir synd þína."

Þá heyrði ég raust Drottins. Hann sagði: "Hvern skal ég senda? Hver vill vera erindreki vor?" Og ég sagði: "Hér er ég, send þú mig!"

Og hann sagði: "Far og seg þessu fólki: Hlýðið grandgæfilega til, þér skuluð þó ekkert skilja, horfið á vandlega, þér skuluð þó einskis vísir verða!

10 Gjör þú hjarta þessa fólks tilfinningarlaust og eyru þess daufheyrð og afturloka augum þess, svo að þeir sjái ekki með augum sínum, heyri ekki með eyrum sínum og skilji ekki með hjarta sínu, að þeir mættu snúa sér og læknast."

11 Og ég sagði: "Hversu lengi, Drottinn?" Hann svaraði: "Þar til er borgirnar standa í eyði óbyggðar og húsin mannlaus og landið verður gjöreytt."

12 Drottinn mun reka fólkið langt í burt og eyðistaðirnir verða margir í landinu.

13 Og þótt enn sé tíundi hluti eftir í því, skal hann og verða eyddur. En eins og rótarstúfur verður eftir af terpentíntrénu og eikinni, þá er þau eru felld, svo skal og stúfur þess verða heilagt sæði.

Svo bar til á dögum Akasar, konungs í Júda, Jótamssonar, Ússíasonar, að Resín Sýrlandskonungur og Peka Remaljason, konungur í Ísrael, fóru upp til Jerúsalem til að herja á hana, en fengu ekki unnið hana.

Þá kom húsi Davíðs þessi fregn: Sýrland hefir gjört bandalag við Efraím. Skalf þá hjarta konungs og hjarta þjóðar hans, eins og skógartré skjálfa fyrir vindi.

Þá sagði Drottinn við Jesaja: "Gakk þú og Sear Jasúb, sonur þinn, til móts við Akas, að enda vatnstokksins úr efri tjörninni, við veginn út á bleikivöllinn,

og seg við hann: Gæt þín og haf kyrrt um þig. Óttast þú eigi og lát eigi hugfallast fyrir þessum tveimur rjúkandi brandabrotum, fyrir brennandi reiði þeirra Resíns, Sýrlendinga og Remaljasonar.

Sökum þess að Sýrland, Efraím og Remaljasonur hafa haft ill ráð með höndum gegn þér og sagt:

,Vér skulum fara herferð á hendur Júda og skjóta mönnum skelk í bringu, taka landið herskildi og setja Tabelsson þar til konungs,` _

sökum þess segir hinn alvaldi Drottinn: Það skal eigi takast og það skal eigi verða.

Damaskus er höfuð Sýrlands og Resín höfuð Damaskus. Og áður en liðin eru sextíu og fimm ár skal Efraím gjöreytt verða og eigi verða þjóð upp frá því. _

Og Samaría er höfuð Efraíms og Remaljasonur höfuð Samaríu. Ef þér trúið eigi, munuð þér eigi fá staðist."

10 Og enn talaði Drottinn við Akas og sagði:

11 "Bið þér tákns af Drottni, Guði þínum, hvort sem þú vilt heldur beiðast þess neðan úr undirheimum eða ofan að frá hæðum."

12 En Akas sagði: "Ég vil einskis biðja og eigi freista Drottins."

13 Þá sagði Jesaja: "Heyrið, þér niðjar Davíðs, nægir yður það eigi að þreyta menn, úr því að þér þreytið einnig Guð minn?

14 Fyrir því mun Drottinn gefa yður tákn sjálfur: Sjá, yngismær verður þunguð og fæðir son og lætur hann heita Immanúel.

15 Við súrmjólk og hunang skal hann alast, þá er hann fer að hafa vit á að hafna hinu illa og velja hið góða.

16 Áður en sveinninn hefir vit á að hafna hinu illa og velja hið góða, skal mannauðn verða í landi þeirra tveggja konunga, sem nú skelfa þig.

17 Drottinn mun láta yfir þig og yfir þjóð þína og yfir hús föður þíns þá daga koma, að ekki hafa slíkir yfir liðið síðan Efraím skildist frá Júda _ Assýríukonung."

18 Á þeim degi mun Drottinn blístra á flugurnar, sem eru við mynnið á Níl-kvíslunum á Egyptalandi, og á býflugurnar, sem eru í Assýríu,

19 og þær munu allar koma og setjast í dalverpin og bergskorurnar, í alla þyrnirunna og í öll vatnsból.

20 Á þeim degi mun Drottinn með rakhnífi, leigðum fyrir handan fljót _ með Assýríukonungi _ raka höfuðið og kviðhárin, og skeggið mun hann einnig nema burt.

21 Á þeim degi mun maður hafa kvígu og tvær ær,

22 og vegna þess, hve vel þær mjólka, mun hann hafa súrmjólk til matar. Á súrmjólk og hunangi skal hver maður lifa, sem eftir verður í landinu.

23 Og á þeim degi mun svo fara, að alls staðar þar sem áður stóðu þúsund vínviðir, þúsund sikla virði, þar skulu vaxa þyrnar og þistlar.

24 Menn skulu ekki fara þar um, nema þeir hafi með sér örvar og boga, því að landið skal ekki annað vera en þyrnar og þistlar.

25 Og öll fellin, sem nú eru stungin upp með skóflu _ þangað skal enginn maður koma af hræðslu við þyrna og þistla. Nautpeningi verður hleypt þangað og sauðfénaður látinn traðka þau niður.

Drottinn sagði við mig: "Tak þér stórt spjald og rita þú á það með algengu letri: Hraðfengi Skyndirán.

Og tak mér skilríka votta, prestinn Úría og Sakaría Jeberekíason."

Og ég nálgaðist spákonuna, og hún varð þunguð og ól son. Þá sagði Drottinn við mig: "Lát þú hann heita Hraðfengi Skyndirán.

Því að áður en sveinninn lærir að kalla ,faðir minn` og ,móðir mín,` skal auður Damaskus og herfang Samaríu burt flutt verða fram fyrir Assýríukonung."

Og Drottinn talaði enn við mig og sagði:

Af því að þessi lýður fyrirlítur hin straumhægu Sílóa-vötn, en fagnar Resín og Remaljasyni,

sjá, fyrir því mun Drottinn láta yfir þá koma hin stríðu og miklu vötn fljótsins _ Assýríukonung og allt hans einvalalið. Skal það ganga upp yfir alla farvegu sína og flóa yfir alla bakka.

Og það skal brjótast inn í Júda, flæða þar yfir og geysast áfram, þar til manni tekur undir höku, og breiða vængi sína yfir allt þitt land, eins og það er vítt til, Immanúel!

Vitið það, lýðir, og hlustið á, allar fjarlægar landsálfur! Herklæðist, þér skuluð samt láta hugfallast! Herklæðist, þér skuluð samt láta hugfallast!

10 Takið saman ráð yðar, þau skulu að engu verða. Mælið málum yðar, þau skulu engan framgang fá, því að Guð er með oss!

11 Svo mælti Drottinn við mig, þá er hönd hans hreif mig og hann varaði mig við því að ganga sama veg og þetta fólk gengur:

12 Þér skuluð ekki kalla allt það ,samsæri`, sem þetta fólk kallar ,samsæri`, og ekki óttast það, sem það óttast, og eigi skelfast.

13 Drottinn allsherjar, hann skuluð þér telja heilagan, hann sé yður ótti, hann sé yður skelfing.

14 Og hann skal verða helgidómur og ásteytingarsteinn og hrösunarhella fyrir báðar ættþjóðir Ísraels og snara og gildra fyrir Jerúsalembúa.

15 Og margir af þeim munu hrasa, falla og meiðast, festast í snörunni og verða veiddir.

16 Ég bind saman vitnisburðinn og innsigla kenninguna hjá lærisveinum mínum.

17 Ég treysti Drottni, þótt hann byrgi nú auglit sitt fyrir Jakobs niðjum, og ég bíð hans.

18 Sjá, ég og synirnir, sem Drottinn hefir gefið mér, vér erum til tákns og jarteikna í Ísrael frá Drottni allsherjar, sem býr á Síonfjalli.

19 Ef þeir segja við yður: "Leitið til andasæringarmanna og spásagnarmanna, sem hvískra og umla! _ Á ekki fólk að leita frétta hjá guðum sínum og leita til hinna dauðu vegna hinna lifandi?" _

20 þá svarið þeim: "Til kenningarinnar og vitnisburðarins!" Ef menn tala ekki samkvæmt þessu orði, hafa þeir engan morgunroða

21 og munu ráfa hrjáðir og hungraðir. Og er þá hungrar munu þeir fyllast bræði og formæla konungi sínum og Guði sínum. Hvort sem horft er til himins

22 eða litið til jarðar, sjá, þar er neyð og myrkur. Í angistarsorta og niðdimmu eru þeir útreknir.