Añadir traducción en paralelo Imprimir Opciones de la página

30 Vei hinum þverúðugu börnum _ segir Drottinn. Þau taka saman ráð, er eigi koma frá mér, og gjöra bandalag, án þess að minn andi sé með í verki, til að hlaða synd á synd ofan.

Þau gjöra sér ferð suður til Egyptalands án þess að leita minna atkvæða, til að leita sér hælis hjá Faraó og fá sér skjól í skugga Egyptalands.

En hælið hjá Faraó skal verða yður til skammar og skjólið í skugga Egyptalands til smánar!

Látum höfðingja lýðsins vera í Sóan og sendimenn hans komast alla leið til Hanes!

Þeir munu allir skammast sín fyrir þá þjóð, sem eigi hjálpar þeim, er að engu liði verður og til engrar hjálpar, heldur eingöngu til skammar og háðungar.

Spádómur um dýr Suðurlandsins. Um torfæruland og angistar, þar sem ljónynjur og ljón, eiturormar og flugdrekar hafast við, flytja þeir auðæfi sín á asnabökum og fjársjóðu sína á úlfaldakryppum til þeirrar þjóðar, sem eigi hjálpar þeim.

Liðveisla Egyptalands er fánýt og einskis virði. Fyrir því kalla ég það: Stórgortarinn, er eigi hefst að.

Far nú og rita það á spjald hjá þeim og letra það í bók, svo að það á komandi tímum verði til vitnisburðar ævinlega.

Því að þetta er þrjóskur lýður, lygin börn, börn sem eigi vilja heyra kenningu Drottins.

10 Þau segja við sjáendur: "Þér skuluð eigi sjá sýnir," og við vitranamenn: "Þér skuluð eigi birta oss sannleikann. Sláið oss heldur gullhamra og birtið oss blekkingar.

11 Farið út af veginum, beygið út af brautinni, komið Hinum heilaga í Ísrael burt frá augliti voru."

12 Fyrir því segir Hinn heilagi í Ísrael svo: Sökum þess að þér hafnið þessu orði, en reiðið yður á ofríki og andhælisskap og styðjist við það,

13 fyrir því skal þessi misgjörð verða yður eins og veggjarkafli, sem bungar út á háum múrvegg og kominn er að hruni. Skyndilega og að óvörum hrynur hann.

14 Og hann brotnar sundur, eins og þegar leirker er brotið, vægðarlaust mölvað, svo að af molunum fæst eigi svo mikið sem leirbrot til að taka með eld af arni eða til að ausa með vatni úr þró.

15 Svo hefir hinn alvaldi Drottinn, Hinn heilagi í Ísrael, sagt: Fyrir afturhvarf og rósemi skuluð þér frelsaðir verða, í þolinmæði og trausti skal styrkur yðar vera. En þér vilduð það ekki

16 og sögðuð: "Nei, á hestum skulum vér þjóta" _ fyrir því skuluð þér flýja! _ "og á léttum reiðskjótum skulum vér ríða" _ fyrir því skulu þeir vera léttir á sér, sem elta yður!

17 Eitt þúsund skal flýja fyrir ógnunum eins manns, fyrir ógnunum fimm manna skuluð þér flýja, uns eftirleifar yðar verða sem vitastöng á fjallstindi og sem hermerki á hól.

18 En Drottinn bíður þess að geta miskunnað yður og heldur kyrru fyrir, uns hann getur líknað yður. Því að Drottinn er Guð réttlætis. Sælir eru allir þeir, sem á hann vona.

19 Já, þú lýður í Síon, þú sem býr í Jerúsalem, grát þú eigi án afláts. Hann mun vissulega miskunna þér, þegar þú kallar í neyðinni, hann mun bænheyra þig, þegar hann heyrir til þín.

20 Drottinn mun gefa yður neyðarbrauð og þrengingarvatn. En hann, sem kennir þér, mun þá eigi framar fela sig, heldur munu augu þín líta hann,

21 og eyru þín munu heyra þessi orð kölluð á eftir þér, þá er þér víkið til hægri handar eða vinstri: "Hér er vegurinn! Farið hann!"

22 Þá munuð þér óhrein telja hin silfurlögðu skurðgoð yðar og hin gullbúnu líkneski yðar. Þú munt burt snara þeim eins og einhverri viðurstyggð, þú munt segja við þau: "Burt héðan."

23 Þá mun hann regn gefa sæði því, er þú sáir í akurland þitt, og brauð af gróðri akurlandsins; kjarngott og kostmikið mun það vera; fénaður þinn mun á þeim degi ganga í víðlendum grashaga.

24 Uxarnir og asnarnir, sem akurinn erja, skulu eta saltan fóðurblending, sem hreinsaður hefir verið með varpskóflu og varpkvísl.

25 Á hverju háu fjalli og á hverri gnæfandi hæð munu vatnslækir fram fljóta á hinum mikla mannfallsdegi, þegar turnarnir hrynja.

26 Þá mun tunglsljósið verða sem sólarljós, og sólarljósið sjöfaldast, eins og sjö daga ljós, þann dag er Drottinn bindur um sár þjóðar sinnar og græðir hennar krömdu undir.

27 Sjá, nafn Drottins kemur úr fjarlægð. Reiði hans bálar og þykkan reykjarmökk leggur upp af. Heiftin freyðir um varir hans og tunga hans er sem eyðandi eldur.

28 Andgustur hans er sem ólgandi vatnsfall, það er tekur manni í háls. Hann mun drifta þjóðirnar í sáldi eyðingarinnar og leggja þjóðunum í munn bitil þann, er leiðir þær afvega.

29 Þá munuð þér syngja ljóð, eins og aðfaranótt hátíðar, og hjartans gleði á yður vera, eins og þegar gengið er með hljóðpípum upp á fjall Drottins til hellubjargs Ísraels.

30 Þá mun Drottinn heyra láta hina hátignarlegu raust sína og láta sjá til sín, þegar hann reiðir ofan armlegg sinn í brennandi reiði, með eyðandi eldslogum, með helliskúrum, steypihríðum og hagléljum.

31 Já, fyrir raustu Drottins mun Assýría skelfast, er hann lýstur hana með sprota sínum.

32 Og í hvert sinn sem refsivölur sá, er Drottinn reiðir á lofti uppi yfir henni, kemur niður, mun heyrast bumbuhljóð og gígjusláttur, og með því að sveifla hendinni mun hann berjast gegn þeim.

33 Brennslugróf er þegar fyrir löngu undirbúin, hún er og gjörð handa konunginum. Hann hefir gjört eldstæðið í henni djúpt og vítt, hann ber að mikinn eld og við. Andgustur Drottins kveikir í því, eins og brennisteinsflóð.

31 Vei þeim, sem fara suður til Egyptalands í liðsbón, sem reiða sig á hesta og treysta á vagna, af því að þeir séu margir, og á riddara, af því að fjöldinn sé mikill, en líta ekki til Hins heilaga í Ísrael og leita ekki Drottins.

En hann er líka ráðspakur og lætur ógæfuna yfir koma og tekur ekki orð sín aftur. Hann rís upp í móti húsi illvirkjanna og í móti hjálparliði misgjörðamannanna.

Egyptar eru menn, en enginn Guð, hestar þeirra eru hold, en eigi andi. Þegar Drottinn réttir út hönd sína, hrasar liðveitandinn og liðþeginn fellur, svo að þeir farast allir hver með öðrum.

Svo hefir Drottinn við mig sagt: Eins og ljónið eða ljónskálfurinn urrar yfir bráð sinni, þegar hjarðmannahóp er stefnt saman á móti honum, og hann hræðist ekki köll þeirra og lætur ekki hugfallast við háreysti þeirra, eins mun Drottinn allsherjar ofan stíga til þess að herja á Síonfjall og hæð þess.

Eins og fuglar á flökti, eins mun Drottinn allsherjar vernda Jerúsalem, vernda hana og frelsa, vægja henni og bjarga.

Hverfið aftur, þér Ísraelsmenn, til hans, sem þér eruð horfnir svo langt í burtu frá.

Því að á þeim degi munu þeir hver og einn hafna silfurgoðum sínum og gullgoðum, er sekar hendur yðar hafa gjört handa yður.

Assýría skal fyrir sverði falla, en ekki fyrir manna sverði. Sverð skal verða henni að bana, en ekkert mannssverð. Hún mun undan sverði flýja og æskumenn hennar verða ánauðugir.

Og bjarg hennar mun farast af ótta og höfðingjar hennar flýja í ofboði undan merkinu. Svo segir Drottinn, sem hefir eld sinn á Síon og arin sinn í Jerúsalem.

Þess vegna, mínir elskuðu og þráðu bræður, gleði mín og kóróna, standið þá stöðugir í Drottni, þér elskuðu.

Evodíu áminni ég og Sýntýke áminni ég um að vera samlyndar vegna Drottins.

Já, ég bið einnig þig, trúlyndi samþjónn, hjálpa þú þeim, því að þær börðust með mér við boðun fagnaðarerindisins, ásamt Klemens og öðrum samverkamönnum mínum, og standa nöfn þeirra í lífsins bók.

Verið ávallt glaðir í Drottni. Ég segi aftur: Verið glaðir.

Ljúflyndi yðar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd.

Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð.

Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú.

Að endingu, bræður, allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dyggð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það.

Þetta, sem þér hafið bæði lært og numið, heyrt og séð til mín, það skuluð þér gjöra. Og Guð friðarins mun vera með yður.

10 Ég varð mjög glaður í Drottni yfir því, að hagur yðar hefur loks batnað svo aftur, að þér gátuð hugsað til mín. Að sönnu hafið þér hugsað til mín, en gátuð ekki sýnt það.

11 Ekki segi ég þetta vegna þess, að ég hafi liðið skort, því að ég hef lært að láta mér nægja það, sem fyrir hendi er.

12 Ég kann að búa við lítinn kost, ég kann einnig að hafa allsnægtir. Ég er fullreyndur orðinn í öllum hlutum, að vera mettur og hungraður, að hafa allsnægtir og líða skort.

13 Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir.

14 Engu að síður gjörðuð þér vel í því, að taka þátt með mér í þrengingu minni.

15 Þér vitið og, Filippímenn, að þegar ég í upphafi boðaði yður fagnaðarerindið og var farinn burt úr Makedóníu, hafði enginn söfnuður nema þér einir reikning hjá mér yfir gefið og þegið.

16 Meira að segja, þegar ég var í Þessaloníku, senduð þér mér oftar en einu sinni til nauðsynja minna.

17 Ekki að mér væri svo umhugað um gjöfina sem um ábata þann, sem ríkulega rennur í yðar reikning.

18 En nú hef ég fengið allt og hef meira en nóg síðan ég af hendi Epafrodítusar tók við sendingunni frá yður, þægilegum ilm, þekkri fórn, Guði velþóknanlegri.

19 En Guð minn mun af auðlegð dýrðar sinnar í Kristi Jesú uppfylla sérhverja þörf yðar.

20 Guði og föður vorum sé dýrðin um aldir alda. Amen.

21 Heilsið öllum heilögum í Kristi Jesú.

22 Bræðurnir, sem hjá mér eru, biðja að heilsa yður. Allir hinir heilögu biðja að heilsa yður, en einkanlega þeir, sem eru í þjónustu keisarans.