Añadir traducción en paralelo Imprimir Opciones de la página

47 Stíg niður og sest í duftið, þú mærin Babeldóttir! Sest þú á jörðina hásætislaus, þú Kaldeadóttir! því þú munt eigi framar kölluð verða hin lystilega og látprúða.

Tak kvörnina og mala mjöl! Bregð burt skýlu þinni, tak upp um þig klæðin, gjör beran fótlegg þinn og vað yfir fljótin!

Ber verði blygðan þín og svívirða þín augsýnileg. Ég vil hefna mín og hlífi engum,

segir lausnari vor; Drottinn allsherjar er nafn hans, Hinn heilagi í Ísrael.

Sit hljóð og gakk inn í myrkrið, þú Kaldeadóttir, því þú munt eigi framar kölluð verða drottning konungsríkjanna.

Ég var reiður lýð mínum og lét eign mína verða fyrir vansæmd og seldi hana í hendur þér. En þú sýndir þeim enga miskunnsemi. Jafnvel á gamalmennin lagðir þú þitt afar þunga ok.

Og þú sagðir: "Ég skal verða drottning um aldur og ævi." Þú hugfestir þetta eigi og hugsaðir eigi um, hver endalokin mundu verða.

En heyr nú þetta, þú hin sællífa, er situr andvaralaus og segir í hjarta þínu: "Ég og engin önnur. Í ekkjudómi skal ég aldrei sitja og eigi reyna, hvað það er að vera barnalaus."

En hvort tveggja þetta skal þér að hendi bera skyndilega, á einum degi. Þú skalt bæði verða barnalaus og ekkja. Í fullum mæli mun það yfir þig koma, þrátt fyrir þína margvíslegu töfra og þínar miklu særingar.

10 Þú þóttist örugg í vonsku þinni og sagðir: "Enginn sér til mín." Viska þín og kunnátta hefir leitt þig afvega, svo að þú sagðir í hjarta þínu: "Ég og engin önnur!"

11 Þess vegna skal ógæfa yfir þig koma, sem þú skalt ekki geta keypt þig undan. Ólán skal yfir þig dynja, er þú eigi fær afstýrt með fégjöfum. Skyndilega skal eyðing yfir þig koma, þegar þig varir minnst.

12 Kom þú nú með særingar þínar og með hina margvíslegu töfra þína, sem þú hefir stundað með allri elju í frá barnæsku þinni. Má vera, að þú getir eitthvað áunnið, má vera, þú fáir fælt það burt.

13 Þú ert orðin þreytt á hinum mörgu fyrirætlunum þínum. Lát því himinfræðingana og stjörnuskoðarana koma og hjálpa þér, þá er á mánuði hverjum boða þér, hvað yfir þig á að koma.

14 Sjá, þeir eru sem hálmleggir, eldurinn eyðir þeim. Þeir geta ekki bjargað lífi sjálfra sín úr loganum, því það verður ekki glóð til að orna sér við eða eldur til að sitja við.

15 Svo munu þeir reynast þér, er þú hefir mæðst fyrir, þeir er keypt hafa við þig frá æskuárum þínum: Þeir þjóta í sína áttina hver, og enginn verður til að hjálpa þér.

48 Heyrið þetta, þér Jakobs niðjar, þér sem nefndir eruð eftir Ísrael og runnir eruð úr Júda lindum, þér sem sverjið við nafn Drottins og tignið Ísraels Guð, þótt eigi sé í sannleika og réttlæti,

því að þeir kenna sig við hina helgu borg og leita trausts hjá Ísraels Guði: Nafn hans er Drottinn allsherjar.

Það sem nú er fram komið, hefi ég kunngjört fyrir löngu, það er útgengið af mínum munni, og ég hefi gjört það heyrinkunnugt. Skyndilega færði ég það til vegar, og það kom fram.

Af því að ég vissi, að þú ert þrjóskur og háls þinn seigur sem járnseymi og enni þitt hart sem kopar,

fyrir því kunngjörði ég þér það löngu fyrir og lét þig vita það áður en það kom fram, til þess að þú skyldir ekki segja: "Goð mitt hefir komið því til leiðar, og skurðgoð mitt og hið steypta líkneski mitt hefir ráðstafað því."

Þú hefir heyrt það, sjá, nú er það allt komið fram! Og þér, hljótið þér ekki að játa það? Nú boða ég þér nýja hluti og hulda, sem þú ekkert veist um.

Þeir eru nú að skapast, en eigi fyrr, fyrr en í dag hefir þú ekkert um þá heyrt, svo að þú skyldir ekki geta sagt: "Sjá, ég vissi það!"

Þú hefir hvorki heyrt það né vitað það, né heldur hefir eyra þitt verið opið fyrir löngu, því að ég vissi, að þú ert mjög ótrúr og að þú hefir kallaður verið "trúrofi" frá móðurlífi.

Fyrir sakir nafns míns sefa ég reiði mína og vegna lofs míns hefti ég hana þér í vil, svo að ég uppræti þig eigi.

10 Sjá, ég hefi hreinsað þig, þó eigi sem silfur, ég hefi reynt þig í bræðsluofni hörmungarinnar.

11 Mín vegna, sjálfs mín vegna gjöri ég það, og dýrð mína gef ég eigi öðrum, því að hversu mjög yrði nafn mitt vanhelgað!

12 Heyr mig, Jakob, og þú Ísrael, sem ég hefi kallað: Ég er hann, ég er hinn fyrsti, ég er einnig hinn síðasti.

13 Hönd mín hefir grundvallað jörðina, og hægri hönd mín hefir þanið út himininn. Þegar ég kalla á þau, koma þau.

14 Safnist allir saman og heyrið: Hver á meðal þeirra hefir kunngjört þetta: Sá er Drottinn elskar, skal framkvæma vilja hans á Babýlon og vera armleggur hans meðal Kaldea?

15 Það er ég, það er ég, sem hefi talað það, ég hefi og kallað hann. Ég hefi leitt hann fram og veitt honum sigurgengi.

16 Komið til mín og heyrið þetta: Frá upphafi hefi ég eigi talað í leyndum; þegar kominn var sá tími, að það skyldi verða, kom ég. Nú hefir hinn alvaldi Drottinn sent mig með sinn anda.

17 Svo segir Drottinn, frelsari þinn, Hinn heilagi í Ísrael: Ég, Drottinn Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt, sem vísa þér þann veg, er þú skalt ganga.

18 Æ, að þú vildir gefa gaum að boðorðum mínum, þá mundi heill þín verða sem fljót og réttlæti þitt sem bylgjur sjávarins.

19 Niðjar þínir mundu þá verða sem fjörusandur og lífsafkvæmi þín sem sandkorn. Nafn hans mun aldrei afmáð verða og aldrei hverfa burt frá mínu augliti.

20 Gangið út úr Babýlon, skundið burt frá Kaldeum með fagnaðarópi, boðið þetta og birtið það, útbreiðið það til endimarka jarðarinnar: Drottinn hefir frelsað þjón sinn Jakob!

21 Og þá þyrsti ekki, þegar hann leiddi þá um öræfin. Hann lét vatn spretta upp úr kletti handa þeim, og hann klauf klettinn, svo að vatnið vall þar upp.

22 Hinum óguðlegu, segir Drottinn, er enginn friður búinn.

49 Heyrið mig, þér eylönd, og hyggið að, þér fjarlægar þjóðir! Drottinn hefir kallað mig allt í frá móðurlífi, nefnt nafn mitt frá því ég var í kviði móður minnar.

Hann hefir gjört munn minn sem beitt sverð og hulið mig í skugga handar sinnar. Hann hefir gjört mig að fágaðri ör og falið mig í örvamæli sínum.

Hann sagði við mig: "Þú ert þjónn minn, Ísrael, sá er ég mun sýna á vegsemd mína."

En ég sagði: "Ég hefi þreytt mig til einskis, eytt krafti mínum til ónýtis og árangurslaust. Samt sem áður er réttur minn hjá Drottni og laun mín hjá Guði mínum."

En nú segir Drottinn, hann sem myndaði mig allt í frá móðurlífi til að vera þjón sinn, til þess að ég sneri Jakob aftur til hans og til þess að Ísrael yrði safnað saman til hans, _ og ég er dýrmætur í augum Drottins og Guð minn varð minn styrkur _

nú segir hann: "Það er of lítið fyrir þig að vera þjónn minn, til þess að endurreisa ættkvíslir Jakobs og leiða heim aftur þá, er varðveitst hafa af Ísrael. Fyrir því gjöri ég þig að ljósi fyrir þjóðirnar, svo að þú sért mitt hjálpræði til endimarka jarðarinnar."

Svo segir Drottinn, frelsari og heilagur Guð Ísraels, við þann, sem af mönnum er fyrirlitinn, við þann, sem fólk hefir andstyggð á, við þjón harðstjóranna: Konungar munu sjá það og standa upp, þjóðhöfðingjar munu sjá það og falla fram, vegna Drottins, sem reynist trúr, vegna Hins heilaga í Ísrael, sem þig hefir útvalið.

Svo segir Drottinn: Á tíma náðarinnar bænheyri ég þig, og á degi hjálpræðisins hjálpa ég þér. Ég varðveiti þig og gjöri þig að sáttmála fyrir lýðinn, til þess að reisa við landið, til þess að úthluta erfðahlutum, sem komnir eru í auðn,

til þess að segja hinum fjötruðu: "Gangið út," og þeim sem í myrkrunum eru: "Komið fram í dagsbirtuna." Fram með vegunum skulu þeir vera á beit, og á öllum gróðurlausum hæðum skal vera beitiland fyrir þá.

10 Þá skal ekki hungra og ekki þyrsta, og eigi skal breiskjuloftið og sólarhitinn vinna þeim mein, því að miskunnari þeirra vísar þeim veg og leiðir þá að uppsprettulindum.

11 Ég gjöri öll mín fjöll að vegi, og brautir mínar skulu hækka.

12 Sjá, sumir koma langt að, sumir frá norðri og vestri, aðrir frá Syene.

13 Lofsyngið, þér himnar, og fagna þú, jörð! Hefjið gleðisöng, þér fjöll, því að Drottinn veitir huggun sínum lýð og auðsýnir miskunn sínum þjáðu.

14 Síon segir: "Drottinn hefir yfirgefið mig, hinn alvaldi hefir gleymt mér!"

15 Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu, að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu? Og þó að þær gætu gleymt, þá gleymi ég þér samt ekki.

16 Sjá, ég hefi rist þig á lófa mína, múrar þínir standa jafnan fyrir augum mér.

17 Byggjendur þínir koma með flýti, en þeir, sem brutu þig niður og lögðu þig í rústir, víkja burt frá þér.

18 Hef upp augu þín og litast um: Þeir safnast allir saman og koma til þín. Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn, skalt þú íklæðast þeim öllum sem skarti og belta þig með þeim sem brúður.

19 Því að rústir þínar, eyðistaðir þínir og umturnað land þitt _ já, nú verður þú of þröng fyrir íbúana og eyðendur þínir munu vera langt í burtu.

20 Enn munu börnin frá árunum, er þú varst barnalaus, segja í eyru þér: "Hér er of þröngt um mig. Færðu þig, svo að ég fái bústað!"

21 Þá muntu segja í hjarta þínu: "Hver hefir alið mér þessi börn? Ég var barnlaus og óbyrja, útlæg og brottrekin. Og hver hefir fóstrað þessi börn? Sjá, ég var ein eftir skilin, hvernig stendur þá á börnum þessum?"

22 Svo segir hinn alvaldi Drottinn: Sjá, ég mun banda hendi minni til þjóðanna og reisa upp merki mitt fyrir lýðina, og munu þeir þá færa hingað sonu þína í fangi sér, og dætur þínar bornar verða hingað á öxlinni.

23 Konungar skulu verða barnfóstrar þínir og drottningar þeirra barnfóstrur þínar. Þeir munu falla til jarðar fram á ásjónur sínar fyrir þér og sleikja duft fóta þinna. Þá munt þú komast að raun um, að ég er Drottinn og að þeir verða ekki til skammar, sem á mig vona.

24 Hvort mun herfangið verða tekið af hinum sterka? Og munu bandingjar ofbeldismannsins fá komist undan?

25 Já, svo segir Drottinn: Bandingjarnir skulu teknir verða af hinum sterka og herfang ofbeldismannsins komast undan. Ég skal verja sök þína gegn sökunautum þínum, og sonu þína mun ég frelsa.

26 Ég mun láta kúgara þína eta eigið hold, og þeir skulu verða drukknir af eigin blóði, eins og af vínberjalegi. Allt hold mun þá komast að raun um, að ég, Drottinn, er frelsari þinn, og hinn voldugi Jakobs Guð, lausnari þinn.

Að endingu biðjum vér yður, bræður, og áminnum í Drottni Jesú. Þér hafið numið af oss, hvernig yður ber að breyta og þóknast Guði, og þannig breytið þér líka. En takið enn meiri framförum.

Þér vitið, hver boðorð vér gáfum yður frá Drottni Jesú.

Það er vilji Guðs, að þér verðið heilagir. Hann vill, að þér haldið yður frá frillulífi,

að sérhver yðar hafi vit á að halda líkama sínum í helgun og heiðri,

en ekki í losta, eins og heiðingjarnir, er ekki þekkja Guð.

Og enginn skyldi gjöra bróður sínum rangt til né blekkja hann í slíkum sökum. Því að Drottinn hegnir fyrir allt þvílíkt, eins og vér höfum áður sagt yður og brýnt fyrir yður.

Ekki kallaði Guð oss til saurlifnaðar, heldur helgunar.

Sá, sem fyrirlítur þetta, fyrirlítur þess vegna ekki mann, heldur Guð, sem hefur gefið yður sinn heilaga anda.

En ekki hafið þér þess þörf, að ég skrifi yður um bróðurkærleikann, því Guð hefur sjálfur kennt yður að elska hver annan.

10 Það gjörið þér einnig öllum bræðrum í allri Makedóníu. En vér áminnum yður, bræður, að taka enn meiri framförum.

11 Leitið sæmdar í því að lifa kyrrlátu lífi og stunda hver sitt starf og vinna með höndum yðar, eins og vér höfum boðið yður.

12 Þannig hegðið þér yður með sóma gagnvart þeim, sem fyrir utan eru, og eruð upp á engan komnir.

13 Ekki viljum vér, bræður, láta yður vera ókunnugt um þá, sem sofnaðir eru, til þess að þér séuð ekki hryggir eins og hinir, sem ekki hafa von.

14 Því að ef vér trúum því að Jesús sé dáinn og upprisinn, þá mun Guð fyrir Jesú leiða ásamt honum fram þá, sem sofnaðir eru.

15 Því að það segjum vér yður, og það er orð Drottins, að vér, sem verðum eftir á lífi við komu Drottins, munum alls ekki fyrri verða en hinir sofnuðu.

16 Því að sjálfur Drottinn mun stíga niður af himni með kalli, með höfuðengils raust og með básúnu Guðs, og þeir, sem dánir eru í trú á Krist, munu fyrst upp rísa.

17 Síðan munum vér, sem eftir lifum, verða ásamt þeim hrifnir burt í skýjum til fundar við Drottin í loftinu. Og síðan munum vér vera með Drottni alla tíma.

18 Uppörvið því hver annan með þessum orðum.