Add parallel Print Page Options

23 Spádómar um Týrus. Kveinið, þér Tarsisknerrir, því að hún er í eyði lögð! Ekkert hús þar framar, ekkert til að fara inn í! Frá Kýpur berst þeim sú fregn.

Verið hljóðir, þér íbúar eyborgarinnar, sem full var af kaupmönnum frá Sídon, er yfir hafið fara,

og dró að sér Síkor-sáð og Nílarkorn yfir hin miklu höf og var kauptún þjóðanna!

Fyrirverð þig, sæborgin Sídon, því særinn segir: "Eigi hefi ég verið jóðsjúkur og eigi fætt, og eigi hefi ég fóstrað yngismenn né uppalið meyjar."

Þegar fregnin kemur til Egyptalands, munu þeir skelfast af fregninni um Týrus.

Farið yfir til Tarsis og kveinið, þér íbúar eyborgarinnar.

Er þetta glaummikla borgin yðar, sem rekur uppruna sinn fram til fornaldar daga og stikað hefir langar leiðir til þess að taka sér bólfestu?

Hver hefir ályktað svo um Týrus, um hana, sem ber höfuðdjásnið, þar sem kaupmennirnir voru höfðingjar og verslunarmennirnir tignustu menn á jörðu?

Drottinn allsherjar hefir ályktað þetta til þess að ósæma allt hið dýrlega skraut og lægja alla hina tignustu menn á jörðu.

10 Flæð yfir land þitt eins og Nílfljótið, Tarsisdóttir, engir flóðgarðar eru framar til.

11 Drottinn rétti hönd sína út yfir hafið, skelfdi konungsríki. Hann bauð að gjöreyða varnarvirki Kanaans.

12 Hann sagði: Þú skalt aldrei framar leika af kæti, þú spjallaða mey, Sídondóttir. Statt upp og far yfir til Kýprus; þú skalt ekki heldur finna þar hvíld.

13 Sjá land Kaldea, það er þjóðin, sem orðin er að engu. Assýringar hafa fengið það urðarköttum. Þeir reistu vígturna sína, rifu niður hallirnar, gjörðu landið að rústum.

14 Kveinið, þér Tarsis-knerrir, því að varnarvirki yðar er lagt í eyði.

15 Á þeim dögum skal Týrus gleymast í sjötíu ár, eins og um daga eins konungs. En að liðnum sjötíu árum mun fara fyrir Týrus eins og segir í skækjukvæðinu:

16 Tak gígjuna, far um alla borgina, þú gleymda skækja! Leik fagurlega, syng hátt, svo að eftir þér verði munað!

17 Að liðnum þeim sjötíu árum mun Drottinn vitja Týrusar. Mun hún þá aftur fá skækjulaun sín og hórast með öllum konungsríkjum veraldarinnar, þeim sem á jörðinni eru;

18 en aflafé hennar og skækjulaun skulu helguð verða Drottni. Það skal ekki verða lagt í sjóð eða geymt, því að þeir, sem búa frammi fyrir augliti Drottins, skulu fá aflafé hennar sér til fæðslu og saðningar og sæmilegs klæðnaðar.

24 Sjá, Drottinn tæmir jörðina og eyðir hana, hann umhverfir ásjónu hennar og tvístrar íbúum hennar.

Eitt gengur yfir prest og alþýðu, yfir húsbónda og þjón, yfir húsfreyju og þernu, yfir seljanda og kaupanda, yfir lánsala og lánþega, yfir okrarann og skuldunaut hans.

Jörðin skal verða altæmd og gjörsamlega rænd, því að Drottinn hefir talað þetta.

Jörðin viknar og kiknar, heimur bliknar og kiknar, tignarmenni lýðsins á jörðu blikna.

Jörðin vanhelgast undir fótum þeirra, er á henni búa, því að þeir hafa brotið lögin, brjálað boðorðunum og rofið sáttmálann eilífa.

Þess vegna eyðir bölvun jörðinni og íbúar hennar gjalda fyrir það. Þess vegna farast íbúar jarðarinnar af hita, svo að fátt manna er eftir orðið.

Vínberjalögurinn sýtir, vínviðurinn visnar, nú andvarpa allir þeir sem áður voru af hjarta glaðir.

Gleðihljóð bumbnanna er þagnað, hávaði hinna glaðværu hættur, gleðiómur gígjunnar þagnaður.

Menn sitja ekki syngjandi að víndrykkju, þeim sem drekka áfengan drykk, finnst hann beiskur.

10 Borgirnar eru lagðar í eyði, öll hús lokuð, svo að ekki verður inn komist.

11 Á strætunum er harmakvein af vínskortinum, öll gleði er horfin, fögnuður landsins flúinn.

12 Auðnin ein er eftir í borginni, borgarhliðin eru mölbrotin.

13 Því að á jörðinni miðri, á meðal þjóðanna, skal svo fara sem þá er olíuviður er skekinn, sem við eftirtíning að loknum vínberjalestri.

14 Þeir hefja upp raust sína og fagna. Yfir hátign Drottins gjalla gleðiópin í vestri.

15 Vegsamið þess vegna Drottin á austurvegum, nafn Drottins, Ísraels Guðs, á ströndum hafsins!

16 Frá ysta jaðri jarðarinnar heyrðum vér lofsöngva: "Dýrð sé hinum réttláta!" En ég sagði: "Æ, mig auman! Æ, mig auman! Vei mér!" Ránsmenn ræna, ránum ránsmenn ræna.

17 Geigur, gröf og gildra koma yfir þig, jarðarbúi.

18 Sá sem flýr undan hinum geigvæna gný, fellur í gröfina, og sá sem kemst upp úr gröfinni, festist í gildrunni, því að flóðgáttirnar á hæðum ljúkast upp og grundvöllur jarðarinnar skelfur.

19 Jörðin brestur og gnestur, jörðin rofnar og klofnar, jörðin riðar og iðar.

20 Jörðin skjögrar eins og drukkinn maður, henni svipar til og frá eins og vökuskýli. Misgjörð hennar liggur þungt á henni, hún hnígur og fær eigi risið upp framar.

21 Á þeim degi mun Drottinn vitja hers hæðanna á hæðum og konunga jarðarinnar á jörðu.

22 Þeim skal varpað verða í gryfju, eins og fjötruðum bandingjum, og þeir skulu byrgðir verða í dýflissu. Eftir langa stund skal þeim hegnt verða.

23 Þá mun máninn fyrirverða sig og sólin blygðast sín, því að Drottinn allsherjar sest að völdum á Síonfjalli og í Jerúsalem, og fyrir augliti öldunga hans mun dýrð ljóma.

25 Drottinn, þú ert minn Guð! Ég vil vegsama þig, lofa nafn þitt! Þú hefir framkvæmt furðuverk, löngu ráðin ráð, trúfesti og sannleika.

Þú hefir gjört bæi að grjóthrúgu, víggirtar borgir að hruninni rúst. Hallir óvinanna eru eigi framar bæir, þær skulu aldrei verða reistar aftur.

Þess vegna munu harðsnúnar þjóðir heiðra þig og borgir ofríkisfullra þjóða óttast þig.

Þú varst vörn lítilmagnans, vörn hins vesala í nauðum hans, skjól í skúrunum, hlíf í hitanum. Þótt andgustur ofríkismannanna sé eins og kuldaskúrir,

glaumkæti óvinanna eins og sólarbreiskja í ofþurrki, þá sefar þú sólarbreiskjuna með skugganum af skýinu, og sigursöngur ofríkismannanna hljóðnar.

Drottinn allsherjar mun á þessu fjalli búa öllum þjóðum veislu með krásum, veislu með dreggjavíni, mergjuðum krásum og skírðu dreggjavíni.

Og hann mun afmá á þessu fjalli skýlu þá, sem hylur alla lýði, og þann hjúp, sem breiddur er yfir allar þjóðir.

Hann mun afmá dauðann að eilífu, og hinn alvaldi Drottinn mun þerra tárin af hverri ásjónu, og svívirðu síns lýðs mun hann burt nema af allri jörðinni, því að Drottinn hefir talað það.

Á þeim degi mun sagt verða: "Sjá, þessi er vor Guð, vér vonuðum á hann, að hann mundi frelsa oss. Þessi er Drottinn, vér vonuðum á hann. Fögnum og gleðjumst yfir hjálpræði hans!"

10 Hönd Drottins mun hvíla yfir þessu fjalli, en Móab verða fótum troðinn þar sem hann er, eins og hálmur er troðinn niður í haugpolli.

11 Og hann mun breiða út hendur sínar niðri í pollinum, eins og sundmaður gjörir til þess að taka sundtökin. En hann mun lægja dramb hans þrátt fyrir brögð handa hans.

12 Vígi þinna háu múra mun hann að velli leggja, steypa því niður og varpa til jarðar, ofan í duftið.

26 Á þeim degi mun þetta kvæði sungið verða í Júdalandi: Vér eigum rammgerva borg. Hjálpræði sitt gjörir hann að múrum og varnarvirki.

Látið upp hliðin, svo að réttlátur lýður megi inn ganga, sá er trúnaðinn varðveitir

og hefir stöðugt hugarfar. Þú veitir ævarandi frið, því að þeir treysta á þig.

Treystið Drottni æ og ætíð, því að Drottinn, Drottinn er eilíft bjarg.

Hann niðurlægir þá, sem byggja á hæðum. Háreistu borginni steypir hann niður, hann steypir henni til jarðar og leggur hana í duftið.

Fætur troða hana niður, fætur fátækra, iljar umkomulausra.

Vegur hins réttláta er sléttur, götu hins réttláta ryður þú.

Já, á vegi dóma þinna, Drottinn, væntum vér þín; þitt nafn og þína minning þráir sála vor.

Af hjarta þrái ég þig á næturnar, já, með andanum í brjósti mínu skima ég eftir þér. Þegar dómar þínir birtast á jörðu, þá læra byggjendur jarðríkis réttlæti.

10 Sé hinum óguðlegu sýnd vægð, læra þeir eigi réttlæti. Þá fremja þeir órétt í því landi, þar sem réttlæti skal ríkja, og gefa ekki gætur að hátign Drottins.

11 Drottinn, hönd þín er á lofti, en þeir sjá það ekki. Lát þá sjá vandlæti þitt lýðsins vegna og blygðast sín, já, eldur eyði óvinum þínum.

12 Drottinn, veit þú oss frið, því að þú hefir látið oss gjalda allra vorra verka.

13 Drottinn, Guð vor, aðrir drottnar en þú höfðu fengið yfirráð yfir oss, en nú viljum vér eingöngu lofa þitt nafn.

14 Dauðir lifna ekki, vofur rísa ekki upp. Þú vitjaðir þeirra og eyddir þeim og afmáðir alla minningu um þá.

15 Þú hefir gjört þjóðina stóra, Drottinn, þú hefir gjört þjóðina stóra, þú hefir gjört þig dýrlegan, þú hefir fært út öll takmörk landsins.

16 Drottinn, í neyðinni leituðu þeir þín, þeir stundu upp andvörpum, er þú hirtir þá.

17 Eins og þunguð kona, sem komin er að því að fæða, hefir hríðir og hljóðar í harmkvælum sínum, eins vorum vér fyrir þínu augliti, Drottinn!

18 Vér vorum þungaðir, vér höfðum hríðir en þegar vér fæddum, var það vindur. Vér höfum eigi aflað landinu frelsis, og heimsbúar hafa eigi fæðst.

19 Menn þínir, sem dánir eru, skulu lifna, lík þeirra rísa upp. Vaknið og hefjið fagnaðarsöng, þér sem búið í duftinu, því að döggin þín er dögg ljóssins, og jörðin skal fæða þá, sem dauðir eru.

20 Gakk þú, þjóð mín, inn í herbergi þitt og lyk aftur dyrunum á eftir þér. Fel þig skamma hríð, uns reiðin er liðin hjá.

21 Því sjá, Drottinn gengur út frá aðseturstað sínum til þess að hegna íbúum jarðarinnar fyrir misgjörðir þeirra. Jörðin mun birtast láta blóðið, sem á henni hefir verið úthellt, og hún mun ekki lengur hylja þá, sem á henni hafa myrtir verið.

27 Á þeim degi mun Drottinn með hinu harða, mikla og sterka sverði sínu hegna Levjatan, hinum flughraða dreka, Levjatan, hinum bugðótta dreka, og bana sjóskrímslinu.

Á þeim degi skuluð þér kveða um hinn yndislega víngarð:

Ég, Drottinn, er vörður hans, ég vökva hann á hverri stundu. Ég gæti hans nótt og dag, til þess að enginn vinni þar spell.

Mér er ekki reiði í hug, en finni ég þyrna og þistla ræðst ég á þá og brenni þá til ösku _

nema menn leiti hælis hjá mér og gjöri frið við mig, gjöri frið við mig.

Á komandi tímum mun Jakob festa rætur, Ísrael blómgast og frjóvgast, og þeir munu fylla jarðarkringluna með ávöxtum.

Hefir Drottinn lostið lýðinn annað eins högg og það, er hann lýstur þá, sem lustu hann? Eða hefir Ísrael myrtur verið, eins og banamenn hans eru myrtir?

Með því að reka lýðinn frá þér, með því að láta hann frá þér, hegnir þú honum. Hann hreif hann burt með hinum hvassa vindi sínum, þegar austanstormurinn geisaði.

Þess vegna verður misgjörð Jakobs með því afplánuð og með því er synd hans algjörlega burt numin, að hann lætur alla altarissteinana verða sem brotna kalksteina, svo að asérurnar og sólsúlurnar rísa ekki upp framar.

10 Hin víggirta borg er komin í eyði, eins og mannauður og yfirgefinn áfangastaður í eyðimörkinni. Kálfar ganga þar á beit og liggja þar og bíta þar kvisti.

11 Þegar greinarnar þorna, eru þær brotnar, konur koma og kveikja eld við þær. Því að hún var óvitur þjóð, fyrir því getur hann, sem skóp hana, ekki verið henni miskunnsamur, og hann, sem myndaði hana, ekki verið henni líknsamur.

12 Á þeim degi mun Drottinn slá kornið úr axinu, allt í frá straumi Efrats til Egyptalandsár, og þér munuð saman tíndir verða einn og einn, Ísraelsmenn!

13 Á þeim degi mun blásið verða í mikinn lúður, og þá munu þeir koma, hinir töpuðu í Assýríu og hinir burtreknu í Egyptalandi, og þeir munu tilbiðja Drottin á fjallinu helga í Jerúsalem.