A A A A A
Bible Book List

Esrabók 3-5 Icelandic Bible (ICELAND)

En er sjöundi mánuðurinn kom, og Ísraelsmenn voru í borgunum, safnaðist lýðurinn saman eins og einn maður í Jerúsalem.

Þá tóku þeir sig til, Jósúa Jósadaksson og bræður hans, prestarnir, og Serúbabel Sealtíelsson og bræður hans, og reistu altari Ísraels Guðs, til þess að á því yrðu færðar brennifórnir eftir því, sem fyrir er mælt í lögmáli guðsmannsins Móse.

Og þeir reistu altarið þar, er það áður hafði staðið, því að þeim stóð ótti af landsbúum, og færðu Drottni brennifórnir á því, morgunbrennifórnir og kveldbrennifórnir.

Og þeir héldu laufskálahátíðina, eftir því sem fyrir er mælt, og báru fram brennifórnir á degi hverjum með réttri tölu, að réttum sið, það er við átti á hverjum degi,

og því næst hinar stöðugu brennifórnir, og fórnir tunglkomuhátíðanna og allra hinna helgu löghátíða Drottins, svo og fórnir allra þeirra, er færðu Drottni sjálfviljafórn.

Frá fyrsta degi hins sjöunda mánaðar byrjuðu þeir að færa Drottni brennifórnir, og hafði þá eigi enn verið lagður grundvöllur að musteri Drottins.

Og þeir gáfu steinsmiðunum og trésmiðunum silfur og Sídoningum og Týrusmönnum mat og drykk og olífuolíu til að flytja sedrusvið frá Líbanon sjóleiðis til Jafó samkvæmt leyfi Kýrusar Persakonungs þeim til handa.

Á öðru ári eftir heimkomu þeirra til húss Guðs í Jerúsalem, í öðrum mánuðinum, byrjuðu þeir Serúbabel Sealtíelsson og Jósúa Jósadaksson og aðrir bræður þeirra, prestarnir og levítarnir og allir þeir, er komnir voru úr útlegðinni til Jerúsalem, að setja levíta, tvítuga og þaðan af eldri, til að hafa eftirlit með byggingu húss Drottins.

Og þannig gengu þeir Jósúa, synir hans og bræður hans, Kadmíel og synir hans, synir Hódavja, synir Henadads, svo og synir þeirra og bræður þeirra, levítarnir, sem einn maður að því verki að hafa eftirlit með þeim, er unnu að byggingu Guðs húss.

10 Og er smiðirnir lögðu grundvöllinn að musteri Drottins, námu prestarnir þar staðar í embættisskrúða með lúðra og levítarnir, niðjar Asafs, með skálabumbur, til þess að vegsama Drottin eftir tilskipun Davíðs Ísraelskonungs.

11 Og þeir hófu að lofa og vegsama Drottin fyrir það, að hann er góður og að miskunn hans við Ísrael er eilíf. Og allur lýðurinn laust upp miklu fagnaðarópi og lofaði Drottin fyrir það, að grundvöllur var lagður að húsi Drottins.

12 En margir af prestunum og levítunum og ætthöfðingjunum _ öldungar þeir, er séð höfðu hið fyrra musterið _ grétu hástöfum, þegar grundvöllur þessa húss var lagður að þeim ásjáandi, en margir æptu líka fagnaðar- og gleðióp.

13 Og lýðurinn gat ekki greint fagnaðarópin frá gráthljóðunum í fólkinu, því að lýðurinn laust upp miklu fagnaðarópi, og heyrðist ómurinn langar leiðir.

En er mótstöðumenn Júda og Benjamíns heyrðu, að þeir, er heim voru komnir úr herleiðingunni, væru að reisa Drottni, Ísraels Guði, musteri,

þá gengu þeir fyrir Serúbabel og ætthöfðingjana og sögðu við þá: "Vér viljum byggja með yður, því að vér leitum yðar Guðs, eins og þér, og honum höfum vér fórnir fært síðan daga Asarhaddons Assýríukonungs, þess er flutti oss hingað."

En Serúbabel og Jósúa og aðrir ætthöfðingjar Ísraels sögðu við þá: "Vér höfum ekkert saman við yður að sælda um bygginguna á húsi Guðs vors, heldur ætlum vér að reisa það einir saman Drottni, Ísraels Guði, eins og Kýrus konungur, konungur í Persíu, hefir boðið oss."

Þá gjörðu landsbúar Júdalýð huglausan og hræddu þá frá að byggja,

og þeir keyptu menn til að leggja ráð í móti þeim til þess að ónýta fyrirætlun þeirra, alla ævi Kýrusar Persakonungs og þar til er Daríus Persakonungur tók ríki.

Á ríkisárum Ahasverusar, í byrjun ríkisstjórnar hans, rituðu þeir ákæru gegn íbúunum í Júda og Jerúsalem.

En á dögum Artahsasta rituðu þeir Bislam, Mítredat, Tabeel og aðrir samborgarar hans til Artahsasta, konungs í Persíu. En bréfið var ritað á arameísku og útlagt.

Rehúm umboðsmaður og Simsaí ritari skrifuðu Artahsasta konungi bréf um Jerúsalembúa á þessa leið:

"Rehúm umboðsmaður og Simsaí ritari og aðrir samborgarar þeirra, Dínear, Afarsatkear, Tarpelear, Afarsear, Arkevear, Babýloníumenn, Súsankear, Dehear, Elamítar

10 og þær aðrar þjóðir, er hinn mikli og víðfrægi Asnappar flutti burt og setti niður í borginni Samaríu og í öðrum héruðum hinumegin Fljóts," og svo framvegis.

11 Þetta er afrit af bréfinu, sem þeir sendu Artahsasta konungi: "Þjónar þínir, mennirnir í héraðinu hinumegin við Fljótið, og svo framvegis.

12 Það sé konunginum vitanlegt, að Gyðingar þeir, er fóru upp eftir frá þér til vor, eru komnir til Jerúsalem. Eru þeir að reisa að nýju þessa óeirðargjörnu og vondu borg, fullgjöra múrana og gjöra við grundvöllinn.

13 Nú sé það konunginum vitanlegt, að ef borg þessi verður endurreist og múrar hennar fullgjörðir, þá munu þeir hvorki borga skatt, toll né vegagjald, og það mun að lokum verða konunginum tekjumissir.

14 Nú með því að vér etum salt hallarinnar og oss sæmir ekki að horfa upp á skaða konungs, þá sendum vér og látum konunginn vita þetta,

15 til þess að leitað verði í ríkisannálum forfeðra þinna. Þá munt þú finna í ríkisannálunum og komast að raun um, að borg þessi er óeirðargjörn borg og skaðvæn konungum og skattlöndum og að menn hafa gjört uppreisn í henni frá alda öðli. Fyrir því hefir og borg þessi verið lögð í eyði.

16 Vér látum konunginn vita, að ef borg þessi verður reist að nýju og múrar hennar fullgjörðir, þá er úti um landeign þína hinumegin Fljóts."

17 Konungur sendi úrskurð til Rehúms umboðsmanns og Simsaí ritara og til annarra samborgara þeirra, sem bjuggu í Samaríu og öðrum héruðum hinumegin Fljóts: "Heill og friður! og svo framvegis.

18 Bréfið, sem þér senduð til vor, hefir verið lesið greinilega fyrir mér.

19 Og er ég hafði svo fyrirskipað, leituðu menn og fundu, að þessi borg hefir frá alda öðli sýnt konungum mótþróa og að óeirðir og uppreist hafa verið gjörðar í henni.

20 Og voldugir konungar hafa drottnað yfir Jerúsalem og ráðið fyrir öllum héruðum hinumegin Fljóts, og skattur og tollur og vegagjald hefir verið greitt þeim.

21 Skipið því svo fyrir, að menn þessir hætti, svo að borg þessi verði eigi endurreist, uns ég læt skipun út ganga.

22 Og gætið yðar, að þér sýnið ekkert tómlæti í þessu, svo að eigi hljótist af mikið tjón fyrir konungana."

23 Jafnskjótt sem afritið af bréfi Artahsasta konungs hafði verið lesið fyrir þeim Rehúm og Simsaí ritara og samborgurum þeirra, fóru þeir með skyndi til Jerúsalem til Gyðinga og neyddu þá með ofríki og ofbeldi til að hætta.

24 Þá var hætt við bygginguna á musteri Guðs í Jerúsalem, og lá hún niðri þar til á öðru ríkisári Daríusar Persakonungs.

Haggaí spámaður og Sakaría Íddósson, spámennirnir, spáðu hjá Gyðingum, þeim er voru í Júda og Jerúsalem, í nafni Ísraels Guðs, sem yfir þeim var.

Þá fóru þeir Serúbabel Sealtíelsson og Jósúa Jósadaksson til og hófu að byggja musteri Guðs í Jerúsalem, og spámenn Guðs voru með þeim og aðstoðuðu þá.

Um þær mundir komu til þeirra Tatnaí, landstjóri héraðsins hinumegin Fljóts, og Star Bósnaí og samborgarar þeirra og mæltu til þeirra á þessa leið: "Hver hefir leyft yður að reisa þetta hús og fullgjöra þessa múra?"

Síðan mæltu þeir til þeirra á þessa leið: "Hvað heita menn þeir, er reisa stórhýsi þetta?"

En auga Guðs þeirra vakti yfir öldungum Gyðinga, svo að menn gátu ekki stöðvað þá, þar til er málið kæmi til Daríusar og bréfleg skipun um þetta væri komin aftur.

Afrit af bréfinu, sem þeir Tatnaí, landstjóri héraðsins hinumegin Fljóts, og Star Bósnaí og samborgarar hans, Afarsekear, sem bjuggu í héraðinu hinumegin Fljóts, sendu Daríusi konungi, _

skýrslu sendu þeir honum og þannig var ritað í henni: "Hvers kyns heill Daríusi konungi!

Konunginum sé vitanlegt, að vér höfum farið til skattlandsins Júda, til musteris hins mikla Guðs. Er verið að byggja það úr stórum steinum, og eru bjálkar settir inn í veggina. Er unnið kostgæfilega að verki þessu, og miðar því vel áfram hjá þeim.

Því næst spurðum vér öldungana á þessa leið: ,Hver hefir leyft yður að reisa þetta hús og fullgjöra þessa múra?`

10 Líka spurðum vér þá að heiti til þess að láta þig vita, svo að vér gætum skrifað upp nöfn þeirra manna, er forustuna hafa.

11 Og þeir svöruðu oss á þessa leið: ,Vér erum þjónar Guðs himinsins og jarðarinnar og reisum að nýju musterið, sem byggt var fyrir ævalöngu, og reisti það og fullgjörði mikill konungur í Ísrael.

12 En af því að feður vorir höfðu egnt Guð himinsins til reiði, þá ofurseldi hann þá í hendur Nebúkadnesars Babelkonungs, Kaldeans. Hann lagði musteri þetta í eyði og flutti lýðinn til Babýloníu.

13 En á fyrsta ári Kýrusar, konungs í Babýlon, veitti Kýrus konungur leyfi til að endurreisa þetta musteri Guðs.

14 Og einnig gull- og silfuráhöldin úr húsi Guðs, þau er Nebúkadnesar hafði haft á burt úr musterinu í Jerúsalem og flutt til musterisins í Babýlon, þau tók Kýrus konungur úr musterinu í Babýlon, og voru þau fengin manni þeim, er hann hafði skipað landstjóra og Sesbasar hét.

15 Og hann sagði við hann: ,Tak áhöld þessi, far og legg þau í musterið í Jerúsalem. Hús Guðs skal aftur reist verða á sínum fyrra stað.`

16 Síðan kom Sesbasar þessi og lagði grundvöllinn að húsi Guðs í Jerúsalem, og síðan fram á þennan dag hafa menn verið að byggja það, og enn er því ekki lokið.

17 Og nú, ef konunginum þóknast svo, þá sé gjörð leit í fjárhirslu konungsins þar í Babýlon, hvort svo sé, að Kýrus hafi veitt leyfi til að reisa þetta musteri Guðs í Jerúsalem, og konungur láti oss vita vilja sinn í þessu máli."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes