Add parallel Print Page Options

45 Svo segir Drottinn við sinn smurða, við Kýrus, sem ég held í hægri höndina á, til þess að leggja að velli þjóðir fyrir augliti hans og spretta belti af lendum konunganna, til þess að opna fyrir honum dyrnar og til þess að borgarhliðin verði eigi lokuð:

Ég mun ganga á undan þér og jafna hólana, ég mun brjóta eirhliðin og mölva járnslárnar.

Ég mun gefa þér hina huldu fjársjóðu og hina fólgnu dýrgripi, svo að þú kannist við, að það er ég, Drottinn, sem kalla þig með nafni þínu, ég Ísraels Guð.

Vegna þjóns míns Jakobs og vegna Ísraels, míns útvalda, kallaði ég þig með nafni þínu, nefndi þig sæmdarnafni, þó að þú þekktir mig ekki.

Ég er Drottinn og enginn annar. Enginn Guð er til nema ég. Ég hertygjaði þig, þó að þú þekktir mig ekki,

svo að menn skyldu kannast við það bæði í austri og vestri, að enginn er til nema ég. Ég er Drottinn og enginn annar.

Ég tilbý ljósið og framleiði myrkrið, ég veiti heill og veld óhamingju. Ég er Drottinn, sem gjöri allt þetta.

Drjúpið, þér himnar, að ofan, og láti skýin réttlæti niður streyma. Jörðin opnist og láti hjálpræði fram spretta og réttlæti blómgast jafnframt. Ég, Drottinn, kem því til vegar.

Vei þeim, sem þráttar við skapara sinn, sjálfur leirbrot innan um önnur leirbrot jarðar! Hvort má leirinn segja við leirmyndarann: "Hvað getur þú?" eða handaverk hans: "Hann hefir engar hendur."

10 Vei þeim, sem segir við föður sinn: "Hvað munt þú fá getið!" eða við konuna: "Hvað ætli þú getir fætt!"

11 Svo segir Drottinn, Hinn heilagi í Ísrael og sá er hann hefir myndað: Spyrjið mig um hið ókomna og felið mér að annast sonu mína og verk handa minna!

12 Ég hefi til búið jörðina og skapað mennina á henni. Mínar hendur hafa þanið út himininn og ég hefi kallað fram allan hans her.

13 Ég hefi vakið hann upp í réttlæti og ég mun greiða alla hans vegu. Hann skal byggja upp borg mína og gefa útlögum mínum heimfararleyfi, og það án endurgjalds og án fégjafa, _ segir Drottinn allsherjar.

14 Svo segir Drottinn: Auður Egyptalands og verslunargróði Blálands og Sebainga, hinna hávöxnu manna, skal ganga til þín og verða þín eign. Þeir skulu fylgja þér, í fjötrum skulu þeir koma, og þeir skulu falla fram fyrir þér og grátbæna þig og segja: "Guð er hjá þér einum, enginn annar er til, enginn annar guð."

15 Sannlega ert þú Guð, sem hylur þig, Ísraels Guð, frelsari.

16 Skurðgoðasmiðirnir verða sér til skammar, já, til háðungar allir saman, þeir ganga allir sneyptir.

17 En Ísrael frelsast fyrir Drottin eilífri frelsun. Þér skuluð eigi verða til skammar né háðungar að eilífu.

18 Já, svo segir Drottinn, sá er himininn hefir skapað _ hann einn er Guð, sá er jörðina hefir myndað og hana til búið, hann, sem hefir grundvallað hana og hefir eigi skapað hana til þess, að hún væri auðn, heldur myndað hana svo, að hún væri byggileg: Ég er Drottinn, og enginn annar.

19 Ég hefi ekki talað í leynum, einhvers staðar í landi myrkranna. Ég hefi eigi sagt við Jakobsniðja: "Leitið mín út í bláinn!" Ég, Drottinn, tala það sem rétt er og kunngjöri sannmæli.

20 Safnist saman og komið, nálægið yður, allir þér af þjóðunum, sem undan hafið komist: Skynlausir eru þeir, sem burðast með trélíkneski sitt og biðja til guðs, er eigi getur hjálpað.

21 Gjörið kunnugt og segið til! Já, ráðfæri þeir sig hver við annan! Hver hefir boðað þetta frá öndverðu og kunngjört það fyrir löngu? Hefi ég, Drottinn, ekki gjört það? Enginn Guð er til nema ég. Fyrir utan mig er enginn sannur Guð og hjálpari til.

22 Snúið yður til mín og látið frelsast, þér gjörvöll endimörk jarðarinnar, því að ég er Guð og enginn annar.

23 Ég hefi svarið við sjálfan mig, af munni mínum er sannleikur út genginn, orð, er eigi mun bregðast: Fyrir mér skal sérhvert kné beygja sig, sérhver tunga sverja mér trúnað.

24 "Hjá Drottni einum," mun um mig sagt verða, "er réttlæti og vald." Allir fjendur hans skulu til hans koma og blygðast sín.

25 Allir Ísraelsniðjar skulu réttlætast fyrir Drottin og miklast af honum.

46 Bel er hokinn, Nebó er boginn. Líkneski þeirra eru fengin eykjum og gripum, goðalíkneskin, sem þér áður báruð um kring, eru nú látin upp á þreyttan eyk, eins og önnur byrði.

Þeir eru bæði bognir og hoknir. Þeir megna ekki að frelsa byrðina, og sjálfir hljóta þeir að fara í útlegð.

Hlýðið á mig, þér kynsmenn Jakobs, og allir þér, sem eftir eruð af kyni Ísraels, þér sem eruð mér á herðar lagðir allt í frá móðurkviði og ég hefi borið allt í frá móðurlífi:

Allt til elliára er ég hinn sami, og ég vil bera yður, þar til er þér verðið gráir fyrir hærum. Ég hefi gjört yður, og ég skal bera yður, ég skal bera yður og frelsa.

Við hvern viljið þér samlíkja mér og jafna mér? Saman við hvern viljið þér bera mig sem jafningja minn?

Þeir sem steypa gullinu úr sjóðnum og vega silfrið á vogarskálum, leigja sér gullsmið til að smíða úr því guð, síðan knékrjúpa þeir og falla fram.

Þeir lyfta honum á axlir sér, bera hann og setja hann á sinn stað, og þar stendur hann og víkur ekki úr stað. Og þótt einhver ákalli hann, þá svarar hann ekki, hann frelsar eigi úr nauðum.

Minnist þessa og látið yður segjast, leggið það á hjarta, þér trúrofar.

Minnist þess hins fyrra frá upphafi, að ég er Guð og enginn annar, hinn sanni Guð og enginn minn líki.

10 Ég kunngjörði endalokin frá öndverðu og sagði fyrir fram það, sem eigi var enn fram komið. Ég segi: Mín ráðsályktun stendur stöðug, og allt, sem mér vel líkar, framkvæmi ég.

11 Ég kalla örninn úr austurátt, úr fjarlægu landi mann þann, er framkvæmir ráðsályktun mína. Það sem ég tala, það læt ég einnig fram koma, það sem ég áset mér, það gjöri ég einnig.

12 Hlýðið á mig, þér harðsvíruðu, sem eruð fjarlægir réttlætinu!

13 Ég nálægi mitt réttlæti, það er ekki langt í burtu, og hjálp mín skal ekki dvelja. Ég veiti hjálp í Síon og vegsemd mína Ísrael.

Þar kom, að vér þoldum ekki lengur við og réðum þá af að verða einir eftir í Aþenu,

en sendum Tímóteus, bróður vorn og aðstoðarmann Guðs við fagnaðarerindið um Krist, til að styrkja yður og áminna í trú yðar,

svo að enginn láti bifast í þrengingum þessum. Þér vitið sjálfir, að þetta er oss ætlað.

Þegar vér vorum hjá yður, þá sögðum vér yður fyrir, að vér mundum verða að þola þrengingar. Það kom líka fram, eins og þér vitið.

Því þoldi ég ekki lengur við og sendi Tímóteus til að fá að vita um trú yðar, hvort freistarinn kynni að hafa freistað yðar og erfiði vort orðið til einskis.

En nú er hann aftur kominn til vor frá yður og hefur borið oss gleðifregn um trú yðar og kærleika, að þér ávallt munið eftir oss með hlýjum hug og yður langi til að sjá oss, eins og oss líka til að sjá yður.

Sökum þessa höfum vér, bræður, huggun hlotið vegna trúar yðar þrátt fyrir alla neyð og þrengingu.

Nú lifum vér, ef þér standið stöðugir í Drottni.

Hvernig getum vér nógsamlega þakkað Guði fyrir alla þá gleði, er vér höfum af yður frammi fyrir Guði vorum?

10 Og vér biðjum nótt og dag, heitt og af hjarta, að fá að sjá yður og bæta úr því, sem trú yðar er áfátt.

11 Sjálfur Guð og faðir vor og Drottinn vor Jesús greiði veg vorn til yðar.

12 En Drottinn efli yður og auðgi að kærleika hvern til annars og til allra, eins og vér berum kærleika til yðar.

13 Þannig styrkir hann hjörtu yðar, svo að þér verðið óaðfinnanlegir og heilagir frammi fyrir Guði, föður vorum, við komu Drottins vors Jesú ásamt öllum hans heilögu.