Add parallel Print Page Options

46 Ísrael lagði af stað með allt sitt, og hann kom til Beerseba og færði þar Guði Ísaks föður síns sláturfórn.

Og Guð talaði við Ísrael í sýn um nóttina og sagði: "Jakob, Jakob!" Og hann svaraði: "Hér er ég."

Og hann sagði: "Ég er Guð, Guð föður þíns. Óttast þú ekki að fara til Egyptalands, því að þar mun ég gjöra þig að mikilli þjóð.

Ég mun fara með þér til Egyptalands, og ég mun líka flytja þig þaðan aftur, og Jósef skal veita þér nábjargirnar."

Þá tók Jakob sig upp frá Beerseba, og Ísraels synir fluttu Jakob föður sinn og börn sín og konur sínar á vögnunum, sem Faraó hafði sent til að flytja hann á.

Og þeir tóku fénað sinn og fjárhluti, sem þeir höfðu aflað sér í Kanaanlandi, og komu til Egyptalands, Jakob og allir niðjar hans með honum.

Sonu sína og sonasonu, dætur sínar og sonadætur og alla niðja sína flutti hann með sér til Egyptalands.

Þessi eru nöfn Ísraels sona, sem komu til Egyptalands: Jakob og synir hans: Rúben, frumgetinn son Jakobs.

Synir Rúbens: Hanok, Pallú, Hesron og Karmí.

10 Synir Símeons: Jemúel, Jamín, Óhad, Jakín, Sóar og Sál, sonur kanversku konunnar.

11 Synir Leví: Gerson, Kahat og Merarí.

12 Synir Júda: Ger, Ónan, Sela, Peres og Sera. En Ger og Ónan dóu í Kanaanlandi. Synir Peres voru: Hesron og Hamúl.

13 Synir Íssakars: Tóla, Púva, Job og Símron.

14 Synir Sebúlons: Sered, Elon og Jahleel.

15 Þessir voru synir Leu, sem hún fæddi Jakob í Mesópótamíu, ásamt Dínu dóttur hans. Allir synir hans og dætur voru að tölu þrjátíu og þrjú.

16 Synir Gaðs: Sífjón, Haggí, Súní, Esbon, Erí, Aródí og Arelí.

17 Synir Assers: Jimna, Jísva, Jísví, Bría og Sera, systir þeirra. Synir Bría voru: Heber og Malkíel.

18 Þessir voru synir Silpu, sem Laban gaf Leu dóttur sinni. Hún ól Jakob þessa, sextán sálir.

19 Synir Rakelar, konu Jakobs: Jósef og Benjamín.

20 En Jósef fæddust synir í Egyptalandi: Manasse og Efraím, sem Asenat, dóttir Pótífera prests í Ón, ól honum.

21 Synir Benjamíns: Bela, Beker, Asbel, Gera, Naaman, Ehí, Rós, Múppím, Húppím og Ard.

22 Þetta voru synir Rakelar, sem hún ól Jakob, alls fjórtán sálir.

23 Sonur Dans: Húsín.

24 Synir Naftalí: Jahseel, Gúní, Jeser og Sillem.

25 Þessir voru synir Bílu, sem Laban gaf Rakel dóttur sinni, og þessa ól hún Jakob, sjö sálir alls.

26 Allar þær sálir, sem komu með Jakob til Egyptalands og af honum voru komnar, voru sextíu og sex að tölu, auk sonakvenna Jakobs.

27 Og synir Jósefs, sem honum höfðu fæðst í Egyptalandi, voru tveir að tölu. Allar þær sálir af ætt Jakobs, sem komu til Egyptalands, voru sjötíu að tölu.

28 Jakob sendi Júda á undan sér til Jósefs, að hann vísaði sér veginn til Gósen. Og þeir komu til Gósenlands.

29 Þá lét Jósef beita fyrir vagn sinn og fór á móti Ísrael föður sínum til Gósen, og er fundum þeirra bar saman, féll hann um háls honum og grét lengi um háls honum.

30 Og Ísrael sagði við Jósef: "Nú vil ég glaður deyja, fyrst ég hefi séð auglit þitt, að þú ert enn á lífi."

31 Og Jósef sagði við bræður sína og við frændlið föður síns: "Nú vil ég fara og láta Faraó vita og segja við hann: ,Bræður mínir og frændlið föður míns, sem var í Kanaanlandi, er til mín komið.

32 Og mennirnir eru hjarðmenn, því að þeir hafa stundað kvikfjárrækt, og sauði sína og nautpening sinn og allt, sem þeir eiga, hafa þeir haft hingað með sér.`

33 Þegar nú Faraó lætur kalla yður og spyr: ,Hver er atvinna yðar?`

34 þá skuluð þér svara: ,Kvikfjárrækt hafa þjónar þínir stundað frá barnæsku allt til þessa dags, bæði vér og feður vorir,` _ til þess að þér fáið að búa í Gósenlandi, því að Egyptar hafa andstyggð á öllum hjarðmönnum."

47 Því næst gekk Jósef fyrir Faraó, sagði honum frá og mælti: "Faðir minn og bræður mínir eru komnir úr Kanaanlandi með sauði sína og nautgripi og allt, sem þeir eiga, og eru nú í Gósenlandi."

En hann hafði tekið fimm af bræðrum sínum með sér og leiddi þá fyrir Faraó.

Þá mælti Faraó við bræður Jósefs: "Hver er atvinna yðar?" Og þeir svöruðu Faraó: "Þjónar þínir eru hjarðmenn, bæði vér og feður vorir."

Og þeir sögðu við Faraó: "Vér erum komnir til að staðnæmast um hríð í landinu, því að enginn hagi er fyrir sauði þjóna þinna, af því að hallærið er mikið í Kanaanlandi. Leyf því þjónum þínum að búa í Gósenlandi."

Faraó sagði við Jósef: "Faðir þinn og bræður þínir eru komnir til þín.

Egyptaland er þér heimilt, lát þú föður þinn og bræður þína búa þar sem landkostir eru bestir. Búi þeir í Gósenlandi, og ef þú þekkir nokkra duglega menn meðal þeirra, þá fel þeim yfirumsjón hjarða minna."

Þá fór Jósef inn með Jakob föður sinn og leiddi hann fyrir Faraó. Og Jakob heilsaði Faraó með blessunaróskum.

Og Faraó sagði við Jakob: "Hversu gamall ert þú?"

Og Jakob svaraði Faraó: "Vegferðartími minn er hundrað og þrjátíu ár. Fáir og illir hafa dagar lífs míns verið og ná ekki þeirri áratölu, er feður mínir náðu á vegferð sinni."

10 Síðan kvaddi Jakob Faraó með blessunaróskum og gekk út frá honum.

11 Og Jósef fékk föður sínum og bræðrum bústaði og gaf þeim fasteign í Egyptalandi, þar sem bestir voru landkostir, í Ramseslandi, eins og Faraó hafði boðið.

12 Og Jósef sá föður sínum og bræðrum sínum og öllu skylduliði föður síns fyrir viðurværi eftir tölu barnanna.

13 Algjör skortur var á neyslukorni um allt landið, því að hallærið var mjög mikið, og Egyptaland og Kanaanland voru að þrotum komin af hungrinu.

14 Og Jósef dró saman allt það silfur, sem til var í Egyptalandi og Kanaanlandi, fyrir kornið, sem þeir keyptu, og Jósef skilaði silfrinu í hús Faraós.

15 Og er silfur þraut í Egyptalandi og í Kanaanlandi, þá komu allir Egyptar til Jósefs og sögðu: "Lát oss fá brauð! _ hví skyldum vér deyja fyrir augum þér? _ því að silfur þrýtur."

16 Og Jósef mælti: "Komið hingað með fénað yðar, ég skal gefa yður korn til neyslu fyrir fénað yðar, ef silfur þrýtur."

17 Þá fóru þeir með fénað sinn til Jósefs, og hann lét þá fá neyslukorn fyrir hestana, sauðféð, nautpeninginn og asnana, og hann birgði þá upp með korni það árið fyrir allan fénað þeirra.

18 Og er það árið var liðið, komu þeir til hans næsta ár og sögðu við hann: "Eigi viljum vér leyna herra vorn því, að silfrið er allt þrotið og kvikfénaður vor er orðinn eign herra vors. Nú er ekki annað eftir handa herra vorum en líkamir vorir og ekrur vorar.

19 Hví skyldum vér farast fyrir augsýn þinni, bæði vér og ekrur vorar? Kaup þú oss og ekrur vorar fyrir brauð, þá viljum vér með ekrum vorum vera þrælar Faraós, og gef þú oss sáðkorn, að vér megum lífi halda og ekki deyja og ekrurnar leggist ekki í auðn."

20 Þá keypti Jósef allar ekrur Egypta handa Faraó, því að Egyptar seldu hver sinn akur, þar eð hungrið svarf að þeim. Og þannig eignaðist Faraó landið.

21 Og landslýðinn gjörði hann að þrælum frá einum enda Egyptalands til annars.

22 Ekrur prestanna einar keypti hann ekki, því að prestarnir höfðu ákveðnar tekjur frá Faraó og þeir lifðu af hinum ákveðnu tekjum sínum, sem Faraó gaf þeim. Fyrir því seldu þeir ekki ekrur sínar.

23 Þá sagði Jósef við lýðinn: "Sjá, nú hefi ég keypt yður og ekrur yðar Faraó til handa. Hér er sáðkorn handa yður, og sáið nú ekrurnar.

24 En af ávextinum skuluð þér skila Faraó fimmta hluta, en hina fjóra fimmtuhlutana skuluð þér hafa til þess að sá akrana, og yður til viðurlífis og heimafólki yðar og börnum yðar til framfærslu."

25 Og þeir svöruðu: "Þú hefir haldið í oss lífinu. Lát oss finna náð í augum þínum, herra minn, og þá viljum vér vera þrælar Faraós."

26 Og Jósef leiddi það í lög, sem haldast allt til þessa dags, að Faraó skyldi fá fimmta hlutann af akurlendi Egypta. Ekrur prestanna einar urðu ekki eign Faraós.

27 Ísrael bjó í Egyptalandi, í Gósenlandi, og þeir festu þar byggð og juku kyn sitt, svo að þeim fjölgaði mjög.

28 Jakob lifði í seytján ár í Egyptalandi, og dagar Jakobs, æviár hans, voru hundrað fjörutíu og sjö ár.

29 Er dró að dauða Ísraels, lét hann kalla Jósef son sinn og sagði við hann: "Hafi ég fundið náð í augum þínum, þá legg hönd þína undir lend mína og auðsýn mér elsku og trúfesti: Jarða mig ekki í Egyptalandi.

30 Ég vil hvíla hjá feðrum mínum, og skalt þú flytja mig burt úr Egyptalandi og jarða mig í gröf þeirra." Og hann svaraði: "Ég vil gjöra svo sem þú hefir fyrir mælt."

31 Þá sagði Jakob: "Vinn þú mér eið að því!" Og hann vann honum eiðinn. Og Ísrael hallaði sér niður að höfðalaginu.