A A A A A
Bible Book List

Jesaja 28-30 Icelandic Bible (ICELAND)

28 Vei hinum drembilega höfuðsveig drykkjurútanna í Efraím, hinu bliknandi blómi, hinni dýrlegu prýði, sem stendur á hæðinni í frjósama dalnum hinna víndrukknu.

Sjá, sterk og voldug hetja kemur frá Drottni. Eins og haglskúr, fárviðri, eins og dynjandi, streymandi regn í helliskúr varpar hann honum til jarðar með hendi sinni.

Fótum troðinn skal hann verða, hinn drembilegi höfuðsveigur drykkjurútanna í Efraím.

Og fyrir hinu bliknandi blómi, hinni dýrlegu prýði, sem stendur á hæðinni í frjósama dalnum, skal fara eins og árfíkju, er þroskast fyrir uppskeru: Einhver kemur auga á hana og gleypir hana óðara en hann hefir náð henni.

Á þeim degi mun Drottinn allsherjar vera dýrlegur höfuðsveigur og prýðilegt höfuðdjásn fyrir leifar þjóðar sinnar

og réttlætisandi þeim, er í dómum sitja, og styrkleikur þeim, er bægja burt ófriðnum að borghliðum óvinanna.

En einnig hérna reika menn af víni og skjögra af áfengum drykkjum. Prestar og spámenn reika af áfengum drykkjum, eru ruglaðir af víni, skjögra af áfengum drykkjum. Þá svimar í vitrunum sínum og allt hringsnýst fyrir þeim í úrskurðum þeirra.

Því að öll borð eru full af viðbjóðslegri spýju, enginn blettur hreinn eftir.

"Hverjum þykist spámaðurinn vera að kenna visku og hvern ætlar hann að fræða með boðskap sínum? Erum vér nývandir af mjólkinni og nýteknir af brjóstunum?

10 Alltaf að skipa og skipa, skipa og skipa _ skamma og skamma, skamma og skamma _ ýmist þetta, ýmist hitt."

11 Já, með stamandi vörum og annarlegri tungu mun hann láta tala til þessarar þjóðar,

12 hann sem sagði við þá: "Þetta er hvíldin _ ljáið hinum þreytta hvíld! _ Hér er hvíldarstaður." En þeir vildu ekki heyra.

13 Fyrir því mun orð Drottins láta svo í eyrum þeirra: "Skipa og skipa, skipa og skipa _ skamma og skamma, skamma og skamma _ ýmist þetta, ýmist hitt," að þeir steypist aftur á bak og beinbrotni, festist í snörunni og verði teknir.

14 Heyrið því orð Drottins, þér spottsamir menn, þér sem drottnið yfir fólki því, sem býr í Jerúsalem.

15 Þér segið: "Vér höfum gjört sáttmála við dauðann og samning við Hel. Þó að hin dynjandi svipa ríði yfir, þá mun hún eigi til vor koma, því að vér höfum gjört lygi að hæli voru og falið oss í skjóli svikanna."

16 Fyrir því segir hinn alvaldi Drottinn svo: Sjá, ég legg undirstöðustein á Síon, traustan stein, óbifanlegan, ágætan hornstein. Sá sem trúir, er eigi óðlátur.

17 Ég gjöri réttinn að mælivað og réttlætið að mælilóði. Og haglhríð skal feykja burt hæli lyginnar og vatnsflóð skola burt skjólinu.

18 Sáttmáli yðar við dauðann skal rofinn verða og samningur yðar við Hel eigi standa. Þá er hin dynjandi svipa ríður yfir, skuluð þér sundurmarðir verða af henni.

19 Í hvert sinn, sem hún ríður yfir, skal hún hremma yður, því að á hverjum morgni ríður hún yfir, nótt sem nýtan dag. Og það skal verða skelfingin ein að skilja boðskapinn.

20 Hvílan mun verða of stutt til þess að maður fái rétt úr sér, og ábreiðan of mjó til þess að maður fái skýlt sér með henni.

21 Drottinn mun standa upp, eins og á Perasímfjalli, hann mun reiðast, eins og í dalnum hjá Gíbeon. Hann mun vinna verk sitt, hið undarlega verk sitt, og framkvæma starf sitt, hið óvanalega starf sitt.

22 Látið nú af spottinu, svo að fjötrar yðar verði ekki enn harðari, því að ég hefi heyrt af hinum alvalda, Drottni allsherjar, að fastráðið sé, að eyðing komi yfir land allt.

23 Hlustið á og heyrið mál mitt! Hyggið að og heyrið orð mín!

24 Hvort plægir plógmaðurinn í sífellu til sáningar, ristir upp og herfar akurland sitt?

25 Hvort mun hann eigi, þegar hann hefir jafnað moldina að ofan, sælda þar kryddi og sá kúmeni, setja hveiti niður í raðir, bygg á tilteknum stað og speldi í útjaðarinn?

26 Guð hans kennir honum hina réttu aðferð og leiðbeinir honum.

27 Eigi er krydd þreskt með þreskisleða né vagnhjóli velt yfir kúmen, heldur er kryddblómið barið af með þúst og kúmen með staf.

28 Mun neyslukorn mulið sundur? Nei, menn halda ekki stöðugt áfram að þreskja það og keyra eigi vagnhjól sín né hesta yfir það, menn mylja það eigi sundur.

29 Einnig þetta kemur frá Drottni allsherjar. Hann er undursamlegur í ráðum og mikill í vísdómi.

29 Æ, Aríel, Aríel, þú borg, þar sem Davíð sló herbúðum! Bætið ári við þetta ár, lát hátíðirnar fara sinn hring,

þá þrengi ég að Aríel, og hún skal verða hryggð og harmur, og hún skal verða mér sem Aríel.

Ég vil setja herbúðir allt í kringum þig, umlykja þig með varðmönnum og reisa hervirki í móti þér.

Þú skalt tala lágri röddu upp úr jörðinni, og orð þín hljóma dimmum rómi úr duftinu. Rödd þín skal vera sem draugsrödd úr jörðinni og orð þín hljóma sem hvískur úr duftinu.

En mergð fjandmanna þinna skal verða sem moldryk og mergð ofbeldismannanna sem fjúkandi sáðir. Það skal verða skyndilega, á einu augabragði.

Hennar skal verða vitjað af Drottni allsherjar með reiðarþrumu, landskjálfta og miklum gný, fellibyljum, stormviðri og eyðandi eldsloga.

Eins og í draumsýn um nótt, þannig mun fara fyrir mergð allra þeirra þjóða, sem herja á Aríel, og öllum þeim, sem herja á hana og hervirki hennar og þrengja að henni.

Og eins og þegar hungraðan mann dreymir að hann eti, en vaknar svo jafnhungraður, og eins og þegar þyrstan mann dreymir að hann drekki, en vaknar svo örmagna og sárþyrstur, svo skal fara fyrir mergð allra þeirra þjóða, er herja á Síonfjall.

Fallið í stafi og undrist, gjörið yður sjónlausa og verið blindir! Gjörist drukknir, og þó ekki af víni, reikið, og þó ekki af áfengum drykk.

10 Því að Drottinn hefir úthellt yfir yður svefnsemi-anda og aftur lukt augu yðar _ spámennina _ og brugðið hulu yfir höfuð yðar _ þá sem vitranir fá.

11 Öll opinberun er yður sem orðin í innsiglaðri bók. Sé hún fengin þeim, sem kann að lesa, og sagt: "Les þú þetta," þá segir hann: "Ég get það ekki, því að hún er innsigluð."

12 En sé bókin fengin þeim, sem eigi kann að lesa, og sagt: "Les þú þetta," þá segir hann: "Ég er ekki læs."

13 Drottinn sagði: Með því að þessi lýður nálgast mig með munni sínum og heiðrar mig með vörum sínum, en fjarlægir hjarta sitt langt í burt frá mér, og með því að ótti þeirra fyrir mér er manna boðorð, lærð utan bókar,

14 sjá, fyrir því mun ég enn fara undursamlega með þennan lýð, undursamlega og undarlega. Speki spekinganna skal komast í þrot og hyggindi hyggindamannanna fara í felur.

15 Vei þeim, sem leggjast djúpt til þess að dylja áform sín fyrir Drottni og fremja verk sín í myrkrinu og segja: "Hver sér oss? Hver veit af oss?"

16 Hvílík fásinna! Eða skal meta að jöfnu leirinn og smiðinn, svo að verkið geti sagt um meistarann: "Hann hefir eigi búið mig til," og smíðin geti sagt um smiðinn: "Hann kann ekki neitt?"

17 Eftir skamma hríð skal Líbanonskógur verða að aldingarði og aldingarður talinn verða kjarrskógur.

18 Á þeim degi skulu hinir daufu heyra rituð orð, og augu hinna blindu skulu sjá út úr dimmunni og myrkrinu.

19 Þá mun aukast gleði hinna auðmjúku yfir Drottni, og hinir fátækustu meðal manna munu fagna yfir Hinum heilaga í Ísrael.

20 Því að ofbeldismenn eru ekki framar til og spottarar undir lok liðnir, og allir þeir upprættir, er ranglæti iðka,

21 þeir er sakfella menn fyrir rétti og leggja snörur fyrir þá, er vanda um á þingum, og blekkja hina saklausu með hégóma.

22 Fyrir því segir Drottinn, hann er frelsaði Abraham, svo um Jakobs hús: Jakob skal eigi framar þurfa að blygðast sín og ásjóna hans eigi framar blikna.

23 Því að þegar niðjar hans sjá verk handa minna á meðal sín, munu þeir helga nafn mitt, þeir munu helga Hinn heilaga, Jakobs Guð, og óttast Ísraels Guð.

24 Þá munu hinir andlega villtu átta sig og hinir þverúðarfullu láta sér segjast.

30 Vei hinum þverúðugu börnum _ segir Drottinn. Þau taka saman ráð, er eigi koma frá mér, og gjöra bandalag, án þess að minn andi sé með í verki, til að hlaða synd á synd ofan.

Þau gjöra sér ferð suður til Egyptalands án þess að leita minna atkvæða, til að leita sér hælis hjá Faraó og fá sér skjól í skugga Egyptalands.

En hælið hjá Faraó skal verða yður til skammar og skjólið í skugga Egyptalands til smánar!

Látum höfðingja lýðsins vera í Sóan og sendimenn hans komast alla leið til Hanes!

Þeir munu allir skammast sín fyrir þá þjóð, sem eigi hjálpar þeim, er að engu liði verður og til engrar hjálpar, heldur eingöngu til skammar og háðungar.

Spádómur um dýr Suðurlandsins. Um torfæruland og angistar, þar sem ljónynjur og ljón, eiturormar og flugdrekar hafast við, flytja þeir auðæfi sín á asnabökum og fjársjóðu sína á úlfaldakryppum til þeirrar þjóðar, sem eigi hjálpar þeim.

Liðveisla Egyptalands er fánýt og einskis virði. Fyrir því kalla ég það: Stórgortarinn, er eigi hefst að.

Far nú og rita það á spjald hjá þeim og letra það í bók, svo að það á komandi tímum verði til vitnisburðar ævinlega.

Því að þetta er þrjóskur lýður, lygin börn, börn sem eigi vilja heyra kenningu Drottins.

10 Þau segja við sjáendur: "Þér skuluð eigi sjá sýnir," og við vitranamenn: "Þér skuluð eigi birta oss sannleikann. Sláið oss heldur gullhamra og birtið oss blekkingar.

11 Farið út af veginum, beygið út af brautinni, komið Hinum heilaga í Ísrael burt frá augliti voru."

12 Fyrir því segir Hinn heilagi í Ísrael svo: Sökum þess að þér hafnið þessu orði, en reiðið yður á ofríki og andhælisskap og styðjist við það,

13 fyrir því skal þessi misgjörð verða yður eins og veggjarkafli, sem bungar út á háum múrvegg og kominn er að hruni. Skyndilega og að óvörum hrynur hann.

14 Og hann brotnar sundur, eins og þegar leirker er brotið, vægðarlaust mölvað, svo að af molunum fæst eigi svo mikið sem leirbrot til að taka með eld af arni eða til að ausa með vatni úr þró.

15 Svo hefir hinn alvaldi Drottinn, Hinn heilagi í Ísrael, sagt: Fyrir afturhvarf og rósemi skuluð þér frelsaðir verða, í þolinmæði og trausti skal styrkur yðar vera. En þér vilduð það ekki

16 og sögðuð: "Nei, á hestum skulum vér þjóta" _ fyrir því skuluð þér flýja! _ "og á léttum reiðskjótum skulum vér ríða" _ fyrir því skulu þeir vera léttir á sér, sem elta yður!

17 Eitt þúsund skal flýja fyrir ógnunum eins manns, fyrir ógnunum fimm manna skuluð þér flýja, uns eftirleifar yðar verða sem vitastöng á fjallstindi og sem hermerki á hól.

18 En Drottinn bíður þess að geta miskunnað yður og heldur kyrru fyrir, uns hann getur líknað yður. Því að Drottinn er Guð réttlætis. Sælir eru allir þeir, sem á hann vona.

19 Já, þú lýður í Síon, þú sem býr í Jerúsalem, grát þú eigi án afláts. Hann mun vissulega miskunna þér, þegar þú kallar í neyðinni, hann mun bænheyra þig, þegar hann heyrir til þín.

20 Drottinn mun gefa yður neyðarbrauð og þrengingarvatn. En hann, sem kennir þér, mun þá eigi framar fela sig, heldur munu augu þín líta hann,

21 og eyru þín munu heyra þessi orð kölluð á eftir þér, þá er þér víkið til hægri handar eða vinstri: "Hér er vegurinn! Farið hann!"

22 Þá munuð þér óhrein telja hin silfurlögðu skurðgoð yðar og hin gullbúnu líkneski yðar. Þú munt burt snara þeim eins og einhverri viðurstyggð, þú munt segja við þau: "Burt héðan."

23 Þá mun hann regn gefa sæði því, er þú sáir í akurland þitt, og brauð af gróðri akurlandsins; kjarngott og kostmikið mun það vera; fénaður þinn mun á þeim degi ganga í víðlendum grashaga.

24 Uxarnir og asnarnir, sem akurinn erja, skulu eta saltan fóðurblending, sem hreinsaður hefir verið með varpskóflu og varpkvísl.

25 Á hverju háu fjalli og á hverri gnæfandi hæð munu vatnslækir fram fljóta á hinum mikla mannfallsdegi, þegar turnarnir hrynja.

26 Þá mun tunglsljósið verða sem sólarljós, og sólarljósið sjöfaldast, eins og sjö daga ljós, þann dag er Drottinn bindur um sár þjóðar sinnar og græðir hennar krömdu undir.

27 Sjá, nafn Drottins kemur úr fjarlægð. Reiði hans bálar og þykkan reykjarmökk leggur upp af. Heiftin freyðir um varir hans og tunga hans er sem eyðandi eldur.

28 Andgustur hans er sem ólgandi vatnsfall, það er tekur manni í háls. Hann mun drifta þjóðirnar í sáldi eyðingarinnar og leggja þjóðunum í munn bitil þann, er leiðir þær afvega.

29 Þá munuð þér syngja ljóð, eins og aðfaranótt hátíðar, og hjartans gleði á yður vera, eins og þegar gengið er með hljóðpípum upp á fjall Drottins til hellubjargs Ísraels.

30 Þá mun Drottinn heyra láta hina hátignarlegu raust sína og láta sjá til sín, þegar hann reiðir ofan armlegg sinn í brennandi reiði, með eyðandi eldslogum, með helliskúrum, steypihríðum og hagléljum.

31 Já, fyrir raustu Drottins mun Assýría skelfast, er hann lýstur hana með sprota sínum.

32 Og í hvert sinn sem refsivölur sá, er Drottinn reiðir á lofti uppi yfir henni, kemur niður, mun heyrast bumbuhljóð og gígjusláttur, og með því að sveifla hendinni mun hann berjast gegn þeim.

33 Brennslugróf er þegar fyrir löngu undirbúin, hún er og gjörð handa konunginum. Hann hefir gjört eldstæðið í henni djúpt og vítt, hann ber að mikinn eld og við. Andgustur Drottins kveikir í því, eins og brennisteinsflóð.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes