Add parallel Print Page Options

Þú, mannsson, tak þér hvasst sverð. Skalt þú hafa það fyrir rakhníf og lát það ganga um höfuð þitt og vanga. Tak síðan vog og skipt hárinu í sundur.

Einn þriðjunginn skalt þú í eldi brenna í miðri borginni, þá er umsátursdagarnir eru liðnir, annan þriðjunginn skalt þú taka og slá með sverði hringinn í kringum hann, og síðasta þriðjungnum skalt þú dreifa út í vindinn, og ég mun vera á hælum þeim með brugðnu sverði.

Því næst skalt þú taka fáein hár og binda þau í skikkjulaf þitt.

Og af þeim skalt þú enn taka nokkur og kasta þeim á eld og brenna þau á eldi. Þaðan mun eldur koma yfir allt Ísraels hús. Og seg við allt Ísraels hús:

"Svo segir Drottinn Guð: Þetta er Jerúsalem, sem ég hefi sett mitt á meðal þjóðanna og lönd umhverfis hana.

En hún hefir sett sig upp á móti lögum mínum með meira guðleysi en heiðnu þjóðirnar og móti boðorðum mínum meir en löndin, sem umhverfis hana eru, því að þeir hafa hafnað lögum mínum og eigi breytt eftir boðorðum mínum.

Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Af því að þér hafið verið þrjóskari en heiðnu þjóðirnar, sem umhverfis yður búa, eigi breytt eftir boðorðum mínum, né haldið lög mín, og jafnvel ekki farið eftir lögum heiðnu þjóðanna, sem umhverfis yður eru,

fyrir því segir Drottinn Guð svo: Sjá, nú vil ég rísa gegn þér og framkvæma dóma í þér miðri í augsýn þjóðanna.

Og ég vil gjöra þér það, sem ég aldrei hefi áður gjört og mun ekki hér eftir gjöra, vegna svívirðinga þinna.

10 Þess vegna skulu í þér feður eta börn sín og börnin feður sína, og ég vil framkvæma dóma á þér og dreifa leifum þínum í allar áttir.

11 Fyrir því, svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð: Af því að þú hefir saurgað helgidóm minn með öllum viðurstyggðum þínum og öllum svívirðingum þínum, þá vil ég einnig útskúfa þér, ekki líta þig vægðarauga og ekki sýna neina meðaumkun.

12 Einn þriðjungurinn af þér skal deyja af drepsótt og verða hungurmorða í þér miðri, annar þriðjungurinn skal fyrir sverði falla umhverfis þig, og síðasta þriðjungnum skal ég tvístra í allar áttir, og ég mun vera á hælum þeim með brugðnu sverði.

13 Og ég skal úthella allri reiði minni og láta heift mína hvíla yfir þeim, og ég skal hefna mín. Þeir skulu þá sanna, að ég, Drottinn, hefi talað þetta í afbrýði minni, þá er ég næ að úthella heift minni yfir þá.

14 Og ég skal gjöra þig að auðn og að háðung meðal þjóðanna, sem umhverfis þig búa, já, í augum allra, sem fram hjá ganga.

15 Og þú skalt verða að háðung og spotti, til viðvörunar og skelfingar þjóðunum, sem umhverfis þig búa, þá er ég í reiði og heift læt dóma yfir þig ganga og með áköfum refsingum. Ég, Drottinn, hefi talað það.

16 Þegar ég hleypi á þá hungursins skæðu og eyðileggjandi örvum, þær er ég mun senda yður til að tortíma yður, og ég magna hungrið meðal yðar, þá mun ég sundurbrjóta staf brauðsins fyrir yður

17 og senda í móti yður hungur og óargadýr til þess að gjöra yður barnlausa, og drepsótt og blóðsúthelling skal geisa hjá þér, og ég skal hafa sverðið á lofti yfir þér. Ég, Drottinn, hefi talað það."

Orð Drottins kom til mín svohljóðandi:

"Þú mannsson, snú þú augliti þínu gegn Ísraels fjöllum og spá í móti þeim

og seg: Þér Ísraels fjöll, heyrið orð Drottins Guðs! Svo talar Drottinn Guð til fjallanna og hæðanna, til hvammanna og dalanna: Sjá, ég læt sverðið koma yfir yður og eyði fórnarhæðum yðar.

Ölturu yðar skulu í eyði lögð verða og sólsúlur yðar brotnar, og vegnum mönnum yðar mun ég kasta niður fyrir framan skurðgoð yðar,

og ég mun varpa hræjum Ísraelsmanna fyrir skurðgoð þeirra og dreifa beinum yðar umhverfis ölturu yðar.

Svo langt sem byggð yðar nær, skulu borgirnar í eyði liggja og fórnarhæðirnar standa gjöreyddar, til þess að ölturu yðar séu niður brotin og í rústum, skurðgoð yðar sundurbrotin og að engu gjörð, sólsúlur yðar mölvaðar og handaverk yðar afmáð.

Og menn skulu vegnir í val falla yðar á meðal, til þess að þér viðurkennið, að ég er Drottinn.

En ég læt nokkra yðar komast undan sverðinu til annarra þjóða, og þegar yður hefur verið dreift um löndin,

munu þeir, sem undan komust, minnast mín meðal þjóðanna, þangað sem þeir voru herleiddir, þegar ég hefi beygt þeirra blótfíknu hjörtu, sem gjörðust mér fráhverf, og þeirra blótfúsu augu, sem mæna eftir skurðgoðunum, og þá mun þeim bjóða við sjálfum sér vegna illverka þeirra, er þeir hafa framið með öllum svívirðingum sínum.

10 Og þá munu þeir við kannast, að ég, Drottinn, hefi ekki talað þar um neinum hégómaorðum, að láta þá rata í þessa ógæfu."

11 Svo segir Drottinn Guð: "Slá þú saman höndum þínum, stappa niður fæti þínum og kalla ,vei` yfir öllum svívirðingum Ísraels húss, því að þeir munu falla fyrir sverði, hungri og drepsótt.

12 Sá sem fjær er, skal af drepsótt deyja, og sá sem nær er, fyrir sverði falla, og sá sem eftir er og bjargast hefir, skal deyja af hungri, og ég vil úthella allri heift minni yfir þá.

13 Og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn, þegar valkestirnir liggja mitt á meðal skurðgoðanna, kringum ölturu þeirra á hverri hárri hæð, á öllum fjallhnjúkum, undir hverju grænu tré og undir hverri laufgaðri eik, þar er þeir færðu öllum skurðgoðum sínum þægilegan ilm.

14 Og ég vil rétta út hönd mína í móti þeim og gjöra landið að auðn og öræfum frá eyðimörkinni allt norður að Ribla, alls staðar þar sem þeir búa, og þeir skulu viðurkenna, að ég er Drottinn."

Orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

"En þú, mannsson, seg: Svo talar Drottinn Guð til Ísraelslands: Endir kemur, endirinn kemur yfir fjórar álfur landsins.

Nú kemur endirinn yfir þig, og ég sendi reiði mína móti þér og dæmi þig eftir hegðun þinni og læt allar svívirðingar þínar niður á þér koma.

Og ég skal ekki líta þig vægðarauga og enga meðaumkun sýna, heldur láta hegðun þína koma niður á þér, og svívirðingar þínar skulu vera mitt á meðal þín, og þannig skuluð þér viðurkenna, að ég er Drottinn.

Svo segir Drottinn Guð: Ógæfa, já ógæfa kemur!

Endir kemur, endirinn kemur, hann er að vakna gegn þér, sjá, hann kemur!

Örlögin koma yfir þig, íbúi landsins, tíminn kemur, dagurinn er nálægur, dagur skelfingar, en ekki fagnaðarláta á fjöllunum.

Nú úthelli ég bráðum heift minni yfir þig og læt alla reiði mína yfir þig dynja, ég dæmi þig eftir hegðun þinni og læt allar svívirðingar þínar niður á þér koma.

Og ég skal ekki líta þig vægðarauga og enga meðaumkun sýna, heldur láta hegðun þína koma niður á þér, og svívirðingar þínar skulu vera mitt á meðal þín, og þannig skuluð þér viðurkenna, að ég, Drottinn, er sá sem tyftar.

10 Sjá, þarna er dagurinn, sjá, hann kemur. Kórónan sprettur fram, sprotinn blómgast, drambsemin þróast.

11 Ofbeldið rís upp sem vöndur á ranglætið. Ekkert verður eftir af þeim, ekkert af skrauti þeirra og ekkert af auðæfum þeirra, dýrð þeirra er öll úti.

12 Tíminn kemur, dagurinn nálgast. Kaupandinn fagni ekki og seljandinn syrgi ekki, því að reiði mín er upptendruð gegn öllu skrauti landsins.

13 Því að seljandinn mun ekki aftur að seldu komast og kaupandinn mun ekki halda hinu keypta.

14 Menn blása í hornið og búa allt út, en enginn fer í orustuna, því að reiði mín er upptendruð gegn öllum auðæfum hennar.

15 Sverðið úti, og hungrið og drepsóttin inni. Sá sem er á akri skal fyrir sverði falla og þeim, sem innan borgar er, skal hungur og drepsótt eyða.

16 Komist nokkrir af þeim undan, munu þeir vera á fjöllunum, eins og daladúfurnar, sem allar kurra, _ hver og einn vegna misgjörðar sinnar.

17 Allar hendur munu verða lémagna og öll kné leysast sundur og verða að vatni.

18 Og þeir munu gyrðast hærusekk, og skelfing mun hylja þá. Skömm mun sitja á hverju andliti, og hvert höfuð vera sköllótt.

19 Silfri sínu munu þeir varpa út á strætin, og gull þeirra mun vera þeim sem saur. Silfur þeirra og gull fær eigi frelsað þá á reiðidegi Drottins. Þeir munu eigi seðja með því hungur sitt né fylla með því kvið sinn, því að það varð þeim fótakefli til hrösunar.

20 Sínu dýrlega skrauti varði þjóðin til dramblætis, og þeir gjörðu af því svívirðilegar líkneskjur, viðurstyggðir sínar. Fyrir því gjöri ég það í augum þeirra sem saur.

21 Og ég skal selja það útlendingum í hendur að herfangi og hinum óguðlegustu mönnum á jörðunni að ránsfeng, og þeir skulu vanhelga það.

22 Og ég skal snúa augliti mínu frá þeim, og þá munu menn vanhelga kjörgrip minn, og ræningjar skulu brjótast inn í hann og vanhelga hann.

23 Bú þú til fjötur, því að landið er fullt af blóðskuld og borgin er full af ofbeldisverkum.

24 Og ég mun stefna hingað hinum verstu heiðingjum. Þeir skulu kasta eign sinni á hús þeirra, og ég mun gjöra enda á hinu ofmetnaðarfulla valdi þeirra, og helgidómar þeirra skulu verða vanhelgaðir.

25 Angist kemur, og þeir munu hjálpar leita, en enga fá.

26 Eitt óhappið fylgir öðru, og hver ótíðindin koma á fætur öðrum. Þá munu þeir beiðast vitrunar af spámanni, og þá mun leiðbeiningin vera horfin frá prestunum og ráðin frá öldungunum.

27 Konungurinn mun syrgja og landshöfðinginn klæðast skelfingu og hendur landslýðsins verða magnþrota af hræðslu. Eftir breytni þeirra mun ég með þá fara og dæma þá eftir verðleikum þeirra, og þeir skulu viðurkenna, að ég er Drottinn."

Það var á sjötta ári, fimmta dag hins sjötta mánaðar, þá er ég sat í húsi mínu, og öldungar Júda sátu frammi fyrir mér, að hönd Drottins Guðs kom þar yfir mig.

Og ég sá, og sjá, þar var mynd, ásýndum sem maður. Þar í frá, sem mér þóttu lendar hans vera, og niður eftir, var eins og eldur, en frá lendum hans og upp eftir var að sjá sem bjarma, eins og ljómaði af lýsigulli.

Og hann rétti út líkast sem hönd væri og tók í höfuðhár mitt, og andinn hóf mig upp milli himins og jarðar og flutti mig til Jerúsalem í guðlegri sýn, að dyrum innra hliðsins, er snýr mót norðri, þar er líkansúlan stóð, sú er vakti afbrýði Drottins.

Og sjá, þar var dýrð Ísraels Guðs, alveg eins og í sýn þeirri, er ég hafði séð í dalnum.

Hann sagði við mig: "Mannsson, hef upp augu þín og lít í norðurátt!" Og ég hóf upp augu mín og leit í norðurátt. Stóð þá þessi líkansúla, sem afbrýði vakti, norðan megin við altarishliðið, rétt þar sem inn er gengið.

Og hann sagði við mig: "Mannsson, sér þú, hvað þeir eru að gjöra? Miklar svívirðingar eru það, sem Ísraelsmenn hafa hér í frammi, svo að ég verð að vera fjarri helgidómi mínum, en þú munt enn sjá miklar svívirðingar."

Hann leiddi mig að dyrum forgarðsins. Og er ég leit á, var þar gat eitt á veggnum.

Og hann sagði við mig: "Mannsson, brjót þú gat í gegnum vegginn." Og er ég braut gat í gegnum vegginn, þá voru þar dyr.

Og hann sagði við mig: "Gakk inn og sjá hinar vondu svívirðingar, sem þeir hafa hér í frammi."

10 Ég gekk inn og litaðist um. Voru þar ristar allt umhverfis á vegginn alls konar myndir viðbjóðslegra orma og skepna og öll skurðgoð Ísraelsmanna.

11 Og þar voru sjötíu menn af öldungum Ísraels húss og Jaasanja Safansson mitt á meðal þeirra svo sem forstjóri þeirra, og hélt hver þeirra á reykelsiskeri í hendi sér og sté þar upp af ilmandi reykelsismökkur.

12 Og hann sagði við mig: "Hefir þú séð, mannsson, hvað öldungar Ísraels húss hafast að í myrkrinu, hver í sínum myndaherbergjum? Því að þeir hugsa: ,Drottinn sér oss ekki, Drottinn hefir yfirgefið landið."`

13 Því næst sagði hann við mig: "Þú munt enn sjá miklar svívirðingar, er þeir hafa í frammi."

14 Hann leiddi mig að dyrunum á norðurhliði musteris Drottins. Þar sátu konurnar, þær er grétu Tammús.

15 Og hann sagði við mig: "Sér þú það, mannsson? Þú munt enn sjá svívirðingar, sem meiri eru en þessar."

16 Hann leiddi mig inn í innra forgarð húss Drottins, og voru þá þar fyrir dyrum musteris Drottins, milli forsalsins og altarisins, um tuttugu og fimm menn. Sneru þeir bökum við musteri Drottins, en ásjónum sínum í austur, og tilbáðu sólina í austri.

17 Og hann sagði við mig: "Sér þú það, mannsson? Nægir Júdamönnum það eigi að hafa í frammi þær svívirðingar, sem þeir hér fremja, þó að þeir ekki þar á ofan fylli landið með glæp og reiti mig hvað eftir annað til reiði? Sjá, hversu þeir halda vöndlinum upp að nösum sér.

18 Fyrir því vil ég og fara mínu fram í reiði: Ég vil ekki líta þá vægðarauga og enga meðaumkun sýna. Og þótt þeir þá kalli hárri röddu í eyru mín, þá mun ég ekki heyra þá."