Add parallel Print Page Options

Maðurinn kenndi konu sinnar Evu, og hún varð þunguð og fæddi Kain og mælti: "Sveinbarn hefi ég eignast með hjálp Drottins."

Og hún fæddi annað sinn, bróður hans, Abel. Abel varð hjarðmaður, en Kain jarðyrkjumaður.

Og er fram liðu stundir, færði Kain Drottni fórn af ávexti jarðarinnar.

En Abel færði einnig fórn af frumburðum hjarðar sinnar og af feiti þeirra.

Og Drottinn leit með velþóknun til Abels og fórnar hans, en til Kains og fórnar hans leit hann ekki með velþóknun. Þá reiddist Kain ákaflega og varð niðurlútur.

Þá mælti Drottinn til Kains: "Hví reiðist þú, og hví ert þú niðurlútur?

Er því ekki þannig farið: Ef þú gjörir rétt, þá getur þú verið upplitsdjarfur, en ef þú gjörir ekki rétt, þá liggur syndin við dyrnar og hefir hug á þér, en þú átt að drottna yfir henni?"

Þá sagði Kain við Abel bróður sinn: "Göngum út á akurinn!" Og er þeir voru á akrinum, réðst Kain á Abel bróður sinn og drap hann.

Þá sagði Drottinn við Kain: "Hvar er Abel bróðir þinn?" En hann mælti: "Það veit ég ekki. Á ég að gæta bróður míns?"

10 Og Drottinn sagði: "Hvað hefir þú gjört? Heyr, blóð bróður þíns hrópar til mín af jörðinni!

11 Og skalt þú nú vera bölvaður og burt rekinn af akurlendinu, sem opnaði munn sinn til að taka á móti blóði bróður þíns af þinni hendi.

12 Þegar þú yrkir akurlendið, skal það eigi framar gefa þér gróður sinn. Landflótta og flakkandi skalt þú vera á jörðinni."

13 Og Kain sagði við Drottin: "Sekt mín er meiri en svo, að ég fái borið hana!

14 Sjá, nú rekur þú mig burt af akurlendinu, og ég verð að felast fyrir augliti þínu og vera landflótta og flakkandi á jörðinni, og hver, sem hittir mig, mun drepa mig."

15 Þá sagði Drottinn við hann: "Fyrir því skal hver, sem drepur Kain, sæta sjöfaldri hegningu." Og Drottinn setti Kain merki þess, að enginn, sem hitti hann, skyldi drepa hann.

16 Þá gekk Kain burt frá augliti Drottins og settist að í landinu Nód fyrir austan Eden.

17 Kain kenndi konu sinnar, og hún varð þunguð og fæddi Henok. En hann var að byggja borg og nefndi borgina eftir nafni sonar síns Henok.

18 Og Henoki fæddist Írad, og Írad gat Mehújael, og Mehújael gat Metúsael, og Metúsael gat Lamek.

19 Lamek tók sér tvær konur. Hét önnur Ada, en hin Silla.

20 Og Ada ól Jabal. Hann varð ættfaðir þeirra, sem í tjöldum búa og fénað eiga.

21 En bróðir hans hét Júbal. Hann varð ættfaðir allra þeirra, sem leika á gígjur og hjarðpípur.

22 Og Silla ól einnig son, Túbal-Kain, sem smíðaði úr kopar og járni alls konar tól. Og systir Túbal-Kains var Naama.

23 Lamek sagði við konur sínar: Ada og Silla, heyrið orð mín, konur Lameks, gefið gaum ræðu minni! Mann drep ég fyrir hvert mitt sár og ungmenni fyrir hverja þá skeinu, sem ég fæ.

24 Verði Kains hefnt sjö sinnum, þá skal Lameks hefnt verða sjö og sjötíu sinnum!

25 Og Adam kenndi enn að nýju konu sinnar, og hún ól son og kallaði hann Set. "Því að nú hefir Guð," kvað hún, "gefið mér annað afkvæmi í stað Abels, þar eð Kain drap hann."

26 En Set fæddist og sonur, og nefndi hann nafn hans Enos. Þá hófu menn að ákalla nafn Drottins.

Þetta er ættarskrá Adams: Þegar Guð skapaði Adam, gjörði Guð hann sér líkan.

Hann skóp þau mann og konu og blessaði þau og nefndi þau menn, er þau voru sköpuð.

Adam lifði hundrað og þrjátíu ár. Þá gat hann son í líking sinni, eftir sinni mynd, og nefndi hann Set.

Og dagar Adams, eftir að hann gat Set, voru átta hundruð ár, og hann gat sonu og dætur.

Og allir dagar Adams, sem hann lifði, voru níu hundruð og þrjátíu ár. Þá dó hann.

Þegar Set var orðinn hundrað og fimm ára gamall gat hann Enos.

Eftir að Set gat Enos lifði hann átta hundruð og sjö ár og gat sonu og dætur.

Og allir dagar Sets voru níu hundruð og tólf ár, þá andaðist hann.

Enos var níutíu ára, er hann gat Kenan.

10 Og eftir að Enos gat Kenan lifði hann átta hundruð og fimmtán ár og gat sonu og dætur.

11 Og allir dagar Enoss voru níu hundruð og fimm ár, þá andaðist hann.

12 Þá er Kenan var sjötíu ára, gat hann Mahalalel.

13 Og Kenan lifði, eftir að hann gat Mahalalel, átta hundruð og fjörutíu ár og gat sonu og dætur.

14 Og allir dagar Kenans urðu níu hundruð og tíu ár, þá andaðist hann.

15 Er Mahalalel var sextíu og fimm ára, gat hann Jared.

16 Og Mahalalel lifði, eftir að hann gat Jared, átta hundruð og þrjátíu ár og gat sonu og dætur.

17 Og allir dagar Mahalalels voru átta hundruð níutíu og fimm ár, þá andaðist hann.

18 Er Jared var hundrað sextíu og tveggja ára, gat hann Enok.

19 Og Jared lifði, eftir að hann gat Enok, átta hundruð ár og gat sonu og dætur.

20 Og allir dagar Jareds voru níu hundruð sextíu og tvö ár, þá andaðist hann.

21 Er Enok var sextíu og fimm ára, gat hann Metúsala.

22 Og eftir að Enok gat Metúsala gekk hann með Guði þrjú hundruð ár og gat sonu og dætur.

23 Og allir dagar Enoks voru þrjú hundruð sextíu og fimm ár.

24 Og Enok gekk með Guði og hvarf, af því að Guð nam hann burt.

25 Er Metúsala var hundrað áttatíu og sjö ára, gat hann Lamek.

26 Og Metúsala lifði, eftir að hann gat Lamek, sjö hundruð áttatíu og tvö ár og gat sonu og dætur.

27 Og allir dagar Metúsala voru níu hundruð sextíu og níu ár, þá andaðist hann.

28 Er Lamek var hundrað áttatíu og tveggja ára, gat hann son.

29 Og hann nefndi hann Nóa og mælti: "Þessi mun hugga oss í erfiði voru og striti handa vorra, er jörðin, sem Drottinn bölvaði, bakar oss."

30 Og Lamek lifði, eftir að hann gat Nóa, fimm hundruð níutíu og fimm ár og gat sonu og dætur.

31 Og allir dagar Lameks voru sjö hundruð sjötíu og sjö ár, þá andaðist hann.

32 Og er Nói var fimm hundruð ára, gat hann Sem, Kam og Jafet.

Er mönnunum tók að fjölga á jörðinni og þeim fæddust dætur,

sáu synir Guðs, að dætur mannanna voru fríðar, og tóku sér konur meðal þeirra, allar sem þeim geðjuðust.

Þá sagði Drottinn: "Andi minn skal ekki ævinlega búa í manninum, með því að hann einnig er hold. Veri dagar hans nú hundrað og tuttugu ár."

Á þeim tímum voru risarnir á jörðinni, og einnig síðar, er synir Guðs höfðu samfarir við dætur mannanna og þær fæddu þeim sonu. Það eru kapparnir, sem í fyrndinni voru víðfrægir.

Er Drottinn sá, að illska mannsins var mikil á jörðinni og að allar hugrenningar hjarta hans voru ekki annað en illska alla daga,

þá iðraðist Drottinn þess, að hann hafði skapað mennina á jörðinni, og honum sárnaði það í hjarta sínu.

Og Drottinn sagði: "Ég vil afmá af jörðinni mennina, sem ég skapaði, bæði mennina, fénaðinn, skriðkvikindin og fugla loftsins, því að mig iðrar, að ég hefi skapað þau."

En Nói fann náð í augum Drottins.

Þetta er saga Nóa: Nói var maður réttlátur og vandaður á sinni öld. Nói gekk með Guði.

10 Og Nói gat þrjá sonu: Sem, Kam og Jafet.

11 Jörðin var spillt í augsýn Guðs, og jörðin fylltist glæpaverkum.

12 Og Guð leit á jörðina, og sjá, hún var spillt orðin, því að allt hold hafði spillt vegum sínum á jörðinni.

13 Þá mælti Guð við Nóa: "Endir alls holds er kominn fyrir minni augsýn, því að jörðin er full af glæpaverkum þeirra. Sjá, ég vil afmá þá af jörðinni.

14 Gjör þú þér örk af góferviði. Smáhýsi skalt þú gjöra í örkinni og bræða hana biki utan og innan.

15 Og gjör hana svo: Lengd arkarinnar sé þrjú hundruð álnir, breidd hennar fimmtíu álnir og hæð hennar þrjátíu álnir.

16 Glugga skalt þú gjöra á örkinni og búa hann til á henni ofanverðri, allt að alin á hæð, og dyr arkarinnar skalt þú setja á hlið hennar og búa til þrjú loft í henni: neðst, í miðju og efst.

17 Því sjá, ég læt vatnsflóð koma yfir jörðina til að tortíma öllu holdi undir himninum, sem lífsandi er í. Allt, sem á jörðinni er, skal deyja.

18 En við þig mun ég gjöra sáttmála minn, og þú skalt ganga í örkina, þú og synir þínir, og kona þín og sonakonur þínar með þér.

19 Af öllum lifandi skepnum, af öllu holdi, skalt þú láta inn í örkina tvennt af hverju, svo að það haldi lífi með þér. Karldýr og kvendýr skulu þau vera:

20 Af fuglunum eftir þeirra tegund, af fénaðinum eftir hans tegund og af öllum skriðkvikindum jarðarinnar eftir þeirra tegund. Tvennt af öllu skal til þín inn ganga, til þess að það haldi lífi.

21 En tak þú þér af allri fæðu, sem etin er, og safna að þér, að það sé þér og þeim til viðurværis."

22 Og Nói gjörði svo. Allt gjörði hann eins og Guð bauð honum.

Þegar Jesús var fæddur í Betlehem í Júdeu á dögum Heródesar konungs, komu vitringar frá Austurlöndum til Jerúsalem

og sögðu: "Hvar er hinn nýfæddi konungur Gyðinga? Vér sáum stjörnu hans renna upp og erum komnir að veita honum lotningu."

Þegar Heródes heyrði þetta, varð hann skelkaður og öll Jerúsalem með honum.

Og hann stefndi saman öllum æðstu prestum og fræðimönnum lýðsins og spurði þá: "Hvar á Kristur að fæðast?"

Þeir svöruðu honum: "Í Betlehem í Júdeu. En þannig er ritað hjá spámanninum:

Þú Betlehem, í landi Júda, ekki ertu síst meðal hefðarborga Júda. Því að höfðingi mun frá þér koma, sem verður hirðir lýðs míns, Ísraels."

Þá kallaði Heródes vitringana til sín á laun og grófst eftir því hjá þeim, nær stjarnan hefði birst.

Hann sendi þá síðan til Betlehem og sagði: "Farið og spyrjist vandlega fyrir um barnið, og er þér finnið það látið mig vita, til þess að ég geti einnig komið og veitt því lotningu."

Þeir hlýddu á konung og fóru. Og stjarnan, sem þeir sáu austur þar, fór fyrir þeim, uns hana bar þar yfir, sem barnið var.

10 Þegar þeir sáu stjörnuna, glöddust þeir harla mjög,

11 þeir gengu inn í húsið og sáu barnið og Maríu, móður þess, féllu fram og veittu því lotningu. Síðan luku þeir upp fjárhirslum sínum og færðu því gjafir, gull, reykelsi og myrru.

12 En þar sem þeir fengu bendingu í draumi að snúa ekki aftur til Heródesar, fóru þeir aðra leið heim í land sitt.

13 Þegar þeir voru farnir, þá vitrast engill Drottins Jósef í draumi og segir: "Rís upp, tak barnið og móður þess og flý til Egyptalands. Þar skaltu vera, uns ég segi þér, því að Heródes mun leita barnsins til að fyrirfara því."

14 Hann vaknaði, tók barnið og móður þess um nóttina og fór til Egyptalands.

15 Þar dvaldist hann þangað til Heródes var allur. Það sem Drottinn sagði fyrir munn spámannsins, skyldi rætast: "Frá Egyptalandi kallaði ég son minn."

16 Þá sá Heródes, að vitringarnir höfðu gabbað hann, og varð afar reiður, sendi menn og lét myrða öll sveinbörn í Betlehem og nágrenni hennar, tvævetur og yngri, en það svaraði þeim tíma, er hann hafði komist að hjá vitringunum.

17 Nú rættist það, sem sagt var fyrir munn Jeremía spámanns:

18 Rödd heyrðist í Rama, grátur og kveinstafir miklir, Rakel grætur börnin sín og vill ekki huggast láta, því að þau eru ekki framar lífs.

19 Þegar Heródes var dáinn, þá vitrast engill Drottins Jósef í draumi í Egyptalandi

20 og segir: "Rís upp, tak barnið og móður þess og far til Ísraelslands. Nú eru þeir dánir, sem sátu um líf barnsins."

21 Hann tók sig upp og fór til Ísraelslands með barnið og móður þess.

22 En þá er hann heyrði, að Arkelás réð ríkjum í Júdeu í stað Heródesar föður síns, óttaðist hann að fara þangað, og hélt til Galíleubyggða eftir bendingu í draumi.

23 Þar settist hann að í borg, sem heitir Nasaret, en það átti að rætast, sem sagt var fyrir munn spámannanna: "Nasarei skal hann kallast."