Add parallel Print Page Options

38 Um þessar mundir bar svo við, að Júda fór frá bræðrum sínum og lagði lag sitt við mann nokkurn í Adúllam, sem Híra hét.

Þar sá Júda dóttur kanversks manns, sem Súa hét, og tók hana og hafði samfarir við hana.

Og hún varð þunguð og ól son, og hún nefndi hann Ger.

Og hún varð þunguð í annað sinn og ól son, og hún nefndi hann Ónan.

Og enn ól hún son og nefndi hann Sela. En hún var í Kesíb, er hún ól hann.

Og Júda tók konu til handa Ger, frumgetnum syni sínum. Hún hét Tamar.

En Ger, frumgetinn sonur Júda, var vondur í augum Drottins, svo að Drottinn lét hann deyja.

Þá mælti Júda við Ónan: "Gakk þú inn til konu bróður þíns og gegn þú mágskyldunni við hana, að þú megir afla bróður þínum afkvæmis."

En með því að Ónan vissi, að afkvæmið skyldi eigi verða hans, þá lét hann sæðið spillast á jörðu í hvert sinn er hann gekk inn til konu bróður síns, til þess að hann aflaði eigi bróður sínum afkvæmis.

10 En Drottni mislíkaði það, er hann gjörði, og lét hann einnig deyja.

11 Þá sagði Júda við Tamar tengdadóttur sína: "Ver þú sem ekkja í húsi föður þíns, þangað til Sela sonur minn verður fulltíða." Því að hann hugsaði: "Ella mun hann og deyja, eins og bræður hans." Fór Tamar þá burt og var í húsi föður síns.

12 En er fram liðu stundir, andaðist dóttir Súa, kona Júda. Og er Júda lét af harminum, fór hann upp til Timna, til sauðaklippara sinna, hann og Híra vinur hans frá Adúllam.

13 Var þá Tamar sagt svo frá: "Sjá, tengdafaðir þinn fer upp til Timna að klippa sauði sína."

14 Þá fór hún úr ekkjubúningi sínum, huldi sig blæju og hjúpaði sig og settist við hlið Enaímborgar, sem er við veginn til Timna. Því að hún sá, að Sela var orðinn fulltíða, og hún var þó ekki honum gefin fyrir konu.

15 Júda sá hana og hugði, að hún væri skækja, því að hún hafði hulið andlit sitt.

16 Og hann vék til hennar við veginn og mælti: "Leyf mér að leggjast með þér!" Því að hann vissi ekki, að hún var tengdadóttir hans. Hún svaraði: "Hvað viltu gefa mér til þess, að þú megir leggjast með mér?"

17 Og hann mælti: "Ég skal senda þér hafurkið úr hjörðinni." Hún svaraði: "Fáðu mér þá pant, þangað til þú sendir það."

18 Þá mælti hann: "Hvaða pant skal ég fá þér?" En hún svaraði: "Innsiglishring þinn og festi þína og staf þinn, sem þú hefir í hendinni." Og hann fékk henni þetta og lagðist með henni, og hún varð þunguð af hans völdum.

19 Því næst stóð hún upp, gekk burt og lagði af sér blæjuna og fór aftur í ekkjubúning sinn.

20 Og Júda sendi hafurkiðið með vini sínum frá Adúllam, svo að hann fengi aftur pantinn af hendi konunnar, en hann fann hana ekki.

21 Og hann spurði menn í þeim stað og sagði: "Hvar er portkonan, sem sat við veginn hjá Enaím?" En þeir svöruðu: "Hér hefir engin portkona verið."

22 Fór hann þá aftur til Júda og mælti: "Ég fann hana ekki, enda sögðu menn í þeim stað: ,Hér hefir engin portkona verið."`

23 Þá mælti Júda: "Haldi hún því, sem hún hefir, að vér verðum ekki hafðir að spotti. Sjá, ég sendi þetta kið, en þú hefir ekki fundið hana."

24 Að þrem mánuðum liðnum var Júda sagt: "Tamar tengdadóttir þín hefir drýgt hór, og meira að segja: Hún er þunguð orðin í hórdómi." Þá mælti Júda: "Leiðið hana út, að hún verði brennd."

25 En er hún var út leidd, gjörði hún tengdaföður sínum þessa orðsending: "Af völdum þess manns, sem þetta á, er ég þunguð orðin." Og hún sagði: "Hygg þú að, hver eiga muni innsiglishring þennan, festi og staf."

26 En Júda kannaðist við gripina og mælti: "Hún hefir betri málstað en ég, fyrir þá sök að ég hefi eigi gift hana Sela syni mínum." Og hann kenndi hennar ekki upp frá því.

27 En er hún skyldi verða léttari, sjá, þá voru tvíburar í kviði hennar.

28 Og í fæðingunni rétti annar út höndina. Tók þá ljósmóðirin rauðan þráð og batt um hönd hans og sagði: "Þessi kom fyrr í ljós."

29 En svo fór, að hann kippti aftur að sér hendinni, og þá kom bróðir hans í ljós. Þá mælti hún: "Hví hefir þú brotist svo fram þér til góða?" Og hún nefndi hann Peres.

30 Eftir það fæddist bróðir hans, og var rauði þráðurinn um hönd hans. Og hún nefndi hann Sera.

39 Jósef var fluttur til Egyptalands, og Pótífar, hirðmaður Faraós og lífvarðarforingi, maður egypskur, keypti hann af Ísmaelítum, sem hann höfðu þangað flutt.

En Drottinn var með Jósef, svo að hann varð maður lángefinn, og hann var í húsi húsbónda síns, hins egypska manns.

Og er húsbóndi hans sá, að Drottinn var með honum og að Drottinn lét honum heppnast allt, sem hann tók sér fyrir hendur,

þá fann Jósef náð í augum hans og þjónaði honum. Og hann setti hann yfir hús sitt og fékk honum í hendur allt, sem hann átti.

Og upp frá þeirri stundu, er hann hafði sett Jósef yfir hús sitt og yfir allt, sem hann átti, blessaði Drottinn hús hins egypska manns sakir Jósefs, og blessun Drottins var yfir öllu, sem hann átti innan húss og utan.

Og hann fól Jósef til umráða allar eigur sínar og var afskiptalaus um allt hjá honum og gekk aðeins að máltíðum. Jósef var vel vaxinn og fríður sýnum.

Og eftir þetta bar svo til, að kona húsbónda hans renndi augum til Jósefs og mælti: "Leggstu með mér!"

En hann færðist undan og sagði við konu húsbónda síns: "Sjá, húsbóndi minn lítur ekki eftir neinu í húsinu hjá mér, og allar eigur sínar hefir hann fengið mér í hendur.

Hann hefir ekki meira vald í þessu húsi en ég, og hann fyrirmunar mér ekkert nema þig, með því að þú ert kona hans. Hvernig skyldi ég þá aðhafast þessa miklu óhæfu og syndga á móti Guði?"

10 Og þó að hún leitaði til við Jósef með þessum orðum dag eftir dag, þá lét hann ekki að vilja hennar að leggjast með henni og hafa samfarir við hana.

11 Þá bar svo til einn dag, er hann gekk inn í húsið til starfa sinna og enginn heimilismanna var þar inni,

12 að hún greip í skikkju hans og mælti: "Leggstu með mér!" En hann lét skikkjuna eftir í hendi hennar og flýði og hljóp út.

13 En er hún sá, að hann hafði látið eftir skikkjuna í hendi hennar og var flúinn út,

14 þá kallaði hún á heimafólk sitt og mælti við það: "Sjáið, hann hefir fært oss hebreskan mann til þess að dára oss. Hann kom inn til mín og vildi hafa lagst með mér, en ég æpti hástöfum.

15 Og er hann heyrði, að ég hrópaði og kallaði, lét hann skikkju sína eftir hjá mér og flýði og hljóp út."

16 Því næst geymdi hún skikkju hans hjá sér þangað til húsbóndi hans kom heim.

17 Sagði hún honum þá sömu söguna og mælti: "Hebreski þrællinn, sem þú hefir til vor haft, kom til mín til þess að dára mig.

18 En þegar ég hrópaði og kallaði, lét hann eftir skikkju sína hjá mér og flýði út."

19 Er húsbóndi hans heyrði orð konu sinnar, er hún talaði við hann svo mælandi: "Þannig hefir þræll þinn hegðað sér við mig," þá varð hann ákaflega reiður.

20 Og húsbóndi Jósefs tók hann og setti hann í myrkvastofu, þar sem bandingjar konungs voru geymdir, og hann sat þar í myrkvastofunni.

21 Drottinn var með Jósef og veitti honum mannahylli og lét hann finna náð í augum forstjóra myrkvastofunnar.

22 Og forstjóri myrkvastofunnar fékk Jósef á vald alla bandingjana, sem voru í myrkvastofunni. Og hvað eina, sem þeir gjörðu þar, gjörðu þeir að hans fyrirlagi.

23 Forstjóri myrkvastofunnar leit ekki eftir neinu, sem var undir hans hendi, því að Drottinn var með honum. Og hvað sem hann gjörði, það lét Drottinn heppnast.

40 Eftir þetta varð sá atburður, að byrlari konungsins í Egyptalandi og bakarinn brutu á móti herra sínum, Egyptalandskonungi.

Og Faraó reiddist báðum hirðmönnum sínum, yfirbyrlaranum og yfirbakaranum,

og lét setja þá í varðhald í húsi lífvarðarforingjans, í myrkvastofuna, þar sem Jósef var í haldi.

Og lífvarðarforinginn setti Jósef til þess að þjóna þeim, og voru þeir nú um hríð í varðhaldi.

Þá dreymdi þá báða draum, byrlara og bakara konungsins í Egyptalandi, sem haldnir voru í myrkvastofunni, sinn drauminn hvorn sömu nóttina, og hafði hvor draumurinn sína þýðingu.

Og er Jósef kom inn til þeirra um morguninn, sá hann að þeir voru óglaðir.

Spurði hann þá hirðmenn Faraós, sem voru með honum í varðhaldi í húsi húsbónda hans, og mælti: "Hvers vegna eruð þið svo daprir í bragði í dag?"

En þeir svöruðu honum: "Okkur hefir dreymt draum, og hér er enginn, sem geti ráðið hann." Þá sagði Jósef við þá: "Er það ekki Guðs að ráða drauma? Segið mér þó."

Þá sagði yfirbyrlarinn Jósef draum sinn og mælti við hann: "Mér þótti í svefninum sem vínviður stæði fyrir framan mig.

10 Á vínviðinum voru þrjár greinar, og jafnskjótt sem hann skaut frjóöngum, spruttu blóm hans út og klasar hans báru fullvaxin vínber.

11 En ég hélt á bikar Faraós í hendinni og tók vínberin og sprengdi þau í bikar Faraós og rétti svo bikarinn að Faraó."

12 Þá sagði Jósef við hann: "Ráðning draumsins er þessi: Þrjár vínviðargreinarnar merkja þrjá daga.

13 Að þrem dögum liðnum mun Faraó hefja höfuð þitt og setja þig aftur inn í embætti þitt. Munt þú þá rétta Faraó bikarinn, eins og áður var venja, er þú varst byrlari hans.

14 En minnstu mín, er þér gengur í vil, og gjör þá miskunn á mér að minnast á mig við Faraó, svo að þú megir frelsa mig úr þessu húsi.

15 Því að mér var með leynd stolið úr landi Hebrea, og eigi hefi ég heldur hér neitt það til saka unnið, að ég yrði settur í þessa dýflissu."

16 En er yfirbakarinn sá, að ráðning hans var góð, sagði hann við Jósef: "Mig dreymdi líka, að ég bæri á höfðinu þrjár karfir með hveitibrauði.

17 Og í efstu körfunni var alls konar sælgætisbrauð handa Faraó, og fuglarnir átu það úr körfunni á höfði mér."

18 Þá svaraði Jósef og mælti: "Ráðning draumsins er þessi: Þrjár karfirnar merkja þrjá daga.

19 Að þrem dögum liðnum mun Faraó hefja höfuð þitt af þér og festa þig á gálga, og fuglarnir munu eta af þér hold þitt."

20 Og það bar til á þriðja degi, á afmælisdegi Faraós, að hann hélt öllum þjónum sínum veislu. Hóf hann þá upp höfuð yfirbyrlarans og höfuð yfirbakarans í viðurvist þjóna sinna.

21 Setti hann yfirbyrlarann aftur í embætti hans, að hann mætti aftur bera Faraó bikarinn,

22 en yfirbakarann lét hann hengja, eins og Jósef hafði ráðið drauminn fyrir þá.

23 En eigi minntist yfirbyrlarinn Jósefs, heldur gleymdi honum.