Add parallel Print Page Options

Orð Drottins, sem kom til Hósea Beerísonar á dögum Ússía, Jótams, Akasar og Hiskía, Júdakonunga, og á dögum Jeróbóams Jóassonar, Ísraelskonungs.

Þá er Drottinn hóf að tala við Hósea, sagði hann við Hósea: "Far og tak þér hórkonu og eignast hórbörn, því að landið drýgir hór og hefir snúist frá Drottni."

Þá fór hann og gekk að eiga Gómer Diblaímsdóttur. Hún varð þunguð og fæddi honum son.

Og Drottinn sagði við hann: "Lát hann heita Jesreel, því að innan skamms vitja ég blóðskuldar Jesreels á ætt Jehú og gjöri enda á konungdómi Ísraels húss.

Á þeim degi sundurbrýt ég boga Ísraels á Jesreel-völlum."

Og hún varð aftur þunguð og ól dóttur. Þá sagði Drottinn við Hósea: "Lát þú hana heita Náðvana, því að ég mun eigi framar auðsýna náð Ísraels húsi, svo að ég fyrirgefi þeim.

En ég mun auðsýna náð Júda húsi og hjálpa þeim fyrir Drottin, Guð þeirra, en ég mun eigi hjálpa þeim með boga, sverði, bardögum, stríðshestum né riddurum."

Og er hún hafði vanið Náðvana af brjósti, varð hún enn þunguð og ól son.

Þá sagði Drottinn: "Lát hann heita Ekki-minn-lýður, því að þér eruð ekki minn lýður, og ég er ekki yðar Guð."

10 Tala Ísraelsmanna skal verða sem sandur á sjávarströnd, sem ekki verður mældur og ekki talinn. Og í stað þess, að sagt var við þá: "Þér eruð ekki minn lýður!" skal við þá sagt verða: "Synir hins lifanda Guðs!"

11 Júdamenn og Ísraelsmenn skulu safnast saman og velja sér einn yfirmann og hefja ferð sína heim úr landinu, því að mikill mun Jesreeldagur verða.

Segið við bræður yðar: "Minn lýður!" og við systur yðar: "Náðþegi!"

Deilið á móður yðar, deilið á hana, því að hún er eigi mín kona og ég er ekki maður hennar, svo að hún fjarlægi hórdóm sinn frá andliti sínu og hjúskaparbrot sín frá brjóstum sínum.

Ella mun ég færa hana úr öllu og láta hana standa nakta, eins og þegar hún fæddist, og gjöra hana eins og eyðimörk og láta hana verða eins og þurrt land og láta hana deyja af þorsta.

Og yfir börn hennar mun ég ekki miskunna mig, því að þau eru hórbörn,

því að móðir þeirra hefir drýgt hór, hún sem þau gat, hefir framið svívirðu. Því að hún sagði: "Ég vil elta friðla mína, sem gefa mér brauð mitt og vatn, ull mína og hör, olífuolíu mína og drykki."

Fyrir því vil ég girða fyrir veg hennar með þyrnum og hlaða vegg fyrir hana, til þess að hún finni ekki stigu sína.

Og þegar hún þá eltir friðla sína, skal hún ekki ná þeim, og er hún leitar þeirra, skal hún ekki finna þá, heldur mun hún segja: "Ég vil fara og snúa aftur til míns fyrra manns, því að þá leið mér betur en nú."

Hún veit þá ekki, að það er ég, sem hefi gefið henni kornið og vínberjalöginn og olífuolíuna og veitt henni gnótt silfurs og gulls, en þeir hafa varið því handa Baal.

Fyrir því vil ég taka aftur korn mitt á korntíðinni og vínberjalög minn, þegar hans ákveðni tími kemur, og nema burt ull mína og hör, er hún skyldi skýla með nekt sinni.

10 Og nú vil ég bera gjöra blygðan hennar í augsýn friðla hennar, _ enginn skal fá hrifið hana úr minni hendi _

11 og gjöra enda á alla kæti hennar, á hátíðir hennar, tunglkomudaga og hvíldardaga og á allar löghátíðir hennar,

12 og eyða víntré hennar og fíkjutré, er hún sagði um: "Þau eru hórgjald, sem friðlar mínir hafa gefið mér!" Og ég vil gjöra þau að kjarrskógi, til þess að villidýrin eti þau.

13 Ég vil hegna henni fyrir daga Baalanna, þá er hún færði þeim reykelsisfórnir og prýddi sig með nefhringum og hálsmenjum og fylgdi friðlum sínum, en gleymdi mér, _ segir Drottinn.

14 Ég vil lokka hana og leiða hana út í eyðimörk og hughreysta hana,

15 og ég gef henni þar víngarða sína og gjöri Mæðudal að Vonarhliði, og þá mun hún verða eftirlát eins og á æskudögum sínum og eins og þá er hún fór burt af Egyptalandi.

16 Á þeim degi, _ segir Drottinn _ munt þú ávarpa mig "Maðurinn minn," en ekki framar kalla til mín "Baal minn."

17 Og ég vil venja hana af að hafa nöfn Baalanna á vörum sér, svo að þeirra skal eigi verða framar getið með nafni.

18 Og á þeim degi gjöri ég fyrir þá sáttmála við dýr merkurinnar og fugla himinsins og skriðkvikindi jarðarinnar, og eyði bogum, sverðum og bardögum úr landinu og læt þá búa örugga.

19 Og ég mun festa þig mér eilíflega, ég mun festa þig mér í réttlæti og réttvísi, í kærleika og miskunnsemi,

20 ég mun festa þig mér í trúfesti, og þú skalt þekkja Drottin.

21 Og á þeim degi mun ég bænheyra, segir Drottinn. Ég mun bænheyra himininn, og hann mun bænheyra jörðina,

22 og jörðin mun bænheyra kornið, vínberjalöginn og olíuna, og þau munu bænheyra Jesreel.

23 Og ég vil gróðursetja lýð minn í landinu og auðsýna Náðvana náð og segja við Ekki-minn-lýð: "Þú ert minn lýður!" og hann mun segja: "Guð minn!"

Drottinn sagði við mig: "Far enn og elska konu, sem elskar annan mann og haft hefir fram hjá, eins og Drottinn elskar Ísraelsmenn, þótt þeir hneigist að öðrum guðum og þyki rúsínukökur góðar."

Þá keypti ég mér hana fyrir fimmtán sikla silfurs og hálfan annan kómer byggs

og sagði við hana: "Langan tíma skalt þú sitja ein án þess að drýgja hór og án þess að heyra nokkrum manni til. Svo skal ég og vera gagnvart þér."

Þannig munu Ísraelsmenn langan tíma sitja einir án konungs og án höfðingja, án fórnar og án merkissteins, án hökuls og húsguða.

Eftir það munu Ísraelsmenn snúa sér og leita Drottins, Guðs síns, og Davíðs, konungs síns, og þeir munu á hinum síðustu dögum flýja til Drottins og til hans blessunar.

Heyrið orð Drottins, þér Ísraelsmenn! Því að Drottinn hefir mál að kæra gegn íbúum landsins, því að í landinu er engin trúfesti, né kærleikur, né þekking á Guði.

Þeir sverja og ljúga, myrða og stela og hafa fram hjá. Þeir brjótast inn í hús, og hvert mannvígið tekur við af öðru.

Fyrir því drúpir landið, og allt visnar sem í því er, jafnvel dýr merkurinnar og fuglar himinsins, og enda fiskarnir í sjónum eru hrifnir burt.

Þó ávíti enginn og álasi enginn. En á yður deili ég, þér prestar.

Þér skuluð steypast á degi, og jafnvel spámennirnir skulu steypast með yður á nóttu, og ég vil afmá móður yðar, Ísrael.

Lýður minn verður afmáður, af því að hann hefir enga þekking. Af því að þér hafið hafnað þekkingunni, þá vil ég hafna yður, svo að þér séuð ekki prestar fyrir mig, og með því að þér hafið gleymt lögmáli Guðs yðar, þá vil ég og gleyma börnum yðar.

Því voldugri sem þeir urðu, því meir syndguðu þeir gegn mér. Vegsemd sinni skipta þeir fyrir smán.

Þeir lifa af synd lýðs míns, og þá langar í misgjörð þeirra.

En fyrir lýðnum skal fara eins og fyrir prestunum: Ég skal hegna honum fyrir athæfi hans og gjalda honum fyrir verk hans.

10 Þeir skulu eta, en þó ekki saddir verða, þeir skulu hórast, en engan unað af því hafa, því að þeir hafa yfirgefið Drottin.

11 Hór, vín og vínberjalögur tekur vitið burt.

12 Lýður minn gengur til frétta við trédrumb sinn, og stafsproti hans veitir honum andsvör. Því að hórdómsandi hefir leitt þá afvega, svo að þeir drýgja hór, ótrúir Guði sínum.

13 Efst uppi á fjöllunum fórna þeir sláturfórnum, og á fórnarhæðunum færa þeir reykelsisfórnir, undir eikum, öspum og terebintum, því að skuggi þeirra er ununarfullur. Fyrir því drýgja dætur yðar hór og fyrir því hafa yðar ungu konur fram hjá.

14 Ég vil ekki hegna dætrum yðar fyrir það að þær drýgja hór, né yðar ungu konum fyrir það að þær hafa fram hjá, því að þeir ganga sjálfir afsíðis með portkonum og fórna sláturfórnum með hofskækjum, og fávitur lýðurinn steypir sér í glötun.

15 Þótt þú, Ísrael, drýgir hór, þá láti Júda sér það ekki á verða. Farið eigi til Gilgal og gangið ekki upp til Betaven og sverjið ekki: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir."

16 Ísrael er orðinn baldinn, eins og baldin kýr. Á Drottinn nú að halda þeim til haga eins og lömbum á víðu haglendi?

17 Efraím er orðinn skurðgoða félagi. Lát hann eiga sig.

18 Víndrykkja þeirra hefir lent í spilling. Þeir drýgja hór, þeir elska svívirðinguna meir en hann, sem er tign þeirra.

19 Vindbylur vefur þá innan í vængi sína, svo að þeir verði til skammar vegna altara sinna.

Heyrið þetta, þér prestar! Takið eftir, þér Ísraelsmenn! Hlýð þú á, konungs hús! Þér áttuð að framfylgja réttlæti, en eruð orðnir snara fyrir Mispa og útþanið net á Tabor.

Þeir grófu djúpa gröf fráhvarfsins, en ég mun refsa þeim öllum.

Ég þekki Efraím, og Ísrael getur ekki dulist fyrir mér. Já, nú hefir þú drýgt hór, Efraím, Ísrael saurgað sig.

Verk þeirra leyfa þeim eigi að snúa aftur til Guðs þeirra, því að hórdómsandi býr í þeim, og Drottin þekkja þeir ekki.

En Ísraels tign mun vitna í gegn þeim, og Ísrael og Efraím munu steypast vegna misgjörðar þeirra. Júda mun og steypast með þeim.

Þegar þeir þá koma með sauði sína og naut til þess að leita Drottins, þá munu þeir ekki finna hann, hann hefir sagt sig lausan við þá.

Drottni hafa þeir verið ótrúir, því að þeir hafa getið óskilgetin börn. Nú skal tunglkoman eyða þeim og ekrum þeirra.

Þeytið lúðurinn í Gíbeu og básúnuna í Rama! Æpið heróp í Betaven! Óvinirnir á hælum þér, Benjamín!

Efraím skal verða að auðn á degi hirtingarinnar. Ísraels ættkvíslum boða ég áreiðanlega hluti.

10 Höfðingjar Júda eru líkir þeim, sem færa landamerki úr stað; yfir þá vil ég úthella reiði minni eins og vatni.

11 Í Efraím er rétturinn ofríki borinn og fótum troðinn, því að honum þóknaðist að elta fánýt goð.

12 Því varð ég sem mölur Efraím og sem nagandi ormur Júda húsi.

13 Er Efraím sá sjúkdóm sinn og Júda mein sitt, þá leitaði Efraím til Assýríu og sendi til stórkonungsins. En hann megnar ekki að lækna yður né að græða mein yðar,

14 því að ég mun verða eins og dýrið óarga fyrir Efraím og eins og ungt ljón Júda húsi. Ég, ég mun sundurrífa og fara burt, bera burt bráðina, án þess að nokkur bjargi.

15 Ég mun fara burt og hverfa aftur á minn stað, uns þeir kannast við afbrot sín og leita míns auglitis. Þegar að þeim þrengir, munu þeir snúa sér til mín.

"Komið, vér skulum hverfa aftur til Drottins, því að hann hefir sundur rifið og mun lækna oss, hann hefir lostið og mun binda um sár vor.

Hann mun lífga oss eftir tvo daga og reisa oss upp á þriðja degi, til þess að vér lifum fyrir hans augliti.

Vér viljum og þekkja, kosta kapps um að þekkja Drottin _ hann mun eins áreiðanlega koma eins og morgunroðinn rennur upp _ svo að hann komi yfir oss eins og regnskúr, eins og vorregn, sem vökvar jörðina."

Hvað skal ég við þig gjöra, Efraím, hvað skal ég við þig gjöra, Júda, þar sem elska yðar er eins hvikul og morgunský, eins og döggin, sem snemma hverfur?

Fyrir því verð ég að vega að þeim fyrir munn spámannanna, bana þeim með orði munns míns, og fyrir því verður dómur minn að birtast eins óbrigðult og dagsljósið rennur upp.

Því að á miskunnsemi hefi ég þóknun, en ekki á sláturfórn, og á guðsþekking fremur en á brennifórnum.

Þeir hafa rofið sáttmálann að manna hætti, þar hafa þeir verið mér ótrúir.

Gíleað er glæpamanna borg, full af blóðferlum,

og prestaflokkurinn er eins og ræningjar, sem veita mönnum fyrirsát. Þeir myrða á veginum til Síkem, já, svívirðing hafa þeir framið.

10 Í Ísraelsríki hefi ég séð hryllilega hluti, þar hefir Efraím drýgt hór, Ísrael saurgað sig.

11 Einnig þér, Júda, hefir hann búið uppskeru. Þegar ég sný við högum þjóðar minnar,

jafnskjótt og ég ætla að lækna Ísrael, koma misgjörðir Efraíms í ljós og illverk Samaríu, því að þeir fremja svik og þjófar brjótast inn í húsin og ræningjasveitir ræna úti fyrir.

Og þeir hugsa ekki um það, að ég man eftir allri illsku þeirra. Nú umkringja gjörðir þeirra þá, eru komnar fyrir auglit mitt.

Þeir gamna konunginum með illsku sinni og höfðingjunum með lygum sínum.

Þeir eru allir hórkarlar, þeir eru eins og glóandi ofn, sem bakarinn aðeins hættir að kynda frá því hann hefir hnoðað deigið, uns það er gagnsýrt.

Á hátíðardegi konungs vors drekka höfðingjarnir sig sjúka í víni, menn leggja lag sitt við gárunga.

Því að innan eru þeir eins og ofn, hjarta þeirra brennur í þeim. Alla nóttina sefur reiði þeirra, á morgnana brennur hún eins og logandi eldur.

Allir eru þeir glóandi eins og ofn, svo að þeir fyrirkoma yfirmönnum sínum. Allir konungar þeirra eru fallnir, enginn ákallar mig á meðal þeirra.

Efraím hefir blandað sér saman við þjóðirnar, Efraím er orðinn eins og kaka, sem ekki hefir verið snúið.

Útlendir menn hafa eytt krafti hans, án þess að hann viti af því, já, hærur eru sprottnar í höfði honum, án þess að hann hafi veitt því eftirtekt.

10 Þrátt fyrir það, þótt vegsemd Ísraels hafi vitnað í gegn þeim, þá hafa þeir ekki snúið sér til Drottins, Guðs síns, og hafa ekki leitað hans, þrátt fyrir allt þetta.

11 En Efraím er orðinn eins og einföld, óskynsöm dúfa: Þeir kalla á Egypta, fara á fund Assýringa.

12 Þegar þeir fara þangað, breiði ég net mitt yfir þá, steypi þeim niður eins og fugli í loftinu, tyfta þá, eins og söfnuði þeirra hefir boðað verið.

13 Vei þeim, að þeir reika langt í burt frá mér! Eyðing yfir þá, að þeir hafa brugðið trúnaði við mig! Ég hefi leyst þá, og þeir hafa talað lygar gegn mér,

14 og hrópuðu ekki til mín af hjarta, heldur kveinuðu í rekkjum sínum. Vegna korns og vínberjalagar ristu þeir á sig skinnsprettur, mér fráhverfir.

15 Og þó er það ég, sem hefi frætt þá, sem hefi gjört armleggi þeirra styrka. En gagnvart mér hafa þeir illt í hyggju.

16 Þeir snúa sér, en ekki í hæðirnar. Þeir eru eins og svikull bogi. Höfðingjar þeirra munu falla fyrir sverði vegna ósvífni tungu sinnar. Fyrir það munu menn hæða þá á Egyptalandi.