A A A A A
Bible Book List

Hósea 8-14Icelandic Bible (ICELAND)

Set lúðurinn á munn þér! Eins og örn kemur hann yfir hús Drottins. Því að þeir hafa rofið sáttmála minn og vikið frá lögmáli mínu.

Þeir hrópa til mín: "Guð minn! Vér Ísraelsmenn þekkjum þig!"

Ísrael hefir hafnað blessuninni, fyrir því skulu óvinirnir elta hann.

Þeir hafa tekið sér konunga að mér fornspurðum, hafa valið sér höfðingja án minnar vitundar. Af silfri sínu og gulli hafa þeir gjört sér goðalíkneski, aðeins til þess að þeir tortímdust.

Andstyggilegur er kálfur þinn, Samaría. Reiði mín er upptendruð gegn þeim. _ Hversu langt mun þangað til þeir verða hreinir? _

Því að úr Ísrael er hann, hagleiksmaður hefir smíðað hann, en guð er hann ekki. Nei, kálfur Samaríu skal klofinn í spón.

Þeir sá vindi, og storm skulu þeir uppskera, útsæði sem ekkert strá sprettur upp af og ekkert korn fæst úr, og ef nokkuð fengist úr því, mundu útlendingar gleypa það.

Ísrael mun gleyptur verða, hann er nú þegar meðal þjóðanna eins og ker, sem enginn skeytir um.

Því að þeir hafa farið á fund Assýringa eins og villiasni, sem tekur sig út úr. Efraím falar ástir.

10 En þótt þeir fali ástir meðal þjóðanna, þá mun ég nú saman safna þeim, til þess að þeir hætti bráðlega að smyrja konunga og höfðingja.

11 Já, Efraím hefir reist mörg ölturu, ölturun urðu honum til syndar.

12 Þótt ég riti honum lögmálssetningar þúsundum saman, þá eru þær álitnar sem orð útlendings.

13 Þeir fórna sláturfórnum, kjöti og eta það, Drottinn hefir enga velþóknun á þeim. Nú mun hann minnast misgjörðar þeirra og vitja synda þeirra. Þeir skulu hverfa aftur til Egyptalands.

14 Ísrael gleymdi skapara sínum og reisti sér hallir, og Júda byggði margar víggirtar borgir, en ég vil skjóta eldi í borgir hans, og eldurinn skal eyða skrauthýsum hans.

Gleð þig ekki, Ísrael, svo að þú ráðir þér ekki fyrir kæti, eins og heiðnu þjóðirnar, því að þú hefir tekið fram hjá Guði þínum, þú hefir elskað hórgjald á öllum kornláfum.

En láfi og vínlagarþró munu ekki vilja við þá kannast, og vínberjalögurinn mun bregðast þeim.

Þeir munu eigi búa kyrrir í landi Drottins, heldur mun Efraím verða að fara aftur til Egyptalands, og þeir munu eta óhreina fæðu í Assýríu.

Þá munu þeir eigi færa Drottni neitt vín að dreypifórn og eigi bera fram fyrir hann sláturfórnir sínar. Brauð þeirra mun verða eins og sorgarbrauð. Allir sem eta það, munu óhreinir verða. Því að brauð þeirra mun aðeins seðja hungur þeirra, en eigi koma í hús Drottins.

Hvað viljið þér gjöra á löghelgum og á hátíðardögum Drottins?

Sjá, þegar þeir eru komnir burt frá eyðingunni, mun Egyptaland samansafna þeim, Memfis veita þeim legstað. Silfurgersemar þeirra munu þistlarnir eignast, þyrnar vaxa í tjöldum þeirra.

Hegningartíminn kemur, endurgjaldstíminn kemur. Ísrael mun sjá, að spámaðurinn verður af því fífl og andans maður óður, að misgjörð þín er svo mikil og ofsóknin svo mikil.

Efraím er á verði gegn Guði mínum. Fyrir spámanninn er lögð fuglarasnara á öllum vegum hans, hersporar í húsi Guðs hans.

Þeir hafa framið mikil óhæfuverk, eins og forðum í Gíbeu. Hann minnist misgjörðar þeirra, hann vitjar synda þeirra.

10 Ég fann Ísrael eins og vínber á eyðimörku, sá feður yðar eins og frumfíkju á fíkjutré, þá er það fyrst ber ávöxt. En er þeir komu til Baal Peór, helguðu þeir sig svívirðingunni og urðu andstyggilegir eins og goðið sem þeir elskuðu.

11 Fólksfjöldi Efraíms mun burt fljúga eins og fuglar, svo að konur skulu þar ekki framar fæða, ekki þungaðar vera og ekki getnað fá.

12 Og þótt þeir ali upp börn sín, þar til er þau verða fulltíða, þá skal ég þó gjöra þá barnlausa, svo að mannskortur verði. Já, vei og sjálfum þeim, þegar ég vík frá þeim.

13 Efraím er, eins og ég lít hann allt til Týrus, gróðursettur á engi, og Efraímítar verða að framselja morðingjum sonu sína.

14 Gef þeim, Drottinn, _ hvað skaltu gefa? gef þeim ófrjósöm móðurlíf og mjólkurlaus brjóst.

15 Öll vonska þeirra kom fram í Gilgal. Já, þar fékk ég hatur á þeim. Vegna hins vonda athæfis þeirra vil ég reka þá burt úr húsi mínu, ég vil eigi elska þá lengur. Allir höfðingjar þeirra eru þvermóðskufullir.

16 Efraím mun lostinn verða, rót þeirra skrælnar, þeir munu engan ávöxt bera. Þótt þeir eignist sonu, mun ég deyða hin elskuðu lífsafkvæmi þeirra.

17 Guð minn mun hafna þeim, því að þeir hafa ekki hlýtt honum, og þeir munu fara landflótta meðal þjóðanna.

10 Ísrael var gróskumikill vínviður, sem bar ávöxt. Því meiri sem ávextir hans urðu, því fleiri ölturu reisti hann. Að sama skapi sem velmegun landsins jókst, prýddu þeir merkissteinana.

Hjarta þeirra var óheilt, fyrir því skulu þeir nú gjöld taka. Hann mun sjálfur rífa niður ölturu þeirra, brjóta sundur merkissteina þeirra.

Já, þá munu þeir segja: "Vér höfum engan konung, því að vér höfum ekki óttast Drottin. Og konungurinn, hvað getur hann gjört fyrir oss?"

Þeir tala hégómaorð, sverja meinsæri, gjöra sáttmála, til þess að rétturinn vaxi eins og eiturjurt upp úr plógförum á akri.

Samaríubúar munu verða skelfingu lostnir út af kálfinum í Betaven, já, lýðurinn mun dapur verða út af honum, enn fremur hofgoðarnir, sem hlökkuðu yfir honum, því að dýrð hans er horfin út í buskann.

Jafnvel sjálfur hann mun fluttur verða til Assýríu sem gjöf handa stórkonunginum. Efraím mun hljóta skömm af og Ísrael fyrirverða sig fyrir ráðagjörð sína.

Samaría skal í eyði lögð verða, konungur hennar skal verða sem tréflís á vatni.

Óheillahæðirnar skulu eyddar verða, þar sem Ísrael syndgaði, þyrnar og þistlar skulu upp vaxa á ölturum þeirra. Og þá munu þeir segja við fjöllin: "Hyljið oss!" og við hálsana: "Hrynjið yfir oss!"

Síðan á Gíbeu-dögum hefir þú syndgað, Ísrael! Þarna standa þeir enn! Hvort mun stríðið gegn glæpamönnunum ná þeim í Gíbeu?

10 Nú vil ég refsa þeim eftir vild minni. Þjóðir skulu saman safnast móti þeim til þess að refsa þeim fyrir báðar misgjörðir þeirra.

11 Efraím er eins og vanin kvíga, sem ljúft er að þreskja. Að vísu hefi ég enn hlíft hinum fagra hálsi hennar, en nú vil ég beita Efraím fyrir, Júda skal plægja, Jakob herfa.

12 Sáið niður velgjörðum, þá munuð þér uppskera góðleik. Takið yður nýtt land til yrkingar, þar eð tími er kominn til að leita Drottins, til þess að hann komi og láti réttlætið rigna yður í skaut.

13 Þér hafið plægt guðleysi, uppskorið ranglæti, etið ávöxtu lyginnar. Þú reiddir þig á vagna þína og á fjölda kappa þinna,

14 því skal og hergnýr rísa gegn mönnum þínum og virki þín skulu öll eydd verða, eins og þegar Salman eyddi Betarbel á ófriðartíma, þá er mæðurnar voru rotaðar ásamt börnunum.

15 Eins mun hann með yður fara, Ísraelsmenn, sökum yðar miklu vonsku. Í dögun mun Ísraelskonungur afmáður verða.

11 Þegar Ísrael var ungur, fékk ég ást á honum, og frá Egyptalandi kallaði ég son minn.

Þegar ég kallaði á þá, fóru þeir burt frá mér. Þeir færðu Baölunum sláturfórnir og skurðgoðunum reykelsisfórnir.

Ég kenndi Efraím að ganga og tók þá á arma mér. En þeir urðu þess ekki varir, að ég læknaði þá.

Með böndum, slíkum sem þeim er menn nota, dró ég þá að mér, með taugum kærleikans, og fór að þeim eins og sá sem lyftir upp okinu á kjálkunum og rétti þeim fæðu.

Þeir skulu snúa aftur til Egyptalands, og Assýringar munu drottna yfir þeim, því að þeir vilja ekki taka sinnaskiptum.

Því skal og sverðið geisa í borgum þeirra og eyðileggja slagbranda þeirra og eyða virkjum þeirra.

Lýður minn hefir stöðuga tilhneiging til þess að snúa við mér bakinu, og þótt kallað sé til þeirra: "Upp á við!" þá hefur enginn sig upp.

Hvernig ætti ég að sleppa hendi af þér, Efraím, ofurselja þig, Ísrael? Ætti ég að fara með þig eins og Adma, útleika þig eins og Sebóím! Hjartað kemst við í brjósti mér, ég kenni brennheitrar meðaumkunar.

Ég vil ekki framkvæma heiftarreiði mína, ekki aftur eyðileggja Efraím. Því að ég er Guð, en ekki maður. Ég bý á meðal yðar sem heilagur Guð og kem ekki til yðar í bræði.

10 Þeir munu fylgja Drottni, sem öskra mun eins og ljón. Já, hann mun öskra, og synir munu koma skjálfandi úr vestri.

11 Þeir munu koma skjálfandi frá Egyptalandi, eins og fuglar, og eins og dúfur frá Assýríu. Þá vil ég láta þá búa í húsum sínum _ segir Drottinn.

12 Efraím hefir umkringt mig með lygi og Ísraels hús með svikum, og Júda er enn reikull gagnvart Guði og gagnvart Hinum heilaga, sem aldrei breytist.

Efraím sækist eftir vindi og eltir austangoluna. Á hverjum degi hrúga þeir upp lygum og ofbeldisverkum. Þeir gjöra sáttmála við Assýríu, og olífuolía er flutt til Egyptalands.

Drottinn mun ganga í dóm við Júda og hegna Jakob eftir breytni hans, endurgjalda honum eftir verkum hans.

Í móðurkviði lék hann á bróður sinn, og sem fulltíða maður glímdi hann við Guð.

Hann glímdi við engil og bar hærri hlut, hann grét og bað hann líknar. Hann fann hann í Betel og þar talaði hann við hann.

Drottinn, Guð allsherjar, Drottinn er nafn hans.

En þú skalt hverfa aftur með hjálp Guðs þíns. Ástunda miskunnsemi og réttlæti og vona stöðugt á Guð þinn.

Kanaan _ röng vog er í hendi hans, hann er gjarn á að hafa af öðrum með svikum.

Og Efraím segir: "Ég er auðugur orðinn, hefi aflað mér fjár. Við allan gróða minn geta menn ekki fundið neina misgjörð, er sé synd."

10 Ég, Drottinn, er Guð þinn frá því á Egyptalandi, enn get ég látið þig búa í tjöldum eins og á hátíðardögunum.

11 Ég hefi talað til spámannanna, og ég hefi látið þá sjá margar sýnir og talað í líkingum fyrir munn spámannanna.

12 Ef Gíleað er óguðlegt, þá skulu þeir að engu verða. Af því að þeir fórnuðu nautum í Gilgal, þá skulu og ölturu þeirra verða eins og steinhrúgur hjá plógförum á akri.

13 Þegar Jakob flýði til Aramlands, þá gjörðist Ísrael þjónn vegna konu, og vegna konu gætti hann hjarðar.

14 Fyrir spámann leiddi Drottinn Ísrael af Egyptalandi, og fyrir spámann varðveittist hann.

15 Efraím hefir valdið sárri gremju, fyrir því mun Drottinn hans láta blóðskuld hans yfir hann koma og gjalda honum svívirðing hans.

13 Þegar Efraím talaði, sló ótta á menn. Hann var höfðingi í Ísrael. En hann varð sekur fyrir Baalsdýrkunina og dó.

Og nú halda þeir áfram að syndga, þeir hafa gjört sér steypt líkneski úr silfri sínu, goðalíkneski eftir hugviti sínu, verk hagleiksmanna er það allt saman. Og slíkt ávarpa þeir. Fórnandi menn kyssa kálfa.

Fyrir því skulu þeir verða eins og ský að morgni dags og sem dögg, er snemma hverfur, eins og sáðir, sem þyrlast burt af láfanum, og sem reykur út um ljóra.

En ég, Drottinn, er Guð þinn frá því á Egyptalandi. Annan guð en mig þekkir þú ekki og enginn frelsari er til nema ég.

Það var ég, sem hélt þér til haga í eyðimörkinni, í landi þurrkanna.

En því meira haglendi sem þeir fengu, því saddari átu þeir sig. En er þeir voru saddir orðnir, metnaðist hjarta þeirra. Þess vegna gleymdu þeir mér.

Fyrir því er ég þeim eins og ljón, ligg í leyni við veginn eins og pardusdýr,

ræðst á þá eins og birna, sem rænd er húnum sínum, sundurríf brjóst þeirra. Þar skulu ung ljón eta þá, villidýrin slíta þá sundur.

Það verður þér að tjóni, Ísrael, að þú ert á móti mér, hjálpara þínum.

10 Hvar er nú konungur þinn, að hann frelsi þig, og allir höfðingjar þínir, að þeir rétti hluta þinn? _ þeir er þú sagðir um: "Gef mér konung og höfðingja!"

11 Ég gef þér konung í reiði minni og tek hann aftur í bræði minni.

12 Misgjörð Efraíms er saman bundin, synd hans vel geymd.

13 Kvalir jóðsjúkrar konu koma yfir hann, en hann er óvitur sonur. Þótt stundin sé komin, kemur hann ekki fram í burðarliðinn.

14 Ætti ég að frelsa þá frá Heljar valdi, leysa þá frá dauða? Hvar eru drepsóttir þínar, dauði? Hvar er sýki þín, Hel? Augu mín þekkja enga meðaumkun.

15 Því þótt hann beri ávöxt meðal bræðranna, þá kemur þó austanvindurinn, stormur Drottins, sem rís í eyðimörkinni, svo að brunnar hans þorna og lindir hans þrjóta. Hann mun ræna fjársjóð hans öllum dýrmætum gersemum.

14 Samaría fær að gjalda þess, að hún hefir sett sig upp á móti Guði sínum. Fyrir sverði skulu þeir falla, ungbörnum þeirra skal slegið verða niður við og þungaðar konur þeirra ristar verða á kvið.

Snú þú við, Ísrael, til Drottins, Guðs þíns, því að þú steyptist fyrir misgjörð þína.

Takið orð með yður og hverfið aftur til Drottins. Segið við hann: "Fyrirgef með öllu misgjörð vora og ver góður, og vér skulum greiða þér ávöxt vara vorra.

Assýría skal eigi framar hjálpa oss, vér viljum eigi ríða stríðshestum og eigi framar segja ,Guð vor` við verk handa vorra. Því að hjá þér hlýtur hinn munaðarlausi líkn!"

Ég vil lækna fráhvarf þeirra, elska þá af frjálsum vilja, því að reiði mín hefir snúið sér frá þeim.

Ég vil verða Ísrael sem döggin, hann skal blómgast sem lilja og skjóta rótum sem Líbanonsskógur.

Frjóangar hans skulu breiðast út og toppskrúðið verða sem á olíutré og ilmur hans verða sem Líbanonsilmur.

Þeir sem búa í skugga hans, skulu aftur rækta korn og blómgast eins og vínviður. Þeir skulu verða eins nafntogaðir og vínið frá Líbanon.

Hvað á Efraím framar saman við skurðgoðin að sælda? Ég hefi bænheyrt hann, ég lít til hans. Ég er sem laufgrænt kýprestré. Það mun í ljós koma, að ávextir þínir eru frá mér komnir.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes