A A A A A
Bible Book List

Jesaja 20-22 Icelandic Bible (ICELAND)

20 Árið sem yfirhershöfðinginn kom til Asdód, sendur af Sargon Assýríukonungi, og herjaði á Asdód og vann hana, _

í það mund talaði Drottinn fyrir munn Jesaja Amozsonar á þessa leið: Far og leys hærusekkinn af lendum þér og drag skó þína af fótum þér. Og hann gjörði svo og gekk fáklæddur og berfættur.

Og Drottinn mælti: Eins og Jesaja þjónn minn hefir gengið fáklæddur og berfættur í þrjú ár sem tákn og fyrirburður um Egyptaland og Bláland,

svo skal Assýríukonungur færa burt bandingjana frá Egyptalandi og útlagana frá Blálandi, bæði unga og gamla, fáklædda og berfætta, með bera bakhlutina, Egyptum til smánar.

Þá munu þeir skelfast og skammast sín vegna Blálands, er þeir reiddu sig á, og Egyptalands, er þeir stærðu sig af. Og þeir, sem búa á þessari strönd, munu segja á þeim degi: "Svo er þá komið fyrir þeim, er vér reiddum oss á og flýðum til í von um hjálp til þess að frelsast undan Assýríukonungi! Hversu megum vér þá sjálfir komast undan?"

21 Spádómur um öræfin við hafið. Eins og fellibyljir í suðurlandinu geysist það áfram, það kemur úr öræfunum, úr hinu hræðilega landi.

Hörð tíðindi hafa mér birt verið: "Ránsmenn ræna, hermenn herja! Áfram, Elamítar! Gjörið umsát, Medíumenn! Ég gjöri enda á öllum andvörpum."

Þess vegna skjálfa lendar mínar, þess vegna hremma sárir verkir mig, eins og hríðir jóðsjúka konu. Ég engist saman, svo að ég heyri ekkert, ég er svo agndofa, að ég sé ekkert.

Hjarta mitt er ringlað, skelfing er skyndilega yfir mig komin. Nú er nóttin, sem ég jafnan hefi þráð, orðin mér að skelfingu.

Borðin eru sett fram og ábreiðurnar breiddar á hvílubekkina, etið er og drukkið. "Rísið upp, þjóðhöfðingjar! Smyrjið skjölduna!"

Svo sagði Drottinn við mig: "Far þú og nem staðar á sjónarhólnum og seg, hvað þú sér.

Og sjáir þú menn á reið, tvo reiðmenn, annan ríðandi á asna, hinn á úlfalda, þá legg þú hlustirnar við."

En ég kallaði: "Æ, Drottinn, á ég að standa allan daginn á sjónarhól og vera á varðbergi nótt eftir nótt?"

En sjá, þá komu menn ríðandi, tveir reiðmenn. Og þeir tóku til orða og sögðu: "Fallin, fallin er Babýlon, og allar goðalíkneskjur hennar liggja sundur brotnar á jörðinni."

10 Kramda og þreskta þjóðin mín, það sem ég hefi heyrt af Drottni allsherjar, Guði Ísraels, það hefi ég kunngjört yður.

11 Spádómur um Dúma. Það er kallað til mín frá Seír: "Vökumaður, hvað líður nóttinni? Vökumaður, hvað líður nóttinni?"

12 Vökumaðurinn svarar: "Morgunninn kemur, og þó er nótt. Ef þér viljið spyrja, þá komið aftur og spyrjið."

13 Spádómur um Arabíu. Takið náttstað í kjarrinu að kveldi, þér kaupmannalestir Dedansmanna!

14 Komið út með vatn á móti hinum þyrstu, þér sem búið í Temalandi! Færið brauð flóttamönnunum!

15 Því þeir flýja undan sverðunum, undan brugðnu sverði, undan bendum boga, undan þunga ófriðarins.

16 Því að svo hefir Drottinn sagt við mig: Áður en eitt ár er liðið, eins og ár kaupamanna eru talin, skal öll vegsemd Kedars að engu verða,

17 og leifarnar, sem eftir verða af bogum Kedarínga kappa, munu verða teljandi, því að Drottinn, Ísraels Guð, hefir sagt það.

22 Spádómur um Sjóna-dalinn. Hvað kemur að þér, að allt fólk þitt skuli vera stigið upp á húsþökin,

þú ofkætisfulli, hávaðasami bær, þú glaummikla borg? Menn þínir, sem fallnir eru, hafa ekki fallið fyrir sverði né beðið bana í orustum.

Höfðingjar þínir lögðu allir saman á flótta, voru handteknir án þess skotið væri af boga. Allir menn þínir, er náðust, voru handteknir hver með öðrum, þótt þeir hefðu flúið langt burt.

Þess vegna segi ég: "Látið mig einan, ég vil gráta beisklega. Gjörið mér eigi ónæði með því að hugga mig yfir eyðingu dóttur þjóðar minnar."

Því að dagur skelfingar, undirokunar og úrræðaleysis var kominn frá hinum alvalda, Drottni allsherjar, í Sjóna-dalnum. Múrar voru brotnir niður, óhljóðin heyrðust til fjalla.

Elam tók örvamælinn, ásamt mönnuðum vögnum og hestum, og Kír tók hlífar af skjöldum.

Þínir fegurstu dalir fylltust hervögnum, og riddarar tóku sér stöðu fyrir borgarhliðunum.

Og hann tók skýluna burt frá Júda. Á þeim degi skyggndist þú um eftir herbúnaðinum í Skógarhúsinu,

og þér sáuð, að veggskörðin voru mörg í Davíðsborg. Og þér söfnuðuð vatninu í neðri tjörninni,

10 tölduð húsin í Jerúsalem og rifuð húsin til þess að treysta með múrvegginn.

11 Og þér bjugguð til vatnstæðu milli múrveggjanna tveggja fyrir vatnið úr gömlu tjörninni. En að honum, sem þessu veldur, gáfuð þér eigi gætur, og til hans, sem hagaði þessu svo fyrir löngu, lituð þér ekki.

12 Á þeim degi kallaði hinn alvaldi, Drottinn allsherjar, menn til að gráta og kveina, til að reyta hár sitt og gyrðast hærusekk.

13 En sjá, hér er gleði og glaumur, naut drepin, sauðum slátrað, kjöt etið, vín drukkið: "Etum og drekkum, því á morgun deyjum vér!"

14 Opinberun Drottins allsherjar hljómar í eyrum mínum: "Sannlega skuluð þér eigi fá afplánað þessa misgjörð áður en þér deyið"_ segir hinn alvaldi, Drottinn allsherjar.

15 Svo mælti hinn alvaldi, Drottinn allsherjar: Far þú og gakk til þessa dróttseta, hans Sébna, er forstöðu veitir húsi konungsins:

16 Hvað hefir þú hér að gjöra? Og hvern átt þú hér, er þú lætur höggva þér hér gröf? Þú sem höggva lætur gröf handa þér á háum stað og lætur grafa handa þér legstað í berginu.

17 Sjá, Drottinn varpar þér burt, maður! Hann þrífur fast í þig,

18 vefur þig saman í böggul og þeytir þér sem sopp út á víðan vang. Þar skalt þú deyja og þar skulu þínir dýrlegu vagnar vera, þú sem ert húsi Drottins þíns til svívirðu!

19 Ég hrindi þér úr stöðu þinni, og úr embætti þínu skal þér steypt verða.

20 En á þeim degi mun ég kalla þjón minn, Eljakím Hilkíason.

21 Ég færi hann í kyrtil þinn og gyrði hann belti þínu og fæ honum í hendur vald þitt. Hann skal verða faðir Jerúsalembúa og Júdaniðja.

22 Og lykilinn að húsi Davíðs legg ég á herðar honum. Þegar hann lýkur upp, skal enginn læsa; þegar hann læsir, skal enginn upp ljúka.

23 Ég rek hann eins og nagla á haldgóðan stað, og hann skal verða veglegt hásæti fyrir hús föður síns.

24 En hengi allur þungi föðurættar hans sig á hann með niðjum sínum og skyldmennum, öll smákerin, eigi aðeins skálarnar, heldur og öll leirkerin,

25 þá mun naglinn _ það eru orð Drottins allsherjar, _ sem rekinn var á haldgóðum stað, jafnskjótt láta undan, brotna og detta niður, og byrðin, sem á honum hékk, skal sundur molast, því að Drottinn hefir talað það.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Bréf Páls til Efesusmanna 6 Icelandic Bible (ICELAND)

Þér börn, hlýðið foreldrum yðar vegna Drottins, því að það er rétt.

"Heiðra föður þinn og móður," _ það er hið fyrsta boðorð með fyrirheiti:

"til þess að þér vegni vel og þú verðir langlífur á jörðinni."

Og þér feður, reitið ekki börn yðar til reiði, heldur alið þau upp með aga og umvöndun Drottins.

Þér þrælar, hlýðið yðar jarðnesku herrum með lotningu og ótta, í einlægni hjartans, eins og það væri Kristur.

Ekki með augnaþjónustu, eins og þeir er mönnum vilja þóknast, heldur eins og þjónar Krists, er gjöra vilja Guðs af heilum huga.

Veitið þjónustu yðar af fúsu geði, eins og Drottinn ætti í hlut og ekki menn.

Þér vitið og sjálfir, að sérhver mun fá aftur af Drottni það góða, sem hann gjörir, hvort sem hann er þræll eða frjáls maður.

Og þér, sem eigið þræla, breytið eins við þá. Hættið að ógna þeim. Þér vitið, að þeir eiga í himnunum sama Drottin og þér og hjá honum er ekkert manngreinarálit.

10 Að lokum: Styrkist nú í Drottni og í krafti máttar hans.

11 Klæðist alvæpni Guðs, til þess að þér getið staðist vélabrögð djöfulsins.

12 Því að baráttan, sem vér eigum í, er ekki við menn af holdi og blóði, heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum.

13 Takið því alvæpni Guðs, til þess að þér getið veitt mótstöðu á hinum vonda degi og haldið velli, þegar þér hafið sigrað allt.

14 Standið því gyrtir sannleika um lendar yðar og klæddir brynju réttlætisins

15 og skóaðir á fótunum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðskap friðarins.

16 Takið umfram allt skjöld trúarinnar, sem þér getið slökkt með öll hin eldlegu skeyti hins vonda.

17 Takið við hjálmi hjálpræðisins og sverði andans, sem er Guðs orð.

18 Gjörið það með bæn og beiðni og biðjið á hverri tíð í anda. Verið því árvakrir og staðfastir í bæn fyrir öllum heilögum.

19 Biðjið fyrir mér, að mér verði gefin orð að mæla, þá er ég lýk upp munni mínum, til þess að ég kunngjöri með djörfung leyndardóm fagnaðarerindisins.

20 Þess boðberi er ég í fjötrum mínum. Biðjið, að ég geti flutt það með djörfung, eins og mér ber að tala.

21 En til þess að þér fáið einnig að vita um hagi mína, hvernig mér líður, þá mun Týkíkus, minn elskaði bróðir og trúi aðstoðarmaður í þjónustu Drottins, skýra yður frá öllu.

22 Ég sendi hann til yðar einkum í því skyni, að þér fáið að vita, hvernig oss líður, og til þess að hann uppörvi yður.

23 Friður sé með bræðrunum og kærleikur, samfara trú frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes