A A A A A
Bible Book List

Fyrsta bók Móse 8-11 Icelandic Bible (ICELAND)

Þá minntist Guð Nóa og allra dýranna og alls fénaðarins, sem með honum var í örkinni, og Guð lét vind blása yfir jörðina, svo að vatnið sjatnaði.

Og uppsprettur undirdjúpsins luktust aftur og flóðgáttir himinsins, og steypiregninu úr loftinu linnti.

Og vatnið rénaði meir og meir á jörðinni og þvarr eftir hundrað og fimmtíu daga.

Og örkin nam staðar í sjöunda mánuðinum, á seytjánda degi mánaðarins, á Araratsfjöllunum.

Og vatnið var að réna allt til hins tíunda mánaðar. Í tíunda mánuðinum, á fyrsta degi mánaðarins, sáust fjallatindarnir.

Eftir fjörutíu daga lauk Nói upp glugga arkarinnar, sem hann hafði gjört,

og lét út hrafn. Hann flaug fram og aftur, þangað til vatnið þornaði á jörðinni.

Þá sendi hann út frá sér dúfu til að vita, hvort vatnið væri þorrið á jörðinni.

En dúfan fann ekki hvíldarstað fæti sínum og hvarf til hans aftur í örkina, því að vatn var enn yfir allri jörðinni. Og hann rétti út hönd sína og tók hana og fór með hana inn til sín í örkina.

10 Og hann beið enn aðra sjö daga og sendi svo dúfuna aftur úr örkinni.

11 Þá kom dúfan til hans aftur undir kveld og var þá með grænt olíuviðarblað í nefinu. Þá sá Nói, að vatnið var þorrið á jörðinni.

12 Og enn beið hann aðra sjö daga og lét þá dúfuna út, en hún hvarf ekki framar til hans aftur.

13 Og á sexhundraðasta og fyrsta ári, í fyrsta mánuðinum, á fyrsta degi mánaðarins, var vatnið þornað á jörðinni. Og Nói tók þakið af örkinni og litaðist um, og var þá yfirborð jarðarinnar orðið þurrt.

14 Í öðrum mánuðinum, á tuttugasta og sjöunda degi mánaðarins, var jörðin þurr.

15 Þá talaði Guð við Nóa og mælti:

16 "Gakk þú úr örkinni, þú og kona þín og synir þínir og sonakonur þínar með þér.

17 Og láttu fara út með þér öll dýr, sem með þér eru, af öllu holdi, bæði fuglana og fénaðinn og öll skriðkvikindin, sem skríða á jörðinni. Verði krökkt af þeim á jörðinni, verði þau frjósöm og fjölgi á jörðinni."

18 Þá gekk Nói út og synir hans og kona hans og sonakonur hans með honum.

19 Öll dýr, öll skriðkvikindi, allir fuglar, allt, sem bærist á jörðinni, hvað eftir sinni tegund, gekk út úr örkinni.

20 Nói reisti þá Drottni altari og tók af öllum hreinum dýrum og hreinum fuglum og fórnaði brennifórn á altarinu.

21 Og Drottinn kenndi þægilegan ilm, og Drottinn sagði við sjálfan sig: "Ég vil upp frá þessu ekki bölva jörðinni framar vegna mannsins, því að hugrenningar mannshjartans eru illar frá bernsku hans, og ég mun upp frá þessu ekki framar deyða allt, sem lifir, eins og ég hefi gjört.

22 Meðan jörðin stendur, skal ekki linna sáning og uppskera, frost og hiti, sumar og vetur, dagur og nótt."

Guð blessaði Nóa og sonu hans og sagði við þá: "Verið frjósamir, margfaldist og uppfyllið jörðina.

Ótti við yður og skelfing skal vera yfir öllum dýrum jarðarinnar, yfir öllum fuglum loftsins, yfir öllu, sem hrærist á jörðinni, og yfir öllum fiskum sjávarins. Á yðar vald er þetta gefið.

Allt sem hrærist og lifir, skal vera yður til fæðu, ég gef yður það allt, eins og grænu jurtirnar.

Aðeins hold, sem sálin, það er blóðið, er í, skuluð þér ekki eta.

En yðar eigin blóðs mun ég hins vegar krefjast. Af hverri skepnu mun ég þess krefjast, og af manninum, af bróður hans, mun ég krefjast lífs mannsins.

Hver sem úthellir mannsblóði, hans blóði skal af manni úthellt verða. Því að eftir Guðs mynd gjörði hann manninn.

En ávaxtist þér og margfaldist og vaxið stórum á jörðinni og margfaldist á henni."

Og Guð mælti þannig við Nóa og sonu hans, sem voru með honum:

"Sjá, ég gjöri minn sáttmála við yður og við niðja yðar eftir yður

10 og við allar lifandi skepnur, sem með yður eru, bæði við fuglana og fénaðinn og öll villidýrin, sem hjá yður eru, allt, sem út gekk úr örkinni, það er öll dýr jarðarinnar.

11 Minn sáttmála vil ég gjöra við yður: Aldrei framar skal allt hold tortímast af vatnsflóði, og aldrei framar mun flóð koma til að eyða jörðina."

12 Og Guð sagði: "Þetta er merki sáttmálans, sem ég gjöri milli mín og yðar og allra lifandi skepna, sem hjá yður eru, um allar ókomnar aldir:

13 Boga minn set ég í skýin, að hann sé merki sáttmálans milli mín og jarðarinnar.

14 Og þegar ég dreg ský saman yfir jörðinni og boginn sést í skýjunum,

15 þá mun ég minnast sáttmála míns, sem er milli mín og yðar og allra lifandi sálna í öllu holdi, og aldrei framar skal vatnið verða að flóði til að tortíma öllu holdi.

16 Og boginn skal standa í skýjunum, og ég mun horfa á hann til þess að minnast hins eilífa sáttmála milli Guðs og allra lifandi sálna í öllu holdi, sem er á jörðinni."

17 Og Guð sagði við Nóa: "Þetta er teikn sáttmálans, sem ég hefi gjört milli mín og alls holds, sem er á jörðinni."

18 Synir Nóa, sem gengu úr örkinni, voru þeir Sem, Kam og Jafet, en Kam var faðir Kanaans.

19 Þessir eru synir Nóa þrír, og frá þeim byggðist öll jörðin.

20 Nói gjörðist akuryrkjumaður og plantaði víngarð.

21 Og hann drakk af víninu og varð drukkinn og lá nakinn í tjaldi sínu.

22 Og Kam, faðir Kanaans, sá nekt föður síns og sagði báðum bræðrum sínum frá, sem úti voru.

23 Þá tóku þeir Sem og Jafet skikkjuna og lögðu á herðar sér og gengu aftur á bak og huldu nekt föður síns, en andlit þeirra sneru undan, svo að þeir sáu ekki nekt föður síns.

24 Er Nói vaknaði af vímunni, varð hann þess áskynja, hvað sonur hans hinn yngri hafði gjört honum.

25 Þá mælti hann: Bölvaður sé Kanaan, auvirðilegur þræll sé hann bræðra sinna.

26 Og hann sagði: Lofaður sé Drottinn, Sems Guð, en Kanaan sé þræll þeirra.

27 Guð gefi Jafet mikið landrými, og hann búi í tjaldbúðum Sems, en Kanaan sé þræll þeirra.

28 Nói lifði eftir flóðið þrjú hundruð og fimmtíu ár.

29 Og allir dagar Nóa voru níu hundruð og fimmtíu ár. Þá andaðist hann.

10 Þetta er ættartala Nóa sona, Sems, Kams og Jafets. Þeim fæddust synir eftir flóðið.

Synir Jafets: Gómer, Magog, Madaí, Javan, Túbal, Mesek og Tíras.

Og synir Gómers: Askenas, Rífat og Tógarma.

Og synir Javans: Elísa, Tarsis, Kittar og Ródanítar.

Út frá þeim kvísluðust þeir, sem byggja eylönd heiðingjanna. Þetta eru synir Jafets eftir löndum þeirra, hver eftir sinni tungu, eftir kynþáttum þeirra og samkvæmt þjóðerni þeirra.

Synir Kams: Kús, Mísraím, Pút og Kanaan.

Og synir Kúss: Seba, Havíla, Sabta, Raema og Sabteka. Og synir Raema: Séba og Dedan.

Kús gat Nimrod. Hann tók að gjörast voldugur á jörðinni.

Hann var mikill veiðimaður fyrir Drottni. Því er máltækið: "Mikill veiðimaður fyrir Drottni eins og Nimrod."

10 Og upphaf ríkis hans var Babel, Erek, Akkad og Kalne í Sínearlandi.

11 Frá þessu landi hélt hann til Assýríu og byggði Níníve, Rehóbót-Ír og Kala,

12 og Resen milli Níníve og Kala, það er borgin mikla.

13 Mísraím gat Lúdíta, Anamíta, Lekabíta, Naftúkíta,

14 Patrúsíta, Kaslúkíta (þaðan eru komnir Filistar) og Kaftóríta.

15 Kanaan gat Sídon, frumgetning sinn, og Het

16 og Jebúsíta, Amoríta, Gírgasíta,

17 Hevíta, Arkíta, Síníta,

18 Arvadíta, Semaríta og Hamatíta. Og síðan breiddust út kynkvíslir Kanaanítanna.

19 Landamerki Kanaanítanna eru frá Sídon um Gerar allt til Gasa, þá er stefnan til Sódómu og Gómorru og Adma og Sebóím, allt til Lasa.

20 Þetta eru synir Kams eftir kynþáttum þeirra, eftir tungum þeirra, samkvæmt löndum þeirra og þjóðerni.

21 En Sem, ættfaðir allra Ebers sona, eldri bróðir Jafets, eignaðist og sonu.

22 Synir Sems: Elam, Assúr, Arpaksad, Lúd og Aram.

23 Og synir Arams: Ús, Húl, Geter og Mas.

24 Arpaksad gat Sela, og Sela gat Eber.

25 Og Eber fæddust tveir synir. Hét annar Peleg, því að á hans dögum greindist fólkið á jörðinni, en bróðir hans hét Joktan.

26 Og Joktan gat Almódad, Salef, Hasarmavet, Jara,

27 Hadóram, Úsal, Dikla,

28 Óbal, Abímael, Seba,

29 Ófír, Havíla og Jóbab. Þessir allir eru synir Joktans.

30 Og bústaður þeirra var frá Mesa til Sefar, til austurfjallanna.

31 Þetta eru synir Sems, eftir ættkvíslum þeirra, eftir tungum þeirra, samkvæmt löndum þeirra, eftir þjóðerni þeirra.

32 Þetta eru ættkvíslir Nóa sona eftir ættartölum þeirra, samkvæmt þjóðerni þeirra, og frá þeim kvísluðust þjóðirnar út um jörðina eftir flóðið.

11 Öll jörðin hafði eitt tungumál og ein og sömu orð.

Og svo bar við, er þeir fóru stað úr stað í austurlöndum, að þeir fundu láglendi í Sínearlandi og settust þar að.

Og þeir sögðu hver við annan: "Gott og vel, vér skulum hnoða tigulsteina og herða í eldi." Og þeir notuðu tigulsteina í stað grjóts og jarðbik í stað kalks.

Og þeir sögðu: "Gott og vel, vér skulum byggja oss borg og turn, sem nái til himins, og gjörum oss minnismerki, svo að vér tvístrumst ekki um alla jörðina."

Þá steig Drottinn niður til þess að sjá borgina og turninn, sem mannanna synir voru að byggja.

Og Drottinn mælti: "Sjá, þeir eru ein þjóð og hafa allir sama tungumál, og þetta er hið fyrsta fyrirtæki þeirra. Og nú mun þeim ekkert ófært verða, sem þeir taka sér fyrir hendur að gjöra.

Gott og vel, stígum niður og ruglum þar tungumál þeirra, svo að enginn skilji framar annars mál."

Og Drottinn tvístraði þeim þaðan út um alla jörðina, svo að þeir urðu af að láta að byggja borgina.

Þess vegna heitir hún Babel, því að þar ruglaði Drottinn tungumál allrar jarðarinnar, og þaðan tvístraði hann þeim um alla jörðina.

10 Þetta er ættartala Sems: Sem var hundrað ára gamall, er hann gat Arpaksad, tveim árum eftir flóðið.

11 Og Sem lifði, eftir að hann gat Arpaksad, fimm hundruð ár og gat sonu og dætur.

12 Er Arpaksad var þrjátíu og fimm ára, gat hann Sela.

13 Og Arpaksad lifði, eftir að hann gat Sela, fjögur hundruð og þrjú ár og gat sonu og dætur.

14 Er Sela var þrjátíu ára, gat hann Eber.

15 Og Sela lifði, eftir að hann gat Eber, fjögur hundruð og þrjú ár og gat sonu og dætur.

16 Er Eber var þrjátíu og fjögurra ára, gat hann Peleg.

17 Og Eber lifði, eftir að hann gat Peleg, fjögur hundruð og þrjátíu ár og gat sonu og dætur.

18 Er Peleg var þrjátíu ára, gat hann Reú.

19 Og Peleg lifði, eftir að hann gat Reú, tvö hundruð og níu ár og gat sonu og dætur.

20 Er Reú var þrjátíu og tveggja ára, gat hann Serúg.

21 Og Reú lifði, eftir að hann gat Serúg, tvö hundruð og sjö ár og gat sonu og dætur.

22 Er Serúg var þrjátíu ára, gat hann Nahor.

23 Og Serúg lifði, eftir að hann gat Nahor, tvö hundruð ár og gat sonu og dætur.

24 Er Nahor var tuttugu og níu ára, gat hann Tara.

25 Og Nahor lifði, eftir að hann gat Tara, hundrað og nítján ár og gat sonu og dætur.

26 Er Tara var sjötíu ára, gat hann Abram, Nahor og Haran.

27 Þetta er saga Tara: Tara gat Abram, Nahor og Haran, en Haran gat Lot.

28 Og Haran dó á undan Tara föður sínum í ættlandi sínu, í Úr í Kaldeu.

29 Og Abram og Nahor tóku sér konur. Kona Abrams hét Saraí, en kona Nahors Milka, dóttir Harans, föður Milku og föður Ísku.

30 En Saraí var óbyrja, hún átti eigi börn.

31 Þá tók Tara Abram son sinn og Lot Haransson, sonarson sinn, og Saraí tengdadóttur sína, konu Abrams sonar síns, og lagði af stað með þau frá Úr í Kaldeu áleiðis til Kanaanlands, og þau komu til Harran og settust þar að.

32 Og dagar Tara voru tvö hundruð og fimm ár. Þá andaðist Tara í Harran.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes