Add parallel Print Page Options

Með öðrum orðum: Alla þá stund, sem erfinginn er ófullveðja, er enginn munur á honum og þræli, þótt hann eigi allt.

Hann er undir fjárhaldsmönnum og ráðsmönnum til þess tíma, er faðirinn hefur ákveðið.

Þannig vorum vér einnig, er vér vorum ófullveðja, þrælbundnir undir heimsvættirnar.

En þegar fylling tímans kom, sendi Guð son sinn, fæddan af konu, fæddan undir lögmáli, _

til þess að hann keypti lausa þá, sem voru undir lögmáli, _ og vér fengjum barnaréttinn.

En þar eð þér eruð börn, þá hefur Guð sent anda sonar síns í hjörtu vor, sem hrópar: "Abba, faðir!"

Þú ert þá ekki framar þræll, heldur sonur. En ef þú ert sonur, þá ert þú líka erfingi að ráði Guðs.

Forðum, er þér þekktuð ekki Guð, þá voruð þér þrælar þeirra, sem í eðli sínu eru ekki guðir.

En nú, eftir að þér þekkið Guð, eða réttara sagt, eftir að Guð þekkir yður, hvernig getið þér snúið aftur til hinna veiku og fátæklegu vætta? Viljið þér þræla undir þeim að nýju?

10 Þér hafið gætur á dögum og mánuðum, vissum tíðum og árum.

11 Ég er hræddur um yður, að ég kunni að hafa haft erfiði fyrir yður til ónýtis.

12 Ég bið yður, bræður: Verðið eins og ég, því að ég er orðinn eins og þér. Í engu hafið þér gjört á hluta minn.

13 Þér vitið, að sjúkleiki minn varð tilefni til þess, að ég fyrst boðaði yður fagnaðarerindið.

14 En þér létuð ekki líkamsásigkomulag mitt verða yður til ásteytingar og óvirtuð mig ekki né sýnduð mér óbeit, heldur tókuð þér á móti mér eins og engli Guðs, eins og Kristi Jesú sjálfum.

15 Hvað er nú orðið úr blessunarbænum yðar? Það vitni ber ég yður, að augun hefðuð þér stungið úr yður og gefið mér, ef auðið hefði verið.

16 Er ég þá orðinn óvinur yðar, vegna þess að ég segi yður sannleikann?

17 Þeir láta sér annt um yður, en það er eigi af góðu, heldur vilja þeir einangra yður, til þess að þér látið yður annt um þá.

18 Það er ávallt gott að láta sér annt um það, sem gott er, og ekki aðeins meðan ég er hjá yður,

19 börn mín, sem ég að nýju el með harmkvælum, þangað til Kristur er myndaður í yður!

20 Ég vildi ég væri nú hjá yður og gæti talað nýjum rómi, því að ég er ráðalaus með yður.

21 Segið mér, þér sem viljið vera undir lögmáli, heyrið þér ekki hvað lögmálið segir?

22 Ritað er, að Abraham átti tvo sonu, annan við ambáttinni, en hinn við frjálsu konunni.

23 Sonurinn við ambáttinni var fæddur á náttúrlegan hátt, en sonurinn við frjálsu konunni var fæddur samkvæmt fyrirheiti.

24 Þetta hefur óeiginlega merkingu: Konurnar merkja tvo sáttmála: Annar er sá frá Sínaífjalli og elur börn til ánauðar, það er Hagar;

25 en Hagar merkir Sínaífjall í Arabíu og samsvarar hinni núverandi Jerúsalem, því að hún er í ánauð ásamt börnum sínum.

26 En Jerúsalem, sem í hæðum er, er frjáls, og hún er móðir vor,

27 því að ritað er: Ver glöð, óbyrja, sem ekkert barn hefur átt! Hrópa og kalla hátt, þú sem ekki hefur jóðsjúk orðið! Því að börn hinnar yfirgefnu eru fleiri en hinnar, sem manninn á.

28 En þér, bræður, eruð fyrirheits börn eins og Ísak.

29 En eins og sá, sem fæddur var á náttúrlegan hátt, ofsótti forðum þann, sem fæddur var á undursamlegan hátt, svo er það og nú.

30 En hvað segir ritningin? "Rek burt ambáttina og son hennar, því að ekki skal ambáttarsonurinn taka arf með syni frjálsu konunnar."

31 Þess vegna, bræður, erum vér ekki ambáttar börn, heldur börn frjálsu konunnar.

Til frelsis frelsaði Kristur oss. Standið því stöðugir og látið ekki aftur leggja á yður ánauðarok.

Takið eftir því, sem ég, Páll, segi yður: Ef þér látið umskerast, þá gagnar Kristur yður ekkert.

Og enn vitna ég fyrir hverjum manni, sem lætur umskerast: Hann er skyldur til að halda allt lögmálið.

Þér eruð orðnir viðskila við Krist, þér sem ætlið að réttlætast með lögmáli. Þér eruð fallnir úr náðinni.

En vér væntum í andanum að öðlast af trúnni réttlætinguna, sem er von vor.

Í Kristi Jesú er ekkert komið undir umskurn né yfirhúð, heldur undir trú, sem starfar í kærleika.

Þér hlupuð vel. Hver hefur hindrað yður í að hlýða sannleikanum?

Þær fortölur voru ekki frá honum, sem kallaði yður.

Lítið súrdeig sýrir allt deigið.

10 Ég hef það traust til yðar í Drottni, að þér verðið sama sinnis og ég. Sá sem truflar yður mun bera sinn dóm, hver sem hann svo er.

11 En hvað mig snertir, bræður, ef ég er enn þá að prédika umskurn, hví er þá enn verið að ofsækja mig? Þá væri hneyksli krossins tekið burt.

12 Vel mættu þeir, sem koma yður í uppnám, aflima sig.

13 Þér voruð, bræður, kallaðir til frelsis. Notið aðeins ekki frelsið til færis fyrir holdið, heldur þjónið hver öðrum í kærleika.

14 Allt lögmálið er uppfyllt með þessu eina boðorði: "Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig."

15 En ef þér bítist og etið hver annan upp, þá gætið þess, að þér tortímist ekki hver fyrir öðrum.

16 En ég segi: Lifið í andanum, og þá fullnægið þér alls ekki girnd holdsins.

17 Holdið girnist gegn andanum, og andinn gegn holdinu. Þau standa hvort gegn öðru, til þess að þér gjörið ekki það, sem þér viljið.

18 En ef þér leiðist af andanum, þá eruð þér ekki undir lögmáli.

19 Holdsins verk eru augljós: Frillulífi, óhreinleiki, saurlífi,

20 skurðgoðadýrkun, fjölkynngi, fjandskapur, deilur, metingur, reiði, eigingirni, tvídrægni, flokkadráttur,

21 öfund, ofdrykkja, svall og annað þessu líkt. Og það segi ég yður fyrir, eins og ég hef áður sagt, að þeir, sem slíkt gjöra, munu ekki erfa Guðs ríki.

22 En ávöxtur andans er: Kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska,

23 hógværð og bindindi. Gegn slíku er lögmálið ekki.

24 En þeir, sem tilheyra Kristi Jesú, hafa krossfest holdið með ástríðum þess og girndum.

25 Fyrst andinn er líf vort skulum vér lifa í andanum!

26 Verum ekki hégómagjarnir, svo að vér áreitum hver annan og öfundum hver annan.

Bræður! Ef einhver misgjörð kann að henda mann, þá leiðréttið þér, sem andlegir eruð, þann mann með hógværð. Og haf gát á sjálfum þér, að þú freistist ekki líka.

Berið hver annars byrðar og uppfyllið þannig lögmál Krists.

Sá sem þykist vera nokkuð, en er þó ekkert, dregur sjálfan sig á tálar.

En sérhver rannsaki breytni sjálfs sín og þá mun hann hafa hrósunarefni í samanburði við sjálfan sig, en ekki miðað við aðra,

því að sérhver mun verða að bera sína byrði.

En sá, sem uppfræðist í orðinu, veiti þeim, sem uppfræðir, hlutdeild með sér í öllum gæðum.

Villist ekki! Guð lætur ekki að sér hæða. Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera.

Sá sem sáir í hold sjálfs sín, mun af holdinu uppskera glötun, en sá sem sáir í andann, mun af andanum uppskera eilíft líf.

Þreytumst ekki að gjöra það sem gott er, því að á sínum tíma munum vér uppskera, ef vér gefumst ekki upp.

10 Þess vegna skulum vér, meðan tími er til, gjöra öllum gott og einkum trúbræðrum vorum.

11 Sjáið, með hversu stórum stöfum ég skrifa yður með eigin hendi.

12 Allir þeir, sem vilja líta vel út að holdinu til, það eru þeir, sem eru að þröngva yður til að láta umskerast, einungis til þess að þeir verði eigi ofsóttir vegna kross Krists.

13 Því að ekki halda einu sinni sjálfir umskurnarmennirnir lögmálið, heldur vilja þeir að þér látið umskerast, til þess að þeir geti stært sig af holdi yðar.

14 En það sé fjarri mér að hrósa mér af öðru en krossi Drottins vors Jesú Krists. Sakir hans er ég krossfestur heiminum og heimurinn mér.

15 Umskurn eða yfirhúð skipta engu, heldur að vera ný sköpun.

16 Og yfir öllum þeim, sem þessari reglu fylgja, sé friður og miskunn, og yfir Ísrael Guðs.

17 Enginn mæði mig héðan í frá, því að ég ber merki Jesú á líkama mínum.