Add parallel Print Page Options

42 Sjá þjón minn, sem ég leiði mér við hönd, minn útvalda, sem ég hefi þóknun á. Ég legg anda minn yfir hann, hann mun boða þjóðunum rétt.

Hann kallar ekki og hefir ekki háreysti og lætur ekki heyra raust sína á strætunum.

Brákaðan reyrinn brýtur hann ekki sundur, og dapran hörkveik slökkur hann ekki. Hann boðar réttinn með trúfesti.

Hann daprast eigi og gefst eigi upp, uns hann fær komið inn rétti á jörðu, og fjarlægar landsálfur bíða eftir boðskap hans.

Svo segir Drottinn Guð, sá er skóp himininn og þandi hann út, sá er breiddi út jörðina með öllu því, sem á henni vex, sá er andardrátt gaf mannfólkinu á jörðinni og lífsanda þeim, er á henni ganga:

Ég, Drottinn, hefi kallað þig til réttlætis og held í hönd þína. Ég mun varðveita þig og gjöra þig að sáttmála fyrir lýðinn og að ljósi fyrir þjóðirnar

til að opna hin blindu augun, til að leiða út úr varðhaldinu þá, er bundnir eru, og úr dýflissunni þá, er í myrkri sitja.

Ég er Drottinn, það er nafn mitt, og dýrð mína gef ég eigi öðrum né lof mitt úthöggnum líkneskjum.

Sjá, hinir fyrri hlutir eru fram komnir, en nú boða ég nýja hluti og læt yður heyra þá áður en fyrir þeim vottar.

10 Syngið Drottni nýjan söng, syngið lof hans til endimarka jarðarinnar, þér sjófarendur og allt sem í hafinu er, þér fjarlægar landsálfur og þeir sem þær byggja!

11 Eyðimörkin og borgir hennar og þorpin, þar sem Kedar býr, skulu hefja upp raustina. Fjallabúarnir skulu fagna, æpa af gleði ofan af fjallatindunum!

12 Þeir skulu gefa Drottni dýrðina og kunngjöra lof hans í fjarlægum landsálfum!

13 Drottinn leggur af stað sem hetja, elur á hugmóð sínum eins og bardagamaður. Hann kallar, hann lýstur upp herópi, sýnir hetjuskap á óvinum sínum:

14 Ég hefi þagað langan tíma, verið hljóður og stillt mig. Nú mun ég hljóða sem jóðsjúk kona, stynja og standa á öndinni í sama bili.

15 Ég mun svíða fjöllin og hálsana og skrælna láta allar jurtir, er þar vaxa. Ég mun gjöra ár að eyjum og þurrka upp tjarnirnar.

16 Ég mun leiða blinda menn um veg, er þeir ekki rata, færa þá um stigu, sem þeir ekki þekkja. Ég vil gjöra myrkrið fram undan þeim að ljósi og hólótt landið að jafnsléttu. Þessa hluti mun ég gjöra, og ég hætti eigi við þá.

17 Þeir sem treysta skurðgoðunum, hörfa aftur á bak og verða sér til skammar, þeir sem segja við steypt líkneski: "Þér eruð guðir vorir."

18 Heyrið, þér hinir daufu! Lítið upp, þér hinir blindu, að þér megið sjá!

19 Hver er svo blindur sem þjónn minn og svo daufur sem sendiboði minn, er ég hefi sent? Hver er svo blindur sem trúnaðarmaðurinn og svo blindur sem þjónn Drottins?

20 Þú hefir séð margt, en athugar það ekki, eyrun eru opin, en þú heyrir þó ekki.

21 Fyrir sakir réttlætis síns hefir Drottni þóknast að gjöra kenninguna háleita og vegsamlega.

22 Og þó er þetta rændur og ruplaður lýður, þeir eru allir fjötraðir í gryfjum og byrgðir í myrkvastofum. Þeir eru orðnir að herfangi, og enginn frelsar þá, orðnir að ránsfeng, og enginn segir: "Skilið þeim aftur!"

23 Hver af yður vill hlýða á þetta, gefa því gaum og veita því athygli framvegis?

24 Hver hefir framselt Jakob til ráns og fengið Ísrael ræningjum í hendur? Er það ekki Drottinn, hann, sem vér höfum syndgað á móti? Á hans vegum vildu þeir ekki ganga, og hans lögmáli hlýddu þeir ekki.

25 Fyrir því jós hann yfir þá brennandi reiði sinni og styrjaldarofsa. Hún bálaðist umhverfis þá, en þeir skildu það eigi, hún brenndi þá, en þeir hugfestu það eigi.

43 En nú segir Drottinn svo, sá er skóp þig, Jakobsætt, og myndaði þig, Ísrael: Óttast þú eigi, því að ég frelsa þig. Ég kalla á þig með nafni, þú ert minn.

Gangir þú gegnum vötnin, þá er ég með þér, gegnum vatnsföllin, þá skulu þau ekki flæða yfir þig. Gangir þú gegnum eld, skalt þú eigi brenna þig, og loginn skal eigi granda þér.

Því að ég, Drottinn, er Guð þinn, Hinn heilagi í Ísrael frelsari þinn. Ég gef Egyptaland í lausnargjald fyrir þig, læt Bláland og Seba í stað þín.

Sökum þess að þú ert dýrmætur í mínum augum og mikils metinn, og af því að ég elska þig, þá legg ég menn í sölurnar fyrir þig og þjóðir fyrir líf þitt.

Óttast þú eigi, því að ég er með þér. Ég kem með niðja þína úr austri og safna þér saman úr vestri.

Ég segi við norðrið: "Lát fram!" og við suðrið: "Haltu þeim eigi! Flyt þú sonu mína úr fjarlægð og dætur mínar frá endimörkum jarðarinnar:

sérhvern þann, sem við nafn mitt er kenndur og ég hefi skapað mér til dýrðar, sérhvern þann, er ég hefi myndað og gjört!"

Lát nú koma fram lýð þann, sem blindur er, þótt hann hafi augu, og þá menn, sem daufir eru, þótt þeir hafi eyru.

Lát alla heiðingjana safnast í einn hóp og þjóðirnar koma saman. Hver af þeim getur kunngjört slíkt og látið oss heyra það, er áður er fram komið? Leiði þeir fram votta sína og færi sönnur á mál sitt, svo að menn segi, er þeir heyra það: "Það er satt!"

10 En þér eruð mínir vottar, segir Drottinn, og minn þjónn, sem ég hefi útvalið, til þess að þér skylduð kannast við og trúa mér og skilja, að það er ég einn. Á undan mér hefir enginn guð verið búinn til, og eftir mig mun enginn verða til.

11 Ég, ég er Drottinn, og enginn frelsari er til nema ég.

12 Það var ég, sem boðaði og hjálpaði og kunngjörði, en enginn annar yðar á meðal, og þér eruð vottar mínir _ segir Drottinn. Ég er Guð.

13 Já, enn í dag er ég hinn sami. Enginn getur frelsað af minni hendi. Hver vill gjöra það ógjört, sem ég framkvæmi?

14 Svo segir Drottinn, frelsari yðar, Hinn heilagi í Ísrael: Yðar vegna sendi ég til Babýlon og brýt niður slagbranda hennar. Og gleðilæti Kaldeanna munu snúast í sorgarsöng.

15 Ég, Drottinn, er yðar Heilagi, skapari Ísraels, konungur yðar.

16 Svo segir Drottinn, hann sem lagði veg yfir hafið og braut yfir hin ströngu vötn,

17 hann sem leiddi út vagna og hesta, herafla og fyrirliða. Þeir liggja þar hver með öðrum og fá eigi risið á fætur, þeir slokknuðu, kulnuðu út sem hörkveikur:

18 Rennið eigi huga til hins umliðna og gefið eigi gætur að því er áður var.

19 Sjá, nú hefi ég nýtt fyrir stafni, það tekur þegar að votta fyrir því _ sjáið þér það ekki? Ég gjöri veg um eyðimörkina og leiði ár um öræfin.

20 Dýr merkurinnar, sjakalar og strútsfuglar skulu vegsama mig, því að ég leiði vatn um eyðimörkina og ár um öræfin til þess að svala lýð mínum, mínum útvalda.

21 Sá lýður, sem ég hefi skapað mér til handa, skal víðfrægja lof mitt.

22 Eigi hefir þú ákallað mig, Jakobsætt, né lagt þig í líma fyrir mig, Ísrael.

23 Þú hefir ekki fært mér sauðkindur þínar í brennifórnir og eigi tignað mig með sláturfórnum þínum. Ég hefi eigi mætt þig með matfórnum né þreytt þig með reykelsi.

24 Þú hefir ekki keypt ilmreyr fyrir silfur mér til handa, og þú hefir ekki satt mig á feiti sláturfórna þinna, heldur hefir þú mætt mig með syndum þínum og þreytt mig með misgjörðum þínum.

25 Ég, ég einn afmái afbrot þín sjálfs mín vegna og minnist ekki synda þinna.

26 Minn mig á, við skulum eigast lög við. Tel þú upp, svo að þú fáir réttlætt þig.

27 Hinn fyrsti forfaðir þinn syndgaði og talsmenn þínir brutu á móti mér.

28 Þess vegna vanhelgaði ég hina heilögu höfðingja og ofurseldi Jakobsætt bannfæringunni og Ísrael háðunginni.

44 Heyr þú nú, Jakob, þjónn minn, og Ísrael, sem ég hefi útvalið.

Svo segir Drottinn, sá er þig hefir skapað og þig hefir myndað frá móðurkviði, hann sem hjálpar þér: Óttast þú eigi, þjónn minn Jakob, og þú Jesjúrún, sem ég hefi útvalið.

Því að ég mun ausa vatni yfir hið þyrsta og veita árstraumum yfir þurrlendið. Ég mun úthella anda mínum yfir niðja þína og blessan minni yfir afsprengi þitt.

Þeir skulu spretta upp, eins og gras milli vatna, eins og pílviðir á lækjarbökkum.

Einn mun segja: "Ég heyri Drottni," annar mun kalla sig nafni Jakobs, og enn annar rita á hönd sína "Helgaður Drottni" og kenna sig við Ísrael.

Svo segir Drottinn, konungur Ísraels og frelsari, Drottinn allsherjar: Ég er hinn fyrsti og ég er hinn síðasti, og enginn Guð er til nema ég.

Hver er sem ég _ hann segi frá því og sanni mér það _ frá því er ég hóf hina örgömlu þjóð? Látum þá kunngjöra hið ókomna og það sem verða mun!

Skelfist eigi og látið eigi hugfallast. Hefi ég ekki þegar fyrir löngu sagt þér það og boðað það? Þér eruð vottar mínir: Er nokkur Guð til nema ég? Nei, ekkert annað hellubjarg er til, ég veit af engu öðru.

Þeir sem búa til goðalíkneski, eru hver með öðrum hégóminn einber, og dýrindissmíðar þeirra eru að engu liði. Vottar slíkra guða sjá eigi og vita eigi, til þess að þeir verði sér til skammar.

10 Hver hefir myndað guð og steypt líkneski, til þess að það verði að engu liði?

11 Sjá, allir dýrkendur þess munu til skammar verða. Og smiðirnir, þeir eru þó ekki nema menn, _ látum þá alla safnast saman og ganga fram, þeir skulu skelfast og til skammar verða hver með öðrum.

12 Járnsmiðurinn myndar egg á öxina, tekur hana fram við glóð og lagar hana með hömrunum. Hann býr hana til með hinum sterka armlegg sínum. En svelti hann, þá vanmegnast hann, fái hann ekki vatn að drekka, lýist hann.

13 Trésmiðurinn strengir mæliþráð sinn og markar fyrir með alnum, telgir tréð með hnífum og afmarkar það með sirkli. Og hann býr til úr því mannlíkan, fríðan mann, til þess að búa í húsi.

14 Hann heggur sér sedrustré, tekur steineik eða eik og velur um meðal skógartrjánna. Hann gróðursetur furutré, og regnskúrirnar koma vexti í þau.

15 Og maðurinn hefir tréð til eldiviðar, hann tekur nokkuð af því og vermir sig við, hann kveikir eld við það og bakar brauð, en auk þess býr hann til guð úr því og fellur fram fyrir honum. Hann smíðar úr því skurðgoð og knékrýpur því.

16 Helmingnum af trénu brennir hann í eldi. Við þann helminginn steikir hann kjöt, etur steik og verður saddur; hann vermir sig og segir: "Æ, nú hitnar mér, ég sé eldinn."

17 En úr afganginum býr hann til guð, skurðgoð handa sér. Hann knékrýpur því, fellur fram og gjörir bæn sína til þess og segir: "Frelsaðu mig, því að þú ert minn guð!"

18 Þeir hafa hvorki skyn né skilning, augu þeirra eru lokuð, svo að þeir sjá ekki, og hjörtu þeirra, svo að þeir skynja ekki.

19 Og þeir hugleiða það eigi, þeir hafa eigi vitsmuni og skilning til að hugsa með sér: "Helmingnum af því brenndi ég í eldi, ég bakaði brauð við glæðurnar, steikti kjöt og át; og svo ætti ég að fara að búa til andstyggilegt líkneski af því, sem afgangs er, og falla á kné fyrir trédrumbi!"

20 Þann mann, er sækist eftir ösku, hefir táldregið hjarta leitt afvega, svo að hann fær eigi borgið lífi sínu. Hann segir ekki við sjálfan sig: "Er það ekki svikatál, sem ég held á í hægri hendi minni?"

21 Minnstu þess, Jakob, og þú Ísrael, því að þú ert þjónn minn. Ég hefi skapað þig til að vera þjón minn, þú, Ísrael, munt mér aldrei úr minni líða!

22 Ég hefi feykt burt misgjörðum þínum eins og þoku og syndum þínum eins og skýi. Hverf aftur til mín, því að ég frelsa þig.

23 Fagnið, þér himnar, því að Drottinn hefir því til vegar komið, látið gleðilátum, þér undirdjúp jarðarinnar. Hefjið fagnaðarsöng, þér fjöll, skógurinn og öll tré, sem í honum eru, því að Drottinn frelsar Jakob og sýnir vegsemd sína á Ísrael.

24 Svo segir Drottinn, frelsari þinn, sá er þig hefir myndað frá móðurkviði: Ég er Drottinn, sem allt hefi skapað, sem útþandi himininn aleinn og útbreiddi jörðina hjálparlaust,

25 sá sem ónýtir tákn lygaranna og gjörir spásagnamennina að fíflum, sem gjörir vitringana afturreka og þekking þeirra að heimsku,

26 sem staðfestir orð þjóns síns og framkvæmir ráð sendiboða sinna. Ég er sá sem segi um Jerúsalem: "Verði hún aftur byggð!" og um borgirnar í Júda: "Verði þær endurreistar, og rústir þeirra reisi ég við!"

27 Ég er sá sem segi við djúpið: "Þorna þú upp, og ár þínar þurrka ég upp!"

28 Ég er sá sem segi um Kýrus: "Hann er hirðir minn, og hann skal framkvæma allan vilja minn og segja um Jerúsalem: Hún skal endurreist verða og musterið grundvallað að nýju!"