Add parallel Print Page Options

31 Vei þeim, sem fara suður til Egyptalands í liðsbón, sem reiða sig á hesta og treysta á vagna, af því að þeir séu margir, og á riddara, af því að fjöldinn sé mikill, en líta ekki til Hins heilaga í Ísrael og leita ekki Drottins.

En hann er líka ráðspakur og lætur ógæfuna yfir koma og tekur ekki orð sín aftur. Hann rís upp í móti húsi illvirkjanna og í móti hjálparliði misgjörðamannanna.

Egyptar eru menn, en enginn Guð, hestar þeirra eru hold, en eigi andi. Þegar Drottinn réttir út hönd sína, hrasar liðveitandinn og liðþeginn fellur, svo að þeir farast allir hver með öðrum.

Svo hefir Drottinn við mig sagt: Eins og ljónið eða ljónskálfurinn urrar yfir bráð sinni, þegar hjarðmannahóp er stefnt saman á móti honum, og hann hræðist ekki köll þeirra og lætur ekki hugfallast við háreysti þeirra, eins mun Drottinn allsherjar ofan stíga til þess að herja á Síonfjall og hæð þess.

Eins og fuglar á flökti, eins mun Drottinn allsherjar vernda Jerúsalem, vernda hana og frelsa, vægja henni og bjarga.

Hverfið aftur, þér Ísraelsmenn, til hans, sem þér eruð horfnir svo langt í burtu frá.

Því að á þeim degi munu þeir hver og einn hafna silfurgoðum sínum og gullgoðum, er sekar hendur yðar hafa gjört handa yður.

Assýría skal fyrir sverði falla, en ekki fyrir manna sverði. Sverð skal verða henni að bana, en ekkert mannssverð. Hún mun undan sverði flýja og æskumenn hennar verða ánauðugir.

Og bjarg hennar mun farast af ótta og höfðingjar hennar flýja í ofboði undan merkinu. Svo segir Drottinn, sem hefir eld sinn á Síon og arin sinn í Jerúsalem.

32 Þegar konungurinn ríkir með réttlæti og höfðingjarnir stjórna með réttvísi,

þá verður hver þeirra sem hlé fyrir vindi og skjól fyrir skúrum, sem vatnslækir í öræfum, sem skuggi af stórum hamri í vatnslausu landi.

Þá eru augu hinna sjáandi eigi afturlukt, og þá hlusta eyru þeirra, sem heyrandi eru.

Hjörtu hinna gálausu munu læra hyggindi og tunga hinna mállausu tala liðugt og skýrt.

Þá verður heimskinginn eigi framar kallaður göfugmenni og hinn undirföruli eigi sagður veglyndur.

Heimskinginn talar heimsku og hjarta hans býr mönnum ógæfu, með því að hann breytir óguðlega og talar villu gegn Drottni, lætur hinn hungraða vera svangan og gefur eigi þyrstum manni vatnsdrykk.

Vopn hins undirförula eru skaðvænleg. Hann hugsar upp pretti til þess að koma hinum umkomulausa á kné með lygaræðum, og það jafnvel þótt hinn fátæki sanni rétt sinn.

En göfugmennið hefir göfugleg áform og stendur stöðugur í því, sem göfuglegt er.

Þér áhyggjulausu konur, standið upp og heyrið raust mína! Þér ugglausu dætur, gefið gaum að ræðu minni:

10 Eftir ár og daga skuluð þér hinar ugglausu skelfast, því að vínberjatekjan bregst og aldintekja verður engin.

11 Hræðist, þér hinar áhyggjulausu! Skelfist, þér hinar ugglausu! Farið af klæðum og verið naktar, gyrðið hærusekk um lendar yðar,

12 berið yður hörmulega vegna akranna, vegna hinna yndislegu akra, vegna hins frjósama vínviðar,

13 vegna akurlendis þjóðar minnar þar sem vaxa munu þyrnar og þistlar, já vegna allra glaðværðarhúsanna í hinni glaummiklu borg!

14 Því að hallirnar munu verða mannauðar og hávaði borgarinnar hverfa. Borgarhæðin og varðturninn verða hellar um aldur og ævi, skógarösnum til skemmtunar og hjörðum til hagbeitar _

15 uns úthellt verður yfir oss anda af hæðum. Þá skal eyðimörkin verða að aldingarði og aldingarður talinn verða kjarrskógur,

16 réttvísin festa byggð í eyðimörkinni og réttlætið taka sér bólfestu í aldingarðinum.

17 Og ávöxtur réttlætisins skal vera friður, og árangur réttlætisins rósemi og öruggleiki að eilífu.

18 Þá skal þjóð mín búa í heimkynni friðarins, í híbýlum öruggleikans og í rósömum bústöðum.

19 En hegla mun þegar skógurinn hrynur og borgin steypist.

20 Sælir eruð þér, sem alls staðar sáið við vötn og látið uxa og asna ganga sjálfala.

33 Vei þér, sem eyðir, og hefir þó sjálfur eigi fyrir eyðingu orðið, sem rænir, og hefir þó eigi rændur verið! Þegar þú hefir lokið eyðingunni, skalt þú fyrir eyðingu verða, þegar þú ert hættur að ræna, skalt þú rændur verða.

Drottinn, ver þú oss líknsamur! Vér vonum á þig. Ver þú styrkur vor á hverjum morgni og hjálpræði vort á neyðarinnar tíma.

Fyrir hinum dynjandi gný flýja þjóðirnar. Þegar þú rís upp, tvístrast heiðingjarnir.

Þá mun herfangi verða safnað, eins og þegar engisprettur eru að tína, menn munu stökkva á það, eins og þegar jarðvargar stökkva.

Hár er Drottinn, því að hann býr á hæðum, hann fyllir Síon réttindum og réttlæti.

Örugga tíma skalt þú hljóta, gæfufjársjóð átt þú í visku og þekkingu. Ótti Drottins er auður lýðsins.

Sjá, kapparnir kveina úti fyrir, friðarboðarnir gráta beisklega.

Þjóðvegirnir eru eyðilagðir, mannaferðir hættar. Menn rjúfa sáttmálann, fyrirlíta vitnin og virða náungann vettugi.

Landið sýtir og visnar, Líbanon blygðast sín og skrælnar, Saronsléttan er orðin eins og eyðimörk, Basan og Karmel fella laufið.

10 Nú vil ég upp rísa, segir Drottinn, nú vil ég láta til mín taka, nú vil ég hefjast handa.

11 Þér gangið með hey og alið hálm, andgustur yðar er eldur, sem eyða mun sjálfum yður.

12 Þjóðirnar munu brenndar verða að kalki, þær munu verða sem upphöggnir þyrnar, sem brenndir eru í eldi.

13 Heyrið, þér sem fjarlægir eruð, hvað ég hefi gjört, og sjáið, þér sem nálægir eruð, kraft minn!

14 Syndararnir í Síon eru hræddir, skelfing hefir gagntekið guðleysingjana: "Hver af oss má búa við eyðandi eld, hver af oss má búa við eilíft bál?"

15 Sá sem fram gengur réttvíslega og talar af hreinskilni, sá sem hafnar þeim ávinningi, sem fenginn er með ofríki, sá sem hristir mútugjafir af höndum sér, sá sem byrgir fyrir eyru sín til þess að heyra eigi morð ráðin, sá sem afturlykur augum sínum til þess að horfa eigi á það, sem illt er,

16 hann skal búa uppi á hæðunum. Hamraborgirnar skulu vera vígi hans, brauðið skal verða fært honum og vatnið handa honum skal eigi þverra.

17 Augu þín skulu sjá konunginn í ljóma sínum, þau skulu horfa á víðáttumikið land.

18 Hjarta þitt mun hugsa til skelfingartímans: Hvar er nú sá, er silfrið taldi? Hvar er sá, er vó það? Hvar er sá, sem taldi turnana?

19 Þú skalt ekki framar sjá hina ofstopafullu þjóð, sem talar svo óglöggt mál, að ekki verður numið, og svo óskilmerkilega tungu, að enginn fær skilið.

20 Lít þú á Síon, borg samfunda vorra! Augu þín skulu horfa á Jerúsalem, bústaðinn örugga, tjaldið, sem eigi er flutt úr stað, hælum þess eigi kippt upp og ekkert af stögum þess slitið.

21 Nei, hinn máttki, Drottinn, er þar oss til varnar, eins og fljót og breið vatnsföll, þar sem engin róðrarskip geta gengið og engin tignarleg langskip um farið.

22 Drottinn er vor dómari, Drottinn er vor löggjafi, Drottinn er vor konungur, hann mun frelsa oss.

23 Stögin eru slök hjá þér, þau halda ekki siglunni í skorðum og geta eigi þanið út seglið. Þá skal mikilli bráð og herfangi skipt verða, jafnvel haltir menn skulu ræna.

24 Og enginn borgarbúi mun segja: "Ég er sjúkur." Fólkið, sem þar býr, hefir fengið fyrirgefning misgjörða sinna.

34 Gangið nær, þér þjóðir, að þér megið heyra! Hlýðið til, þér lýðir! Heyri það jörðin og allt, sem á henni er, jarðarkringlan og allt, sem á henni vex!

Drottinn er reiður öllum þjóðunum og gramur öllum þeirra her. Hann hefir vígt þær dauðanum og ofurselt þær til slátrunar.

Vegnum mönnum þeirra er burt kastað, og hrævadaunn stígur upp af líkum þeirra, og fjöllin renna sundur af blóði þeirra.

Allur himinsins her hjaðnar, og himinninn vefst saman eins og bókfell. Allur hans her hrynur niður, eins og laufið fellur af vínviði og visin blöð af fíkjutré.

Sverð mitt hefir drukkið sig drukkið á himnum, nú lýstur því niður til dóms yfir Edóm, þá þjóð, sem ég hefi vígt dauðanum.

Sverð Drottins er alblóðugt, löðrandi af feiti, af blóði lamba og kjarnhafra, af nýrnamör úr hrútum, því að Drottinn heldur fórnarveislu í Bosra og slátrun mikla í Edómlandi.

Villinautin hníga með þeim, og ungneytin með uxunum. Land þeirra flýtur í blóði, og jarðvegurinn er löðrandi af feiti.

Því að nú er hefndardagur Drottins, endurgjaldsárið, til að reka réttar Síonar.

Lækirnir skulu verða að biki og jarðvegurinn að brennisteini, landið skal verða að brennandi biki.

10 Það skal eigi slokkna nætur né daga, reykurinn af því skal upp stíga um aldur og ævi. Það skal liggja í eyði frá einni kynslóð til annarrar, enginn maður skal þar um fara að eilífu.

11 Pelíkanar og stjörnuhegrar skulu fá það til eignar, náttuglur og hrafnar búa þar. Hann mun draga yfir það mælivað auðnarinnar og mælilóð aleyðingarinnar.

12 Tignarmenn landsins kveðja þar eigi til konungskosningar, og allir höfðingjarnir verða að engu.

13 Í höllunum munu þyrnar upp vaxa og klungrar og þistlar í víggirtum borgunum. Það mun verða sjakalabæli og strútsfuglagerði.

14 Urðarkettir og sjakalar skulu koma þar saman og skógartröll mæla sér þar mót. Næturgrýlan ein skal hvílast þar og finna sér þar hæli.

15 Stökkormurinn skal búa sér þar hreiður og klekja þar út, verpa þar eggjum og unga þeim út í skugganum. Gleður einar skulu flykkjast þar hver til annarrar.

16 Leitið í bók Drottins og lesið: Ekkert af þessum dýrum vantar, ekkert þeirra saknar annars. Því að munnur Drottins hefir svo um boðið, og það er andi hans, sem hefir stefnt þeim saman.

17 Hann hefir sjálfur kastað hlutum fyrir þau, og hönd hans hefir skipt landinu milli þeirra með mælivað. Þau munu eiga það um aldur og ævi og búa þar frá einni kynslóð til annarrar.

35 Eyðimörkin og hið þurra landið skulu gleðjast, öræfin skulu fagna og blómgast sem lilja.

Þau skulu blómgast ríkulega og fagna af unaði og gleði. Vegsemd Líbanons skal veitast þeim, prýði Karmels og Sarons. Þau skulu fá að sjá vegsemd Drottins og prýði Guðs vors.

Stælið hinar máttvana hendur, styrkið hin skjögrandi kné!

Segið hinum ístöðulausu: "Verið hughraustir, óttist eigi! Sjá, hér er Guð yðar! Hefndin kemur, endurgjald frá Guði! Hann kemur sjálfur og frelsar yður."

Þá munu augu hinna blindu upp lúkast og opnast eyru hinna daufu.

Þá mun hinn halti létta sér sem hjörtur og tunga hins mállausa fagna lofsyngjandi, því að vatnslindir spretta upp í eyðimörkinni og lækir á öræfunum.

Sólbrunnar auðnir skulu verða að tjörnum og þurrar lendur að uppsprettum. Þar sem sjakalar höfðust áður við, í bælum þeirra, skal verða gróðrarreitur fyrir sef og reyr.

Þar skal verða braut og vegur. Sú braut skal kallast brautin helga. Enginn sem óhreinn er, skal hana ganga. Hún er fyrir þá eina. Enginn sem hana fer, mun villast, jafnvel ekki fáráðlingar.

Þar skal ekkert ljón vera, og ekkert glefsandi dýr skal þar um fara, eigi hittast þar. En hinir endurleystu skulu ganga þar.

10 Hinir endurkeyptu Drottins skulu aftur hverfa. Þeir koma með fögnuði til Síonar, og eilíf gleði skal leika yfir höfði þeim. Fögnuður og gleði skal fylgja þeim, en hryggð og andvarpan flýja.