A A A A A
Bible Book List

Fyrsta bók Móse 18-19 Icelandic Bible (ICELAND)

18 Drottinn birtist Abraham í Mamrelundi, er hann sat í tjalddyrum sínum í miðdegishitanum.

Og hann hóf upp augu sín og litaðist um, og sjá, þrír menn stóðu gagnvart honum. Og er hann sá þá, skundaði hann til móts við þá úr tjalddyrum sínum og laut þeim til jarðar

og mælti: "Herra minn, hafi ég fundið náð í augum þínum, þá gakk eigi fram hjá þjóni þínum.

Leyfið, að sótt sé lítið eitt af vatni, að þér megið þvo fætur yðar, og hvílið yður undir trénu.

Og ég ætla að sækja brauðbita, að þér megið styrkja hjörtu yðar, _ síðan getið þér haldið áfram ferðinni, _ úr því að þér fóruð hér um hjá þjóni yðar." Og þeir svöruðu: "Gjörðu eins og þú hefir sagt."

Þá flýtti Abraham sér inn í tjaldið til Söru og mælti: "Sæktu nú sem skjótast þrjá mæla hveitimjöls, hnoðaðu það og bakaðu kökur."

Og Abraham skundaði til nautanna og tók kálf, ungan og vænan, og fékk sveini sínum, og hann flýtti sér að matbúa hann.

Og hann tók áfir og mjólk og kálfinn, sem hann hafði matbúið, og setti fyrir þá, en sjálfur stóð hann frammi fyrir þeim undir trénu, meðan þeir mötuðust.

Þá sögðu þeir við hann: "Hvar er Sara kona þín?" Hann svaraði: "Þarna inni í tjaldinu."

10 Og Drottinn sagði: "Vissulega mun ég aftur koma til þín að ári liðnu í sama mund, og mun þá Sara kona þín hafa eignast son." En Sara heyrði þetta í dyrum tjaldsins, sem var að baki hans.

11 En Abraham og Sara voru gömul og hnigin á efra aldur, svo að kvenlegir eðlishættir voru horfnir frá Söru.

12 Og Sara hló með sjálfri sér og mælti: "Eftir að ég er gömul orðin, skyldi ég þá á munúð hyggja, þar sem bóndi minn er einnig gamall?"

13 Þá sagði Drottinn við Abraham: "Hví hlær Sara og segir: ,Mun það satt, að ég skuli barn fæða svo gömul?`

14 Er Drottni nokkuð ómáttugt? Á sinni tíð að vori mun ég aftur koma til þín, og Sara hefir þá eignast son."

15 Og Sara neitaði því og sagði: "Eigi hló ég," því að hún var hrædd. En hann sagði: "Jú, víst hlóst þú."

16 Því næst tóku mennirnir sig upp þaðan og horfðu niður til Sódómu, en Abraham gekk með þeim til að fylgja þeim á veg.

17 Þá sagði Drottinn: "Skyldi ég dylja Abraham þess, sem ég ætla að gjöra,

18 þar sem Abraham mun verða að mikilli og voldugri þjóð, og allar þjóðir jarðarinnar munu af honum blessun hljóta?

19 Því að ég hefi útvalið hann, til þess að hann bjóði börnum sínum og húsi sínu eftir sig, að þau varðveiti vegu Drottins með því að iðka rétt og réttlæti, til þess að Drottinn láti koma fram við Abraham það, sem hann hefir honum heitið."

20 Og Drottinn mælti: "Hrópið yfir Sódómu og Gómorru er vissulega mikið, og synd þeirra er vissulega mjög þung.

21 Ég ætla því að stíga niður þangað til þess að sjá, hvort þeir hafa fullkomlega aðhafst það, sem hrópað er um. En sé eigi svo, þá vil ég vita það."

22 Og mennirnir sneru í brott þaðan og héldu til Sódómu, en Abraham stóð enn þá frammi fyrir Drottni.

23 Og Abraham gekk fyrir hann og mælti: "Hvort munt þú afmá hina réttlátu með hinum óguðlegu?

24 Vera má, að fimmtíu réttlátir séu í borginni. Hvort munt þú afmá þá og ekki þyrma staðnum vegna þeirra fimmtíu réttlátu, sem þar eru?

25 Fjarri sé það þér að gjöra slíkt, að deyða hina réttlátu með hinum óguðlegu, svo að eitt gangi yfir réttláta og óguðlega. Fjarri sé það þér! Mun dómari alls jarðríkis ekki gjöra rétt?"

26 Og Drottinn mælti: "Finni ég í Sódómu fimmtíu réttláta innan borgar, þá þyrmi ég öllum staðnum þeirra vegna."

27 Abraham svaraði og sagði: "Æ, ég hefi dirfst að tala við Drottin, þótt ég sé duft eitt og aska.

28 Vera má, að fimm skorti á fimmtíu réttláta. Munt þú eyða alla borgina vegna þessara fimm?" Þá mælti hann: "Eigi mun ég eyða hana, finni ég þar fjörutíu og fimm."

29 Og Abraham hélt áfram að tala við hann og mælti: "Vera má, að þar finnist ekki nema fjörutíu." En hann svaraði: "Vegna þeirra fjörutíu mun ég láta það ógjört."

30 Og hann sagði: "Ég bið þig, Drottinn, að þú reiðist ekki, þó að ég tali. Vera má að þar finnist ekki nema þrjátíu." Og hann svaraði: "Ég mun ekki gjöra það, finni ég þar þrjátíu."

31 Og hann sagði: "Æ, ég hefi dirfst að tala við Drottin! Vera má, að þar finnist ekki nema tuttugu." Og hann mælti: "Ég mun ekki eyða hana vegna þeirra tuttugu."

32 Og hann mælti: "Ég bið þig, Drottinn, að þú reiðist ekki, þó að ég tali enn aðeins í þetta sinn. Vera má að þar finnist aðeins tíu." Og hann sagði: "Ég mun ekki eyða hana vegna þeirra tíu."

33 Og Drottinn fór í brott, er hann hafði lokið tali sínu við Abraham, en Abraham hvarf aftur heimleiðis.

19 Englarnir tveir komu um kveldið til Sódómu. Sat Lot í borgarhliði. Og er hann sá þá, stóð hann upp í móti þeim og hneigði ásjónu sína til jarðar.

Því næst mælti hann: "Heyrið, herrar mínir, sýnið lítillæti og komið inn í hús þjóns ykkar, og verið hér í nótt og þvoið fætur ykkar. Getið þið þá risið árla á morgun og farið leiðar ykkar." En þeir sögðu: "Nei, við ætlum að hafast við á strætinu í nótt."

Þá lagði hann mikið að þeim, uns þeir fóru inn til hans og gengu inn í hús hans. Og hann bjó þeim máltíð og bakaði ósýrt brauð, og þeir neyttu.

En áður en þeir gengu til hvíldar, slógu borgarmenn, mennirnir í Sódómu, hring um húsið, bæði ungir og gamlir, allur múgurinn hvaðanæva.

Og þeir kölluðu á Lot og sögðu við hann: "Hvar eru mennirnir, sem komu til þín í kveld? Leið þú þá út til vor, að vér megum kenna þeirra."

Lot gekk þá út til þeirra, út fyrir dyrnar, og lokaði hurðinni að baki sér.

Og hann sagði: "Fyrir hvern mun, bræður mínir, fremjið ekki óhæfu.

Sjá, ég á tvær dætur, sem ekki hafa karlmanns kennt. Ég skal leiða þær út til yðar, gjörið við þær sem yður gott þykir. Aðeins megið þér ekkert gjöra þessum mönnum, úr því að þeir eru komnir undir skugga þaks míns."

Þá æptu þeir: "Haf þig á burt!" og sögðu: "Þessi náungi er hingað kominn sem útlendingur og vill nú stöðugt vera að siða oss. Nú skulum vér leika þig enn verr en þá." Og þeir gjörðu ákaflega þröng að honum, að Lot, og gengu nær til að brjóta upp dyrnar.

10 Þá seildust mennirnir út og drógu Lot til sín inn í húsið og lokuðu dyrunum.

11 En þá, sem voru úti fyrir dyrum hússins, slógu þeir með blindu, smáa og stóra, svo að þeir urðu að gefast upp við að finna dyrnar.

12 Mennirnir sögðu við Lot: "Átt þú hér nokkra fleiri þér nákomna? Tengdasyni, syni, dætur? Alla í borginni, sem þér eru áhangandi, skalt þú hafa á burt héðan,

13 því að við munum eyða þennan stað, af því að hrópið yfir þeim fyrir Drottni er mikið, og Drottinn hefir sent okkur til að eyða borgina."

14 Þá gekk Lot út og talaði við tengdasyni sína, sem ætluðu að ganga að eiga dætur hans, og mælti: "Standið upp skjótt og farið úr þessum stað, því að Drottinn mun eyða borgina." En tengdasynir hans hugðu, að hann væri að gjöra að gamni sínu.

15 En er dagur rann, ráku englarnir eftir Lot og sögðu: "Statt þú upp skjótt! Tak þú konu þína og báðar dætur þínar, sem hjá þér eru, svo að þú fyrirfarist ekki vegna syndar borgarinnar."

16 En er hann hikaði við, tóku mennirnir í hönd honum og í hönd konu hans og í hönd báðum dætrum hans, af því að Drottinn vildi þyrma honum, og leiddu hann út og létu hann út fyrir borgina.

17 Og er þeir höfðu leitt þau út, sögðu þeir: "Forða þér, líf þitt liggur við! Lít ekki aftur fyrir þig og nem hvergi staðar á öllu sléttlendinu, forða þér á fjöll upp, að þú farist eigi."

18 Þá sagði Lot við þá: "Æ nei, herra!

19 Sjá, þjónn þinn hefir fundið náð í augum þínum, og þú hefir sýnt á mér mikla miskunn að láta mig halda lífi. En ég get ekki forðað mér á fjöll upp, ógæfan getur komið yfir mig og ég dáið.

20 Sjá, þarna er borg í nánd, þangað gæti ég flúið, og hún er lítil. Ég vil forða mér þangað _ er hún ekki lítil? _ og ég mun halda lífi."

21 Drottinn sagði við hann: "Sjá, ég hefi einnig veitt þér þessa bæn, að leggja ekki í eyði borgina, sem þú talaðir um.

22 Flýt þér! Forða þér þangað, því að ég get ekkert gjört, fyrr en þú kemst þangað." Vegna þessa nefna menn borgina Sóar.

23 Sólin var runnin upp yfir jörðina, er Lot kom til Sóar.

24 Og Drottinn lét rigna yfir Sódómu og Gómorru brennisteini og eldi frá Drottni, af himni.

25 Og hann gjöreyddi þessar borgir og allt sléttlendið og alla íbúa borganna og gróður jarðarinnar.

26 En kona hans leit við að baki honum og varð að saltstöpli.

27 Abraham gekk snemma morguns þangað, er hann hafði staðið frammi fyrir Drottni.

28 Og hann horfði niður á Sódómu og Gómorru og yfir allt sléttlendið og sá, að reyk lagði upp af jörðinni, því líkast sem reykur úr ofni.

29 En er Guð eyddi borgirnar á sléttlendinu, minntist Guð Abrahams og leiddi Lot út úr eyðingunni, þá er hann lagði í eyði borgirnar, sem Lot hafði búið í.

30 Lot fór frá Sóar upp á fjöllin og staðnæmdist þar og báðar dætur hans með honum, því að hann óttaðist að vera kyrr í Sóar, og hann hafðist við í helli, hann og báðar dætur hans.

31 Þá sagði hin eldri við hina yngri: "Faðir okkar er gamall, og enginn karlmaður er eftir á jörðinni, sem samfarir megi við okkur hafa, eins og siðvenja er til alls staðar á jörðinni.

32 Kom þú, við skulum gefa föður okkar vín að drekka og leggjast hjá honum, að við megum kveikja kyn af föður okkar."

33 Síðan gáfu þær föður sínum vín að drekka þá nótt, og hin eldri fór og lagðist hjá föður sínum. En hann varð hvorki var við, að hún lagðist niður, né að hún reis á fætur.

34 Og morguninn eftir sagði hin eldri við hina yngri: "Sjá, í nótt lá ég hjá föður mínum. Við skulum nú einnig í nótt gefa honum vín að drekka. Far þú síðan inn og leggst hjá honum, að við megum kveikja kyn af föður okkar."

35 Síðan gáfu þær föður sínum vín að drekka einnig þá nótt, og hin yngri tók sig til og lagðist hjá honum. En hann varð hvorki var við, að hún lagðist niður, né að hún reis á fætur.

36 Þannig urðu báðar dætur Lots þungaðar af völdum föður síns.

37 Hin eldri ól son og nefndi hann Móab. Hann er ættfaðir Móabíta allt til þessa dags.

38 Og hin yngri ól einnig son og nefndi hann Ben-Ammí. Hann er ættfaðir Ammóníta allt til þessa dags.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Matteusarguðspjall 6:1-18 Icelandic Bible (ICELAND)

Varist að iðka réttlæti yðar fyrir mönnum, þeim til sýnis, annars eigið þér engin laun hjá föður yðar á himnum.

Þegar þú gefur ölmusu, skaltu ekki láta þeyta lúður fyrir þér, eins og hræsnarar gjöra í samkunduhúsum og á strætum til þess að hljóta lof af mönnum. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín.

En þegar þú gefur ölmusu, viti vinstri hönd þín ekki, hvað sú hægri gjörir,

svo að ölmusa þín sé í leynum, og faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.

Og þegar þér biðjist fyrir, þá verið ekki eins og hræsnararnir. Þeir vilja helst standa og biðjast fyrir í samkundum og á gatnamótum, til þess að menn sjái þá. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín.

En nær þú biðst fyrir, skaltu ganga inn í herbergi þitt, loka dyrunum og biðja föður þinn, sem er í leynum. Faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.

Þegar þér biðjist fyrir, skuluð þér ekki fara með fánýta mælgi að hætti heiðingja. Þeir hyggja, að þeir verði bænheyrðir fyrir mælgi sína.

Líkist þeim ekki. Faðir yðar veit, hvers þér þurfið, áður en þér biðjið hann.

En þannig skuluð þér biðja: Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn,

10 til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.

11 Gef oss í dag vort daglegt brauð.

12 Fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.

13 Og eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu. [Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu, amen.]

14 Ef þér fyrirgefið mönnum misgjörðir þeirra, þá mun og faðir yðar himneskur fyrirgefa yður.

15 En ef þér fyrirgefið ekki öðrum, mun faðir yðar ekki heldur fyrirgefa misgjörðir yðar.

16 Þegar þér fastið, þá verið ekki daprir í bragði, eins og hræsnarar. Þeir afmynda andlit sín, svo að engum dyljist, að þeir fasta. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín.

17 En nær þú fastar, þá smyr höfuð þitt og þvo andlit þitt,

18 svo að menn verði ekki varir við, að þú fastar, heldur faðir þinn, sem er í leynum. Og faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes