Add parallel Print Page Options

Gleð þig ekki, Ísrael, svo að þú ráðir þér ekki fyrir kæti, eins og heiðnu þjóðirnar, því að þú hefir tekið fram hjá Guði þínum, þú hefir elskað hórgjald á öllum kornláfum.

En láfi og vínlagarþró munu ekki vilja við þá kannast, og vínberjalögurinn mun bregðast þeim.

Þeir munu eigi búa kyrrir í landi Drottins, heldur mun Efraím verða að fara aftur til Egyptalands, og þeir munu eta óhreina fæðu í Assýríu.

Þá munu þeir eigi færa Drottni neitt vín að dreypifórn og eigi bera fram fyrir hann sláturfórnir sínar. Brauð þeirra mun verða eins og sorgarbrauð. Allir sem eta það, munu óhreinir verða. Því að brauð þeirra mun aðeins seðja hungur þeirra, en eigi koma í hús Drottins.

Hvað viljið þér gjöra á löghelgum og á hátíðardögum Drottins?

Sjá, þegar þeir eru komnir burt frá eyðingunni, mun Egyptaland samansafna þeim, Memfis veita þeim legstað. Silfurgersemar þeirra munu þistlarnir eignast, þyrnar vaxa í tjöldum þeirra.

Hegningartíminn kemur, endurgjaldstíminn kemur. Ísrael mun sjá, að spámaðurinn verður af því fífl og andans maður óður, að misgjörð þín er svo mikil og ofsóknin svo mikil.

Efraím er á verði gegn Guði mínum. Fyrir spámanninn er lögð fuglarasnara á öllum vegum hans, hersporar í húsi Guðs hans.

Þeir hafa framið mikil óhæfuverk, eins og forðum í Gíbeu. Hann minnist misgjörðar þeirra, hann vitjar synda þeirra.

10 Ég fann Ísrael eins og vínber á eyðimörku, sá feður yðar eins og frumfíkju á fíkjutré, þá er það fyrst ber ávöxt. En er þeir komu til Baal Peór, helguðu þeir sig svívirðingunni og urðu andstyggilegir eins og goðið sem þeir elskuðu.

11 Fólksfjöldi Efraíms mun burt fljúga eins og fuglar, svo að konur skulu þar ekki framar fæða, ekki þungaðar vera og ekki getnað fá.

12 Og þótt þeir ali upp börn sín, þar til er þau verða fulltíða, þá skal ég þó gjöra þá barnlausa, svo að mannskortur verði. Já, vei og sjálfum þeim, þegar ég vík frá þeim.

13 Efraím er, eins og ég lít hann allt til Týrus, gróðursettur á engi, og Efraímítar verða að framselja morðingjum sonu sína.

14 Gef þeim, Drottinn, _ hvað skaltu gefa? gef þeim ófrjósöm móðurlíf og mjólkurlaus brjóst.

15 Öll vonska þeirra kom fram í Gilgal. Já, þar fékk ég hatur á þeim. Vegna hins vonda athæfis þeirra vil ég reka þá burt úr húsi mínu, ég vil eigi elska þá lengur. Allir höfðingjar þeirra eru þvermóðskufullir.

16 Efraím mun lostinn verða, rót þeirra skrælnar, þeir munu engan ávöxt bera. Þótt þeir eignist sonu, mun ég deyða hin elskuðu lífsafkvæmi þeirra.

17 Guð minn mun hafna þeim, því að þeir hafa ekki hlýtt honum, og þeir munu fara landflótta meðal þjóðanna.

10 Ísrael var gróskumikill vínviður, sem bar ávöxt. Því meiri sem ávextir hans urðu, því fleiri ölturu reisti hann. Að sama skapi sem velmegun landsins jókst, prýddu þeir merkissteinana.

Hjarta þeirra var óheilt, fyrir því skulu þeir nú gjöld taka. Hann mun sjálfur rífa niður ölturu þeirra, brjóta sundur merkissteina þeirra.

Já, þá munu þeir segja: "Vér höfum engan konung, því að vér höfum ekki óttast Drottin. Og konungurinn, hvað getur hann gjört fyrir oss?"

Þeir tala hégómaorð, sverja meinsæri, gjöra sáttmála, til þess að rétturinn vaxi eins og eiturjurt upp úr plógförum á akri.

Samaríubúar munu verða skelfingu lostnir út af kálfinum í Betaven, já, lýðurinn mun dapur verða út af honum, enn fremur hofgoðarnir, sem hlökkuðu yfir honum, því að dýrð hans er horfin út í buskann.

Jafnvel sjálfur hann mun fluttur verða til Assýríu sem gjöf handa stórkonunginum. Efraím mun hljóta skömm af og Ísrael fyrirverða sig fyrir ráðagjörð sína.

Samaría skal í eyði lögð verða, konungur hennar skal verða sem tréflís á vatni.

Óheillahæðirnar skulu eyddar verða, þar sem Ísrael syndgaði, þyrnar og þistlar skulu upp vaxa á ölturum þeirra. Og þá munu þeir segja við fjöllin: "Hyljið oss!" og við hálsana: "Hrynjið yfir oss!"

Síðan á Gíbeu-dögum hefir þú syndgað, Ísrael! Þarna standa þeir enn! Hvort mun stríðið gegn glæpamönnunum ná þeim í Gíbeu?

10 Nú vil ég refsa þeim eftir vild minni. Þjóðir skulu saman safnast móti þeim til þess að refsa þeim fyrir báðar misgjörðir þeirra.

11 Efraím er eins og vanin kvíga, sem ljúft er að þreskja. Að vísu hefi ég enn hlíft hinum fagra hálsi hennar, en nú vil ég beita Efraím fyrir, Júda skal plægja, Jakob herfa.

12 Sáið niður velgjörðum, þá munuð þér uppskera góðleik. Takið yður nýtt land til yrkingar, þar eð tími er kominn til að leita Drottins, til þess að hann komi og láti réttlætið rigna yður í skaut.

13 Þér hafið plægt guðleysi, uppskorið ranglæti, etið ávöxtu lyginnar. Þú reiddir þig á vagna þína og á fjölda kappa þinna,

14 því skal og hergnýr rísa gegn mönnum þínum og virki þín skulu öll eydd verða, eins og þegar Salman eyddi Betarbel á ófriðartíma, þá er mæðurnar voru rotaðar ásamt börnunum.

15 Eins mun hann með yður fara, Ísraelsmenn, sökum yðar miklu vonsku. Í dögun mun Ísraelskonungur afmáður verða.

11 Þegar Ísrael var ungur, fékk ég ást á honum, og frá Egyptalandi kallaði ég son minn.

Þegar ég kallaði á þá, fóru þeir burt frá mér. Þeir færðu Baölunum sláturfórnir og skurðgoðunum reykelsisfórnir.

Ég kenndi Efraím að ganga og tók þá á arma mér. En þeir urðu þess ekki varir, að ég læknaði þá.

Með böndum, slíkum sem þeim er menn nota, dró ég þá að mér, með taugum kærleikans, og fór að þeim eins og sá sem lyftir upp okinu á kjálkunum og rétti þeim fæðu.

Þeir skulu snúa aftur til Egyptalands, og Assýringar munu drottna yfir þeim, því að þeir vilja ekki taka sinnaskiptum.

Því skal og sverðið geisa í borgum þeirra og eyðileggja slagbranda þeirra og eyða virkjum þeirra.

Lýður minn hefir stöðuga tilhneiging til þess að snúa við mér bakinu, og þótt kallað sé til þeirra: "Upp á við!" þá hefur enginn sig upp.

Hvernig ætti ég að sleppa hendi af þér, Efraím, ofurselja þig, Ísrael? Ætti ég að fara með þig eins og Adma, útleika þig eins og Sebóím! Hjartað kemst við í brjósti mér, ég kenni brennheitrar meðaumkunar.

Ég vil ekki framkvæma heiftarreiði mína, ekki aftur eyðileggja Efraím. Því að ég er Guð, en ekki maður. Ég bý á meðal yðar sem heilagur Guð og kem ekki til yðar í bræði.

10 Þeir munu fylgja Drottni, sem öskra mun eins og ljón. Já, hann mun öskra, og synir munu koma skjálfandi úr vestri.

11 Þeir munu koma skjálfandi frá Egyptalandi, eins og fuglar, og eins og dúfur frá Assýríu. Þá vil ég láta þá búa í húsum sínum _ segir Drottinn.

Og engli safnaðarins í Sardes skalt þú rita: Þetta segir sá sem hefur þá sjö anda Guðs og stjörnurnar sjö. Ég þekki verkin þín, að þú lifir að nafninu, en ert dauður.

Vakna þú og styrk það sem eftir er og að dauða komið. Því margt hef ég fundið í fari þínu, sem ekki stenst fyrir Guði mínum.

Minnst þú því, hvernig þú tókst á móti og heyrðir, og varðveit það og gjör iðrun. Ef þú vakir ekki, mun ég koma eins og þjófur, og þú munt alls ekki vita, á hverri stundu ég kem yfir þig.

En þú átt fáein nöfn í Sardes, sem ekki hafa saurgað klæði sín, og þeir munu ganga með mér í hvítum klæðum, því að þeir eru maklegir.

Sá er sigrar, hann skal þá skrýðast hvítum klæðum, og eigi mun ég afmá nafn hans úr bók lífsins. Ég mun kannast við nafn hans fyrir föður mínum og fyrir englum hans.

Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.

Og engli safnaðarins í Fíladelfíu skalt þú rita: Þetta segir sá heilagi, sá sanni, sem hefur lykil Davíðs, hann sem lýkur upp, svo að enginn læsir, og læsir, svo að enginn lýkur upp.

Ég þekki verkin þín. Sjá, ég hef látið dyr standa opnar fyrir þér, sem enginn getur lokað. Þú hefur lítinn mátt, en hefur varðveitt orð mitt og ekki afneitað nafni mínu.

Ég skal láta nokkra af samkundu Satans, er segja sjálfa sig vera Gyðinga, en eru það ekki, heldur ljúga, _ ég skal láta þá koma og kasta sér fyrir fætur þér og láta þá vita, að ég elska þig.

10 Af því að þú hefur varðveitt orðið um þolgæði mitt mun ég og varðveita þig frá reynslustundinni, sem koma mun yfir alla heimsbyggðina, til að reyna þá sem á jörðunni búa.

11 Ég kem skjótt. Haltu fast því, sem þú hefur, til þess að enginn taki kórónu þína.

12 Þann er sigrar mun ég gjöra að stólpa í musteri Guðs míns, og hann skal aldrei þaðan út fara. Á hann mun ég rita nafn Guðs míns og nafn borgar Guðs míns, hinnar nýju Jerúsalem, er kemur af himni ofan frá Guði mínum, og nafnið mitt hið nýja.

13 Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.

14 Og engli safnaðarins í Laódíkeu skalt þú rita: Þetta segir hann, sem er amen, votturinn trúi og sanni, upphaf sköpunar Guðs:

15 Ég þekki verkin þín, að þú ert hvorki kaldur né heitur. Betur að þú værir kaldur eða heitur.

16 En af því að þú ert hálfvolgur og hvorki heitur né kaldur, mun ég skyrpa þér út af munni mínum.

17 Þú segir: "Ég er ríkur og orðinn auðugur og þarfnast einskis." Og þú veist ekki, að þú ert vesalingur og aumingi og fátækur og blindur og nakinn.

18 Ég ræð þér, að þú kaupir af mér gull, skírt í eldi, til þess að þú verðir auðugur, og hvít klæði til að skýla þér með, að eigi komi í ljós vanvirða nektar þinnar, og smyrsl að smyrja með augu þín, til þess að þú verðir sjáandi.

19 Alla þá, sem ég elska, tyfta ég og aga. Ver því heilhuga og gjör iðrun.

20 Sjá, ég stend við dyrnar og kný á. Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum, þá mun ég fara inn til hans og neyta kvöldverðar með honum og hann með mér.

21 Þann er sigrar mun ég láta sitja hjá mér í hásæti mínu, eins og ég sjálfur sigraði og settist hjá föður mínum í hásæti hans.

22 Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.