Add parallel Print Page Options

41 Verið hljóð og hlustið á mig, þér eylönd. Safni þjóðirnar nýjum kröftum, gangi svo nær og tali máli sínu. Vér skulum eigast lög við.

Hver hefir vakið upp manninn í austrinu, sem réttlætið kveður til fylgdar? Hver leggur þjóðir undir vald hans og lætur hann drottna yfir konungum? Hver gjörir sverð þeirra að moldarryki og boga þeirra sem fjúkandi hálmleggi,

svo að hann veitir þeim eftirför og fer ósakaður þann veg, er hann aldrei hefir stigið á fæti sínum?

Hver hefir gjört það og framkvæmt? _ Hann sem kallaði fram kynþáttu mannanna í öndverðu, ég, Drottinn, sem er hinn fyrsti, og með hinum síðustu enn hinn sami.

Eylöndin sáu það og urðu hrædd, endimörk jarðarinnar skulfu. Þeir þyrptust saman og komu.

Hver hjálpar öðrum og segir við félaga sinn: "Vertu hughraustur!"

Trésmiðurinn hughreystir gullsmiðinn, koparsmiðurinn járnsmiðinn og segir: "Kveikingin er góð!" Síðan festir hann goðalíkneskið með nöglum, til þess að það haggist ekki.

En þú Ísrael, þjónn minn, Jakob, sem ég hefi útvalið, þú afsprengi Abrahams ástvinar míns.

Þú, sem ég þreif frá endimörkum jarðarinnar og kallaði þig frá ystu landsálfum hennar og sagði við þig: "Þú ert þjónn minn, ég hefi útvalið þig og eigi hafnað þér!"

10 Óttast þú eigi, því að ég er með þér. Lát eigi hugfallast, því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég styð þig með hægri hendi réttlætis míns.

11 Sjá, allir fjandmenn þínir skulu verða til skammar og háðungar. Sökudólgar þínir skulu verða að engu og tortímast.

12 Þó að þú leitir að þrætudólgum þínum, skalt þú ekki finna þá. Þeir sem á þig herja, skulu hverfa og að engu verða.

13 Því að ég, Drottinn, Guð þinn, held í hægri hönd þína og segi við þig: "Óttast þú eigi, ég hjálpa þér!"

14 Óttast þú eigi, maðkurinn þinn Jakob, þú fámenni hópur Ísrael! Ég hjálpa þér, segir Drottinn, og frelsari þinn er Hinn heilagi í Ísrael.

15 Sjá, ég gjöri þig að nýhvesstum þreskisleða, sem alsettur er göddum. Þú skalt þreskja sundur fjöllin og mylja þau í smátt og gjöra hálsana sem sáðir.

16 Þú skalt sáldra þeim, og vindurinn mun feykja þeim og stormbylurinn tvístra þeim. En sjálfur skalt þú fagna yfir Drottni og miklast af Hinum heilaga í Ísrael.

17 Hinir fátæku og voluðu leita vatns, en finna ekki, tunga þeirra verður þurr af þorsta. Ég, Drottinn, mun bænheyra þá, ég, Ísraels Guð, mun ekki yfirgefa þá.

18 Ég læt ár spretta upp á gróðurlausum hæðum og vatnslindir í dölunum miðjum. Ég gjöri eyðimörkina að vatnstjörnum og þurrlendið að uppsprettum.

19 Ég læt sedrustré, akasíutré, myrtustré og olíutré vaxa í eyðimörkinni, og kýpresviður, álmviður og sortulyngsviður spretta hver með öðrum á sléttunum,

20 svo að þeir allir sjái og viti, skynji og skilji, að hönd Drottins hefir gjört þetta og Hinn heilagi í Ísrael hefir því til vegar komið.

21 Berið nú fram málefni yðar, segir Drottinn. Færið fram varnir yðar, segir konungur Jakobsættar.

22 Látum þá koma með málefni sín og kunngjöra oss, hvað verða muni. Gjörið kunnugt það sem áður var, svo að vér getum hugleitt það! Látið oss heyra, hvað koma á, svo að vér vitum, hvað í vændum er!

23 Gjörið kunnugt, hvað hér eftir muni fram koma, svo að vér megum sjá, að þér eruð guðir! Gjörið annaðhvort af yður gott eða illt, svo að við fáum reynt með okkur og sjón verði sögu ríkari.

24 Sjá, þér eruð ekkert og verk yðar ekki neitt! Andstyggilegur er sá, sem yður kýs!

25 Ég vakti upp mann í norðri, og hann kom. Frá upprás sólar kallaði ég þann, er ákallar nafn mitt. Hann gengur yfir landstjóra sem leir, eins og leirkerasmiður treður deigulmó.

26 Hver hefir kunngjört það frá öndverðu, svo að vér vissum það, eða fyrirfram, svo að vér gætum sagt: "Hann hefir rétt fyrir sér"? Nei, enginn hefir kunngjört það, enginn látið til sín heyra, enginn hefir heyrt yður segja neitt.

27 Ég var hinn fyrsti, sem sagði við Síon: "Sjá, þar kemur það fram!" og hinn fyrsti, er sendi Jerúsalem fagnaðarboða.

28 Ég litast um, en þar er enginn, og á meðal þeirra er ekki neinn, er úrskurð veiti, svo að ég geti spurt þá og þeir svarað mér.

29 Sjá, þeir eru allir hégómi og verk þeirra ekki neitt, líkneski þeirra vindur og hjóm.

42 Sjá þjón minn, sem ég leiði mér við hönd, minn útvalda, sem ég hefi þóknun á. Ég legg anda minn yfir hann, hann mun boða þjóðunum rétt.

Hann kallar ekki og hefir ekki háreysti og lætur ekki heyra raust sína á strætunum.

Brákaðan reyrinn brýtur hann ekki sundur, og dapran hörkveik slökkur hann ekki. Hann boðar réttinn með trúfesti.

Hann daprast eigi og gefst eigi upp, uns hann fær komið inn rétti á jörðu, og fjarlægar landsálfur bíða eftir boðskap hans.

Svo segir Drottinn Guð, sá er skóp himininn og þandi hann út, sá er breiddi út jörðina með öllu því, sem á henni vex, sá er andardrátt gaf mannfólkinu á jörðinni og lífsanda þeim, er á henni ganga:

Ég, Drottinn, hefi kallað þig til réttlætis og held í hönd þína. Ég mun varðveita þig og gjöra þig að sáttmála fyrir lýðinn og að ljósi fyrir þjóðirnar

til að opna hin blindu augun, til að leiða út úr varðhaldinu þá, er bundnir eru, og úr dýflissunni þá, er í myrkri sitja.

Ég er Drottinn, það er nafn mitt, og dýrð mína gef ég eigi öðrum né lof mitt úthöggnum líkneskjum.

Sjá, hinir fyrri hlutir eru fram komnir, en nú boða ég nýja hluti og læt yður heyra þá áður en fyrir þeim vottar.

10 Syngið Drottni nýjan söng, syngið lof hans til endimarka jarðarinnar, þér sjófarendur og allt sem í hafinu er, þér fjarlægar landsálfur og þeir sem þær byggja!

11 Eyðimörkin og borgir hennar og þorpin, þar sem Kedar býr, skulu hefja upp raustina. Fjallabúarnir skulu fagna, æpa af gleði ofan af fjallatindunum!

12 Þeir skulu gefa Drottni dýrðina og kunngjöra lof hans í fjarlægum landsálfum!

13 Drottinn leggur af stað sem hetja, elur á hugmóð sínum eins og bardagamaður. Hann kallar, hann lýstur upp herópi, sýnir hetjuskap á óvinum sínum:

14 Ég hefi þagað langan tíma, verið hljóður og stillt mig. Nú mun ég hljóða sem jóðsjúk kona, stynja og standa á öndinni í sama bili.

15 Ég mun svíða fjöllin og hálsana og skrælna láta allar jurtir, er þar vaxa. Ég mun gjöra ár að eyjum og þurrka upp tjarnirnar.

16 Ég mun leiða blinda menn um veg, er þeir ekki rata, færa þá um stigu, sem þeir ekki þekkja. Ég vil gjöra myrkrið fram undan þeim að ljósi og hólótt landið að jafnsléttu. Þessa hluti mun ég gjöra, og ég hætti eigi við þá.

17 Þeir sem treysta skurðgoðunum, hörfa aftur á bak og verða sér til skammar, þeir sem segja við steypt líkneski: "Þér eruð guðir vorir."

18 Heyrið, þér hinir daufu! Lítið upp, þér hinir blindu, að þér megið sjá!

19 Hver er svo blindur sem þjónn minn og svo daufur sem sendiboði minn, er ég hefi sent? Hver er svo blindur sem trúnaðarmaðurinn og svo blindur sem þjónn Drottins?

20 Þú hefir séð margt, en athugar það ekki, eyrun eru opin, en þú heyrir þó ekki.

21 Fyrir sakir réttlætis síns hefir Drottni þóknast að gjöra kenninguna háleita og vegsamlega.

22 Og þó er þetta rændur og ruplaður lýður, þeir eru allir fjötraðir í gryfjum og byrgðir í myrkvastofum. Þeir eru orðnir að herfangi, og enginn frelsar þá, orðnir að ránsfeng, og enginn segir: "Skilið þeim aftur!"

23 Hver af yður vill hlýða á þetta, gefa því gaum og veita því athygli framvegis?

24 Hver hefir framselt Jakob til ráns og fengið Ísrael ræningjum í hendur? Er það ekki Drottinn, hann, sem vér höfum syndgað á móti? Á hans vegum vildu þeir ekki ganga, og hans lögmáli hlýddu þeir ekki.

25 Fyrir því jós hann yfir þá brennandi reiði sinni og styrjaldarofsa. Hún bálaðist umhverfis þá, en þeir skildu það eigi, hún brenndi þá, en þeir hugfestu það eigi.

Páll, Silvanus og Tímóteus heilsa söfnuði Þessaloníkumanna, sem er í Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Náð sé með yður og friður.

Vér þökkum ávallt Guði fyrir yður alla, er vér minnumst yðar í bænum vorum.

Fyrir augsýn Guðs og föður vors erum vér sífellt minnugir starfs yðar í trúnni, erfiðis yðar í kærleikanum og stöðuglyndis yðar í voninni á Drottin vorn Jesú Krist.

Guð elskar yður, bræður, og vér vitum, að hann hefur útvalið yður.

Fagnaðarerindi vort kom eigi til yðar í orðum einum, heldur einnig í krafti og í heilögum anda og með fullkominni sannfæringu. Þér vitið, hvernig vér komum fram hjá yður, yðar vegna.

Og þér hafið gjörst eftirbreytendur vorir og Drottins, er þér tókuð á móti orðinu með fögnuði heilags anda, þrátt fyrir mikla þrengingu.

Þannig eruð þér orðnir fyrirmynd öllum trúuðum í Makedóníu og í Akkeu.

Frá yður hefur orð Drottins hljómað, ekki einungis í Makedóníu og Akkeu, heldur er trú yðar á Guð kunn orðin alls staðar. Vér þurfum ekkert um það að tala,

því að þeir segja sjálfir, á hvern hátt vér komum til yðar og hvernig þér sneruð yður til Guðs frá skurðgoðunum, til þess að þjóna lifandi og sönnum Guði,

10 og væntið nú sonar hans frá himnum, sem hann vakti upp frá dauðum, Jesú, er frelsar oss frá hinni komandi reiði.