A A A A A
Bible Book List

Fyrsta bók Móse 10-12 Icelandic Bible (ICELAND)

10 Þetta er ættartala Nóa sona, Sems, Kams og Jafets. Þeim fæddust synir eftir flóðið.

Synir Jafets: Gómer, Magog, Madaí, Javan, Túbal, Mesek og Tíras.

Og synir Gómers: Askenas, Rífat og Tógarma.

Og synir Javans: Elísa, Tarsis, Kittar og Ródanítar.

Út frá þeim kvísluðust þeir, sem byggja eylönd heiðingjanna. Þetta eru synir Jafets eftir löndum þeirra, hver eftir sinni tungu, eftir kynþáttum þeirra og samkvæmt þjóðerni þeirra.

Synir Kams: Kús, Mísraím, Pút og Kanaan.

Og synir Kúss: Seba, Havíla, Sabta, Raema og Sabteka. Og synir Raema: Séba og Dedan.

Kús gat Nimrod. Hann tók að gjörast voldugur á jörðinni.

Hann var mikill veiðimaður fyrir Drottni. Því er máltækið: "Mikill veiðimaður fyrir Drottni eins og Nimrod."

10 Og upphaf ríkis hans var Babel, Erek, Akkad og Kalne í Sínearlandi.

11 Frá þessu landi hélt hann til Assýríu og byggði Níníve, Rehóbót-Ír og Kala,

12 og Resen milli Níníve og Kala, það er borgin mikla.

13 Mísraím gat Lúdíta, Anamíta, Lekabíta, Naftúkíta,

14 Patrúsíta, Kaslúkíta (þaðan eru komnir Filistar) og Kaftóríta.

15 Kanaan gat Sídon, frumgetning sinn, og Het

16 og Jebúsíta, Amoríta, Gírgasíta,

17 Hevíta, Arkíta, Síníta,

18 Arvadíta, Semaríta og Hamatíta. Og síðan breiddust út kynkvíslir Kanaanítanna.

19 Landamerki Kanaanítanna eru frá Sídon um Gerar allt til Gasa, þá er stefnan til Sódómu og Gómorru og Adma og Sebóím, allt til Lasa.

20 Þetta eru synir Kams eftir kynþáttum þeirra, eftir tungum þeirra, samkvæmt löndum þeirra og þjóðerni.

21 En Sem, ættfaðir allra Ebers sona, eldri bróðir Jafets, eignaðist og sonu.

22 Synir Sems: Elam, Assúr, Arpaksad, Lúd og Aram.

23 Og synir Arams: Ús, Húl, Geter og Mas.

24 Arpaksad gat Sela, og Sela gat Eber.

25 Og Eber fæddust tveir synir. Hét annar Peleg, því að á hans dögum greindist fólkið á jörðinni, en bróðir hans hét Joktan.

26 Og Joktan gat Almódad, Salef, Hasarmavet, Jara,

27 Hadóram, Úsal, Dikla,

28 Óbal, Abímael, Seba,

29 Ófír, Havíla og Jóbab. Þessir allir eru synir Joktans.

30 Og bústaður þeirra var frá Mesa til Sefar, til austurfjallanna.

31 Þetta eru synir Sems, eftir ættkvíslum þeirra, eftir tungum þeirra, samkvæmt löndum þeirra, eftir þjóðerni þeirra.

32 Þetta eru ættkvíslir Nóa sona eftir ættartölum þeirra, samkvæmt þjóðerni þeirra, og frá þeim kvísluðust þjóðirnar út um jörðina eftir flóðið.

11 Öll jörðin hafði eitt tungumál og ein og sömu orð.

Og svo bar við, er þeir fóru stað úr stað í austurlöndum, að þeir fundu láglendi í Sínearlandi og settust þar að.

Og þeir sögðu hver við annan: "Gott og vel, vér skulum hnoða tigulsteina og herða í eldi." Og þeir notuðu tigulsteina í stað grjóts og jarðbik í stað kalks.

Og þeir sögðu: "Gott og vel, vér skulum byggja oss borg og turn, sem nái til himins, og gjörum oss minnismerki, svo að vér tvístrumst ekki um alla jörðina."

Þá steig Drottinn niður til þess að sjá borgina og turninn, sem mannanna synir voru að byggja.

Og Drottinn mælti: "Sjá, þeir eru ein þjóð og hafa allir sama tungumál, og þetta er hið fyrsta fyrirtæki þeirra. Og nú mun þeim ekkert ófært verða, sem þeir taka sér fyrir hendur að gjöra.

Gott og vel, stígum niður og ruglum þar tungumál þeirra, svo að enginn skilji framar annars mál."

Og Drottinn tvístraði þeim þaðan út um alla jörðina, svo að þeir urðu af að láta að byggja borgina.

Þess vegna heitir hún Babel, því að þar ruglaði Drottinn tungumál allrar jarðarinnar, og þaðan tvístraði hann þeim um alla jörðina.

10 Þetta er ættartala Sems: Sem var hundrað ára gamall, er hann gat Arpaksad, tveim árum eftir flóðið.

11 Og Sem lifði, eftir að hann gat Arpaksad, fimm hundruð ár og gat sonu og dætur.

12 Er Arpaksad var þrjátíu og fimm ára, gat hann Sela.

13 Og Arpaksad lifði, eftir að hann gat Sela, fjögur hundruð og þrjú ár og gat sonu og dætur.

14 Er Sela var þrjátíu ára, gat hann Eber.

15 Og Sela lifði, eftir að hann gat Eber, fjögur hundruð og þrjú ár og gat sonu og dætur.

16 Er Eber var þrjátíu og fjögurra ára, gat hann Peleg.

17 Og Eber lifði, eftir að hann gat Peleg, fjögur hundruð og þrjátíu ár og gat sonu og dætur.

18 Er Peleg var þrjátíu ára, gat hann Reú.

19 Og Peleg lifði, eftir að hann gat Reú, tvö hundruð og níu ár og gat sonu og dætur.

20 Er Reú var þrjátíu og tveggja ára, gat hann Serúg.

21 Og Reú lifði, eftir að hann gat Serúg, tvö hundruð og sjö ár og gat sonu og dætur.

22 Er Serúg var þrjátíu ára, gat hann Nahor.

23 Og Serúg lifði, eftir að hann gat Nahor, tvö hundruð ár og gat sonu og dætur.

24 Er Nahor var tuttugu og níu ára, gat hann Tara.

25 Og Nahor lifði, eftir að hann gat Tara, hundrað og nítján ár og gat sonu og dætur.

26 Er Tara var sjötíu ára, gat hann Abram, Nahor og Haran.

27 Þetta er saga Tara: Tara gat Abram, Nahor og Haran, en Haran gat Lot.

28 Og Haran dó á undan Tara föður sínum í ættlandi sínu, í Úr í Kaldeu.

29 Og Abram og Nahor tóku sér konur. Kona Abrams hét Saraí, en kona Nahors Milka, dóttir Harans, föður Milku og föður Ísku.

30 En Saraí var óbyrja, hún átti eigi börn.

31 Þá tók Tara Abram son sinn og Lot Haransson, sonarson sinn, og Saraí tengdadóttur sína, konu Abrams sonar síns, og lagði af stað með þau frá Úr í Kaldeu áleiðis til Kanaanlands, og þau komu til Harran og settust þar að.

32 Og dagar Tara voru tvö hundruð og fimm ár. Þá andaðist Tara í Harran.

12 Drottinn sagði við Abram: "Far þú burt úr landi þínu og frá ættfólki þínu og úr húsi föður þíns, til landsins, sem ég mun vísa þér á.

Ég mun gjöra þig að mikilli þjóð og blessa þig og gjöra nafn þitt mikið, og blessun skalt þú vera.

Ég mun blessa þá, sem þig blessa, en bölva þeim, sem þér formælir, og af þér skulu allar ættkvíslir jarðarinnar blessun hljóta."

Þá lagði Abram af stað, eins og Drottinn hafði sagt honum, og Lot fór með honum. En Abram var sjötíu og fimm ára að aldri, er hann fór úr Harran.

Abram tók Saraí konu sína og Lot bróðurson sinn og alla fjárhluti, sem þeir höfðu eignast, og þær sálir, er þeir höfðu fengið í Harran. Og þeir lögðu af stað og héldu til Kanaanlands. Þeir komu til Kanaanlands.

Og Abram fór um landið, allt þangað er Síkem heitir, allt til Mórelundar. En þá voru Kanaanítar í landinu.

Þá birtist Drottinn Abram og sagði við hann: "Niðjum þínum vil ég gefa þetta land." Og hann reisti þar altari Drottni, sem hafði birst honum.

Þaðan hélt hann til fjallanna fyrir austan Betel og setti þar tjöld sín, svo að Betel var í vestur, en Aí í austur. Og hann reisti þar Drottni altari og ákallaði nafn Drottins.

Og Abram færði sig smátt og smátt til Suðurlandsins.

10 En hallæri varð í landinu. Þá fór Abram til Egyptalands til að dveljast þar um hríð, því að hallærið var mikið í landinu.

11 Og er hann var kominn langt á leið til Egyptalands, sagði hann við Saraí konu sína: "Sjá, ég veit að þú ert kona fríð sýnum.

12 Það mun því fara svo, að þegar Egyptar sjá þig, þá munu þeir segja: ,Þetta er kona hans,` og drepa mig, en þig munu þeir láta lífi halda.

13 Segðu fyrir hvern mun, að þú sért systir mín, svo að mér megi líða vel fyrir þínar sakir og ég megi lífi halda þín vegna."

14 Er Abram kom til Egyptalands, sáu Egyptar, að konan var mjög fríð.

15 Og höfðingjar Faraós sáu hana og létu mikið af henni við Faraó, og konan var tekin í hús Faraós.

16 Og hann gjörði vel við Abram hennar vegna, og hann eignaðist sauði, naut og asna, þræla og ambáttir, ösnur og úlfalda.

17 En Drottinn þjáði Faraó og hús hans með miklum plágum vegna Saraí, konu Abrams.

18 Þá kallaði Faraó Abram til sín og mælti: "Hví hefir þú gjört mér þetta? Hví sagðir þú mér ekki, að hún væri kona þín?

19 Hví sagðir þú: ,Hún er systir mín,` svo að ég tók hana mér fyrir konu? En þarna er nú konan þín, tak þú hana og far burt."

20 Og Faraó skipaði svo fyrir um Abram, að menn sínir skyldu fylgja honum á braut og konu hans með öllu, sem hann átti.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Matteusarguðspjall 4 Icelandic Bible (ICELAND)

Þá leiddi andinn Jesú út í óbyggðina, að hans yrði freistað af djöflinum.

Þar fastaði hann fjörutíu daga og fjörutíu nætur og var þá orðinn hungraður.

Þá kom freistarinn og sagði við hann: "Ef þú ert sonur Guðs, þá bjóð þú, að steinar þessir verði að brauðum."

Jesús svaraði: "Ritað er: ,Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði, heldur á hverju því orði, sem fram gengur af Guðs munni."`

Þá tekur djöfullinn hann með sér í borgina helgu, setur hann á brún musterisins

og segir við hann: "Ef þú ert sonur Guðs, þá kasta þér ofan, því að ritað er: Hann mun fela þig englum sínum, og þeir munu bera þig á höndum sér, að þú steytir ekki fót þinn við steini."

Jesús svaraði honum: "Aftur er ritað: ,Ekki skalt þú freista Drottins, Guðs þíns."`

Enn tekur djöfullinn hann með sér upp á ofurhátt fjall, sýnir honum öll ríki heims og dýrð þeirra

og segir: "Allt þetta mun ég gefa þér, ef þú fellur fram og tilbiður mig."

10 En Jesús sagði við hann: "Vík brott, Satan! Ritað er: ,Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum."`

11 Þá fór djöfullinn frá Jesú. Og englar komu og þjónuðu honum.

12 Þegar hann heyrði, að Jóhannes hefði verið tekinn höndum, hélt hann til Galíleu.

13 Hann fór frá Nasaret og settist að í Kapernaum við vatnið í byggðum Sebúlons og Naftalí.

14 Þannig rættist það, sem sagt er fyrir munn Jesaja spámanns:

15 Sebúlonsland og Naftalíland við vatnið, landið handan Jórdanar, Galílea heiðingjanna.

16 Sú þjóð, sem í myrkri sat, sá mikið ljós. Þeim er sátu í skuggalandi dauðans, er ljós upp runnið.

17 Upp frá þessu tekur Jesús að prédika og segja: "Gjörið iðrun, himnaríki er í nánd."

18 Hann gekk með Galíleuvatni og sá tvo bræður, Símon, sem kallaður var Pétur, og Andrés, bróður hans, vera að kasta neti í vatnið, en þeir voru fiskimenn.

19 Hann sagði við þá: "Komið og fylgið mér, og mun ég láta yður menn veiða."

20 Og þegar í stað yfirgáfu þeir netin og fylgdu honum.

21 Hann gekk áfram þaðan og sá tvo aðra bræður, Jakob Sebedeusson og Jóhannes, bróður hans. Þeir voru í bátnum með Sebedeusi, föður sínum, að búa net sín. Jesús kallaði þá,

22 og þeir yfirgáfu jafnskjótt bátinn og föður sinn og fylgdu honum.

23 Hann fór nú um alla Galíleu, kenndi í samkundum þeirra, prédikaði fagnaðarerindið um ríkið og læknaði hvers kyns sjúkdóm og veikindi meðal lýðsins.

24 Orðstír hans barst um allt Sýrland, og menn færðu til hans alla, sem þjáðust af ýmsum sjúkdómum og kvölum, voru haldnir illum öndum, tunglsjúka menn og lama. Og hann læknaði þá.

25 Mikill mannfjöldi fylgdi honum úr Galíleu, Dekapólis, Jerúsalem, Júdeu og landinu handan Jórdanar.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes